Sunday, January 22, 2012

Glæsilega góður fundur - gleðjumst yfir láni Jónu og Jóns Helga

Fund VIMA í Kornhlöðunni í dag var með afbrigðum vel heppnaður, leyfi ég mér að segja.
Fundarmenn fjölmenntu og voru tæplega sextíu talsins, allmargir nýir, nokkrir þátttakendur úr förinni til Íran sem ég tók fyrir Bændaferðir og svo margir sem láta sig sjaldan vanta.

Eftir að JK hafði sett fund og skipað Ragnheiði Gyðju fundarstjóra og Eddu Ragnarsdóttur fundarritara, mærði Ragnhildur nýjasta fréttabréfið - mjög að makleikum- og vakti athygli á því að Inga Hersteinsdóttir er ný í ritstjórn og minntist Huldu Waddel sem lést nýlega eins og frá hefur verið sagt á síðunni.

Einnig benti Ragnheiður Gyða fundarmönnum á að fylgjast vel með síðunni því ég mun segja frá persnesku teppasýningunni jafnskjótt og það er komið á hreint hvenær hún verður opnuð. Þó nokkrir hafa gefið sig fram og vilja bjóða þeim Íranpiltum upp á ýmsa afþreyingu og skoðunarferðir meðan þeir eru er í febrúar.

Að svo búnu var ræðumanni dagsins, Þorbirni Broddasyni prófessor, gefið orðið. Hann talaði um Al Jazeera, fréttastöðina sem var sett á laggirnar í Qatar fyrir allnokkrum árum og hefur haft ákaflega mikil áhrif á fjölmiðlun í heimshlutanum og raunar um allan heim.
Þorbjörn sýndi einnig glærur og myndir og flutti mál sitt af þeim skilmerkilega og skemmtilega skýrleika sem hann er alþekktur fyrir. Hann talaði vel og lengi og menn gáfu máli hans bæði gott hljóð og klöppuðu honum duglega lof í lófa. Held það sé óhætt að segja að allir hafi farið langtum fróðari af fundi en þeir komu enda efnistök Þorbjörns afar skemmtileg.

Menn gæddu sér á tertum og kaffi/te og áttu virkilega góða stund saman í dag.

Nýja Íranáætlunin
Þá var látinn ganga listi um nýju Íransáætlunina og ef örfá spurningarmerki hverfa af nokkrum nöfnum sýnist augljóst að þátttaka næst í þá ferð.
Láta mig vinsamlegast vita.

Lán yfir Jónu og Jóni Helga

Í kvöldfréttum sjónvarps var sagt frá bílslysi í eða við Kamba í mikilli hálku í gærkvöldi.Þar voru á ferð okkar góðu Hveragerðishjón, Jóna og Jón Helgi. Bíllinn fór veltur og var mikil mildi að þau hjón sluppu ómeidd og er það lán og gleðiefni.

Eþíópía

Var að fá tilkynningu um að nýjasti þátttakandi í fyrri Eþíópíuferðir fær áritun sína, mér senda á morgun. Einnig hafa nú allir í seinni ferð sent mér vegabréfsljósrit og áritun mun þá fást fljótlega.

Strax og Eþíópíufarar í seinni ferð hafa lokið greiðslu um mánaðamótin verður hægt að gefa út Íslandsmiða og væntanlega verður miðaafhending 12.febrúar. Læt ykkur vita nánar um það.
Minni enn á bólusetninfar en hygg að flestir séu með það allt í gangi.

Þakka svo aftur fyrir góðan fund í dag.

Monday, January 16, 2012

Fréttabréf komið? Fundur n.k sunnudag --nú líður að bólusetningum


Káta skólatelpur í Íran

Vona að menn hafi fengið fréttabréfið nýjasta í dag eða fái það senn. Verið svo væn að láta vita ef það skilar sér ekki. Nokkur heimilisföng á reiki.

Minni ykkur á fundinn n.k. sunnudag í Kornhlöðunni þar sem hinn ágæti og vel máli farni prófessor, Þorbjörn Broddason talar um fjölmiðlun í Miðausturlöndum og þær breytingar sem urðu á henni með tilkomu arabísku sjónvarpsfréttastöðvarinnar Al Jazeera.

Ég hef sent báðum Eþíópíuhópum imeil og minnt á væntanlegar bólusetningar en fyrri hópur þarf að sinna því sem fyrst. Læt svo vita um miðaafhendingu innan tíðar. Seinni hópur greiði vinsamlegast á réttum tíma síðustu greiðslu og þeir sem eru í eins manns herbergi borgi fyrir það þá líka. Þrír hafa þegar gert ferðina upp. Takk fyrir.

Enn hef ég ekki möguleika á að segja nákvæmlega hvenær hin væntanlega sýning á persneskum teppum verður opnuð. Það skýrist kannski fyrir fundinn á sunnudag. Er þá ráð að sem flestir fjölmenni þangað að skoða þessar gersemar. Eins og ég sagði kemur leiðsögumaðurinn okkar í Íransferðum, Pezhman Azizi með og hef ég þegar heyrt frá tveimur sem vilja stytta honum stundir. Væri gaman að heyra hvort fleiri vilja taka þátt í því. Einnig hyggjumst við VIMAstjórn svo efna í kveðjukvöld áður en þeir fara aftur.

