Monday, November 5, 2007

Ómangengið er mætt til leiks


Myndina tók Abdúllah gæd sem er hvort tveggja í senn góður leiðsögumaður og atvinnuljósmyndari.
Gott kvöld
Ómanhópurinn kom síðdegis frá London, gistum þar s.l nótt á ágætis flugvallarhóteli eftir sóma ferð með Gulf Air frá Múskat. Síðasti dagurinn í Óman var sannkallaður letidagur - með nokkuð ötulum verslunarleiðöngrum þó. Eilífur og Davíð voru öllu menningarlegri og skruppu á Herminjasafnið en flestir fóru í verslunarmiðstöðvarnar eða niður í Muttramarkað. Sólarlaust en um 33 stiga hiti. Seinni hluta dags vörðu flestir í grennd við sundlaugina á hótelinu.
Ferðaskrifstofan bauð til kvöldverðar á sjávarréttastað og síðan sæmdi kvartettinn Danfríður, Kristín afmælisstúlka, Þóra og Brynhildur Ruedi forstjóra orðu vegna framgöngu hans í flugmálum og Abdúllah gæd fánaorðu vegna fágætra liðlegheita og almennra þekkilegheita. Þetta tiltæki mæltist vel fyrir. Hinrik og Einar voru andríkir sem fyrr og mun ég næstu daga hafa nóg að gera að setja kveðskap þeirra félaga inn á linkinn: Andríki í ferðum VIMAfélaga.
Svo fékk Abdúllah tvær Íslandsbækur að gjöf við brottför til flugvallar og rausnarlegt tips frá hópnum.
Það var mjög sniðugt að gista í London þótt flestir vöknuðu um fjögur leytið sl nótt úthvíldir vegna tímamismunar. Þetta mætti athuga í öðrum ferðum svo við komum ekki of þreytt heim, einkum er ég að hugsa um Jemenferð. Athugum það nánar síðar.
Veit ekki annað en töskur hafi skilað sér allar og kvaðst með miklum kærleikum á Keflavík nú í kvöld. Nokkrar rausnarkonur færðu mér Koolkarton að gjöfum og takk fyrir það.
Samstaða var frábær í hópnum og gleðin ríkti. Við hlökkum til að hittast eftir nokkrar vikur og efna í myndakvöld.

Það skal tekið fram að af 24 voru 13 að fara í 1.ferð með VIMAfélögum og vonandi ekki þá síðustu.
Þrír í ferð númer tvö
Sex í ferð númer þrjú
Einn í ferð númer 4
Einn í áttundu ferð
og svo ég í átjándu ferð. Sniðugt hvað þetta hefur þanist út og vonandi tekst að hafa framhald á því amk næstu 1-2 ár. Svo sjáum við til.

Sé áhugi á Kákasusferð 2008 og annarri Ómanferð verða menn að láta vita fyrr en síðar.

Ég hef ekki haft tök á því að kanna hvernig greiðslumál standa en mun gera það núna og á morgun. Vona að allir hafi drifið í greiðslum. Verið svo væn að láta allt slíkt vera í lagi.
Svo hefst arabískukennsla senn og gaman hve margir hafa skráð sig þar einkum þó í arabísku I.

Vil þakka enn og aftur sérlega skemmtilegum hópi vel lukkaða ferð til þessa silki og undralands sem Óman er.

No comments: