Thursday, September 27, 2012

Dagarnir í Isfahan, þeirri göldróttu borg

Það gerist alltaf eitthvað í sálum fólks þegar það kemur til Isfahan. Það verður ekki ýkt um töfra hennar og það sem þar er að sjá.
Jafnvel þótt það hafi haft nóg að gera að innbyrða, skilja og horfa dagana á undan. Sálin verður svo bljúg og hún fer á yfirsnúning eins og Kolbrá orðar það svo ágætlega.

Fyrsta morguninn fór Pezhman með hópinn í Fjörutíu súlna höllina en ég dreif mig í teppabúðina til Hosseins og

Alis og Hamids til að skrifa ponsulítinn pistil um veru okkar því ég hafði ekki oft gefið mér tíma til að skrifa og auk þess eru margar síður lokaðar.
Áður en lengra en haldið vil ég endilega segja frá því að Guðmundur Pétursson hélt skörulega tölu um Mossadeik heitinn sem vann kosningar upp úr 1951 og reitti Breta og þar með gengu Bandaríkjamenn í leikinn, til reiði þar sem honum sem mörgum öðrum hafði blöskrað að Bretar hirtu- með góðu samþykki keisarans og hans pótintáta allan eða nær því allan hagnað Írana af olíunni. Keisarinn og þáverandi frú hans, Soaya urðu að koma sér úr landi en leyniþjónusta Bandaríkjanna greip í taumana og setti hann aftur í hásætið. Þarna urðu kannski ákveðin skil í stjórnmálum Írans og á þeim tíma sat Khomeini í Qom og skrifaði hverja greinina eftir aðra gegn keisaranum. Keisarinn rak hann loks úr landi, lét handsama Mossadek og upp frá því hefst niðurlægingarskeið Mohammeds Reza.
Mér var tekið fagnandi í teppabúðinni og borið í mig te meðan ég skrifaði pistilinn og Pezhman kom síðan með hópinn að lokinni skoðun Fjörutíu súlna hallarinnar.
Hossein hélt mjög fróðlegan fyrirlestur um teppagerð í Íran og síðan sýndu þeir piltar hvern dýrgripinn af öðrum og var mikið æjað og óað.
Ekki stóð til að gera nein kaup þarna í bili, því næst á dagskrá var hið fagra torg og síðan Ali Qapu höllin sem við tprgið stendur, stórkostlega Imam moskann og hrifust menn af þessum glæsilegu meistaraverkum.

Svo var tímabært að sýna hópnum Mustafa minituremeistara og hvar hann hefur aðsetur, segja hvar kryddmarkaður væri og fara í hádegismat á skringilega safnastaðnum  og sá sér súpu og vatnspípu og stóðu margir sig glæsilega. Eftir það voru menn orðnir nokkuð lúnir en við droppuðum þó inn hjá dúkamanninum s
sem varð kátur að sjá okkur og verður æ glaðlyndari og samningaliprari við hverja heimsókn. Síðan var ákveðið að fara heim á hótel enda nóg að sjá daginn eftir. Við borðuðum kvöldverð á öðrum veitingastað á torginu, veður var hlýtt og notalegt og allir í sama sólskinsskapinu og veðrið

Daginn eftir var haldið í Föstudagsmoskuna sem má segja að sé eins konar safn um þróun moska í landinu og í hvívetna einstakt. Að því loknu keyrt yfir í armenska hverfið, Jolfa og skoðuð Vank dómkirkjan og safnið sem þar sendur einnig og er til minningar um fyrsta fjöldamorð 20. aldar þegar Tyrkir ráku Armena sem voru
fjölmennir í landinu, snauða og alls lausa í brottu. Hundruð þúsunda fórust á leiðinni og það verður jafnan Tyrkjum til hnjóðs og ævarinnar skammar að þeir hafa aldrei viðurkennt þessi óhæfuverk.

Hádegisverður var á Hotel Jolfe og mér og fleirum var Creme caramel þar á boðstólum og annar ágætis matur sem við gerðum okkur að venju  gott af. Þar sem viðgerðir stóðu yfir á Skjálfandi minerettunni fórum við í þess stað að skoða gamalt baðhús sem er mjög í sama stíl og tyrknesk böð og voru þar karlar að baða sig, drekka te og skrafa( að vísu allir úr vaxi) en sannfærandi vel.

Um kvöldið var borðað á Sjerasjade sem er fallegastir veitingastaða í Isfahan að mínum dómi. Að svo búnu fór Pezhman með hópinn á sorkaneh sýningu en ég hafði mælt mér mót við Hossein teppastrák sem sá að verulegu leyti um ferðina. Það var á Kaffi Ani í armenska hverfinu og þar var líf og fjör í tuskunum. Þótt Jolfa sé kallað armenska hverfið hefur fólk blandast hvað varðar búsetu og þar búa sjálfsagt fullt eins margir Íranir.

Var nú komið að frjálsa deginum og Mohamad keyrði okkur að torginu og menn dreifðust í allar áttir og voru vel klyfjaðir kryddi, smeltivörum, áhyggjukössum, silfri, gulli, dúkum og minitaturemyndum, auk teppanna og allir komu í teppabúðina og fengu að geyma dótið þar svo þeir gætu haldið áfram innkaupunum.

Einnig festu margir kaup á hnetum og Bam-döðlum sem hvergi gerast betri en í Íran. Um kvöldið var borðað á Aseman og flestir gengu á skikkanlegum tíma til náða enda var löng keyrsla til Teheran framundan.
Við kvöddum konu og dóttur Pezhmans og teppadrengina okkar með trega en þeir hafa áhuga á að koma hingað með teppasýningu, sýningu á minatúrlist og teppagerð á næsta ári ef ég fellst á að aðstoða við þau grilljón formsatriði sem þarf að ganga frá áður en slíkt getur orðið að veruleika.

Við Pezhman höfðum ákveðið að keyra rakleitt til Teheran- auðvitað með viðeigandi stoppum til að teygja úr sér, sinna köllum náttúrunnar og skammt frá Kashan útbjuggu þeir Mohamad og Aziz svo síðasta hádegisverð ferðarinnar og slógu sig hressilega út í úrvali og gæðum

Á leiðinni var sögustund, þ.e allir voru fengnir til að segja sögur úr ferðalögum sínum og eina skilyrðið að það væri ekki úr núverandi  ferð. Þetta varð fjölbreytt flóra og enda verðlaunasamkeppni. Í síðústu ferð bar Þorkell Erlingsson sigur út býtum. Hér voru sagðar alls konar sögur og bráðskemmtilegar og þar sem ég skipaði mig í dómnefnd er erfitt verkefni sem bíður mín.

Við komuna til Teheran var umferðin hin bærilegasta og það gladdi mig að í móttökunni var Mansour Momeini að vinna en hann var leiðsögumaður minn um þessar slóðir s.l. vor og sá til þess að allt var tilbúið og við vorum öll á sömu hæð sem flýtti fyrir afhendingu farangurs.

Um kvöldið var kveðjukvöldverðurinn uppi á 13. hæð. Þar talaði ég náttúrlega og þakkaði að venju samveru, rifjaði enn upp að þetta væri 40. ferðin og 17 ferðir hef ég auk þess farið þessum til undirbúnings. Taldi það einborið að í þessar ferðir veldust yfirleitt skemmtilegt, fordómalaust og forvitið fólk og svo var skálað til lífs og til gleði að venju.

Edda Ragnarsdóttir afhenti mér gjöf frá hópnum, síma sem hæfir vitsmunum mínum og fallegt kort. Það kort hafði Óskar útbúið fyrir ferðina og síðan skrifuðu allir nöfn sín. Þetta var mér hið mesta gleðiefni

Að svo búnu talaði Guðmundur Pé og sjá má á myndinni hér fyrir neðan að ég  kunni vel að meta orð hans.
Kristín Thorlacius sagði nokkur vel valin orð svo og Pezhman og gaf ölllum íranskan tónlistardisk sem mágur hans hafði útbúið.

