Friday, February 26, 2010

Bændaferðaferðin í haust er uppseld--muna afmælisbók


Frá gamla markaðnum í Damaskus

Góðan daginn
Það er gaman að segja frá því að Bændaferðaferðin til Líbanons og Sýrlands næsta haust er uppseld. Ferðin er frá 30.sept-14.okt. Fékk lista yfir þátttakendur áðan og sé þar mér til ánægju nokkra félaga úr VIMA ferðum. Mér skilst að menn geti skráð sig á biðlista þar sem enn er langt í ferðina.

Okkar ferð á þessar slóðir er í fína lagi og brátt mun ég senda til allra smábréf. Öllum greiðslum er lokið og allt í stakasta.

Nokkrir íhuga greinilega ferðir og spyrjast fyrir um hitt og annað og ég skrifa það niður allt saman en best væri ef menn söfnuðu sér saman og tækju ákvörðun, þá væri unnt að halda málinu áfram.

Þá vil ég náttúrlega minna á afmælisbókina en fyrstu eintök verða tilbúin 3/3. Þá verður haft samband við sem allra flesta sem greitt hafa og byrjað að senda bækur út á land og til útlanda.
Undirtektir hafa verið ákaflega góðar, um 318 hafa skráð sig þegar þetta er skrifað og nokkrir kaupa fleiri en eina bók, gaman að því. Og ég þakka Birnu Karlsd sérstaklega fyrir hvað hún hefur verið ötul og sent á samstarfsfélaga sína. Það er sniðug hugmynd sem hefur skilað sér vel.
Einnig hefur Hrafn verið snöfurlegur í þessu og safnað hópi áskrifenda.
Vona að allmargir greiði í dag en nú hafa um 238 greitt, sem eru ágætis heimtur.

Illugi ætlar að senda Facebookvinum sínum bréf um helgina og fleira mætti nefna. En allmargir VIMA félagar sem ég reiknaði með að tækju undir sig stökk eru enn fjarri.
Vinsamlegast sendið mér póst og pantið eintak! Allt í Fatimusjóð og við gætum keypt húsið sem bíður okkar og virðist ákjósanlegt í alla staði.

Við Gulla Pé gerum svo veglegan lista um helgina sem mun fylgja bókinni.Byrjum að vinna í því þegar Gulla er búin í vinnunni í dag.

Munið sem sagt reikningsnúmerið 342 13 551212 og kt. 1402403979, 5 þús. kr. Vonast til að hátt í 500 bækur geti farið út í næstu viku en það tekst náttúrlega aðeins með ykkar hjálp.

Nú ætlum við Eyðimerkurljónið út að sinna erindum og hlakka til að fagna nýjum áskrifendum þegar ég kem aftur seinna í dag. En gleymi heldur ekki að þakka þeim mörgu sem hafa skráð sig og flestir borgað. Það gleður mig sannarlega.

Tuesday, February 23, 2010

Afmælisbókarlisti kominn á sérhlekk hér til hliðar

Mín ágætu

Tæknistjórinn setti sérstakan hlekk fyrir áskrifendur afmælisbókarinnar en nú bætast við 10-30 á hverjum degi svo hann verður uppfærður reglulega.
Bið þá sem hafa skrifað sig að athuga listann og hvort þeir eru ekki örugglega á honum.

Við Gulla pé ætlum að útbúa sérstakan og fallegan lista sem fylgir bókinni yfir þá sem gerast áskrifendur.

Það er þegar orðinn marglitur hópur, og vítt og breitt um heiminn verður bókin send því pantanir hafa borist frá ýmsum Norðurlöndum, Þýskalandi, Ítalíu, Bandaríkjunum, Sviss og Ástralíu og ég vona að við getum bætt hressilega við, náð allavega 500 þegar listinn verður útbúinn.

Bæði Hrafn og Illugi veita ötult liðsinni, svo og Birna Karlsd, Elísabet Ronaldsdóttir og fleiri.

Um það bil tveir/þriðju hafa þegar greitt, takk fyrir kærlega og ég reikna með að aðrir geri það um mánaðamót.

En á þennan lista vantar marga sem ég vona að verði með.
Greinarnar í bókinni eru skemmtilegar, fróðlegar, fyndnar og allt þar á milli. AUk þess myndir af flestum sem koma við sögu og raunar langtum fleiri.

Prentmet segir mér að fyrstu eintökin verði afhent 3/3.Það er ansi flott dagsetning.

Og svo bið ég um liðsinni ykkar og vonast til að heyra frá þeim sem skína á listanum og þeirra sem skína með því að vera ekki þar. En úr því má öllu saman bæta.

Munið jemen@simnet.is

Thursday, February 18, 2010

Leyndarmál Jóhönnu


Ef þið ýtið músinni á kápuna stækkar hún og verður þá læsileg baksíðan þar sem nöfn höfunda eru talin upp.

Eins og fyrr hefur komið fram gerir Vera Illugadóttir kápuna. Ljósmynd á kápusíðu tók Óskar Ægir Benediktsson í páskaferðinni til Íran í fyrra

Áskrifendasöfnunin gengur takk bærilega en ég þarf endilega að heyra frá fleiri vinsamlegum félögum svo dæmið smelli og afrakstur skili sér.

Mér þætti því afar vænt um ef þeir sem þegar hafa gerst áskrifendur reyni að draga 1-2 með í þetta og láti mig vita sem fyrst því bókin nálgast nú eins og óð fluga. Sömuleiðis vil ég biðja þá sem hafa EKKI gert upp bókina að greiða hana við fyrstu hentugleika. Þar sem mánaðamót nálgast veit ég að sumir ætla að gera upp þá.

Muna að láta kennitölu koma fram við greiðslu. Læt svo alla hersinguna vita jafnskjótt og bókin er tilbúin til afhendingar.

Sjá reikningsnúmer hér í næsta pistli.

Afmælisbókin---Nassim, stúlkan sem ég styrki í Jemen og JK. Nassim hefur náð miklum árangri í tölvukúnst, og meðal helstu hugsjónamála hennar er að berjast gegn gattneyslu í Jemen.

Sæl veriði öll

Seinna í dag munum við gera upp við prentsmiðjuna fyrir bókina! En bjartsýni mín er svo mikil að ég vonast til að þegar allir hafa skráð sig sem vilja leggja málinu lið og gert upp þessar 5 þús. kr getum við verið með í höndunum 4 milljónir.En þá þurfa líka allir að hjálpast að og á það treysti ég.

Drjúgur slatti hefur þegar greitt en nú verðum við að taka betur á. Þakka mikið vel þeim sem hafa greitt og bið menn að afla fleiri áskrifenda.

FJÓRAR MILLJÓNIR gætu ráðið úrslitum um hvort við getum keypt nýju stöðina og búið hana þeim tækjum og tólum sem ég tel að þurfi að leggja fram.

Svo er ég viss um að margir vilja hjálpa. Málefnið er gott og þarft og ég er full eftirvæntingar að segja Nouriu frá þessu en vil ekki gera það fyrr en málin skýrast.

Bið ykkur að hafa í frammi blíðlegan áróður, skrá ykkur fyrir bókinni og borga hana sem skjótast.

Hún kemur út eftir viku og þá verða allir látnir vita. Hún verður send til þeirra úti á landi sem hafa pantað og borgað og mun reyndar fara víðar, því ein pöntun er komin frá bekkjarsystur minni í Ástralíu!
En fyrst og fremst treysti ég á VIMA félaga og veit þeir vippa sér í málið hið fyrsta.
Minni enn á reikninginn 342 13 551212 og kt. 1402403979.

Monday, February 15, 2010

Svipmyndir úr afmæli JK í gær


Ljósm. Vera Illugadóttir

Hér eru nokkrar svipmyndir úr afmælinu JK sem efnt var til í félagsheimili Neskirkju í gær í tilefni þess að mér tókst að fylla sjöunda tuginn.
Á efstu mynd fylgjast nokkrir gestanna með danssýningu Elísabetar Jökulsdóttur sem sýndi konu halda uppi heiminum. Sýningin gerði forkunnarmikla lukku

Á næstu mynd má sjá sýnishorn af krásum sem voru á boðstólum. Veitingastjórarnir Jóna Einarsdóttir og Edda Ragnarsdóttir skipulögðu það með miklum glæsibrag. Hrafn Jökulsson og fjölskylda sem kom úr Trékyllisvík með randalínur, kleinur, rúllupyslur ofl frá myndarfrúm í Árneshreppi, Þorgils Baldursson, bakaði bollur, Hildur Bjarnadóttir lagði með sér á borð, brauðrétti, Sirrý Hjaltested ostakökur og góðmeti, Herdís Kr rækjurétti, Borgarfjarðarstúlkur komu færandi hendi með Fatímukökur, osta og fleira góðmeti og smurðu auk þess flatkökur og rúgbrauð í mannskapinn, Elín Skeggjadóttir, Gulla Pé, Valgerður Kristjónd, Kristjón Kormákur,Þóra Jónasd, Guðrún S. Gísladóttir, Stella Jóhannsdóttir, Guðlaug Jónasdóttir og margir, margir fleiri að ógleymdum Jónu og Eddu komu með kræsingar af öllu tagi og rann allt ljúflega niður með kaffi, tei, gosi eða kókómjólk.

