Saturday, September 20, 2008

Komnir heim Sýrlandsfarar- og síðustu dagarnir - og ath fundinn n.k laugardag

Góða kvöldið öll

Hópurinn kom heim rétt fyrir ellefu í kvöld, bið að heilsa þeim sem mér gafst ekki tími til að kveðja á flugvellinum. Allir voru sprækir og held ég megi segja afar ánægðir með ferðina, þótt langur dagur sé að baki. Við vöknuðum kl 5 í morgun og snöruðum töskum fram og rakleitt í morgunmat og svo til Damaskusflugvallar. Veit ekki betur en allur farangur hafi skilað sér.

Í gær fórum við í skemmtilega skoðun á Þjóðminjasafnið og svo var frjáls tími uns þau rausnarlegu ræðismannshjón í Sýrlandi, Claudie og Abdu Sarraf sendu eftir okkur bíl og var ekið til glæsilegs heimilis þeirra og þar var slegið upp veislu í garðinum. Urðu gleðifundir og ekki skal á neinn hallað þótt Abdu væri allra lukkulegastur að hitta Ólaf Egilsson, sendiherra sem mælti með honum í ræðismannsstarfið. Við nutum þarna mikillar og elskulegrar gestrisni hjónanna og teygðist úr heimsókninni þótt við vissum við yrðum að vakna kl 5 um morguninn.

Ég færði svo ræðismannshjónum bók um Ísland sem allir í hópnum skrifuðu á og flutti smátölu og vitnaði í Njálu, minna mátti það ekki vera. Einnig sagði Ólafur Egilsson nokkur vel valin orð.

Fyrr um daginn kom Abdelkarim, forstjórinn okkar í Sýrlandi með gjafir, sýrlensk sætindi handa öllum í hópnum.

Við áttum góðan dag í Malulah og hrifust menn af stemningu og kirkjunni og gengu niður skarðið sem sagan segir að hafi opnast fyrir heilagri Teklu þegar hún var á flótta undan fjendum sínum. Hitti þar sæta líbanska prestinn sem skenkti mér almanak og bað okkur guðsblessunar.
Í Bagdadkaffi var langt og gott stopp og þar var pikknik hádegisverður og enn einir gleðifundirnir. Fólki fannst gott að koma þangað sem fyrr.

Í Abbasidbúðunum var svo að loknum kvöldverði slegið upp dansi og hoppi og híi í skrautbedúínatjaldi og dansaði þar hver sem betur gat. Við vildum endurgjalda músíseringuna og tókum því Ríðum ríðum rekum yfir sandinn fyrir bedúínana og feimna Japani sem voru samtíða okkur.

Í Palmyra morguninn eftir var nokkuð hlýtt en við skoðuðum það helsta og hrifust menn alveg sérstaklega af Balhofi og glæsileik Rómverjastrætis. Um kvöldið sólarlagsstemning í æð uppi á fjallinu fyrir ofan Palmyru þar sem glöggt má sjá hve tiltölulega lítill hluti þessa mikla svæðis hefur verið rannsakaður.
Hasan bílstjóri og Nader leiðsögumaður sem er náttúrlega ekki neinn Maher en hugnaðist mönnum harla vel báru fram te og smákökur.

Ég leyfi mér að segja að allir hafi notið ferðarinnar og eins og Þorsteinn Haraldsson orðaði það við mig í gærkvöldi, hefur flest breyst í huga og hugsunum eftir förina.

Kvöldið sem við komum frá Palmyra borðuðum við kvöldverð í Omyadveitingahúsinu og horfðum heilluð á dervvisjansa. Þá var með okkur Bjarney
Friðriksdóttir, þekkileg stúlka sem hefur unnið hjá Flóttamannastofnun S.Þ síðustu fimm mánuði og var akkur í að hitta hana.

Fundur á laugardag og fréttabréf
Haustfréttabréf er farið í póstinn og myndarlegra en nokkru sinni og vona að fólk fái það á morgun eða hinn. Segir þar ítarlega frá okkar Perlusúk, grein eftir Margréti Guðmundsdóttur um ferð fjórmenninganna í fyrri Jemenferð sl. vor til Aden og víðar.
Grein er eftir Valdísi Björt Guðmundsdóttur um Islam og feminisma, heimsókn í YERO sl vor, mataruppskriftir, ´bók mánaðarins Laxveiðar í Jemen eftir Elísabetu Jökulsdóttur og síðast en ekki síst klausa um háskólastúlkuna okkar, Hanak al Matari.
Einnig segir um
fundinn 27.sept n.k í Kornhlöðunni þar sem Guðríður Guðfinnsdóttir Bahra sem
var búsett í Amman í óramörg ár segir frá vandanum við að aðlagast framandi umhverfi og samfélagi


Menn eru hvattir til að mæta vel og stundvíslega kl 14 e.h. Og ferðir ársins 2009
verða tíundaðar. Þar verður áreiðanlega verðhækkun vegna mikilla sviptinga en ég mun ganga eindregið eftir því að menn skrái sig og reyni að vera með verð eins nærri lagi og unnt er.

Loks er svo að geta að Líbíufarar í báðum ferðum fá á morgun eða í síðasta lagi hinn daginn tilkynningu um fundi þar sem miðar og ferðagögn verða afhent.

Ekki meira núna, ætla að sofa fram eftir morgundegi og reikna með að flestir Sýrlandsfarar þurfi hvíld eftir langa ferð. Svo taka við þó nokkrir fyrirlestrar næstu vikur, m.a. um Perlusúk ofl. bæði í Keflavík og Akranesi og víðar.

No comments: