Ástkæru félagar
S.l. ár hefur Glitnir styrkt maraþonhlaup menningarnætur og nú var þeirri hugmynd stungið að okkur að ef til vill gætum við fengið þar inni fyrir Fatimusjóð og séð til hvort einhverjir félagar og aðrir góðvildarmenn okkar vildu taka þátt í þessu, hlaupa, skokka og/eða heita á sjóðinn.
Starfsmenn Glitnis sem sjá um þetta hafa sent mér upplýsingar sem sjá má inn á sérstökum línk hérna til hliðar sem Vera var að enda við að setja inn og heitir "Maraþon á menningarnótt." Þar geta menn lesið sér til um hvernig þetta gengur fyrir sig.
Ég er viss um að VIMA félagar taka nú fram hlaupaskóna og leggja góðu málefni lið. Ekki er nauðsynlegt að sprengja sig í hlaupinu, skemmtiskokk eða hálft maraþon; bara að vera með.
Má ég biðja ykkur að ígrunda þetta og taka þátt í því? Eða með áheitum á einhverja sem þið vitið að hyggjast spretta úr spori.
Í leiðinni skal svo tekið fram að við VIMA stjórnarkonur ætlum að hittast í næstu vikur og bera saman bækur okkar varðandi aðra fjáröflun. Í ágústmánuði miðjum eða svo er komið að því að leita til styrktarmanna Jemenbarnanna okkar og ég hef á tilfinningunni að flestir vilji styðja sín börn áfram ef þeir mögulega geta? Og vonandi getum við stækkað styrktarmannahópinn.
Frekari fréttir af Jemenverkefninu okkar verða svo settar inn á síðuna þegar við stjórnarkonur höfum ráðið ráðum okkar.
Nouria segir mér að það sé líf í tuskunum hjá YERO þessa dagana því leikjanámskeið eru hafin og garðurinn er fullur af börnum að leik, undir stjórn sjálfboðaliða, upp á hvern dag. Enn stendur saumanámskeiðið yfir og er dyggilega mætt á það.
Nýlega fékk YERO fjórar tölvur svo að ekki var beðið boðanna og efnt til tölvunámskeiðs sem hefur orðið ákaflega vinsælt.
Það er örugglega mikil ánægja hjá foreldrum krakkanna líka að vita að þau eru á góðum og uppbyggilegum stað á daginn og síðast en ekki síst að þau fá að borða reglulega. Það er ekki sjálfgefið í Jemen.
Enn minni ég á gjafa- og minningarkortin. Ætla að biðja tæknistjórann Elísabetu Ronaldsd eða aðstoðartæknistjórann Veru Illugad. að búa til sérstakan link fljótlega þar sem allar gerðir kortanna verða til sýnis.
En sem sagt: muna að hlaupa á menningarnótt. Málefnið er gott og hreyfingin holl.
Til Íranfara: Það er nauðsynlegt að áhugamenn um Íranferðina um næstu páska hafi samband - þ.e. þeir sem hafa látið í ljósi áhuga en ekki skráð sig því ferðin er mjög eftirsótt. Þessu er sem sagt beint til þeirra sem ekki hafa endanlega gert upp hug sinn. Ég þarf öll þau nöfn MJÖG fljótlega.
Wednesday, July 4, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Góð hugmynd, sem vonandi skilar af sér góðum arði til uppbyggingar.
Góðar kveðjur,
Inga Jóns
Post a Comment