Thursday, December 31, 2009

Gleðilegt árÓska ykkur öllum gleðilegs árs. Þakka það liðna og margar góðar samverustundir á þessu skringilega ári sem nú kveður í kvöld.

Minni á að ég hef sent Sýrlands/Líbanonsförum greiðsluplan og bið menn að fylgja því mjög nákvæmlega. Hef ekki náð sambandi við Mími um húsnæði en vonast til að fundur geti orðið fyrstu eða aðra helgi í janúar. Bið menn um að muna þá eftir ljósritum af vegabréfum og ítreka að tveir hafa ekki látið vita hvort þeir vilja eins manns herbergi og nú fer að þrengjast um slíkt ef ekki kemur svar. Þakka þeim sem hafa látið vita.

Þá mun ég einnig fljótlega finna stund svo hinir hugþekku Egyptalandsfarar geti loks efnt í myndakvöld og læt vita af því. Mér heyrist að sem flestir hafi gengið frá myndum og væri þakklát fyrir ef einhverjir gætu gaukað að mér einum diski eða svo.

Hafið svo í huga með þessum góða fyrirvara að þann 30.jan verður fyrsti fundur VIMA á nýju ári.
Þó svo ferðalögum fækki hefur VIMA enn og um ókomna tíð hlutverki að gegna. Fréttabréf er í vinnslu. Þeir sem hafa ekki sent Dóminik umbeðið efni geri það skjótlega.

Sæl að sinni

Wednesday, December 23, 2009

Viðsnúningur í ferðalögum stjörnumerkjanna


Nautið hefur oftast verið í efri kantinum en aldrei unnið

Jómfrúin hefur heldur betur tekið sig á

Þá er komið að hinni vísindalegu úttekt á stjörnumerkjum ferðalanga VIMA árið 2009 og hefur þar heldur betur orðið breyting miðað við síðustu ár. Til tíðinda telst að
jómfrúin sem hefur löngum verið treg til ferðalaga er nú ásamt nautinu í fyrsta/öðru sæti.
Í fyrra voru fjölmennastir bogmenn, krabbar og tvíburar.

Niðurstaðan nú er þessi og tekið fram í leiðinni að ég tel sjálfa mig aðeins einu sinni

1.-2 Jómfrú og naut
3.-4 vog og vatnsberi
5. hrútur
6.bogmaður
7. steingeit
8.-9 fiskur og tvíburi
10.-11 krabbi og ljón
12.sporðdreki

Alls voru farnar fimm ferðir
Tvær til Írans= 48 manns
Ein til Jemen= 25
Ein til Marokkó= 28
Ein til Egypta-
lands 29

Vænti þess að mönnum þyki þetta hinar athyglisverðustu niðurstöður og sigurvegurum óskað til hamingju og aðrir hvattir til dáða.

Vil taka fram að ég sendi Líbanons/Sýrlandsförum greiðsluplan milli jóla og nýárs og skulu menn athuga það og vinsamlegast greiða á hárréttum tíma. Annars lendi ég í vanda.

Sendi svo öllum VIMAfélögum, ferðafélögum sem öðrum, stuðningsmönnum krakkanna okkar í Jemen óskir um góð og gleðileg jól og óska öllum hagsældar og friðar á nýju ári.

Sunday, December 20, 2009

Kveðjur frá YERO börnum - samband fljótlega við EgyptófólkNouria sendi mér og okkur þetta kort með kveðju frá börnunum og fjölskyldum þeirra til allra en einkum og sér í lagi þeirra sem hafa stutt og styðja við bakið á börnunum. Þið ýtið með músinni á myndina til að sjá textann.

Þá er vert að geta þess þrátt fyrir allt jólavafstur að menn ættu að fylgjast með hvenær fundir verða: annars vegar myndakvöld Egyptalandsfaranna og hins vegar fundur með væntanlegum Sýrlands/Líbanonshópi.

Vel á minnst: Þakka Margréti Halldórsd Íranfara kærlega fyrir diskana sem hún skutlaði hér inn um lúguna í dag. Væri ákaflega vel þegið ef Óskar myndasnillingur úr sömu ferð nennti að gera handa mér disk við hentugleika.

Nú skilst mér að fólk tali sig saman um Jemenferð, Íranferð og jafnvel nokkrir sem hafa áhuga á Kákasus. Sú ferð kemur vissulega til greina ef menn safna sér saman en ég legg þó til að farið yrði aðeins til Georgíu ef af yrði. Það er rjómi þessa svæðis. Ferð til Azerbajdan og Armeníu líka yrði sömuleiðis rokfokdýr. ´Gæti ímyndað mér að tiltölulega hóflegt verð fengist á Georgíuferð.

Þið látið heyra frá ykkur

Monday, December 14, 2009

Mig vantar enn- hvernig stendur nú á því? En er Maher fundinn.........