Á þriðju myndinni var Elísabet Ronaldsdóttir kölluð upp til að fara með borðbæn eins og við hæfi þótti

Á fjórðu mynd eru veislustjórarnir Máni, Jökull og Garpur sem stýrðu samkomunni af hinni mestu glettni og þó fullri ábyrgð.

Á neðstu mynd erum við Vera Illugadóttir, sem tók annars allar myndirnar.

Afmælið fór listavel fram, held ég megi segja. Á þriðja hundrað manns mættu og áttu saman góða stund. Margrét Pála las upp kafla sem hún skrifar í bókina Leyndarmál Jóhönnu sem ég keppist nú við að safna áskrifendum að og hið sama gerði Illugi Jökulsson. Jón Helgi Hálfdanarson talaði og ekki má gleyma að minnast aftur á dans Elísabetar.
Árni Ísleifsson spilaði á píanó, fólki til yndis og menn skröfuðu og skemmtu sér og kýldu sig út af öllu góðmetinu.

Góður slatti skráði sig áskrifendur eða greiddi bara beint, en má þó miklu betur ef duga skal og ég er hér einn ganginn enn með reikningsnúmerið 342 13 551212 og kt 140240-3979.
Þá fékk ég nokkra blómvendi og smágjafir að auki, m.a. gullsokka sem koma sér vel í eyðimerkurferðum, stjörnuspárkort sem sýnir að ég er einstaklega unaðsleg manneskja og einnig bárust hlýjar og notalegar kveðjur frá ýmsum sem voru fjarstaddir/erlendis og er þakkað fyrir hjartanlega fyrir þetta allt.

Þarna hittust gömul skólasystkini, allt frá því í barnaskóla, kvennaskóla og MR, fjölskyldumeðlimir, systkina og bræðrabörn, ferðafélagar og gamlir samstarfsmenn mínir auk nokkurra vina.

Ekki má gleyma að mér var síðan færð önnur afmælisgjöf frá niðjatalinu sem sýnir þau öll og var myndin tekin við Drafnarstíg í desember sl. þegar ég var í Sýrlandi. Einstaklega fríður og fjölmennur hópur sem er ástæða til að vera stoltur af.

Annars voru ræðuhöld ekki leyfð nema ég fékk náðarsamlegast að segja örfá orð til að lýsa ánægju minni með það að sjá allt þetta góða fólk sem kom þarna til að fagna hinum merka áfanga.

Wednesday, February 10, 2010

Útskriftarveisla hjá Yero

Mynirnar hér að ofan sendi Nouria mér í gær og sýnir miðsvetrarprófsútskriftarfagnað einkum eldri krakkanna sem luku vel heppnuðu tveggja vetra sérstöku tölvunámi á dögunum. Var slegið upp veislu af því tilefni og talsmenn krakkanna gerðu könnun í sínum hópum um hvernig búninga þau langaði til að klæðast og konurnar sem eru í fullorðinsfræðslunni, skilst mér að hafi saumað þá en efnið fékkst fyrir lítinn pening hjá innflytjenda.

Það er augljóst að krakkarnir eru hinir hreyknustu en það eru flest eldri barnanna okkar sem hafa notið stuðnings öll árin sem gátu þreytt tölvuprófið. En það er líka augljóst á hinni myndinni - en ýmsum gestum var boðið til athafnarinnar- að þrengslin eru ofboðsleg og því gæti það gert gæfumuninn ef okkur tækist að krækja í það hús sem við höfum fengið augastað á og ég hef áður minnst á.

Rétt er að taka fram að takist vel til með sölu afmælisbókarinnar sem krakkarnir mínir eru nú að gefa út, mun skila sér það sem á vantar.
Munið því að veita liðsinni og gerist áskrifendur - og allmargir hafa þegar gert það og meira að segja snarað inn greiðslu. Verðið er 5 þús. og reikningsnúmerið er 342 13 551212 og kt 1402403979. Athuga að ykkar kennitala þarf að koma fram. Í síðasta pistli sagði ég smávegis frá bókinni og hverjir skrifa í hana.
Handrit fór i prentun í morgun og verður vonandi til í næstu viku eða rúmlega það. En þó svo góður afsláttur sé veittur og alls konar vinna innt af hendi þarf auðvitað upp í kostnað áður en hagnaður fer að skila sér.

Svo vonast ég til að heyra frá ykkur og þakka þeim sem þegar hafa lagt greiðslu inn á reikninginn.

