Saturday, September 29, 2007

Ómanhópur hittist og Gaddafi sætindi etin næstum upp til agna


Myndin er af konunum í fyrsta Ómanhópnum okkar, í febrúar 2006. Af hverju leyfðum við köllunum ekki að vera með?

Ómanfólkið sem heldur til Múskat 22.okt. hittist núna í eftirmiðdag. Þá fengu allir sína miða, fánamerkin, farangursmerki og fána til að binda á töskur.
Svo var skraflað um ferðina og af hinni mestu blíðu. Á boðstólum var kaffi og te og sætindi frá Líbíu, konfekt, kökur og döðlur.

Skal ekki fjölyrt um það en menn kunnu vel að meta sælgætið úr Gaddafilandi og gerðu sér gott af þeim. Einnig seldi ég þó nokkur kort og allt var hið glaðasta.

Góður hópur sýnist mér. Við verðum 24, þar af er hátt í helmingur sem hefur ekki farið áður í VIMA ferð og upp í það að vera á leið í sína áttundu Þá er hlutfall karla hærra en hefur stundum verið - og er hvorttveggja hið ágætasta mál.

Stjórn VIMA hittist n.k. mánudag til að ganga frá skipulagningu á dvöl Nouriu hér. Margrét Pála Ólafsdóttir hefur boðið henni í heimsókn í Vífilsstaðaskóla og Sjöfn Óskarsd hefur beitt sér fyrir því að hún hitti krakka í Hlíðaskóla. Þá er ákveðin ferð til Gullfoss og Geysis í boði Jónu og Jóns Helga og kvöldverður að för lokinni.

Helga Kristjánsdóttir býður þeim systrum einnig í mat og það hefur einnig gert Elísabet Ronaldsdóttir. Svo vonumst við eftir góðri samvinnu við fjölmiðla.
Það væri gaman að heyra hugmyndir frá ykkur og ef einhver vill leggja fram návist, krafta eða rausn svo þetta verði ekki bara góð og gagnleg heimsókn heldur eftirminnileg í alla staði.
Gæti einhver til dæmis tekið eftirmiðdag um Reykjavík, í söfn og fleira sem gæti verið skemmtilegt. Eða skroppið með þær eitthvað út fyrir bæ.
Vona að einhverjir láti frá sér heyra.

Thursday, September 27, 2007

Mohammed biður að heilsa - nýir styrktarmenn sendi myndirHér er mynd af hinum góða hópi sem fór til Írans sl.febr/mars. Fékk í gær imeil sem Mohammed eftirlætisbílstjórinn minn(annar í efri röð við hliðina á JK) hafði beðið vin sinn að senda. Hann vildi koma á framfæri kærum kveðjum til allra Íranfaranna. Mohammed hefur verið bílstjóri í öllum ferðunum nema fyrri hluta fyrstu ferðarinnar. Einstakt ljúfmenni fyrir nú utan hvað hann er flínkur bílstjóri og fallegur maður. Þessum kveðjum er hér með komið áleiðis.


Annað í sem stystu máli: Mig langar til að biðja ALLA NÝJA styrktarmenn að koma til mín myndum af sér og kannski fjölskyldu.

Fáein orð á korti og kannski límmiðar en ekkert fleira og alls ekki peninga.
Krökkunum þykir ákaflega gaman að eiga myndir af þeim sem hjálpa þeim og nokkrar skeifur mynduðust á andlitum þeirra sem fengu ekki myndir sl. vor.

Ég hef fengið fyrirspurnir um hvort fólk geti sent gjafir með Nouriu en hún mælir með að fólk sendi myndirnar og kort og ekki annað að sinni.
Þið getið hvort sem er sent myndir til mín í pósti eða komið með þær á fundinn. Munið að skrifa ekki aðeins nafn barnsins heldur líka það númer sem það hefur og þið eigið öll að hafa fengið.

Hef fengið fáein fréttabréf endursend vegna þess að fólk er flutt. Gjörið svo vel og láta mig vita.