Í fréttabréfinu birtist nýja Íranáætlunin og því þarf ég nú að fara að innheimta svör hjá þeim sem hafa sýnt áhuga. Ef meirihluti þeirra slær til og fer í þá ferð í september er ferðin hátt í fullskipuð. En nóg af sætum svo hafið samband um þetta sem fyrst.

Ferðalangar í seinni Uzbekistanferð hittust í Litlu Brekku í síðustu viku á myndakvöldi og var það bráðgaman, vel mætt, félagsskapurinn náttúrlega ekki af verri endanum og ágætis fiskréttur í boði.

Saturday, January 7, 2012

Janúarfundur, fréttabréf og teppasýning


Seinni Uzbekistan hópurinn. Besta fólkið, ávallt á bestu stöðunum eins og Steindór orðaði það svo hnyttilega.

Það hefur orðið dráttur á því að efna í myndakvöld þessa góða hóps en við gerum nú úr því bragarbót og hittumst vonandi í vænanlegri viku til að skoða myndir, endurlifa ferðina og eiga saman góða stund. Enn hafa ekki allir látið mig vita um þátttöku en hvet menn eindregið til þess.


Sýnishorn af persneskum dýrgripum

Svo er allt útlit fyrir að af persnesku teppasýningunni( og sölu) ef menn vilja verði í febrúar eins og að hefur verið stefnt. Við erum svona hátt í það komin með húsnæði fyrir sýningu en bíð aðeins eftir nákvæmri dagsetningu þeirra náunganna og mun þá senda ykkur boð um að koma og skoða þessi listaverk.

Veit ekki annað en hinn ágæti leiðsögumaður okkar, Pezhman Azizi, ætli nú loks að sýna okkur þá gleði að koma líka og við verðum endilega að gera eitthvað fyrir hann og Hossein og Ali.
Ef menn hafa einhverjar hugmyndir eru þær vel þegnar eða ef menn vilja bjóða upp á eitthvað sem gæti gert dvöl þeirra enn skemmtilegri. Vinsamlegast hafið samband þar að lútandi.
Auðvitað efnum við svo að minnast kosti í eina sammenkomst þar sem fyrverandi Íranfarar kæmu þá vonandi sem allra flestir.

Fréttabréfið á lokastigi

Dóminik og hennar lið eru að ljúka við næsta Fréttabréf. Það verður óvenjulega efnismikið og glæsilegt, leyfi ég mér að segja.
Þar skrifa Mörður Árnason um framvindu mála í Arabalöndum síðustu mánuði, Vera Illugadóttir skrifar um teppahefð svæðisins og birtar fagrar myndir af þeim. Einnig verður birtur seinni hluti greinar hennar um nútímasögu Afganistan. Þá skrifar Sveinn Guðmarsson um bók Sigríðar Víðis um palestínsku flóttakonurnar á Akranesi sem hefur fengið góðan hljómgrunn.
Þá skrifa ýmsir félagar sem hafa farið í allmargar VIMA ferðir um hvaða ferð/atvik og þess háttar er þeim eftirminnilegast.
Ég skrifa nokkrar línur um Jemenverkefnið og birt verður ljóð eftir íraskan höfund í minni þýðingu sem heitir Litlu peðin og konungurinn. Einnig er birt nýja Íransáætlunin 7.-22 sept n.k og nú fer ég senn að athuga hvort þátttaka næst í þá ferð. Mér sýnist ferðin sú gæti orðið afar skemmtileg og við sjáum marga nýja staði en auðvitað gerum við ekki farið til Írans án þess að vitja Isfahan.
Mataruppskrift og fleira góðgæti.
Þarf endilega að biðja ykkur að senda mér ef þið hafið breytt um heimilisföng.

Fundur 22.jan í Kornhlöðunni
Þann 22. jan kl 14 verður miðsvetrarfundurinn okkar í Kornhlöðunni og þar verður ræðumaður Þorbjörn Broddason, prófessor. Hann mun tala um arabísku fréttastöðina Al
Jazeera og hlutvek hennar í atburðum síðustu missera.

Það er engum blöðum um það að fletta að tilurð þessarar stöðvar hefur haft mjög afgerandi áhrif á fréttaflutning á svæðinu og breytt mjög hvernig fréttir berast til okkar en lengi vel urðum við að gjörsovel og taka þegjandi og hljóðalaust matreiðslu vestrænna fjölmiðla á því sem þarna gerðist, hvort sem það var til góðs eða ills.
Leiddi til þess að afstaða fólks var afskaplega einsleit og heldur rýr.

Ég reikna með að Þorbjörn muni svara spurningum og sjálfsagt fara orðum um fleira í þessu sambandi og hvet menn eindregið að að fjölmenna og taka með sér gesti.

Eþíópíuferðir á góðu róli

Lítur vel út með það allt saman og bið þáttakendur í ferðunum að greiða skilvíslega félagsgjöld sín, annað hvort á fundinum 22.jan. eða beint í netbankann. Þið sjáið númerið á hlekknum Hentug reikninsnúmer og þar kemur fram inn á hvaða númer skuli greiða árgjöldin Þetta verður allt að vera í lagi eins og menn vita mætavel.