Thursday, February 26, 2009

Sjáiði mig- sjáiði mig!Þessa passamynd lét ég taka áðan vegna væntanlegrar Íransvegabréfsumsóknar. Birti hana hér til að konur sjái að þær þurfa alls ekki að hylja hár sitt, svona er rétt hæfilegt.
Myndin er tekin í Nýmynd á Laugavegi(við hliðina á Hans Petersen)

Annað mál: Tæknistjórinn setti getraunina okkar á sérstakan link og þið ýtið bara á nefbroddinn á stráknum og þá sprettur spurningalistinn fram. Þegar hafa borist svör og einna athyglisverðast þykir mér að karlmenn eru í meirihluta svarenda. Ekki hef ég á móti því, öðru nær, en hvet nú konur til að drífa í að senda svör líka.

Þá vil ég benda á að tvö sæti eru enn laus í Jemen/Jórdaniuferðinni og bið menn að bíða ekki með að skrá sig. Nefna má að ekki verður bætt við í Íransferðina í apríl og ég hef orðið að neita nokkrum síðustu dagana. Vonandi að slíkt gerist ekki hvað Jemen snertir. Einnig að ég sendi eftir helgina til þeirra sem hafa skráð sig og munu gera það, bréf um hvernig skuli greiða.
Einnig ætla ég að senda til áhugsamra um Marokkóferðina greiðsluáætlun því vissulega hlýtur að koma sér betur fyrir flesta að geta greitt þetta í nokkrum greiðslum.

Það er skemmtilegt frá því að segja að smáreytingur er í Libíu og Egyptaland, en ósköp sem það gengur nú rólega.
Verið svo elskuleg að senda slóðina áfram.
Ekki meira núna.

Monday, February 23, 2009

Hér koma fleiri góðar fréttir, elskurnar mínarSæl öll
Mér fannst við hæfi að setja þessa sætu köku inn því ég hef ekkert nema sætar og elskulegar fréttir í dag.

Jemen/Jórdaníuferðin verður dagana 5. eða 6. maí-18 maí og LÆKKAR í 360 þúsund

Marokkóferðin er dagana 5.sept-16.sept. og LÆKKAR í 360 þúsund.

Þetta er samt með fyrirvara en útlitið er altjent svona núna og hækkun yrði vonandi ekki nein ósköp ef til þess kæmi.

Mun senda þeim sem hafa skráð sig í ferðirnar Jemen/Jórdanía og Marokkó greiðsluáætlun um næstu mánaðamót svo menn geti farið að borga inn á ferðirnar.
Énn er unnt að skrá fólk í þær báðar og ættu menn ekki að bíða boðanna.

Miðað við verð síðasta árs er því verðbreyting næsta lítil sé haft í huga hversu gengisbreytingar hafa verið skverlegar.

Þá er gleðilegt frá því að segja að mér hafa þegar borist þó nokkur svör við getrauninni sem virðist mælast fagurlega fyrir og ég hvet menn til að taka til hendinni og senda svör enda vegleg verðlaun í boði, þe. ferð að vali stjórnar VIMA til Miðausturlanda. Endurtek að verðlaunalöndin eru Jemen/Jórdanía, Marokkó, Libía og Egyptaland.

Enn hafa tiltölulega fáir skráð sig í þau tvö síðastnefndu og bið menn gera það hið bráðasta.

Bið einkum og sér í lagi Guðrúnu Davíðsd að láta mig vita sem allra fyrst. Þetta verð á Jemen helst ekki nema lágmarksfjöldi náist. En ég trúi heldur ekki öðru en svo verði.

Áður hafði tekist að lækka Íransferðina um 25 þús krónur og auk þess verður vegabréfsáritunargjaldið 90 dollarar innifalið.

Finnst þetta harla gott og vonast nú til að heyra frá ykkur snimmendis.

Thursday, February 19, 2009

FERÐAGETRAUN. Takið fram boxhanskana og vinnið ferð í verðlaunHér kemur ferðagetraun ársins 2009. Verðlaun fyrir rétt svör er ferð fyrir einn að vali stjórnar VIMA

1. Tvær drottningar voru miklar valdakonur í Jemen fyrir nokkur hundruð árum. Önnur var Bilquis, drottningin af Saba. Hvað hét hin og hvar var aðsetur hennar?

2. Hversu langur og breiður er dalurinn Wadi Hawdramaut í Jemen?

3. Hvaða dag árið 1969 varð Moammar Gaddafi leiðtogi í Líbíu?

4. Hvað heitir forseti Líbanons sem tók við eftir langa stjórnarkreppu fyrir nokkrum mánuðum? Er hann kristinn, sjia eða sunni?

5. Hvaða land heitir Misr á arabísku?

6. Teljið upp forseta Írans frá valdatöku Khomeinis 1979?

7. Hvaða borgir í Marokkó eru kallaðar keisaraborgirnar?

8. Hvað styðja VIMA félagar mörg börn í Jemen árið 2008-2009?

9. Í hvaða landi Miðausturlanda er Tabriz?

10. Hvað heitir soldáninn af Óman og hvenær (dagur og ár) ýtti hann föður sínum úr sessi og tók við?

11. Hverjar eru höfuðborgir Armeníu, Georgíu og Azerbajdan?

12. Í hvaða landi Miðausturlanda fannst fyrst olía og hvenær?

13. Hvar eru frægustu fornminjar, frá tímum Rómverja í 1)Líbíu 2) Sýrlandi 3) Jórdaníu?

14. Hvað heitir eyðimörkin í Óman og hversu stór er hún?

15. Hvar er ólæsi mest/minnst í löndum araba?

16. Hvaða ár var Balfour yfirlýsingin gefin? Og við hvern er hún kennd?

17. Hvaða menntun hefur forsetafrúin í Sýrlandi?

18. Í hvaða stjörnumerki var Jasir Arafat sálugi og fyrv. leiðtogi Palestínumanna?

19. Hvar hefur fundist elsta stafróf í heimi sem fræðimenn hafa ráðið?

20. Til hvaða landa í arabaheiminum er unnt að komast þótt menn séu með ísraelskan stimpil í vegabréfi?

Langflest svör við þessari getraun er að finna hér og hvar á síðunni. Annars í ferðabókum um löndin.

Frestur til að skila svörum er til 19.mars. Vinsamlegast sendið til mín á jemen@simnet.is og ferð bíður þess sem fróðastur/heppnastur er. Ef fleiri en einn hafa öll svör rétt verður dregið úr réttum lausnum.
Þau lönd sem eru verðlaunalönd eru Jemen/Jórdanía í maí, Marokkó í sept Libía í okt og Egyptaland í nóvember.

Tuesday, February 17, 2009

Stundum á maður ekki orðÉg verð að segja ykkur þetta: Umboðsstjóri Royal Jordanian í Frankfurt hefur sent mér imeil með þeim fregnum að þeir RJ menn geri sér grein fyrir erfiðleikum okkar og þar sem við höfum verið góðir viðskiptavinir s.l ár ætla þeir að lækka fargjaldið FRA-AMM-SAH-AMM-LDN. Því held ég að mér sé óhætt að segja - með pínulitlum fyrirvara- að fargjaldið í Jemen/Jórdaníuferðinni fer EKKI upp fyrir 380 þús. kr.
Mér þykja þetta einstaklega góð tíðindi og drengileg.
Og nú skyldu áhugasamir Jemen/Jórdaníufarar kætast verulega og hópast í ferðina.


Varðandi Marokkóáætlun er hún að birtast öll og verður sett í heild inn á síðuna í kvöld.
Frk Hala í Egyptalandi puðar við að fá sem best verð á hótelum í Egyptalandsferð í haust og því hef ég ekki gengið frá þeirri áætlun. Ætti að koma fljótlega.

Drífi menn sig nú og ekki skuluð þið gleyma Líbíuferðinni. Þessar fjórar, Jemen/Jórdanía, Marokkó, Líbía og Egyptaland eru allar spes, hver á sinn ólíka hátt.

Fékk nokkrar myndir frá Nouriu af krökkunum okkar í gærkvöldi og hef komið þeim til þeirra sem einhverra hluta vegna urðu útundan.

Gott að geta sagt frá því að afmælispeningarnir sem voru lagðir á FATIMUSJÓÐ vegna afmælisins míns á dögunum fara rakleitt til að borga önnur kennaralaun. Duga amk upp í það. Takk fyrir og gleðjist nú.

Monday, February 16, 2009

Mrokkó og Egyptaland gætu komið inn á linkinn seinni partinn í dag

Sæl veriði

Byrja á því að þakka þeim fyrir kærlegast sem lögðu inn á Fatímusjóðinn vegna afmælisins míns. Það var bæði elskulegt af ykkur og gladdi mig.

Hef baukað í Marokkóáætlun og Egyptalandi og er komin með drög að Marokkó áætlun sem mér líst nokkuð svo gæfulega á. Sker hans nú aðeins og pena til og get vonandi sett hana inn í dag. Er afar dús við það verð sem í boði er.

Sama gildir um fröken Hölu með Egyptaland, hún lofar áætlun í dag og þá vippa ég henni snarlega inn því flugmiðaverð á báðar ferðir er komið.

Vil taka fram að verðið á Jemen/Jórdaníuferð fer ekki upp fyrir 410 þús, kannski lægra en ræðst vitaskuld af þátttöku.

Thursday, February 12, 2009

Rétt Jemen/Jórdaníuáætlun komin á hlekkinn sinn - og svo hitt líka

Góðan daginn
Ætlaði að láta vita af því að Jemen/Jórdaníu áætlunin er komin inn á linkinn sinn hérna til hægri.Hún er frá 6.-18.maí. Verð liggur ekki fyrir að svo stöddu en ég vona ég geti sett það inn fljótlega. Vinsamlegast skoðið nú áætlunina og hafið samband hið allra allra fyrsta. Ég hef sagt að verð muni liggja á bilinu 390-410 þúsund og takist að halda því - sem ég stefni að- verður hækkunin minni en á ýmsum öðrum ferðum. Skoðið sem sagt hlekkinn Jemen/Jórdanía

Mér þætti hreint afleitt ef við næðum ekki þáttöku í þessa ferð enda efa ég ekki að ýmsir styrktarmenn vildu hitta krakkana sína og skoða Jemen í leiðinni.Það getur vel verið að einhverjum finnist það framhleypni, tilætlunarsemi eða hvað (það verður þá bara að hafa það) en þessi mynd hér að ofan sýnir hvað ég verð gömul þann 14.febrúar.

Aðalerindi er þó ekki bara að halda því á lofti heldur benda á Fatimusjóðinn 1151 15 551212 kt. 1402403979. Það væri hugsanlegt að einhverjir iðuðu í skinninu að gefa mér duggulitla afmælisgjöf og þá mælist ég til að hún fari inn á þennan reikning.
Maður getur allavega leyft sér að vona - insjallah

Tuesday, February 10, 2009

Nú væri þarft að heyra frá fólki varðandi Jemen og haustferðirFrá gamla markaðnum í Fez í Marokkó

Þangað liggur leiðin vonandi í haust og ég þarf nú senn að heyra frá þeim sem hafa áhuga á ferðinni þangað. Um fimmtán manns hafa skráð sig svo mér sýnist við getum íhugað í fullri alvöru að þangað liggi leiðin.

Ég hef ekki verð enn. Hef þá bjargföstu trú að það verði viðráðanlegt. Förum víða um þar til klikkuðu borgarinnar Marakech, ævintýrabæjarins Fez, yfir Atlasfjöllin ofl ofl. Sirka 10-12 daga ferð

Og ekki má gleyma Líbíu í október en þangað fóru flestir VIMA ferðalangar sl. ár eða 47. Verður svipuð í laginu og hinar tvær og varla hægt að stytta hana enda veit maður aldrei hvaða breytingar geta orðið þar á bæ og gott að hafa aukadag upp á að hlaupa.

Nú er kominn tími á Egyptaland í byrjun nóv. Nokkrir hafa einnig skrifað sig þar og get birt áætlun mjög fljótlega. Frk Hala situr við og reiknar núna baki brotnu vænti ég.

Frá piparkökuhúsunum í Sanaa
Einar Þorsteinsson tók þessa mynd

Þar sem Kákasusferðin féll niður býst ég við að færa Jemen/Jórdaníu fram um amk tíu daga, í kringum 13.maí eða svo. Hefur bæst í hana síðustu daga enda sýnist mér bæði kallarnir mínir´í Sanaa og Royal Jordanian ætla að vera eins hófsöm og mögulegt er.
Verð að fá að vita um áhuga SEM ALLRA FYRST því það eru ekki mörg flug til Sanaa í viku.

Svo þakka ég Íranförum fyrir hvað þeir hafa verið snöggir að senda mér skönnuð vegabréf eða ljósrit af pössum. Nú vantar mig bara þrjú og vonast eftir þeim hið skjótasta.

Viljiði senda þetta áfrm, ég er að streða við að ná 100. þúsundasta gesti fyrir afmælkið mitt. Það er kannski ekki trúlegt en allir eiga milljón Facebookvini og geta með lítilli fyrirhöfn sent á þá

Monday, February 9, 2009

Kemur ekki til af góðu - en hér koma fínustu fregnir


Jemensk kona við tölvu

Fleiri jemenskar konur á fullorðinsfræðslunámskeiðinu okkar í Sanaa taka þárr í tölvukennslu en sl. ár og á það einkum við þær sem hafa fengið og náð árangri í lestrar og skriftarkennslu síðan Nouria hóf fullorðinsfræðsluna fyrir þremur árum. Gott mál það.
Einnig ánægjulegt að segja frá því að fleiri hafa skráð sig í Jemenferðina. Hún verður að veruleika, ég hef trú á því. Bíð eftir að Royal Jordanian gefi mér flugmiðaverð en hef fengið áætlunina frá köllunum mínum á ferðaskrifstofunni. Vona að menn verði ötulir að skrá sig, ekki síst þeir sem höfðu lýst áhuga fyrr.

Þá hef ég sent´Íranfólki beiðni um að senda mér annað hvor ljósrit af pössum eða skannaða passa og hef þegar fengið frá sjö manns. Vinsamlegast drífið í því svo ég geti sent allt heila galleríið sem þarf að fara í fyrstu umferð. Minni Gullu á að senda líka ljósrit af áritun úr fyrri ferðinni hennar.

ALLIR Íranfarar hafa greitt fyrri greiðslu,takk fyrir það. Við munum svo hittast 8.mars kl 2 í gamla Stýró til að fylla út umsóknir og fara yfir ýmis nytsamleg atriði.

Ljóst að ferðin lækkar um fimmtán þúsund krónur og ég tel það fínt á þessum síðustu og verstu tímum.

Ástæða þess að ég hef ekki skrifað í nokkra dsga er sú að tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir var að setja upp fyrir mig nýja tölvu, hin sprakk á limminu, blessunin. Einnig var ég svo óheppin að skera mig í lófann og er því sein að skrifa með allar þessar umbúðir.

bless í bili

Wednesday, February 4, 2009

Það gætu komið góðar fréttir fyrir Íranfara- Egyptaland og Marokkó í rannsókn


Hollustumynd í íslensku frosti

Sæl veriði

Það gætu komið góðar fréttir varðandi Íranferðina því mér sýnist að á henni verði - og haldið ykkur nú fast- DUGGUSMÁLÆKKUN, en lækkun samt-. Þetta skýrist mjög fljótlega og þá læt ég Íranfara vita. Bið þá sem eiga eftir að senda fyrri greiðslu að gera það snarlega. Hef sent út helming greiðslunnar til ferðaskrifstofunnar í Íran til að hafa vaðið fyrir neðan mig og verð að biðja alla að snara inn greiðslunni. Mér finnst ég sýknt og heilagt endurtaka númer ferðareikningsins en það dugar ekki til

