Saturday, September 29, 2007
Ómanhópur hittist og Gaddafi sætindi etin næstum upp til agna
Myndin er af konunum í fyrsta Ómanhópnum okkar, í febrúar 2006. Af hverju leyfðum við köllunum ekki að vera með?
Ómanfólkið sem heldur til Múskat 22.okt. hittist núna í eftirmiðdag. Þá fengu allir sína miða, fánamerkin, farangursmerki og fána til að binda á töskur.
Svo var skraflað um ferðina og af hinni mestu blíðu. Á boðstólum var kaffi og te og sætindi frá Líbíu, konfekt, kökur og döðlur.
Skal ekki fjölyrt um það en menn kunnu vel að meta sælgætið úr Gaddafilandi og gerðu sér gott af þeim. Einnig seldi ég þó nokkur kort og allt var hið glaðasta.
Góður hópur sýnist mér. Við verðum 24, þar af er hátt í helmingur sem hefur ekki farið áður í VIMA ferð og upp í það að vera á leið í sína áttundu Þá er hlutfall karla hærra en hefur stundum verið - og er hvorttveggja hið ágætasta mál.
Stjórn VIMA hittist n.k. mánudag til að ganga frá skipulagningu á dvöl Nouriu hér. Margrét Pála Ólafsdóttir hefur boðið henni í heimsókn í Vífilsstaðaskóla og Sjöfn Óskarsd hefur beitt sér fyrir því að hún hitti krakka í Hlíðaskóla. Þá er ákveðin ferð til Gullfoss og Geysis í boði Jónu og Jóns Helga og kvöldverður að för lokinni.
Helga Kristjánsdóttir býður þeim systrum einnig í mat og það hefur einnig gert Elísabet Ronaldsdóttir. Svo vonumst við eftir góðri samvinnu við fjölmiðla.
Það væri gaman að heyra hugmyndir frá ykkur og ef einhver vill leggja fram návist, krafta eða rausn svo þetta verði ekki bara góð og gagnleg heimsókn heldur eftirminnileg í alla staði.
Gæti einhver til dæmis tekið eftirmiðdag um Reykjavík, í söfn og fleira sem gæti verið skemmtilegt. Eða skroppið með þær eitthvað út fyrir bæ.
Vona að einhverjir láti frá sér heyra.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment