Friday, November 30, 2007

Stórgjöf í Fatimusjóð


Mig langar að segja ykkur frá því að Margrét Pála Ólafsdóttir, frumkvöðull Hjallastefnunnar varð fimmtug í s.l. mánuði. Hún afþakkaði gjafir en starfsfólk Hjallastefnu safnaði fjárupphæð og færði henni.
Margrét Pála hefur nú sagt mér að þessi upphæð sem er hvorki meira né minna en 600 þús. krónur muni renna til Fatimusjóðsins.

Stundum verður maður orðlaus af gleði yfir þvílíkri hugsun og rausn. Og segir bara takk hjartanlega.
Þetta hvetur okkur til dáða. Það verður ánægjulegra en orð fá lýst að segja Nouriu frá þessu þegar ég hitti hana í Jemen á næstunni.

Við í "framkvæmdanefnd" kvennanna sem ætlar að taka þátt í að hjálpa Nouriu að festa kaup á nýju húsi hittumst í morgun á kaffi/tefundi. Í henni sitja Margrét Pála, Helga Sverrisdóttir og ég. Við munum boða alla nefndina svo til fundar snemma í janúar. Ýmsar frjóar og gagnlegar hugmyndir voru ræddar og ákveðið að við gæfum okkur veturinn til að afla þess sem þarf.

Þá þakka ég fyrir undirtektir við kortunum. Hef póstað til allra sem hafa pantað og hvet menn til að láta í sér heyra. Vonandi seljum við þau öll. Leggja upphæðina svo inn á Fatimusjóðsnúmerið 1151 15 551212, kt. 1402403979.

Thursday, November 29, 2007

Hvar er Maher? Íranfarar ákveði herbergjamál


Stórkostlega Sio Seh Pole brúin í Isfahan

Sæl í svalanum
Fékk áðan fyrirspurn frá stýrunni okkar í Íran og hún þarf senn að fá fullskapaðan herbergjalista.
Þeir sem vilja eins manns herbergi og hafa ekki látið mig vita, ættu því að tjá mér vilja sinn fljótlegast. Greiðsla fyrir eins manns borgast með síðustu greiðslu.
Sé að Íranfarar eru snöggir að reiða fram desembergreiðslu og þakka fyrir.

Eins og fram hefur komið áður er ferðin fullskipuð og við munum nota Lufthansa til og frá Teheran. Sem er prýðilegt. Þeir þurfa nafnalista eftir rúma viku svo Íranförum er ekki til setunnar boðið. Þarf að biðja þá að senda mér kennitölur sínar hið fyrsta. Hef sumar en aðrar ekki.

Enn vantar svör frá nokkrum Egyptalandsförum hvort þeir mæta á fundinn 8.des.
Á mínútunni kl. 14. Hef hottað á fólk og vonast til að fá svör frá þeim síðustu ekki seinna en næsta mánudag.

Svo er ég með kveðjur í búntum: til þeirra Jórdaníufara sem hafa kynnst Sami, okkar indæla leiðsögumanni þar. Frá Pezhman í Íran en hann fáum við nú aftur sem betur fer. Og Mohamed í Jemen biður að heilsa. Býst við að hitta hann ´þegar ég skrepp til Jemen nú 9.des. Allir þessir náungar biðja að heilsa. Það er öllu dularfyllra með hinn nýgifta Maher okkar í Sýrlandi, hann virðist svo upptekinn af - ja, væntanlega hjónabandsmálum sínum- að frá honum hefur ekki heyrst í háa herrans tíð.

Nokkrar undirtektir við jólakortunum en ég á nóg enn. Hafið samband plís.

Nú ætla ég að skunda upp í Háskóla og tala um islam hjá MBA nemendum Ingjalds Hannibalssonar en þetta er þriðja árið í röð sem hann biður mig koma og þetta eru afar fróðleiksfúsir nemendur. Í kvöld svo næst síðasti arabískukennlutíminn að sinni.

Tuesday, November 27, 2007

Sigrún í grænum sjó - Egyptalandsfarar tilkynni sig vinsamlegast


Myndina tók Einar´Þorsteinsson. Þetta mun vera Sigrún Sig. í hugleiðslu í grænum sjó í Musandam í Óman á dögunum.