Nú segi ég hver hann er einu sinni enn og svo verða menn þá að fara inn á hentug reikningsnúmer hér til hliðar ef þetta er of erfitt 1151 15 551346 og kt 441004-2220

Þá hef ég fengið skilaboð frá frk Hölu frá egypsku ferðaskrifstofunni okkar og hún sendir tilboð fljótlega og rannsókn á Marokkó er hafin. Læt við fljótlega.

UMFRAM allt þarf ég að heyra frá þeim sem hyggja á Jemen/Jórdaníuferðina í maí.
Það hefur varla nokkur staðfest sig þar af alvöru nema Eyþór(takk kærlega) og ég verð að reyna að átta mig á hvort af henni verður eða ekki. Verð á henni, BRÁÐABIRGÐAVERÐ er 390-410 þús og hún hækkar minna en aðrar ferðir. Ef guð lofar, altso.

Sunday, February 1, 2009

Fundur um hernám og framferði Ísraela í Palestínu - og hugmyndir settar fram um Marokkóferð


Ræðumenn á fundinum í dag, sunnudag, þeir Egill Bjarnason og Friðrik Páll Jónsson
Myndina tók Dóminik Pledel Jónsson

Á fimmta tug mættu á fundinn okkar um málefni Gaza í Kornhlöðunni í dag. Einstaklega athyglisverður fundur leyfi ég mér að segja.

Mörður Árnason var fundarstjóri og gaf Agli Bjarnasyni fyrst orðið. Hann talaði um Hernám Ísraela í Palestínu og sýndi myndir sem hann tók þegar hann var við sjálfboðaliðastörf á Vesturbakkanum fyrir nokkrum árum. Áhrifamiklar myndir og gott mál hans.
Síðan talaði Friðrik Páll Jónsson og kallaði erindi sitt "Hvar er friðurinn?" og fengu þeir félagar báðir verðskuldað klapp fyrir enda mjög fróðlegt að hlýða á þá.

Eftir stutt kaffihlé voru svo spurningar og var mikill áhugi að spyrja þá spjörunum úr.
Þetta var fínn fundur en mér finnst engu að síður að fleiri hefðu átt að mæta því málið er þess eðlis að okkur er beinlínis nauðsynlegt að kynnast því.

Ég dreifði ferðaáætlunum ársins en þykir sýnt eins og margsinnis hefur verið sagt að breytingar verði á vegna efnahagsmála. Þó er sjálfsagt að vera bjartsýn og ég hef látið mér detta í hug að kanna Marokkó ef Úzbekistan og Kyrgistan detta út í september.

Í þá ferð skrifuðu sig tíu sem áhugasama svo nú fer ég í það á næstunni að setja upp áætlun og athuga með verðið.

Það væri gott að heyra frá ykkur og meðan ekkert breytist held ég Jemen/Jórdaníu inni, svo og Egyptalandi og Líbíu í haust.

Vegna fyrirspurna Íranfara um hvenær við hittumst til að fylla út eyðublöð er það ekki á hreinu. Fólk er töluvert út og suður í febrúar og því getur verið að sirka 8.mars - EN ALLS EKKI SÍÐAR- verði fyrir valinu. Það er langbest að gera þetta í sameigingu því einnig þarf að ræða klæðaburð og fleiri atriði sem er þarft fyrir menn að vita. Læt menn fylgjast með.

Þakka svo Agli og Friðriki þeirra ágætu erindi og fundarmönnum fyrir góðan fund. Og svo er vissulega tímamótadagur, Jóhanna Sigurðardóttir er orðin forsætisráðherra og allt gott um það.