Saturday, February 6, 2010

Muna- muna- áríðandi orðsending- tilnefning


Safnið til minningar um Khalil Gibran í Líbanon
Sæl veriði

Líbanons/Sýrlandsfarar hafa að mestu lokið greiðslum. Eða látið mig vita að hún komi eftir helgi. Gott mál og bestu þakkir.

Það er stundum vesen að fá peninga yfirfærða á þessum síðustu tímum en eftir athyglisverð átök mín við regluvörð Arionbanka fyrir nokkru hefur það gengið eins og í sögu. Ferðin er af minni hálfu nú fullgreidd.

Ein breyting verður sem þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af: við breytum um hótel í Palmyra og verðum þar á nýju og töluvert fínna hóteli. Það er systurhótel Semiramis
í Damaskus og er nýtt og vonandi ágætt eða vel það.

Í tilefni af því að ég á merkisafmæli þann 14.febrúar, verð 70 ára- sem mér finnst ansi góður brandari- eru börnin min að gera litla bók um afmælisbarnið. Þau hafa pukrast með þetta af mikilli snilld en þurftu að vísu að leita til mín varðandi upplýsingar og myndir og fleira svo ég er byrjuð að átta mig á hvernig bók þetta er:pistlar sem ýmsir samferðarmenn mínir á ýmsum tímum hafa skrifað. Auk þess fékk ég svo að skrifa um Fatímusjóðinn og börnin okkar í Jemen.

Meðal þeirra sem skrifa i bókina auk niðjatalsins er Margrét Pála Ólafsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Pétursson, Edda Ragnarsdóttir,Elín Skeggjadóttir, Hildur Bjarnadóttir, Þóra Kristjánsdóttir, Vilborg Sigurðardóttir, Mörður Árnason, Elísabet Ronaldsdóttir, Sigríður Ásgeirsdóttir, Kristín Thorlacius, Ásdís Halla Bragadóttir, Martin Hamelink,
Stella Jóhannsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Fríða Björnsdóttir, Elín Agla Brim, Anna Bjarnadóttir, Stefanía Khalifeh, Valgerður Kristjónsdóttir, Bragi Kristjónsson og Björn Bjarnason.

Mikill fjöldi mynda er í bókinni sem Vera S. Illugadóttir hefur leiáterað af stakri kúnst.

Þetta gæti orðið athyglisverð bók, vona ég og kannski bara skemmtileg. Þar sem ég vil ALLS EKKI afmælisgjafir eða blóm-fáránlegt þegar fólk á þessum aldri og ég kemst senn á- telur sig þurfa nokkra vasa eða styttur - þá bið ég VIMA félaga sem vilja festa kaup á þessari bók- hún mun kosta 5 þús. kr. - að leggja upphæðina inn á Fatimusjóðsreikninginn 342-13-551212 og kt 140240-3979.

Þar sem þetta hefur þegar spurst dálítið út innan VIMA hafa nokkrir þegar gerst áskrifendur og gleðilegt mál það.

Ég bið ykkur lengstra orða að láta kennitölu ykkar koma fram þegar greitt er svo unnt verði að senda bókina. Tveir hafa þegar greitt án þess að kennitala komi fram svo ég set bankann í það eftir helgi að finna út úr því.

Mér sýnist augljóst að ekki takist að koma bókinni út fyrir afmælið sjálft en mjög fljótlega upp úr því og hér með er því óskað eftir áskrifendum.

Tæknistjórinn tilnefndur til Edduverðlauna
Þá langar mig að segja ykkur að tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir hefur hlotið tilnefningu til Edduverðlauna fyrir klippingu myndarinnar Desember. Elísabet fékk þessi verðlaun í fyrra og festir sig æ rækilegar í sessi sem besti kvikmyndaritstjóri- eða klippari- sem við eigum og getum verið stolt af því.

Fyrirlestrar og ferðaáhugi
Stanslaust fyrirlestrahald hefur verið um arabalönd og önnur Miðausturlöng og verður svo út febrúar. Margir viðra ferðaáhuga við mig, einkum er Jemen og Íran nefnt. Skrifa það niður en aðhefst ekkert fyrr en ákveðnum fjölda er náð eins og margoft hefur komið fram. Eins og ég minntist á reikna ég með að skreppa til Jemen þegar hrinunni lýkur í febrúarlok og skoða þar hús sem ræðismaður okkar í Jemen hefur fundið og eru á viðráðanlegu verði- ég tala nú ekki um ef drjúgur skildingur kemur inn fyrir bókina.

Gott í bili og hlakka til að taka á móti sem flestum bókapöntunum.