Einar Þorsteinsson, ferðafélagi okkar, nú síðast í Ómanför skutlaði til mín öllum diskum með sínum frábæru myndum um helgina. Hann á þakkir fyrir það.
Og eins og sjá má voru makindalegar stundir þar. Set myndir Einars inn fljótlega þegar aðstoðartæknistjórinn Vera Illugadóttir hefur klárað stúdentsprófið nú rétt fyrir jólin.

Bið Egyptalandsfara endilega að tilkynna sig á fundinn þann 8.des. Hef sent út greiðslur til ferðaskrifstofunnar í Kairó og ekki ýkja langt í að ég sendi lokagreiðslur vegna miða.
Á fundinum verða afhent ferðagögn og farið yfir bólusetningarmál og önnur hagnýt atriði. Svo fáum við okkur te og rúsínur. Verst ég er ekki búin að baka allar smákökurnar mínar.
Daginn eftir held ég svo til tíu daga m.a. til Jemen til fundar við Nouriu vegna húsamála og fleiri praktiskra atriða sem þarf að leysa hið fljótasta.

Minni einnig á að greiðslur skulu koma inn þann 1.des.Skilvíslega allra þægilegast.
Á ferðareikning. Muna það. Sjá hentug reikningsnúmer ef þið eruð í vafa.

Örfáir- endurtek örfáir - sem höfðu tekið að sér börn hafa ekki greitt og ekki látið vita. Þar sem ég hef þegar sent út fyrir alla krakkana tel ég að eitthvað hljóti að hafa komið upp á og mun því óska eftir því að þeir sem eru á "biðlista" taki þessi börn upp á arma sína. Það er allt í góðu lagi að skipta greiðslum eins og ég hef margsinnis sagt en það verður að láta mig vita hvernig fólk ætlar að borga.

Læt fólk vita um börnin á næstu dögum. Verð einnig að segja ykkur þau skemmtilegu tíðindi að Kristján Guðmundsson, sjómaður, hafði samband nýverið við mig og sagðist vilja styrkja Jemenverkefnið með 50 þúsund kr framlagi. Honum eru færðar alúðarþakkir fyrir velvild og rausn

Hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að fleiri hafa ekki beðið um jólakortin sem ég er hér með og eru gerð af Jemenkrökkunum okkar. Og þarf ekki að fara að hugsa fyrir gjafakortum til jólagjafa?? Segi nú svona. Elsku hafiði samband um það.
Jólakortin kosta ekki nema 150 kr. stykkið. Sendi þau til ykkar um hæl. Sama máli gegnir um gjafakortin.

Saturday, November 24, 2007

Kvennablómi mun taka þátt í Jemenbyggingarmálum


Sæl öll.

Á meðan Nouria Nagi var hér fyrr í haust tókst mér að hóa saman nokkrum konum sem ég hef fulla trú á að muni taka þátt í að sinna Jemenskólabyggingarmálum af krafti. Þetta eru miklar prýðiskonur sem koma af ýmsum sviðum þjóðlífsins.
Nouria kynnti þeim starfssemi YERO og hversu brýnt væri að kaupa nýja og stærri miðstöð svo starfið geti blómstrað. Að hennar máli loknu og spjalli fram og aftur voru svo viðstaddar inntar eftir því hvort þær vildu taka þátt í að skipuleggja málið. Og allar vildu vera með. Húrra fyrir því.
Nú er ekki víst að þetta starf hefjist að ráði fyrr en eftir áramót en þar sem þrjár voru skipaðar til að kalla hópinn saman og þessar þrjár hittast undir mánaðamót hef ég mergjaða trú á því að þetta fari af stað með nýju ári.

Þessar skörungskonur eru

Ásdís Halla Bragadóttir
Elísabet Ó. Ronaldsdóttir
Eva María Jónsdóttir
Helga Sverrisdóttir
Hlín Sverrisdóttir
Katrín Pétursdóttir
Linda Vilhjálmsdóttir
Nanna B. Lúðvíksdóttir
Margrét Pála Ólafsdóttir
Rannveig Guðmundsdóttir
Steinunn Jónsdóttir
Svafa Grönfeldt
og JK

Mér finnst akkur í því að hafa fengið þessar kjarnakonur í lið með okkur.

Ég vil líka hvetja félagsmenn til að leggja í sjóðinn, fá sér gjafakort til jólagjafa og styðja okkur eftir því sem það hefur aðstöðu og vilja til.

Stefni að því að fara til Jemen í viku um 10.des. Nouria hefur augastað á nokkrum húsum sem hún telur að gæti hentað og við ætlum að skoða þau og skeggræða næstu skref í málinu enda verður þá "framkvæmdanefndin" búin að hittast.

Vonast til að geta komið heim með bréf og myndir til stuðningsforeldra en dráttur hefur orðið á því vegna þess að Nouria þurfti að lengja veru sína í London vegna augnmeins.

Muna að númer Fatimusjóðs er 1151 15 551212 og kt. 1402403979.
Sérstakur byggingarsjóður hefur verið stofnaður með framlögum sem ég hef þegar minnst á og númer hans er ekki alveg tímabært að gefa upp.


Og fleira rétt í leiðinni:
Ætla að senda imeil á Egyptalandsfara núna á eftir vegna fyrirhugaðs fundar og bið þá lengstra orða að svara mér hið skjótasta um hvort þeir geta komið. Þar er ætlunin að leggja fram áætlunina, lista yfir þátttakendur og hollráð og leiðbeiningar um undirbúning fyrir ferðina.

Thursday, November 22, 2007

......er ég kom heim í Búðdardal


Góðan daginn
Skrapp í Dalina í gær og skemmti mér dátt. Hélt þar fyrirlestur hjá Sögufélaginu um það hvernig var að koma ellefu ára Reykjavíkurstelpa í Dalina upp úr miðri síðustu öld. Einstaklega skemmtilegt kvöld og þó mér þyki gegnt og gaman að tala endalaust um arabískan menningarheim og "kúgun" á konum var þetta verulega frískandi tilbreyting.

En við látum ekki deigan síga, hér koma upplýsingar sem menn ættu að kynna sér.

Ætla ekki að boða Íranfara til fundar fyrr en eftir áramót til að fylla út umsóknarblöð og sýna þar klæði sem viðeigandi er að bera. En vona líka að sem flestir geti komið þá. Stefni að fyrstu viku janúar eða í síðasta lagi um 10.jan.

Svo langar mig að hóa Egyptalandsfólki saman, til smáskrafs, það gæti orðið fyrstu viku des, þætti gott að heyra hvort menn mundu ekki mæta þar, sirka 8.des eða svo.
Að vísu búa tveir þátttakenda í Bandaríkjunum og þrír norður í Eyjafjarðarsveit, en það gæti vel verið að norðanfólk ætti leið um höfuðborgina um þetta leyti. Látið mig heyra frá ykkur.
Hef fengið spurnir um myndakvöld Ómanfólks og hugsa við bíðum með það fram yfir áramót.
Er að dunda við að finna tíma til að skreppa til Líbanons og Jemen í desember en það er ekki komið á hreint.
Bendi svo allra elskulegast á að mánaðamót nálgast og bið alla að vera í startholunum að hlaupa út í banka með greiðslurnar sínar.

Enn minni ég ykkur á tvennt: jólakortin og gjafakortin. Þau síðarnefndu eru upplagðar jólagjafir í staðinn fyrir vasana eða ostakörfuna.
Ath það.

Monday, November 19, 2007

Þessi dagur - fyrir 30 árum - hefði átt að marka þáttaskil- Sýrland í apríl?????



Þennan dag fyrir 30 árum flaug Anwar Sadat, þáverandi forseti Egyptalands til Ísrael til að ræða við Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels.

Fundurinn hafði verið ákveðinn með 3ja daga fyrirvara og fáir trúðu því að hann yrði að veruleika fyrr en þeir horfðu á vél Egyptalandsforseta lenda á Ben Gurion flugvelli að slíkt gæti gerst. Sadat kom eins og af himnum sendur - eftir styrjaldir og illindi og hatursleiki- og nú voru menn bjartsýnir í Miðausturlöndum að til tíðinda mundi draga.

Ég var þarna í mannþrönginni á flugvellinum og horfði á Sadat ganga niður tröppurnar og heilsa ráðamönnum Ísraels og síðan ávarpa þing Ísraela í Jerúsalem, hitta fjandmenn sína Rabin og Goldu Meir og fleiri. Það ríkti almennur fögnuður þótt hann væri tortryggni blandinn meðal ýmissa hópa, svo sem Palestínumanna.

Það breytir því ekki að síðan hefur ekkert gerst í þessum heimshluta sem má líkja við þennan atburð. Þó svo friðarsamningar næðust að lokum milli Ísraela og Egypta fyrir milligöngu Bandaríkjamanna, einkum kom þar að málum Carter Bandaríkjaforseti, leiddi þessi gjörningur ekki til að Miðausturlönd yrðu sá aldingarður friðar og réttlætis sem Sadat talaði um í ræðum sínum þessa nóvemberdaga

Mikið væri óskandi að þessi lönd öll ættu einhverja þá forystumenn sem hefðu kjark þeirra Begins og Sadats- sem nokkrum árum síðar galt fyrir þetta með lífi sínu.

Það breytir því hins vegar ekki að Miðausturlönd eru ekki sá ófriðarpottur sem margir halda. M.a. nemendur í Ferðamálaskólanum þar sem ég talaði á dögunum. Skemmtilegt fólk og áhugasamt en með vestræna mötun í eyrunum eins og fleiri. Eins og ágætis maður sem ég hitti á dögunum og hafði orð á því að vinahjón sem hann þekkti hefðu komist heil á húfi heim eftir að hafa farið með mér í ferð til Ómans!?
Hjálp! Fannst Ómanförum þeir vera í hættu? Segi nú svona.

Sem betur fer hafa ferðirnar okkar breytt viðhorfi margra til heimsókna til Miðausturlanda og eftirsókn í þær sýnir að menn vilja meta málið sjálfir og njóta þeirra stórkostlegu sögulegu minja sem þar er að finna og upplifa fjölskrúðugt nútímamannlíf sem þrífst í þessum löndum.

Fávísi og fordómar ríkja í garð þjóðanna á þessu svæði meðal gagnmerkasta fólks.
En sem betur fer hefur þeim farið fjölgandi sem átta sig á að mál eru aldrei annað hvort hvít eða svört.

Það er rétt að taka fram að það gætu orðið smábreytingar á ferðum ársins 2008 því flestar eru nú þegar uppseldar. Ekki óhugsandi að skella Sýrlandsferð inn í byrjun apríl. En þá þurfa menn líka að vera snarir í snúningum að láta mig vita.
Ætla að reyna að skjótast til Líbanons eftir að ég klára kennsluna í arabískunni. Fréttir þaðan hafa verið þannig að við tókum Líbanon út en nú hef ég virkilega velt fyrir mér hvort ekki megi kippa því inn aftur. Gjörsovel og láta frá ykkur heyra.

Friday, November 16, 2007

Á Jónasardegi eru Líbíumenn með steyting ofl

Sælir séu smávinir
Þessa daga snýst allt um Jónas Hallgrímsson og til að vekja athygli á sér hefur Gaddafi tilkynnt að nú ætli hann að breyta vegabréfsmálum og vill að slík plögg verði ekki afgreidd nema upplýsingar séu á arabísku. Mikið fár út af þessu. En þetta verður svo sem ekkert vandamál. Við leysum það bara þegar þar að kemur. Og annað eins hefur komið fyrir að Gaddafi hafi skipt um skoðun áður en á þetta reynir.

Nokkur nöfn voru ekki rétt hjá mér á listunum. Fékk leiðréttingar og held að allt sé rétt núna.

Ég leyfi mér að benda á að slatti af kortum sem Nouria kom með liggur enn hér óseldur. Hvet fólk til að panta sér fáein stykki. Þau eru rauð og glöð og henta sem jólakort öldungis prýðis vel. Verið svo væn að panta og ég sendi þau um hæl.

Ekki gleyma heldur gjafa og minningarkortum.
Arabískukennslan hófst í gærkvöldi, þar var m.a. nemandi sem hafði búið í Aden á tímum Breta og hugljómuðust heilmörg arabísk orð þegar eftir þeim var kafað.
Í dag ætla ég svo að rota nemendur í Ferðamálaskóla með fjögra tíma fyrirlestri.
Björt framtíðarsýn.

Vantar örfá númer Egyptalandsfara og ekki síður þó gildistíma. Muna það.

Það er ennfremur athyglivert að styrkurinn sem utanríkisráðuneytið dúkkaði upp með til Jemenverkefnis hefur enn ekki komið fram í bankabókinni. Hlýtur að gerast fyrr en síðar. Þá eru ellefu börn sem hafa fengið stuðningsforeldra til viðbótar svo nú munum við styrkja yfir 110 börn. Foreldrarnir fá nöfn og upplýsingar um krakkana fljótlega en Nouria er enn í London og fór þar í augnskurð á dögunum og þarf stund til að jafna sig.
Fréttir úr skólanum eru góðar í hvívetna og mestu munar þar að hún fékk góða konu sem hefur lengi búið í Jemen fyrir sig og kennararnir hafa allir notið stuðnings til að ljúka sínu námi og standa sig með prýði.

Smámenningarleg viðbót:
Bækur eftir tvö afkvæma minna, Elísabetu og Hrafn eru komnar út. Hrafns bók heitir Þar sem vegurinn endar og Elísabetar bók er Heilræði lásasmiðsins.
Bók eftir Illuga Guð er ekki til er einnig að skutla sér á markað.
Kíkið á þessar bækur.

Tuesday, November 13, 2007

Ferðafélagarnir til Egyptalands og í páskaferð til Írans


Myndin sýnir lukkulega teppakaupendur í Isfahan, Kristrúnu og JK og ekki síður glaðanj teppasala, hinn hugþekka Hussein Bordbari
Sæl séuð þið

Ferðafélagar til Egyptalands eru komnir inn á þátttakendur í ferðum og sömuleiðis páskafarar til Írans.
Til fróðleiks og upplýsinga. Þarna er í báðum tilvikum heppileg blanda af reyndum og nýjum VIMAfélögum. Ekki neitt nýtt þó; í öllum ferðum er öðlingsfólk.

Á næstunni ætla ég svo - líklega undir mánaðamótin- að biðja fólk að athuga með bólustetningar v/Egyptalandsferðar. Allt í lagi enn, læt heyra frá mér.

Saturday, November 10, 2007

Egyptalandsfarþegalisti hefur verið sendur ofl


Myndin er frá Abu Simbel í Egyptalandi. Hulda eða Örn var myndasmiður

Nú hef ég sent lista til KLM með Egyptalandsþátttakendum eins og fyrirmælt var. Sé einhver vafi á ferð hefst hún 7.febr. og er til 19.febr. Við stoppum alllengi í Amsterdam og munum nota tímann til að fara í skoðunarferð og fá okkur léttan snæðing. Sú greiðsla borgist með þeirri síðustu.
Eins manns herbergi er um 400 dollarar. Það borgist einnig með síðustu greiðslu.
Ég get skrifað á biðlista ef ske kynni að einhver forfallaðist en þá má reikna með að miði verði dýrari Hafa það bak við eyrað.

Íranferðin um páskana er einnig fullskipuð en ég hef frest til 1.des. að breyta nöfnum. Sama máli gegnir um fyrri Jemen/Jórdaníuferð í apríl. Pláss í seinni vegna forfalla. Hún hefst 28.maí.

Ef enginn gengur úr skaftinu í Líbíu er trúlegt að við höfum tvær ferðir þangað í haust. Sjáum til Það er mjög pottþétt fólk skrifað þar og reikna með að flestir sláist í þá för.

Hafi einhverjir áhuga á Óman í nóvember 2008 verður að kvaka innan tíðar.

Stjórnarkonur VIMA munu hittast eftir helgina og skeggræða um ýms atriði, m.a. húsamálin í Jemen, næsta fréttabréf og fund í janúar.

Smávanhöld eru enn á því að menn hafi innt nóvembergreiðslu af hendi. Það gengur alls ekki.

Þá skal þess getið að þar sem jól nálgast býst ég við að hafa fund með Íranförum fyrstu daga í janúar í stað nóvemberloka. Það ætti að vera allt í lagi sýnist mér enda höfum við gott fólk til aðstoðar v/vegabréfa í sendiráðinu okkar í Osló en þangað þarf að senda vegabréfin.

Muna eitt sem ég hef sagt áður en ítreka hér og nú: Muna að sé einhver með ísraelskan stimpil í vegabréfi verður að afla sér nýs. Einnig skal þess gætt að vegabréf sé gilt í sex mánuði eftir heimkomu úr viðkomandi ferð. Hafa það í lagi.

Í Egyptalandsferðinni eru 24- þremur fleirum en ég ætlaði en það er allt í lagi, hef fengið amen á það.
Ágætis blanda í þeirri ferð
11 eru að fara í sína 1. VIMAferð
1 í aðra
2 í 3.ferð
6 í fjórðu ferð
2. í fimmtu
1 í 9 ferð og
ég í 19.ferð.

Mun setja nöfn Egyptalandsfara inn á linkinn þátttakendur í ferðum eftir helgina.

Thursday, November 8, 2007

Sálin er komin heim - munið öll kort ofl

Góðan daginn
Loks smeygði sálin sér inn í nótt svo ég vaknaði endurnýjuð í morgun. Mikið góð tilfinning það.

Nokkuð hefur borið á því að vafist hefur fyrir mönnum reikningsnúmerið til að greiða inn á ferðir.
Það skal því endurtekið vel og vandlega
1151 15 551346 og kt 441004 2220.
Ætti því ekki að fara milli mála.

Var beðin um að senda tvö minningarkort í morgun og þau eru flogin í póst. Vinsamlegast hafið þetta hugfast.
Sömuleiðis gjafakortin ef þið viljið gefa einhverjum sem vantar ekkert nema styðja gott verk. Sé um þetta snarlega og sendi til ykkar eða fyrir ykkur. Einnig eru jólakortin fáanleg. Styttist í þá hátíð eins og gjarnan gerist á þessum árstíma.

Egyptalandsferðin er orðin full. Get ekki bætt þar við nema einhver detti út og sama máli gildir um Íransferðina. Þakka báðum hópum hvað þeir hafa verið reglusamir að borga þótt einhverjir hafi gleymt því- kippa því í lag vinsamlegast.
Þarf endilega að biðja Egyptalandsfara að senda mér kennitölu og vegabréfsnúmer hið fyrsta. Ekki draga það.
Fyrri Jemenferðin er full eins og ég sagði en vegna forfalla má bæta við í seinni ferðina. Athugið það fyrr en seinna.

Þá hef ég fengið fyrirspurnir um hvenær fólkið sem styður Jemenkrakkana okkar fái nánari upplýsingar um þau. Því er til að svara að þar sem Nouria er enn til lækninga í London getur orðið bið á því þar til síðari hluta þessa mánaðar. En þetta kemur og bið ykkur aðeins að sýna biðlund.
Peningar ykkar hafa verið sendir, þau hafa fengið skólabúninga, vörur og aðra aðstoð sem þessir peningar dekka.

Einnig ætla ég í dag að senda út greiðslu fyrir þrennum kennaralaunum svo allt sé þetta nú komið á réttan stað.

Ég hef líka fengið spurningar um hvernig húsamál standi: Hópur hefur verið settur í laggirnar sem mun skipuleggja það.
Hann hittist næst milli 20.-25 nóv. og hefst þá handa. Vil taka fram að við höfum þegar fengið loforð um 3,5 milljónir frá gefanda sem ætlar ekki að láta nafns síns getið. Það er undursamlega þakkarvert.
Og þó mönnum finnist kannski ekki muna mikið um kortin hvert og eitt þá safnast þegar saman kemur svo ég hygg að loforð plús það sem komið er sé nú hátt í 5 milljónir.

Svo tókst mér að detta niður stigann hérna á Drafnarstíg í fyrrakvöld þegar ég var að rogast með blautan þvott upp. Þeir sem þekkja stigann vita að það er ekkert gamanmál og bakið á mér er nú að verða litfagurt í betra lagi. En það grær áður en ég gifti mig. Ef guð lofar.

ps. Hef veitt því eftirtekt að nokkrir - og oftast þeim sömu- eyða póstinum án þess að lesa hann. Reikna með þeir hafi ekki áhuga á að fylgjast með eða fari inn á síðuna þegar þeim hentar sjálfum. Hef því tekið nokkra af póstlista. Óski menn eftir að koma inn aftur láti þeir vita og séu þeir velkomnir.

Tuesday, November 6, 2007

Egyptalandsfarar sendi vegabréfsnúmer

Ljúfusturnar
Það hefur verið hið mesta annríki hér á heimilinu við að fara yfir greiðslur og meira og minna allt virðist þar í elskulegu standi. Sálin er ekki mætt en vonandi í fyrramálið.

Nokkrir Ómanfarar hafa hringt i mig í dag og látið í ljós gleði með ferðina. Það er mér mikið gleðiefni.

Þó hafa ekki allir Jemenfarar einkum í seinni ferð greitt.Vinsamlegast gerið það snimmendis.

Vegna forfalla geta amk 3-4 bæst við í seinni Jemen/Jórdaníuför. Bið Olgu Clausen að kanna það

Mun á morgun eða hinn senda allar greiðslur v/Jemenbarna og þar sem utanríkisráðuneytið hefur vaknað af dvala og ákveðið að greiða
laun eins kennara erum við í góðrum málum og borgum þrennkennaralaun. Það er glæsilegt og þakka ykkur einlæglega stuðninginn.

Ekki gleyma að falleg kort eru til sölu. Kort sem krakkarnir okkar hafa gert. Pantið þau og ég pósta til ykkar. Verð er 150 kr. stykkið. Hef ekki ótakmarkaðan fjölda svo best að drífa í pöntunum.

Tveir bættust við í Egyptalandsferð og tel ég hana þá fullskipaða og meira en lítið velskipaða -eins og aðrar ferðir náttúrlega.

Það er mögulegt að bæta við einum í þá ferð en verð að vita það skjótlega því ég sendi nafnalista til KLM ekki á morgun heldur hinn.

Ath. að vegna þess að hópurinn til Egyptalands verður að bíða, finnst mér kjörið að við förum í skoðunarferð um Amsterdam og borðum létta máltíð, kostar 5 þús. kr.aukalega. Held að öllum þyki það hið ákjósanlegasta fremur en hangsa á flugvell
Sem þýðir að menn borga 5 þúsund með síðustu greiðslu. Per mann auðvitað

Endurtek þakkir til Ómanfara.

Monday, November 5, 2007

Ómangengið er mætt til leiks


Myndina tók Abdúllah gæd sem er hvort tveggja í senn góður leiðsögumaður og atvinnuljósmyndari.
Gott kvöld
Ómanhópurinn kom síðdegis frá London, gistum þar s.l nótt á ágætis flugvallarhóteli eftir sóma ferð með Gulf Air frá Múskat. Síðasti dagurinn í Óman var sannkallaður letidagur - með nokkuð ötulum verslunarleiðöngrum þó. Eilífur og Davíð voru öllu menningarlegri og skruppu á Herminjasafnið en flestir fóru í verslunarmiðstöðvarnar eða niður í Muttramarkað. Sólarlaust en um 33 stiga hiti. Seinni hluta dags vörðu flestir í grennd við sundlaugina á hótelinu.
Ferðaskrifstofan bauð til kvöldverðar á sjávarréttastað og síðan sæmdi kvartettinn Danfríður, Kristín afmælisstúlka, Þóra og Brynhildur Ruedi forstjóra orðu vegna framgöngu hans í flugmálum og Abdúllah gæd fánaorðu vegna fágætra liðlegheita og almennra þekkilegheita. Þetta tiltæki mæltist vel fyrir. Hinrik og Einar voru andríkir sem fyrr og mun ég næstu daga hafa nóg að gera að setja kveðskap þeirra félaga inn á linkinn: Andríki í ferðum VIMAfélaga.
Svo fékk Abdúllah tvær Íslandsbækur að gjöf við brottför til flugvallar og rausnarlegt tips frá hópnum.
Það var mjög sniðugt að gista í London þótt flestir vöknuðu um fjögur leytið sl nótt úthvíldir vegna tímamismunar. Þetta mætti athuga í öðrum ferðum svo við komum ekki of þreytt heim, einkum er ég að hugsa um Jemenferð. Athugum það nánar síðar.
Veit ekki annað en töskur hafi skilað sér allar og kvaðst með miklum kærleikum á Keflavík nú í kvöld. Nokkrar rausnarkonur færðu mér Koolkarton að gjöfum og takk fyrir það.
Samstaða var frábær í hópnum og gleðin ríkti. Við hlökkum til að hittast eftir nokkrar vikur og efna í myndakvöld.

Það skal tekið fram að af 24 voru 13 að fara í 1.ferð með VIMAfélögum og vonandi ekki þá síðustu.
Þrír í ferð númer tvö
Sex í ferð númer þrjú
Einn í ferð númer 4
Einn í áttundu ferð
og svo ég í átjándu ferð. Sniðugt hvað þetta hefur þanist út og vonandi tekst að hafa framhald á því amk næstu 1-2 ár. Svo sjáum við til.

Sé áhugi á Kákasusferð 2008 og annarri Ómanferð verða menn að láta vita fyrr en síðar.

Ég hef ekki haft tök á því að kanna hvernig greiðslumál standa en mun gera það núna og á morgun. Vona að allir hafi drifið í greiðslum. Verið svo væn að láta allt slíkt vera í lagi.
Svo hefst arabískukennsla senn og gaman hve margir hafa skráð sig þar einkum þó í arabísku I.

Vil þakka enn og aftur sérlega skemmtilegum hópi vel lukkaða ferð til þessa silki og undralands sem Óman er.

Friday, November 2, 2007

Afmaelisdans i beduinatjaldinu

Tvi midur ekki komist i netsamband sidustu daga en thad hefur margt gott drifid a daga okkar.
I kvold komum vid aftur til Muskat eftir 3ja daga ferd inn i landid. I dag brunad um Wahibasandana og farid til Sur thar sem vid skodudum dhow batana serstoku, a Hvitustrond og ad #blasaragatinu# dularfulla og komum heilu og holdnu hingad um sjo leytid. Nu eru menn ymist uti ad skemmta ser eda annars stadar ad valsa um og einhverjir aetludu snemma i bolid
I gaer keyrdum vid inn lengst inn a Wahibasandana og folk hreifst mjog af litbrigdum sandsins, mannlifi, uloldum og ollu sem fyrir augu bar.
Hadegisverd bordudum vid i beduinatjaldi og thar voru samankomnar beduinakonur, klaeddar ad sinum haetti t e med andlitsgrimur, svo og nokkrir iturvaxnir bedustrakar. Borin fram herlegur matur og sidan sungum vid afmaelissonginn fyrir Kristinu Jonsdottur og beduinasjarmorinn baud henni snarlega upp i dans og var thad tiguleg sjon a tjaldgolfinu og konur kloppudu og yludu og undirleikurinn var aslattarhljodfaerid vaskafat.
Abdulla gaed sem menn eru mjog anaegdir med ste fram med gjof fra Ferdaskrifstofunni til afmaelisstulkunnar, einstaklega fallegt og spes armband og voldug Omanbok og var Kristin hin gladasta og thad vorum vid oll.
Svo var verslad i kvedjuskyni og haldid afram inn a sandana og heimsottum bedufjolskyldu sem turistar fara ekki til en abdulla thekkir og var okkur vel tekid, borid fram te og kaffi og dodlur og sidan gatu menn farid a ulfaldabak. Minnug thess ad barnabarn Kolfinnu og Hinriks hafdi bedid um mynd med ommu sinni a ulfaldabaki theysti hun natturlega um morkina a slikri skepnu og tok sig vel ut eins og adrir sem spreyttu sig.
Um kvoldid komum vid svo i eydimerkurbudirnar og attum thar anaegjulegt kvold og matarmikid.
Daginn a undan vorum vid i Nizwa, hinni fornu hofudborg Omans og skodudum thar kastala og virki, markadi og fleira gummuladi. Forum upp a Solarfjall, haesta fjall Omans og dasomudum fegurdina. Sottum heim ulfaldamarkad sem var skrautlegur en tvi midur voru ulfaldarnir allir uppseldir sem var skadi tvi Petur hafi hugsad ser ad gera kaup thar.
Seinni daginn okkar i Salalah var skodunarferdin sem eg minntist a i sidasta pistli og allt tokst og um kvoldid var malsverdur i bodi johannatravel.
Thetta er sem sagt allt i blidu.Vid vorum i jeppum i eydimerkurferdinni og skiptum reglulega sem var god hugmynd svo allir kynntust duggulitid ollum bilstjorunum og tokust mismunandi miklar astir med theim og okkur, allt finir strakar og flinkir bilstjorar.
Nu er sidasti Omandagur okkar a morgun og aetla menn ad sja um sig sjalfir thar til vid bordum saman kvedjumaltid a afar godum fiskirettarstad
Vedur er hlytt, stundum adeins meira en vid erum ordin svo adlogud ad engu tali tekur.
Kem ollum kvedjum til skila annad kvold og allir bija fyrir einstaklega godar kvedjur heim og eru mjog anaegdir.
Hopurinn er finn og naer vel saman i hvivetna og getur ekki af odrum sed.
Bless og skrifid abendingar. Thad gledur og kaetir enn