Wednesday, September 26, 2007

Jemenkæti í Lundarreykjadal


Sæl öll
Er nýkomin ofan úr Borgarfirði en þangað þeysti ég í gær, nánar tiltekið að Krossi í Lundarreykjadal til að halda pínulítinn kynningarfund um Jemen/Jórdaníuferðina n.k. vor því Sigrún, húsfreyja á Krossi, hafði áhuga á ferðinni og þóttist vita að svo væri um fleiri vinkonur hennar.
Er ekki að orðlengja það að tíu eða tólf kátar konur komu að Krossi og við röbbuðum um ferðirnar, Jemenverkefnið og fleira. Ég útdeildi fréttabréfinu og seldi slatta af kortum og svo skráðu sig- segi og skrifa sex í ferðina og ein til viðbótar með spurningamerki. Ég held að þetta sé hæsta hlutfall sem náðst hefur og er sallakát.
Þetta var einstaklega skemmtilegt kvöld og kannski mætti gera meira af þessu til kynningar á ferðunum og þá er málið ekki snúnara en svo að hafa samband og finna tíma.

Ég gisti svo hjá Kolbrá, yngri stelpunni minni á Hvanneyri og Magdalenu og Megasi (það er heimilishundurinn smái og knái) í nótt í besta yfirlæti.
Nokkuð hvasst undir Hafnarfjalli á heimleið í morgun en ekki að spyrja að Eyðimerkurljóninu.
Þar með virðist fyrri Jemen/Jórdaníuferðin vera fullskipuð. En það eru enn nokkur sæti laus í seinni ferðina.

Að ógleymdu Íran, þar má bæta við þremur og Egyptaland þolir amk 2-4 í viðbót.

Um Líbíu: Ég skrái fólk niður í hana þó hún sé eftir ár. Fólk þarf að staðfesta sig í hana með greiðslu um miðjan febrúar. Ekki síðar.

Ég vona að sem flestir hafi nú fengið nýja fréttabréfið.
Minni Ómanfara á fundinn á laugardaginn. Kl. 14 stundvíslega.
Hvet menn til að borga skilvíslega inn á ferðir um mánaðamótin

Monday, September 24, 2007

Minni á að mánaðamót nálgast=greiðslur - hálsfesti Helenu og annað huggulegtNú nálgast mánaðamót óðfluga og það merkir að ferðalangar taka til óspilltra málanna að greiða inn á ferðir.
Egyptalandsfarar, Íranfarar og Jemen/Jórdaníufólk. Þarf einnig að vita hverjir stefna að fyrri Jemenferð og hverjir seinni. Nokkrir hafa látið vita og ýmsir greitt en þarf að heyra frá þeim sem eru óákveðnir um hvora ferð þeir hyggjast fara í.

Ómanfólk fær sérstakt bréf á eftir um miðaafhendingarfund. Þeir eiga nú eftir að borga síðustu greiðslu og gistinguna í London. Nema einn sem hefur gert upp.
Við verðum með smáfund á laugardaginn, Ómanfólkið og meira um það á eftir og til þeirra.

Þá hefur Þjóðleikhúsið beðið mig að vekja athygli á sýningunni Hálsfesti Helenu, en þær sýningar hefjast nú á ný næstu daga. Þar segir frá vestrænni konu, sem kemur til Líbanons eftir borgarastyrjöldina að leita að hálsfesti sem hún telur sig hafa týnt - eða týndi hún henni ekki. Þetta er góð sýning að mínu viti og leikur Eddu Arnljótsdóttur, Guðrúnar S. Gísladóttur og Arnars Jónssonar er eftirminnilegur.

Leyfi mér sömuleiðis að vekja athygli á arabískunámskeiðunum sem ég verð með hjá Mími símennt og byrja nokkru eftir heimkomu frá Óman í nóvember. Mér skilst að áhugi sé töluverður en má trúlega bæta við í arabísku tvö.

Loks þetta: að vandlega íhuguðu máli sé ég ekki að það verði vinnandi vegur að finna tíma til að Nouria fari til Akureyrar að þessu sinni. Vonast til að koma henni í viðtöl og kynningar og ekki getum við gengið alveg frá henni. Hún verður að fá andrúm inn á milli. Því miður. Þar sem ég hef heyrt frá fleiri Akureyringum um málið og virðist ekki skorta áhugann.
Ég athugaði líka hvort hún gæti lengt veruna um tvo daga en það er erfiðleikum bundið því ramadan er að ljúka um þær mundir og hún þarf að drífa sig heim til þess að taka á móti krökkunum eftir frí. Svo það verður ekki af því.
En ég hvet menn þá þess heldur til að skrá sig í ferðirnar til Jemen. Samt finnst mér virkilega leiðinlegt að þessu verður ekki við komið.

Munið svo að greiða skilvíslega félagsgjöldin og munið gjafakortin og fundinn 7.okt.Það væri kannski ráð að skrifa þetta allt saman niður.
Verið svo væn að senda síðuna áfram

Friday, September 21, 2007

ÓMAN-miðar tilbúnir- fréttabréfið farið í póst- haustlitir að koma

Mikið er þetta fallegur dagur. Er farið að bóla á haustlitum á Þingvöllum. Væri ekki amalegt að sýna Nouriu þá.

En sem sé: haustfréttabréf fór í póst til ykkar núna í morgun. Vona þið verðið ánægð með það.

Óman miðar eru tilbúnir og efnt til stundar með Ómanfólki fljótlega til að afhenda þá ofl. Ómanfarar muna að borga síðustu greiðslu um mánaðamótin. Þá skal einnig greiða fyrir eins manns herbergi og gistinguna í London á heimleið. Sú upphæð er hin sama og ég sagði ykkur þegar við hittumst. Oddný Flugleiðakona staðhæfir að þetta sé mjög gott hótel - verðið er svo hlægilega lágt.

Eftir helgina skrepp ég upp í Borgarfjörð að hitta nokkra jákvæða Borgfirðinga sem hafa áhuga á Jemenferðunum næsta vor. Gaman að því.

Svo vona ég að allir hafi greitt félagsgjöldin sín, 2000 kr. Ef þið eruð í vafa þá sendið Gullu Pé póst og hún flettir því upp gudlaug.petursdottir@or.is

Ég hef heyrt frá háskólakennara og stuðningsmanni á Akureyri sem langar að Nouria kæmi þangað í heimsókn. Er að athuga hvort hægt verði að koma því heim og saman.Aðrir skólamenn hafa ekki kvakað en ég reikna náttúrlega með að hún heimsæki Lindarskóla í Kópavogi þar sem félagsmiðstöðin heitir Jemen.

Munið svo gjafa- og minningarkortin.

Tuesday, September 18, 2007

Nuria væntanleg- fréttabréfið á leiðinni og margt fleira að fréttaSælar veriði heillirnar
Nouria Nagi, frumkvöðull YERO í Sanaa kemur til landsins fyrstu dagana í október. Hún talar á haustfundinum okkar í Kornhlöðinni sunnudag 7.október. Þar vonast ég sannarlega eftir að sjá sem ALLRA FLESTA, bæði úr hópi styrktarmanna barnanna okkar og aðra félaga.
Ef einhverjir skólamenn hafa hug á að fá Nouriu til að kynna Jemen og þetta starf sem hún vinnur, vinsamlegast hafa samband. Það er um að gera að sem flestir fræðis um málið og allir verða að leggjast á eitt að hjálpa til.
Nouria mun stoppa sirka viku og gæti verið að hún hefði tök á því að fara víðar um höfuðborgarsvæðið svo menn ættu að láta vita HIÐ SKJÓTASTA.
Hún sagði mér að hún væri með ýmsa smámuni, teikningar og fleira sem krakkarnir hafa gert ef menn vildu festa kaup á því.
MUNIÐ AÐ TAKA FRÁ SUNNUDAG 7.OKT Í KORNHLÖÐUNNI. Fundur hefst að venju kl. 14Gaman að segja frá því hvað gjafakortin okkar hafa fengið góðar undirtektir hjá félögum og fleirum sem vilja láta gott af sér leiða með því að styrkja Fatimusjóð
Hvet ykkur eindregið. Fimm kort í pakka kosta 10 þúsund kr. því hér eru sem sagt verið að gefa GJAFIR með þessum kortum.

Mig langar að segja frá því að rausnarkona ein sem ég held að kæri sig ekkert frekar um að láta nafns síns getið hefur gefið í Fatimuverkefnið kr. 350 þúsund krónur. Munar hressilega um það og hef þakkað henni vel fyrir.

Fréttabréfið okkar, stórt og myndarlegt 16 bls. að þessu sinni kemur úr prentun á morgun og verður póstað til ykkar um leið og við höfum slegið utan um það. Hafi einhverjir breytt um heimilisföng eru þeir beðnir um að láta tafarlaust vita.
Meðal efnis er grein um fyrstu Kákasuslandaferðina okkar, grein um Ferghana dalinn í Uzbekistan, mataruppskriftir, dagatal múslima, klausa um Jórdaníukynningu, myndir af gjafakortunum, skrif um bók o.fl.ofl.

Á næstunni verður sett inn fullburða Líbíuáætlun. Læt ykkur vita um það.
Og upp úr 10.okt. munú Ómanfarar koma saman og fá sína farmiða og ferðagögn. Ég er með smásætindi frá Líbíu sem við gæðum okkur á í leiðinni.

Ég þakka góð og mikil viðbrögð við síðasta pistli. Hef ekki minnstu áhyggjur: það er skemmtilegt og fróðleiksfúst fólk þegar skráð og fleiri munu bætast við.
Þakka svo væntanlegum ferðafélögum sem eru farnir að borga inn á ferðirnar. Það er til fyrirmyndar en ég hef ekki heyrt frá tveimur Egyptalandsförum Ásdísi Stefánsdóttur og syni og býst við að þau séu í burtu og birtist á hverri stundu. Sömuleiðis langar mig að biðja Daníel Gunnarsson að hafa samband við allra fyrsta.

Menn breyta um heimilisföng og imeil og stundum eru vanhöld á að menn láti vita. Gjöra svo vel og athuga það.

Friday, September 14, 2007

Nú skil ég ekki það sem ég skildi ekki

Sæl enn aftur tiltölulega blíðlega og þó nokkuð í vafa
Sumt skil ég, sumt alls ekki:
Kennarar sem hafa farið í VIMAferðir báðu mig lengstra orða að hafa Íranferð um páska svo þeir kæmist þangað í sínu fríi enda er það land sem er hvað magnaðaðist að öðrum ólöstuðum.
Sagan og núverandi mannlíf verður þeim ógleymanlegt sem kynnist því. EKKERT neikvætt hefur komið fyrir enda mundi ég ekki fara með hóp þar sem ég teldi einhverja hættu vera á ferð og ættu menn að hafa það hugfast að ég hætti til dæmis við ferð til Líbanons þegar ég áleit að slík ferð kynni að vera varasöm

Svo ég setti Íranferð inn um páska og fylltist sú ferð eins og vettlingi væri veifað léttilega. Ég sendi út tilkynningu, ferðin troðfull, bað um aukasæti og bárust svör um að allt yrði gert. Tilkynnti nafnalista með góðum fyrirvara, borgaði flugmiða og var sæl og glöð.

Þegar kom að því að borga staðfestingargjald fyrir páskaferð skullu ansi hreint margir á hnakkann og allt í einu komu upp persónulegar ástæður, alls engar eða óskilgreindar þó og ég veit ekki hvað.

Ég skil ekki hvað er í gangi og hallast að því að gagnkvæmur misskilningur sé á ferð.
Íran býður ykkur heim og bíður ykkar og svo detta menn í þá gryfju að trúa því að þar sé eitthvað ferlega hættulegt á ferð.
Leyfi mér að biðja Íranfara fyrri ferða að tjá sig.
Því hvað var ég að gera með því að ákveða Íransferð um páska og svo hrynja kennararar- sem eiga að vera fordómalausir og forvitnir- frá. Sem betur fer eru nógu margir skynsamir sem skilja og vita að við förum ekki í einhverja hættuferð Við erum að fara til Íran og þar er þægilegra og ljúfara en á flestum stöðum.

Ég er yfirgengilega sár og súr en til Íran verður farið um páska og í þeim hópi eru nokkrir einstaklega vogaðir- en ég hlýt að taka með varúð héðan í frá því því sem menn segja úr kennarahópi. Þetta á auðvitað ekki við um alla sem betur fer en ansi margir hafa valdið mér vonbriðgum. Og sumir sem ég bjóst ekki við og þekkja þennan heimshluta harla vel.
Það var þetta sem ég vildi sagt hafa.

Thursday, September 13, 2007

Nú líst mér ekki á blikunaJæja, góðan daginn aftur
Þessi rós er gerð úr peningaseðlum.

Ég hef sem sé verið að fara yfir greiðslur og er satt að segja ansi gáttuð. Ef heimabankinn minn er ekki bilaður þá eiga ansi margir eftir að borga staðfestingargjald.

Það á við um Egyptalands og Íranfara. Það er mjög erfitt mál því ég þurfti strangt tiltekið að senda út greiðslur í gær en fékk frest þar til í dag.

Ég bið einkum og sér í lagi þá Egyptalandsfara sem hafa EKKI gengið frá staðfestingu að drífa í þessu og Íranfarar nokkrir hafa heldur ekki borgað.

Bið ykkur lengstra og vinsamlegastra að gera það í hendingskasti á morgun.
Sendi öllum bréf fyrir æðilöngu um hvernig átti að haga greiðslumálum. Hafi einhver týnt því eða eytt óvart bið ég ykkur endilega að láta vita og ég mun senda það samstundis.
En í leiðinni vil ég einnig þakka þeim kærlega sem hafa gert skil og allnokkrir Jemenfarar eru líka búnir að reiða fram staðfestingargjald og virktavel takk fyrir.

Þá skal tekið fram að við höfum nú styrktarfólk fyrir alla Jemenkrakkana okkar. Samtals 101. Það er ekkert minna en stórgott.

Wednesday, September 12, 2007

Líbíuferð lokið í bili

Góða nóttina og daginn

Klukkan er nú að ganga tvö aðfararnótt afmælis Veru aðstoðartæknistjóra og ég er komin á Drafnarstíg eftir góða, spennandi og harla heita og aðeins erfiða Líbíuferð enda fór ég um ansi hreint víðan völl á skömmum tíma. Gekk allt vel, jeppi bilaði út í miðri eyðunörk, myndavél hvarf á dularfullan hátt svo sannanir vantar um að ég hafi verið á svæðinu, en þar fyrir utan man ég ekki eftir neinu sem fór úrskeiðis. Nema síður væri.
Síðasti dagurinn í Tripoli var einkar ljúfur - mikið er ég hrifin af Tripoli - og ekki ég tali nú nú öllum myndunum af Gaddafi sem hélt hátíðlegt 38 ára stjórnunarafmæli sitt 1.sept og því er fagnað árlega og allar skreytingar látnar standa óhreyfðar því fyrsti dagur föstumánaðarins, ramadan var í dag og gott að hafa þá allt puntið og vel það.

S.l. nótt var ég á ágætis hóteli sem heitir Sinbað, afar vel í sveit sett , rétt við hafið og herbergin notaleg og elskulegt starfsfólk. Mér var sagt glaðlega í gær þegar ég kom úr kvöldverði á líbönskum stað sem heitir í höfuðið á Feirús söngkonu að ég mundi fá glæsilegar veitingar í morgunmat og áður en ég færi til flugvallar. Það var smámisbrestur á því og ég æsti mig oggusmá og þá var allt borið í mig og meira en þurfti.

Ferðin til London með Libian Arab Airlines var til sóma og miklu hugnanlegri en útleiðin. Hneigist til að halda að við ættum að nota þetta flugfélag í ferðum okkar þó svo allt vanti vínið en það er hvort eð er bannað vín í Líbíu og að mínu viti mjög til bóta. Enginn timbraður né óeðlilega ruglaður.
Er með fullt af kveðjum til væntanlegs Líbíuhóps frá þarlendum sem þykir eftirsóknarvert að fólk frá Íslandi muni sækja það heim á næsta ári

Nú sýnist mér sem Egyptalandsferð sé full, sömuleiðis Íran um páska og vona að allir hafi greitt samviskusamlega. Er ekki pottþétt að ég hafi fengið öll ljósrit af Ómanhópsvegabréfum? Sný mér að athugun á því á morgun þegar mesta sólarþreyta er hjá garði gengin.

Munið að fréttabréf kemur innan tíðar. Læt svo vita um dagsetningar á veru Núríu hér.
Sofiði undurblítt

Monday, September 10, 2007

Aevintyradagar i Libyu

Godan og hlyjan daginn
Er komin aftur til Sebha. Hun er staersta eydimerkurborgin i Libyu, um 400 thusund manns og thad var her sem Gaddafi vinurinn gekk i skola a sinum tima. Hann var ad visu rekinn fyrir odaelsku en upphaf byltingar hans fyrir 38 arum er rakid hingad og enda blasa vid myndir af honum hvert sem litid er- og ekki vontun a theim annars stadar.
Sidustu dagar hafa verid eitt aevintyri. Ad visu er of heitt svo eg er akvedin i ad fara ekki med hopinn fyrr en sidla okt 2008. En ad odru leyti er thetta alveg ruglad.
Vid Massoud fylgadarkall og Khalid bilstjori hofum farid um sandoldur Sahara og allt i einu dukka upp thessi undursamlega fogru stoduvotn og vafin grodri. Gerdum okkur nattstad uti a sandinum og var rett ljuft tho adstaeda vaeri ekki serlega nalaegt fimm stjornum. En madur let sig gladlega hafa thad og tho eg vaeri med vasaljos tokst ekki betur til en svo ad eg bara fotakremid i andlitid a mer fyrir nottina. Um nottina gekk eg til sandklosettis og teygdi mig tha i nokkrar stjornur sem voru i thann veginn ad detta ofan a hausinn a mer.
Thad thydir hins vegar ekki ad vera med hop vid thessar adstaedur og thad raedi eg vid hr. Hussein a morgun.
Annan dag heldum vid til Wadi Makandousj sem er tolf kilometra langur og thakinn dyra og mannaristum fra tvi fyrir nokkrum milljonum ara. Thetta var alveg storkostlegt. Eydimorkin er hreinasta dyrd og svo skritid sem thad hljomar kemur allt vatn hedan ur eydimorkinni. I grennd vid Sebha fundust lindir um thad leyti og Gaddafi kom til stjornar og thaer sja ollu landinu fyrir vatni. Dalurinn that sem thaer fundust hafdi verid nefndur Daudadalur en thegar vatnid kom til skjalanna var farid ad raekta og plaegja og planta svo nu er allt graent thar a gridarstoru flaemi og heitir nu Lifsinsdalur.
Vid gistum adra nott i Afrikubudum og thar var nokkud gott en ansi heitt svo mer fannst satt ad segja mun thaegilegra ad sofa uti a sandinum. Hef skodad fleiri budir og komin ad nidurstodu um hvad mundi henta okkur.
I gaer thegar vid vorum a leid fra Wadi Makandusj gafst billinn hans Khalids upp, uti i morkinni og voru nu god rad dyr. En tha bar thar ad Taher nokkurn fra Ubari og hann tok okkur uppi og keyrdi okkur heim til sin og vildi allra helst ad vid gistum.
Thegar vid hofdum ekki tok a ad thiggja thad urdum vid tho ad thiggja heimbod hans.
Thad var hid besta mal og ad Tuarega haetti var borid fram vatn og sidan mjolkurgerill og dodlur og loks kaffi.
Hann syndi okkur brudarmyndir en hann gekk i thad heilaga fyrir tveimur arum og svo var eg leyst ut med gjof, sandolum ur ulfaldaskinni. Vid kvoddumst med hinum mestu kaerleikum.
Svo lagdi hann bil undir okkur og vid brunudum til Sebha og gistum her i nott. Fer svo til Tripoli i kvold. Med flugi og thad er alltaf akvedin spenningur thegar madur aetlar ad fljuga innanlands i Libyu: verdur nu flogid eda verdur allt i einu aflyst. Vid sjaum til med thad.
Hiti hefur farid i 44 stig thessa daga en eg drekk vatn, borda salt og hef thad ljomandi.

Thursday, September 6, 2007

Hlylegt ad vera komin til Libyu

Godan daginn oll
Er maett i Tripoli og vel volgt her og eftir ad hlyna meira thegar eg fer nidur i eydimorkina i kvold.
Tha fer eg flugleidis til Sebha, gisti thar og i fyrramalid verdur svo haldid til Akkakus fjalla og mer skilst litbrigdi seu hreint undursamleg. Naestu 3 daga einnig til Saharavatnanna og Wadi Metkandusj thar sem eru einstakar myndir fra forsogulegum tima og ugglaust margt fleira. Efast um ad eg komist a netid en aldrei ad vita hvad leynist i eydimorkinni.
Ferdin hingad var i godu lagi, smatof a libyska flugfelaginu tho, en thonusta god og skritnar flugfreyjur. Vegabrefsmal gengu eins og i sogu tho adeins vefdist fyrir theim ad finna Island en eg skrifadi tha nafnid a minni einstaklega snotru arabisku rithond og allt i soma.
Var i nott a Al Mohktar hoteli sem er eitt margra litilla, nyrra hotela sem er verid ad reisa eda hafa nyverid tekin i not. Thetta eru hotel i einkaeign, venjulega litil herbergi en mjog hrein og vidmot starfsfolks ljuft.
Hitti i morgun ferdaskrifstofustjorann minn og vid rulludum yfir programmid naestu daga.
Nu aetla eg ad skipta smapening og kaupa mer nytt tisjort af Gaddafi tvi thvottakonan i Tbilisi tvodi hann af gula tisjortinu minu.
Svo horfir madur yfir Midjardarhafid hedan ekki slorleg sjon. Og allir gladir og ekki sist eg.
Bid ad heilsa

Tuesday, September 4, 2007

Senn á leið til Libyu. Getum við fundið styrktarmenn í dag fyrir 4 stráka??


Mig langar að byrja á því að senda kærar samúðarkveðjur til góðra ferðafélaga og vina, Guðmundar Péturssonar og Sveins Haraldssonar vegna láts Ásdísar Steingrímsdóttur, eiginkonu Guðmundar og tengdamóður Sveins. Ég er sannfærð um að VIMAfélagar taka undir þær kveðjur.

Ég hef eitthvað talið vitlaust því við erum komin með 97 börn studd en ekki 94, fer betur yfir það á eftir, kannski með aðstoð Gullu pé. Altjent er ég hér með fjóra drengi sem hafa ekki styrktarmenn:
B40 Ahmed Abdelmalik Alansee, 7 ára. Hann á 3 systur. Faðir er atvinnulaus

B44 Mohamed Nagi Obad 9 ára. Hann á fjögur systkini. Faðir er atvinnulaus

B 56 Majed Alouwfee er 8 ára og á 3 bræður. Faðir hans hefur oftast vinnu.

B 58 Mohamed Alouwfee er 7 ára og á 3 bræður(hann og B56 eru bræður) Faðir hefur oftast vinnu.

Það væri ljómandi gaman ef styrktarmenn fyrir þessa stráka gæfu sig fram í dag svo ég geti klárað þetta áður en ég skutlast til Libyu snemma í fyrramálið.
Eru ekki einhverjir sem vilja eignast strák?
Þá værum við sem sagt komin með 101 barn og nú látum við staðar numið fyrir þetta skólaár.
Þakka ykkur fyrir. Þetta hefur gengið eins og í lygasögu og það er gott að sjá hvað margir eru búnir að greiða fyrir sín börn.
Ein hjón tóku tvö börn í gær og borguðu svo aukalega í "byggingarsjóðinn" sem svaraði 200 dollurum. Kætir og gleður. Örvar og hressir.

Sé einnig að Egyptalands-, Íran og náttúrlega Ómanfarar eru snöggir að greiða svo til sóma er.

Á eftir að ítreka það, auk þess sem það kemur fram í fréttabréfinu, að haustfundurinn okkar verður í Kornhlöðunni 7.okt. n.k. Þangað skyldu sem flestir streyma og hlusta á Nouriu og spyrja hana.

Bendi mönnum á að hafa samband við Guðlaugu Pétursdóttur gudlaug.petursdottir@or.is
og heimili í Laufrima 30 ef ske kynni að menn þurfi gjafa- eða minningarkort þessa daga sem ég er í burtu.

Svo eiginlega gott í bili. Fer til London og síðan áfram til Tripoli með libyska flugfélaginu. Mun senda eitthvað þó ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort netkaffi eru mörg í eyðimörkinni. Mun þá ekki senda neinar tilkynningar en bið ykkur að fara skörulega inn á síðuna. Kem eftir liðlega viku.
Sæl að sinni.

Saturday, September 1, 2007

Yngsti stuðningsmaðurinn okkar er sjö ára stúlka

Góðan daginn í haustinu

Áðan fékk Uesra Mohamed AlRemee, 9 ára stuðningsmann fyrir skólaárið 2007-2008. Uesra hefur verið með frá byrjun og er að fara í 4.bekk. Hún er duglegur nemandi og hefur staðið sig mjög vel þó svo heimilisaðstæður hennar séu erfiðar eins og allra krakkanna okkar.
Þetta eru tíðindi meira en í meðallagi vegna þess að stúlkan sem ákvað að styðja Uesru er sjö ára gömul(verður 8 í haust). Hún heitir Birta Björnsdóttir.
Móðir hennar og bróðir( 15 ára) styrkja konu á fullorðinsfræðslunámskeiðinu og hún hefur heyrt talað um þetta á heimilinu.
Henni þykir merkilegt að það skuli ekki vera sjálfgefið að öll börn komist í skóla og vill vita meira um þetta. Og hún hefur ákveðið að leggja sitt lóð á vogarskálar til að hjálpa.
Þetta finnst mér til eftirbreytni og það er ekki fjarri að hugsa sér að fleiri börn fari að fordæmi Birtu ef þau fá hvatningu og aðstoð frá foreldrum sínum.

Einnig leyfi ég mér að vona að kennarar í okkar röðum vilji fá meira um Jemenverkefnið að vita og þá mætti hugsa sér heimsóknir í skóla með kynningu. Við eigum að virkja þessa krakka, ekki endilega með því að ætlast til að leggja fram peninga en þau mættu vita og vilja það áreiðanlega um hvernig aðstæður óteljandi krakkar búa við í þessu fátæka landi sem Jemen er.
Ég hef talað við skólastjórann í Lindarskóla en þar heitir félagsmiðstöðin Jemen og hann er mjög áhugasamur um að Nouria komi þangað í heimsókn þá daga sem hún staldrar við hér. Myndband Högna kæmi að góðum notum og fleiri myndir sem við eigum til slíkra kynninga. Hafið þetta bak við bæði eyrun.

Ég leyfi mér að biðja ykkur að senda þetta áfram. Við VERÐUM að kynna þetta mál almennilega í alla staði. Í bili verður það best gert með því að síðan komi fyrir flestra augu.