Tuesday, July 31, 2007

Undirtektir og afmæli

Mynd frá jurt - þ.e tjöldum sem hirðingjar búa í bæði í Kyrgistan og Úzbekistan


Góðan daginn á öllum heimilum

Það er vert að þakka kærlega öllum þeim sem hafa sent - og fleiri munu án efa senda- svör við hugmyndakönnuninn, sjá næsta pistil fyrir neðan. Ákaflega fjölbreytileg áhugamál sem ég hef fært samviskusamlega til bókar. Gaman hversu margir töldu ekki eftir sér að senda bréf um málin og að fjöldinn allur hugsar fram í tímann þegar ferðalög eru annars vegar. Geta þar með undirbúið sig enn betur.

Enn mættu fleiri láta frá sér heyra.

Annað mál: ef fólk veit til að netfangsheimilisföng kunningja hafi breyst, svo og hefðbundin heimilisföng væri gott að vita það þar sem fréttabréfið fer gömlu leiðina. Þó einstaka biðjist undan pósti, svona rétt eins og verður að teljast eðlilegt, þá detta alltaf einhverjir út - og ekki spyrja mig hvernig það gerist- eða fólk skiptir um netfang.
Og missir þar með af fréttunum okkar. Skaði að því. Ekki spurning.

Það er ástæða til að vera sæmilega sáttur við undirtektir við gjafa og minningarkortunum. En samt. Ekki nóg. Eiga engir afmæli á sumrin? Mér finnst meirihluti félagsmanna ekki hafa sinnt þessu. Málið er fjarska einfalt.

Þið sendið mér imeil og borgið þá upphæð sem þið svo kjósið inn á FATIMUREIKNINGINN og ég sendi kortið til þess sem skal vera viðtakandi

Ef þið viljið get ég einnig póstað kortin til ykkar ef þið viljið fylla út sjálf. Þetta á við um gjafa og minningarkortin.

Elsku bestu, viljiði hafa þetta hugfast. Þetta getur orðið drjúg tekjulind ef menn eru samtaka.

Fer út í Glitni á eftir og stofna reikning vegna maraþonhlaupsins, hann verður á nafninu FATIMUSJÓÐUR- VIMA og Glitnir greiðir svo inn á hann ákveðna upphæð fyrir hvern km eða þið getið heitið á einhvern. Menn þurfa að eiga reikning í Glitni. Sjá þetta allt hérna á linknum MARAÞON Á MENNINGARNÓTT. Þetta er eingöngu fyrir maraþonið. Ath. það.

Innan tíðar fara krakkarnir í Jemen að skrá sig í skólann. Þrír hafa þegar greitt fyrir sín börn og tveir nýir styrktarmenn hafa bæst við. Mjög trúlegt er að einhverjir krakkanna okkar detti út, m.a. vegna flutnings ef heimilisfaðir hefur fengið vinnu utan Sanaa. En þá treysti ég því vissulega að fólk taki önnur börn. Þörfin er ákaflega mikil.

Og við ætlum okkur að ná fleirum. Mig langar að við styrkjum 100 börn og því bið ég ykkur að senda slóð síðunnar áfram og hafa uppi alúðlegan en einarðan áróður fyrir málefninu.

Vil svo minna á að allmargir styrktarmenn og aðrir áhugamenn um ferðir til Jemen gætu komist í ferð númer tvö næsta vor sem mundi trúlega hefjast 27-29.maí.
Ef af henni á að verða þarf fólk að láta vita sem fyrst. Þetta hentar náttúrlega einstaklega vel fyrir kennara og annað skólafólk

Friday, July 27, 2007

ÁHUGAKÖNNUN Í VÆNDUM

Sæl. Það teljast varla tíðindi að sólin skín í dag, altjent hér um suðvestanvert landið. Ósköp sem við erum heppin.

Altjent: Á næstu dögum ætla ég að senda hverjum og einum - eða svona hér um bil - sem er á póstlista hjá mér fyrirspurn um áhugasvið þegar ferðir ársins 2009 eru annars vegar.
Svo ég geti fengið einhverja hugmynd um þátttöku því þá er auðveldara að semja um verð.
Allt með fyrirvara, engar skuldbindingar af ykkar hálfu
Ferðirnar krefjast undirbúnings og skipulagningar svo sem ég hef kvakað stundum. Svo mér finnst þetta gæti verið heillaráð.

Mig langar að biðja ykkur að svara mér þegar ég sendi ykkur þessi bréf. Vitaskuld eru margir tvist og bast í sumarfríi en vænti svara frá flestum sem fyrst eða þegar komið er heim. Ýmsir ferðaglaðir eru ekki með netföng. Athuga þetta þá eftir hefðbundnari leiðum.

Wednesday, July 25, 2007

Jemenferð tvö og dagsetningar

Það gæti hugsast svo sem minnst hefur verið á að önnur ferð yrði til Jemen næsta vor. Þær dagsetningar eru sirka 27.maí til u.þ.b. 10-12 júní. Ýmsir hafa spurt um hana. Dagskráin hefur verið uppfærð á linknum Jemen/Jórdanía.

Ég þarf absolútt að heyra frá ykkur um það. Veit að áhugi er á henni meðal nokkurra sem ekki komast á þeim tíma sem sú fyrri er.

Egyptalandsferðin er uppseld, skrifa á biðlista

Íranferðin er uppseld, skrifa ekki á biðlista

Jemenferðin 27.apr til maí - get bætt við tveimur

Libyuferðin virðist vera uppseld nema það sama gerist og stundum áður að fólk sem skrifar sig áhugasamt í byrjun hætti við. Þá væri nógu fróðlegt að vita það.
Eftir að ég skrepp þangað í 5.-12 sept. liggur verð fyrir.

Ég ætla að setja hugmyndir að ferðum 2009 inn í fréttabréfið okkar sem kemur út um miðjan september eða þar um bil. Vonandi næst m.a. þátttaka í aðra ferð til Azerbajdan, Georgíu og Armeníu. Mættuð láta í ykkur heyra varðandi það.

Fagnaðarefni hverjir hafa þegar tilkynnt áhuga á för til Úzbekistan og Kyrgistan. Allt með fyrirvara náttúrlega en MJÖG heppilegt að vita um áhuga með góðum fyrirvara.

Mér þykir gleðilegt að menn átta sig æ skýrar á því að langur fyrirvari er nauðsynlegur. En hann má einnig nota vel, lesa sér til og spá og spekúlera.

Veit ekki almennilega hvenær ég kemst í rannsóknarferðina þangað, þ.e. Úzbekistan og Kyrgistan. Ansi dýr fargjöldin og nú leita starfsmenn Flugleiða með logandi ljósi að viðunandi miða.
Hækkun á eldsneyti hefur áhrif, það er óhjákvæmilegt.

Viljiði muna eftir minningar- og gjafakortunum.
Viljiði muna eftir hlaupinu á menningarnótt
Viljiði muna eftir að senda síðuna áfram.

p.s. Ég hef verið spurð æ ofan í æ hvaða skoðun ég hafi á för Ingibjargar Sólrúnar til Miðausturlanda og hvort það sé ekki æskilegt og ofsalega mikið traust að við höfum verið beðin um að taka okkur hlutverk sáttasemjara í þessum heimshluta.

Svar:
Þetta er ekki pólitísk síða. Eða þannig.
En heimsóknir landa á milli svo fólk fræðist um lönd og þjóðir og atburði sem það þekkir ekki eru mjög hagstæðar og til góðs. Undibúningur af betra taginu er nauðsynlegur einkum og sér í lagi þegar um opinberar heimsóknir er að tefla.

Í öðru lagi: Hægan. Hægan. Töpum okkur ekki í óraunsæi.

Ísraelar(ekki Ísraelsmenn - það voru hinir fornu.
Nútímaþjóðin heitir Ísraelar. Þetta sagði dr. Þórir Kr. Þórðarson lærifaðir minn í hebresku í guðfræðideild fyrir löngu og taldi rangt að kalla nútímaþjóðina Ísraelsmenn)
fara sem sagt þess yfirleitt á leit, svona í miðju kurteisis- og diplómatiska hjalinu við þá opinberu erlendu gesti sem koma til Ísraels að það væri mjög gott ef þeir gætu komið að e-s konar friðarsamningaumræðum( mikið er ferli ofnotað orð).

Að öðru leyti hef ég áhuga/áhyggjur af því að utanríkisríkisráðuneytið hefur ekki svarað einu orði hvort það ætlar að styðja Jemenverkefnið okkar. Ekki hefur heyrst hósti eða stuna þar að lútandi.
Búið. Tjáið ykkur.

Monday, July 23, 2007

Lausleg drög að Miðasíuáætlun komin inn

Var að setja inn fyrstu drög að ferð til Kyrgistan og Uzbekistan og vona þið kíkið á og látið ganga. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað mikilvægt er að menn sendi slóðina áfram til að sem flestir geti nú fræðst um þessar ferðir okkar.
Ath að ég hef ekki verð enn, það verður að bíða um stund. En hún verður örugglega svipuð og Kákasuslandaferðin var. Þetta sagt með öllum fyrirvara.

Þá ætla ég að minna á maraþonhlaupið og Fatimusjóð. Hafa það bak við bæði eyru.

Við munum opna reikning í Glitni innan tíðar þar sem menn þurfa að eiga reikning þar svo allt sé nú löglegt og í lagi.

Saturday, July 21, 2007

Sjá nú margir eftir Sýrlandi --------

Góðan daginn öll

Bið forláts á því að ég hef ekki sett drög að áætlun inn á Uzbekistan og Kyrgistan enn sem komið er því mig vantar nokkrar gistiupplýsingar. Þar langar mig að hópurinn gisti eina eða tvær nætur meðan verið er í Kyrgistan sérstökum tjöldum eða smáhúsum, heldur óhrjálegum utan að sjá en skilst þau séu hin fegurstu þegar inn er komið. Þau eru kölluð yurt og dæmigerð fyrir -stanlöndin.
Þau eru yfirleitt til sveita og þaðan er svo farið í bátsferð, hestaferðir eða gönguferðir og fylgst með heimafólki baka brauð og fást við handverk. Þetta liggur sem sagt ekki fyrir og þess vegna hef ég ekki sett áætlunina inn en mér sýnist hún í fljótu bragði spennandi.

Nouria skrifaði mér um iðju krakkanna í YERO en þar er líf og fjör þessa sumardaga. Nú taka 40 krakkar þátt í skyndihjálparnámskeiði, ungur jemenskur listnemandi í Frakklandi er með námskeið fyrir 20 börn og um 30 hafa sótt í tölvunámskeið í miðstöðinni eftir að þangað bárust fjórar notaðar tölvur að gjöf.
Hún segir að gríðarleg ásókn sé í að innrita sig fyrir næsta vetur en formleg skráning hefst í ágúst. Biðlistinn hefur heldur betur lengst.
Ég hef fengið fyrirspurnir um hvenær styrktarmenn eigi að greiða fyrir næsta ár og læt fólk vita og geri því skóna að það verði milli 10.-15.ágúst. Það má telja næsta víst að einhverjir krakkar detti út af ýmsum ástæðum en þá eru margir um hvert pláss sem losnar. Læt ykkur vita allt um þetta jafnskjótt og ljóst er hvaða krakkar okkar halda áfram. Vonandi verða það flestir.

Eftirtektarvert er að allmargar fyrirspurnir hafa borist um Sýrlandsferðir eftir að ég greindi frá því að nú yrðu þær ekki fleiri að sinni. Svona er þetta nú og verði veruleg eftirspurn er alltaf hægt að athuga málið.

Reikna með að fréttabréf komi út sirka um miðjan september. Þar verða m.a. efnis hugmyndir að ferðum fyrir árið 2009 því ég sé ekki betur en ferðir næsta árs séu alveg að fyllast.

Mjög trúlegt að Kákasuslöndin verði á dagskrá 2009 en ég hef ákveðið að stytta þá ferð um 4-5 daga. Nánar um það síðar.
Vek athygli á að Egyptaland og Jemen hafa enn laus sæti og skora á ykkur að drífa í málunum.

Munið félagsgjöldin.
Munið minningar- og gjafakortin.
Munið að senda síðuna áfram til skemmtilegra ættingja og vina.

Ekki meira í bili.

Wednesday, July 18, 2007

Góður gestur í haust og fleira fýsilegt.

Sæl öll.
Þessi mynd er frá Libyu en mikil eftirspurn er í þá ferð. Hef sagt ykkur að ég hyggst fara þangað viku í septemberbyrjun og ganga frá endanlegri áætlun fyrir ferðina í október 2008. Gjöra svo vel og láta frá ykkur heyra - þ.e. nýir áhugamenn. Hef ansi digran hóp þegar á lista en má bæta við eða hugsa sér tvær ferðir.

Ferðir ársins 2008 eru óðum að fyllast: get bætt við í Egyptalandsferðina, Íransferðin er uppseld en skrifa á biðlista. Nokkrir geta komist í Jemen/Jórdaníu með vorinu. Vinsamlegast hafið samband.

Eins og áður hefur komið fram boðum við til myndakvölds Kákasusfarar fljótlega eftir verslunarmannahelgi og Ómanhópur hittist vonandi um svipað leyti til skrafs og ráðagerða.
Þá er ástæða til að fagna því að margir hafa tekið þeirri áskorun vel að greiða árgjaldið og vonandi verða enn fleiri sem drífa í því. Minni aftur á reikninginn 1151 26 2443 og kt. 441004-2220.

Mér finnst sömuleiðis gaman að segja frá því hversu rösklega menn hafa tekið við sér í gjafa og minningarkortamálum. Bara hringja í mig eða senda mér póst. Ef ekki er svarað er ráð að senda til Gullu, gudlaug.petursdottir@or.is
Það væri gaman að því að koma kortunum á nokkra staði aðra og ef einhverjir hafa aðstöðu til þess væri það stórgott.

Þá væri ráð að senda Helgu Þórarinsdóttur kærar kveðjur okkar í tilefni merkisafmælis hennar 14.júlí sl. Hún var akkúrat að skrá sig í Libyuferðina.
Þá eru þau tíðindi gagnmerk að við höfum lagt drög að Nouria Nagi forstöðumaður og frumkvöðull YERO í Sanaa komi hingað í lok september. Meiningin er að kynna verkefnið -þ.e. kaup á nýrri og stærri miðstöð og hana langar að hitta einnig fleiri úr styrktarmannahópnum og mætti hugsa sér að hafa einnig annan fund þar sem verkefnið og almenn starfssemi YERO yrðu kynnt rækilega.
Ég vona mönnum lítist vel á þetta.

Þakka Fríðu Björnsdóttur góða umfjöllun í sunnudagsblaði Moggans. Hún hefur vakið verulega athygli.
Og svo hefur Fatimusjóður grætt nokkur þúsund auka á þessari grein: ég fór til augnlæknisins míns góða, Haraldar í dag að láta plokka hluta af saumum úr auganu og hann tók ekkert gjald og sagði mér að láta það renna í sjóðinn. Þetta var til eftirbreytni.

Monday, July 16, 2007

ÞETTA VERÐA ALLIR AÐ LESA VANDLEGA

Hér er mikilvæg orðsending:

Númeri á ferðareikningi hefur verið breytt og er nú

1151 15 551346 og kennitala 441004-2220

Athuga að þessi reikningur er EINGÖNGU til að borga inn á ferðir

Nokkrir í Ómanferð sem greiða nú reglulega vegna ferðarinnar í október eru beðnir sér í lagi að hafa þetta í huga því gamla reikningnum hefur verið lokað. Það var ekki æskilegt að hafa reikninginn á minni kennitölu svo ég ákvað að breyta þessu og allt er það nú frágengið.

Mun senda nokkrum ferðafélögum sem eru ekki með netfang upplýsingar í pósti um þetta á morgun svo allt verði nú í góðu lagi.

Þetta verður einnig sett inn á aðrar ferðir sem eru á næsta ári, þ.e. Egyptaland, Íran og Jemen/Jórdanía.

ÁRÍÐANDI AÐ HAFA ÞETTA HUGFAST

HVERNIG VÆRI AÐ GREIÐA FÉLAGSGJÖLDIN?

ÁRGJALDIÐ ER ENN 2000 krónur. Varla baun í bala en okkur munar um það.
Reikningsnúmer er 1151 26 2443 og kt. 441004-2220.

Á reikningsárinu í fyrra voru skil góð og stjórnin gat lagt í Jemenverkefnið og flóttamannabúðamálið í Líbanon 60 þús.
S.l. ár gekk ekki eins vel. Kannski er það líka okkur í stjórninni að kenna og erum ekki nógu rösk að reka á eftir greiðslu.
Sem sé Hvernig væri að gera það eigi síðar en núna?
Takk kærlega. Meira fljótlega.

Friday, July 13, 2007

Lítil sólskinssaga.

Ég verð að segja ykkur litla fallega sögu:

Í ferðinni til Jemen/Jórdaníu s.l. vor hitti m.a. Ólöf Arngrímsdóttir "fósturstúlkuna" sína til tveggja vetra, hana Abír og urðu fagnaðarfundir eins og sjá má.

Ólöf spurði Nouriu hvernig Abír stæði sig óg fékk þau svör að henni hætti til að skrópa og hún væri vel gefin og ætti að geta náð miklu betri árangri.
Ólöf tók loforð af Abír að taka sig á.

Að beiðni Ólafar hafði ég samband við Nouriu um stúlkuna og spurði hvernig þetta hefði farið: fékk þetta dægilega svar að frá því Abír hitti Ólöfu hefði sú stutta ekki dregið af sér, alltaf mætt í skólann og komið vel undir búin og tekið þeim framförum sem væru lyginni líkastar.

Mig langaði bara að segja ykkur þetta því mér finnst þetta einnig vitnisburður um hvað það hefur örvandi áhrif á krakkana að hitta sitt styrktarfólk augliti til auglitis.

Thursday, July 12, 2007

Ég sjóræninginn

Ætlaði að setja inn drög að áætlun Uzbekistan og Kyrgistan en þar sem ég er eineygð í bili og doltið lengi að skrifa á meðan ég er að venjast þessu, læt ég það bíða.

Er viss um að aðdáendur mínir- þeir eru örugglega einhvers staðar í felum - ættu að sjá mig!
Var sem sagt að koma úr duggulitlum uppskurði á hægra auga og umbúðirnar eru virkilega flottt. Einhver snúningur á einhverju í auga varð til þess að ljúflingurinn Haraldur Sigurðsson dreif´í að laga þetta. Svona á ég að vera næstu tvo sólarhringa og mikið er ég fegin því að manneskjan skuli hafa tvö augu.

Vinkona mín og tæknistjórinn Elísabet Ronaldsdóttir sem klippti Mýrina vel að merkja og fær einstaklega lofsamlega dóma í Tékklandi sótti mig eftir "aðgerðina".Mnnstu munaði að bílar keyrðu út og suður þegar ökumönnum varð litið inn í bílinn og sáu sjóræningjann eineygða. sitja þarna í framsætinu. Því miður var Elísabet ekki með vél á sér annars hefði verið kjörið að setja mynd inn af mér. Ég er virkilega myndræn í augnablikinu.

Altjent: Set inn beinagrind að áætluninni um helgina ef guð lofar.

Þá hittumst við VIMAstjórn í gær hér á Drafnarstíg og lögðum drög að hernaðaráætlun fyrir fjársöfnun vegna nýrrar YERO byggingar í Sanaa. Við setjum félaga inn í það nánar þegar þetta er aðeins lengra komið.

Ekki meira í bili. Nú held ég að væri ráð að leggja sig stund!

Monday, July 9, 2007

Petra

Mér er sönn ánægja að tilkynna VIMA félögum og öðrum áhugamönnum okkar að galdrastaðurinn Petra í Jórdaníu hefur verið valinn einn af sjö undrum veraldar í nýrri atkvæðagreiðslu. Mjög að verðleikum eins og ég efa ekki að allir séu einróma um. Þegar síðasti hópur var í Jórdaníu var okkur sagt frá þessari "kosningabaráttu" og ég veit til að allmargir drifu sig í að kjósa Petra.
Ég er ekki viss um hversu oft ég hef komið til Petra. Fyrsta skiptið var í byrjun nóvember 1980 þegar ég fór í fyrsta skipti til Arabalands. Þá bjuggu bedúínar enn inni í borginni, uppi í hellunum sem flestir eru raunar gömul grafhýsi frá tímum Nabatea.
Þá var maður fimur á fæti svo ég klifraði upp í klettana og var boðið í tedrykkju hjá bedúínakonu og börnum hennar(vísa til kafla í bókinni minni Fíladans og framandi fólk) þar sem er mynd frá þessum merka atburði). Síðan hafa allir verið fluttir burtu og reist þorp fyrir þá sem bjuggu í borginni, það er ekki ýkja langt frá staðnum þar sem farið er inn í Litlu Petra.

Myndin sem birtist hérna með var tekin í maí s.l. af Ingu Jónsdóttur. Þar sést vagninn með Sveini Haraldssyni og Veru Illugadóttur rétt kominn gegnum skarðið.

Þakka miklar og góðar undirtektir við nótu sem ég sendi til flestra sem eru á póstlista og mun svo birta hvar eru laus sæti fljótlega. En þið getið alltaf haft samband um málið og stundum er svo sem hægt að bæta við þegar skemmtilegt og fróðleikfúst fólk á í hlut.

Verið svo hjartanlega blíð að láta síðuna ganga.

Seinna í vikunni verða einnig skýrð plön um Jemenverkefnið okkar og fljótlega settur inn hlekkur um Uzbekistan og Kyrgistan.

OK Þorsteinn Máni var að setja upp reykskynjara fyrir mig og nú var Kristjón Kormákur að mæta á svæðið svo það er eins gott ég er enn í peysufötunum. Heyrumst

Wednesday, July 4, 2007

Hlaupið, skokkið fyrir Fatimusjóð á menningarnótt

Ástkæru félagar

S.l. ár hefur Glitnir styrkt maraþonhlaup menningarnætur og nú var þeirri hugmynd stungið að okkur að ef til vill gætum við fengið þar inni fyrir Fatimusjóð og séð til hvort einhverjir félagar og aðrir góðvildarmenn okkar vildu taka þátt í þessu, hlaupa, skokka og/eða heita á sjóðinn.

Starfsmenn Glitnis sem sjá um þetta hafa sent mér upplýsingar sem sjá má inn á sérstökum línk hérna til hliðar sem Vera var að enda við að setja inn og heitir "Maraþon á menningarnótt." Þar geta menn lesið sér til um hvernig þetta gengur fyrir sig.

Ég er viss um að VIMA félagar taka nú fram hlaupaskóna og leggja góðu málefni lið. Ekki er nauðsynlegt að sprengja sig í hlaupinu, skemmtiskokk eða hálft maraþon; bara að vera með.
Má ég biðja ykkur að ígrunda þetta og taka þátt í því? Eða með áheitum á einhverja sem þið vitið að hyggjast spretta úr spori.

Í leiðinni skal svo tekið fram að við VIMA stjórnarkonur ætlum að hittast í næstu vikur og bera saman bækur okkar varðandi aðra fjáröflun. Í ágústmánuði miðjum eða svo er komið að því að leita til styrktarmanna Jemenbarnanna okkar og ég hef á tilfinningunni að flestir vilji styðja sín börn áfram ef þeir mögulega geta? Og vonandi getum við stækkað styrktarmannahópinn.

Frekari fréttir af Jemenverkefninu okkar verða svo settar inn á síðuna þegar við stjórnarkonur höfum ráðið ráðum okkar.

Nouria segir mér að það sé líf í tuskunum hjá YERO þessa dagana því leikjanámskeið eru hafin og garðurinn er fullur af börnum að leik, undir stjórn sjálfboðaliða, upp á hvern dag. Enn stendur saumanámskeiðið yfir og er dyggilega mætt á það.

Nýlega fékk YERO fjórar tölvur svo að ekki var beðið boðanna og efnt til tölvunámskeiðs sem hefur orðið ákaflega vinsælt.
Það er örugglega mikil ánægja hjá foreldrum krakkanna líka að vita að þau eru á góðum og uppbyggilegum stað á daginn og síðast en ekki síst að þau fá að borða reglulega. Það er ekki sjálfgefið í Jemen.

Enn minni ég á gjafa- og minningarkortin. Ætla að biðja tæknistjórann Elísabetu Ronaldsd eða aðstoðartæknistjórann Veru Illugad. að búa til sérstakan link fljótlega þar sem allar gerðir kortanna verða til sýnis.

En sem sagt: muna að hlaupa á menningarnótt. Málefnið er gott og hreyfingin holl.

Til Íranfara: Það er nauðsynlegt að áhugamenn um Íranferðina um næstu páska hafi samband - þ.e. þeir sem hafa látið í ljósi áhuga en ekki skráð sig því ferðin er mjög eftirsótt. Þessu er sem sagt beint til þeirra sem ekki hafa endanlega gert upp hug sinn. Ég þarf öll þau nöfn MJÖG fljótlega.

Monday, July 2, 2007

Áhugi á miðasíuferðinni og fleira gúmmulaði.

.
Markaðsfreyjur í Samarkand Efri mynd
Lafðir í Bishkek í Kyrgistan.Neðri mynd
Það var rétt eins og við manninn mælt: ég varpaði fram þessari hugmynd um ferð til Uzbekistan og Kyrgistan og viðbrögð létu ekki á sér standa. Gaman að því og takk fyrir og vonandi heyri ég frá fleirum. Þetta er allt á rannsóknarstiginu.
Þá hafa önnur merk tíðindi gerst: nú hafa yfir 50 þúsund gestir komið á síðuna en með öllum heimsóknum töldum eru þeir tæplega 89 þúsund.
Nú eru Ómanfarar að borga og hvet þá til að greiða á réttum tíma. Mig vantar vegabréfsnúmer og útgáfuár og gildistíma nokkurra: Kristínar Jónsd, Ernu Tryggvad, Ólafar Bjargar og Eilífs Björnssonar. Vinsamlegast senda mér þau. Held ég hafi önnur númer.
Eins og áður er minnst á munum við hittast í ágúst og hjala saman um ferðina til þessa undra og flauelislands sem Óman er. Að ekki sé nú minnst á fólkið þar.
Svo vil ég leyfa mér að minna ykkur á gjafakort og minningarkortin sem eru mjög falleg og öllu fremur þó: málstaðurinn er góður. Þið getið séð sýnishorn af kortunum á síðunni fyrir nokkru. Fleiri tegundir í boði.
Er að bauka við að ganga frá rannsóknarferðinni minni, hinni seinni, til Libyu nú í september. Gæti verið að ég notaði tækifærið og brygði mér til Eritreu í sömu ferð. Þangað ætlaði ég alltaf að fara þegar ég bjó í Egyptalandi um árið en varð aldrei af.