Gæskurnar allar
Var að koma heim og vona náttúrlega að allir hafi saknað mín þótt þess gæti ekki á síðunni, næsta fáir hafa farið þangað meðan ég var í burtu. Hafa væntanlegir Sýrlands/Líbanonsfarar örugglega borgað staðfestingargjald. Vinsamlegast ef ekki þá snarlegast.
Einnig vantar nokkur vegabréfsnúmer, hvernig stendur á því??

EN
Í fyrsta lagi: Maher er fundinn. Hann rekur ásamt sinni amrísku frú pínulítið flotteríis hótel í Damaskus, þetta eru kölluð boutique hótel, eru rokdýr og aðeins fyrir 6-8 manns.

Í öðru lagi: Skutlaði mér á viku yfir til Jórdaníu, Sýrlands og Líbanons og sat svona álíka marga merkisfundi og matarboð. Hitti þar af tilviljun H
æþam sem var gæd fyrsta og annars hópsins okkar og hann bað fyrir kveðjur. Hann hefur sett á stofn eigin ferðaskrifstofu og er í samvinnu við náungann okkar í Sýrlandi.
Ræddi lengi og hressilega við ferðaskrifstofukallana, Soheil í Líbanon og Abedelkarim í Sýrlandi og þeir voru glaðir og hlakka til komu okkar.

Mun hafa samband fljótlega við Sýrlands/Líbanonshópinn sem er alveg stútfullur og ég þori ekki að bæta fleiri við þótt ég fegin vildi. Verð í báðum þessum löndum hefur hækkað því þar er kreppa líka þótt við höfum ekki teljandi áhuga á öðru en okkar kreppu enda kannski nóg að eiga við hana.

Bara þetta núna.
Gaman að heyra í Marjöttu Ísberg. Hún hvetur til að fólk safni sér saman í hópa. Gott mál það.

Wednesday, December 2, 2009

Mér finnst það gleðiefni--


Líbanskir smáréttir- hvergi betri

að Líbanon/Sýrlandsferðin er fullskipuð, alskipuð og umfram allt vel skipuð.
Svo virðist sem allmargir þurfi nýtt vegabréf og bið þá lengstra orða að senda mér númer og útgáfudag þegar það er klappað og klárt. Einnig bið ég menn borga staðfestingargjald ekki síðar en 5.des og vísa í bréf sem ég sendi öllum ferðafélögum
því ég er að ganga frá flugmiðum og verð að klára það áður en ég skrepp til Líbanons og Sýrlands með stuttri viðkomu í Jórdaníu n.k mánudagsmorgun.

Við munum efna til fundar snemma í janúar og fara rækilega yfir ferðina og menn fá þá væntanlega áætlanir.Einnig verður þá lögð fram greiðsluáætlun. MUNA AÐ FERÐIN ER 21.mars-3.apr 2010. Það er ákveðið.

Þá er hér orðsending til Egyptalandsfaranna á dögunum. Við efnum í myndakvöld fljótlega eftir áramót. Geri því skóna að það sé ofætlan að halda slíkan fund með almennilegri þátttöku fyrir jólin.

Loks eitt enn og ekki síst: Nokkrir en ekki margir sem styðja Jemenbörn hafa enn ekki borgað krónu og aðrir virðast hafa gleymt að borga seinni greiðslur. Vil síður telja upp nöfn en geri ráð fyrir að þetta sé athugunarleysi. Bið ykkur vinsamlegast sem í hlut eigið að ganga frá þessum málum eða láta vita. Þetta er einstaklega óþægileg staða sem ég er sett í með þessu.

Á stjórnarfundi VIMA í vikunni kom í ljós að efni í næsta Fréttabréf sem kemur um miðjan janúar virðist allt á góðu róli og vona að menn skili sínu til Dominik fyrir 15.des eins og umsamið var. Janúarfundur var einnig ræddur, líklega 30.jan. Mjög spennandi efni verður þar vonandi tekið til umfjöllunar.

Þá vorum við sammála um að það væri freistandi að setja saman litla bók um ferðirnar sem VIMA félagar hafa farið í. Frásagnir, viðtöl, ferðasögur, myndir og margt fleira. Jafnvel stjörnumerki og einkunnagjöf! Allt er það svosem á umræðustigi.

Margir sem hafa heitið mér myndum á diskum hafa ekki sent mér þá. Ég er doltið hnuggin yfir því og vonast til að þeir skili sér og finnst leiðinlegt að þurfa að hamra á því.

AÐ LOKUM þetta: Það er áhugi á Íranferð- gjarnan dálítið öðruvísi enda landið stórt. Ég mun ekki blanda mér í það en get tekið niður nöfn ef menn vilja.

Sama máli gegnir um Jemenferð. Það verður að vera að ykkar frumkvæði. Eins og þessi mars/apr ferð.