Í stað þess að við þyrfum að tjekka út um hádegi hafi Hossein og hans samstarfsmenn hjá IRAN MARKAZ séð til þess að við mættum vera til kl. 17 og notuðum tímann og skokkuðum á teppasafnið, listasafnið reyndist vera lokað, öðru eða þriðja sinni. Síðan gerðu menn síðustu innkaupin og pökkuðu.

Við vorum boðin af forstjóra ferðaskrifstofunnar í klúbb Orkumálaráðuneytisins, fallegur útiveitingastaður og gómsætar kræsingar sem fyrr á borðstólum.

Svo var tímabært að leggja af stað til flugvallar. Gulla pé sagði nokkur falleg orð til mín, Pezhman flutti kveðju  bílstjóranna og allir voru tregafulllir en hlökkuðu náttúrlega til að koma heim.

Ég tel þetta hafa verið einn besta hópinn enda besta fólkið og samlyndi fagurt. Takk kærlega.Wednesday, September 26, 2012

Að grafhýsi Avicenna og afmælisveisla Johanna Travel í Arak


Svo rann upp einn sólskinsdagurinn enn í ferðinni okkar og við vitjuðum grafhýsis Esterar og Mordecai. Sagan segir að þar séu hvílustaðir Esterar og nefnds Mordercai. Ester giftist Xers eftir að hann hafði látið konu sína Vashti róa af því honum fannst hún sýna feminiskar tilhneigingar. Fræðimenn telja þó að þarna hvíli þau alls ekki frændsystkinin heldur gyðingardrottingin Shushan Dokt sem fékk eiginmann sinn Yazgerd á að leyfa gyðingabúsetu í Hamedan. Nú búa um 20 íranskir gyðingar í Hamedan og staðar þessa gætir gamall gyðingur sem safnar pennum og vill ekki síður fá penna en nokkra aura í söfnunarbaukinn. Margir gyðingar sem búa annars staðar í landinu koma þarna til að votta þeim virðingu sína.


Að svo búnu var farið að grafhýsi og safni Avicenna, sem var læknir og heimspekingur og er í miklum metum. Hann hét Bu Ali en var jafnan kallaður Avicenna og er þekktur undir því nafni á Vesturlöndum og víðar. Hann var fæddur í Bukhara sem nú er innan landamæra Uzbekistan en tilheyrði þá Íran, árið 980 f.Kr. Hann virðist hafa hneigst til lækninga barn að aldri og eftir að hafa lokið prófi í læknisfræði lagðist hann í ferðalög, settist að í Hamedan og varð hirðlæknir ríkjandi emirs við góðan orðstír. Þegar þessi emír andaðist var Bu Ali varpað í fangelsi en honum tókst að flýja og komst til Isfahan. Hann skrifaði fjölmargar bækur um læknisfræði, rannsakaði m.a. plöntur sem hann hafði mikla trú á til lækninga og svo fullkomnar voru þessar bækur hans að margar þeirra voru notaðar við kennslu frá á18.öld. Hann fékkst einnig við skáldskap og heimspekigrúsk. Hann andaðist í Hamedan 1037 e.Kr. og þótti hafa afrekað mikið á tiltölulega skammri ævi.

Íranir hafa hann í miklum hávegum og hafa reist honum - eins og mörgum andans mönnum - mikilfenglegt grafhýsi. Þar var mikill fjöldi Írana og eins og venjulega þótti þeim einkar ánægjulegt að hitta okkur og fá að taka myndir af okkur.


Morgunininn eftir var svo keyrt til Arak og þar gistum við á hreinasta lúxushóteli, Amir Kabir og á leiðinni sem var fjölbreytt að venju skoðuðum við m.a Nushijan frá 8.-6 öld f. Kr Uppgröftur þar bendir bil að þar sé elsta eldhof sem hefur fundist.


Um kvöldið borðuðum við á veitingastað hótelsins, þar var lifandi tónlist og öðlingsmatur að venju. Vegna þess að þetta var í senn 40. og síðasta ferð Johanna Travel fannst mér tilhlýðilegt að bjóða samferðarfólkinu upp á tertu sem var hin gómsætasta.

Svo var slegið upp balli og er á engan hallað þó staðhæft sé að Steindór og Sólrún slógu þar í gegn með glæsibrag.

Morguninn eftir var svo lagt af stað til perlu Írans, Isfahan og gerðum við stans í bænum þar sem Khomeini trúarhöfðingi er fæddur.


Við komu til Isfahan bjuggum við okkur ból næstu 4 nætur á Aseman og þar beið mótttökunefndin galvösk og borðaði með okkur, þ.e. Hossein, Ali og kona og dóttir Pezhmans. Fóru í hönd ljúfir dagar sem segir frá í niðurlagskafla.

Monday, September 24, 2012

Nú liggur leið til Tak e Soleman og yfir stórkostlegt fjallaskarð til KermanshahEftir góða veru á Grand Hotel í Zanjan var búist til brottferðar til  Takht e Soleman sem útleggst  en fyrir innreið múslima í Íran voru íbúar landsins að meirihluta Zorostriar og var þessi staður miðpúnktur þeirra. Zoristar dýrkuðu náttúruöflin fjögur, eld, vatn, jörð og himinn. Nafnið þýðir hásæti Salomons en sá kóngur mun raunar aldrei hafa setið þar.
Á leiðinni var farið um fögur og tilkomumikil fjöll og fjallaskörð og reyndi þá verulega á hæfni Mohamads bílstjóra og brást hún ekki fremur en fyrri daginn. Á leiðinni talaði Pezhman m.a um giftingarsiði í Íran en aflagðar eru fyrir löngu skipulagðar giftingar og  menn velja nú maka sína sjálfir en auðvitað eru alls konar serimoniur í kringum það. Áður hafði Guðmundur Pétursson talað um  ritgerð sem sr. Jakob Jónsson skrifaði um Kýrus konung í íslenskum rímum og átti drjúgan þátt í því að sr. Jakobi og Þóru konu hans var boðið í hátíðahöldin í Persepolis 1971 þegar Reza 2. kóngur lét öðru sinni krýna sig og Föruh Dibu drottningu sína. Þetta var hið fróðlegasta. Þá var komið til Dandy, notalegs bæjar þar sem við reyndum hæfni okkar á leikvelli sem hafði einnig - eins og raunar víðar- ágætis útiheilsuræktarstöð og þar geta foreldrar æft sig meðan þeir líta eftir börnum sínum. Þennan sið mættu menn taka upp hér.

Þar sem menn höfðu látið í ljósi áhuga á að fá að labba um í litlu þorpi og anda að sér mannlífi, var næst numið staðar í örþorpinu Seihklar og þar  var okkur nokkrum boðið inn á heimili, boriðn í okkur sætindi og frúin skerpti á katlinum og við dáðumst að húsakynnum sem voru hreinleg og smekkleg þegar inn var komið og er það einkennandi fyrir þessi litlu þorp þótt ekki virðist þau tilkomumikil utan frá séð. Þetta var okkur eftirminnileg heimsókn.
Þegar var komið til Hásætis Salómons sem er vitanlega á Heimsminjaskrá UNESCO var gengið þar um. Það er reist umhverfis stöðuvatn og rústir eru þar af eldhofi. Þegar innrásarherir múslima nálguðust fundu Íranir upp nanfið Takt e Soleiman í þeirri von að múslimar sem báru mikla virðingu fyrir spámönnum Gamla  testamentisins létu vera að leggja staðinn í rúst. Það gekk eftir og rústir af Hásætinu og öðrum merkum minjum standa þar enn.Eftir það var rúllað til Takab og þar bjuggum við um okkur á Hótel Ranjii sem er eina hótelið í bænum þeim og herbergi ekki burðug. Ég hafði þó sagt frá því svo ég hygg að menn hafi búist við því öllu snautlegra og varð úr þessu hið mesta grín. Í bænum er aðeins veitingastaður á hótelinu og þar snæddum við hinn þokkalegasta mat um kvöldið og morgunverð daginn áður en við lögðum upp til Kermanshah sem er aðalborg Kúrda í landinu og fjallafegurðin á leiðinni og umhverfis borgina hreint ólýsanleg. Við héldum á bazarainn og gistum síðan á Jamshidhóteli og borðuðum þar. Afskaplega góður matur á boðstólum og foss skreytti veitingasalinn mönnum til misjafnrar ánægju þar sem menn vildu gjarnan skrafa saman svo veitingamenn lækkuðu fossaniðinn. Þetta  var raunar einn fárra veitingastaða sem við hittum fyrir allmarga gesti - allt Írani því útlendir ferðamenn sáust hvergi.Daginn eftir skoðuðum við Tekieh Moaven ol Molk sem var reist til að minnast píslarvættisdauða Husseins Alisonar, hrífandi bygging og þangað leita menn mjög meðan sorgarmánuðurinn Moharram stendur yfir. Einnig skoðuðum við basalhvilftir sem voru skornar út á tímum Sassaníta og ekki skal ógetið  hofs Anahitu, vatnsgyðjunnar í Zorostratrúnni og um 25 km frá Kermanshah eru Bistoun sem talið er að þær hafi verið skornar út fyrir mörgum öldum og eru á fornminjaskrá UNESCO. Klifu þeir djöfustu upp í klettana. Alls staðar voru kátir Íranir í pikknikk og voru ósparir að bjóða okkur að þiggja veitingar

Á leiðinni til Hamadan talaði Pezhman um  utanríkisstefnu Írana við góðar undirtektir. Hann vill eðlilega meina að olían sé undirrót flestra vandamála í þessum heimshluta og ekki síst stofnun Ísraelsríkis og geta flestir verið sammála um það að ég hygg.

Fréttum að því að allt væri að verða vitlaust vegna myndar um Múhammed spámann sem kostuð var af Bandaríkjamönnum og dró ekki upp fagra mynd. Seinna kom í ljós að þetta væri mjög heimóttarleg mynd og leikarar verið gabbaðir til að leika í henni.

Við komuna til Hamadan gistum við á Baba Taher og borðuðum þar kvöldmat undir beru lofti. Ljómandi mat eins og alltaf í ferðinni. Þarna gistum við tvær nætur og læt ég því þetta duga og verður 3. kafli settur inn á morgun.

Saturday, September 22, 2012

Ný Íranáætlun tókst afskaplega vel

Sæl öll
Var að koma inn úr dyrunum úr einstaklega vel lukkaðri ferð til Íransferð með 23 ánægjulega félaga.

Við byrjuðum ferðina í Tabriz í norðri og þar tóku Pezhman leiðsögumaður og Mohamad bílstjóri á móti okkur og voru glaðir að sjá okkur. Menn þurftu að hvíla sig vel en seinni hluta dags var tekið til óspilltra málanna að skoða þessa borg sem er verulega sjarmerandi. Löbbuðum um markaðinn sem er einn sá stærsti í  landinu, virtum fyrir okkur minnismerki skáldanna en Íranir sýna andans fólki sínu einstaka virðingu. Bláa moskan  vakti athygli og auk þess að virða fyrir okkur Stjórnarskrárhúsið og skemmtilegt safn fórum við í kvöldverð á El goli, mjög fallegan veitingastað í miðri borg í manngerðu vatni og þar var  aldeilis líf í tuskunum. Brúðkaup var á Parshóteli og brúðhjónin fögur  og glæsileg og hæfilega undirleit eins og við á.
Daginn eftir til Kandovan, leyndardómsfulls staðar sem minnir á Kapadoikkiu í Tyrklandi þar sem húsin og íverustaðir eu hoggnir inn í bergið. Fólk fagnaði okkur vel enda eru engir túristar í Íran þessar stundir og við urðum mjög eftirsóttar ljósmyndafyrirsætur. Svo paufuðumst við upp í veitingahúsið - 120 tröppur- og voru  ýmsir móðir en allt tókst bærilega. Undursamlegur og göldróttur staður.
                         
Næst lá leiðin til Zanjan. Nokkur keyrsla en skemmtileg leið og Kolbrá talaði um birtingarmyndir músliima í kvikmyndum  við góðar undirtektir enda stemmir hún ekki beint við þá mynd sem við sem ferðamenn sjáum hér þar sem fólk fagnar okkur ákaft og vill eiga tal við okkur. Í Zanjan skoðuðum við  mosku ævaforna sem státar af þriðja stærsta hvolfþaki moska í heimi, heimsóttum vaxmyndasafn sem sýndi þvottahús fyrri tíma og þar komu konur saman, þvoðu þvott og  möluðu án efa um nýjustu ævinttýri og sögðu kjaftasögur.

Við Pezhman töluðum til skiptis og allt var hið besta mál. Mohamad og Aziz aðstoðarmaður hans höfðu kaffi og te og flottar kökur á boðstólum og pikknikkhádegisverðir sem þeir útbjuggu voru herlegir, ostar, tómatar, túnfiskur, alls konar kássur, brauð og döðlur og allir gerðu sér gott af þessu.

Taska Kolbrár varð eftir í Frankfurt en hafði nú skilað sér og allt var í hinu besta standi. Allmargir í hópnum sem féll afar vel saman, höfðu farið í Íranferð áður, þar á meðal Guðm Pé, Edda, Gulla pé(tvívegis) Þóra Jónasdóttir, Kristín Thorlacius og Óskar Ægir og var  hrifning þeirra ekki sízt því landslagið er miklu stórfenglegra og hreint út sagt makalaus fegurðin í landslagi og alls staðar var okkur tekið eins og gestum sem lengi hefði verið beðið eftir.
Næsti kafli á morgun.Sunday, September 16, 2012

Iranhopur i vellystingum i Isfahan

Iranhopur i vellystingum i Isfahan

Godan og blessadan daginn
Loks kemst eg i alennilega tolvu til ad senda kvedjur til ykkar allra. Iranhopurinn kom hingad i gaer og her verd heimilmum vid naestu 3 daga og skodum alla helstu stadina. Hopurinn er nuna i Fjorutiu sulna hollinni og kemur sidan hingad i teppabudina og Hossein mun halda fyrirlestur um teppagerd og teppin verda synd. Ad tvi bunu er farid i Iam moskuna, Ali Qapu hollina og menn unu skoda sig um a torginu mikla.

Sidustu daga hofu vid verid a flandri um nordur og vesturhlutaa Irans sem er gerolikur sudurhlutanum. Fjallafegurd meiri en vidast,  storkostleg gestrisni og elskulegt vidmot hvarvetna. Vid hofum koid inn a heimili, gist a finum hotelum og einu afleitu en thad vissu allir fyrir og vard ur brandari. Matur finn og flesta hadegisverdi hafa bilstjorarnir Mohamad og Aziz utbuid vid mikla anaegju.

Borgirnar sem vid hofum heimsott eru Tabriz thar sem ferdin byrjadi. Taska Kolbrar skiladi ser ekki en kom sidan og urdu fagnadarfundir Tha forum vid til Zanjan, Kermanshah, Hamadan og alls stadar skodudum vid helstu stadina. Kvoldid adur en hingad kom heldum vid upp a thad a fineriis hoteli i Arak ad thetta er ferd Johanna Travel numer 40 og jafnvfrat su sidasta. Thar var einnig hressileg ironsk tonlist og Steindor og Solrun stigu dans af mikilli list.

Aetla ekki ad hafa thetta lengra i bili en skrifa aftur adur en vid forum fra Isfahan og allir toku fra ad their senda kaerar kvedjur heim og ohaett ad segja ad nyir Iranfarar eru hissa og gladir og their sem eru ad fara i adra ferd eru himinlifandi lika.

Sunday, August 19, 2012

Aðgerðir UNICEF í Jemen

Fatimusjóðurinn greiddi 3 milljónir nýlega í þetta verkefni sem er lýst hér að neðan. Við skulum vona að þær komi að notum. Kannski rennur upp sá dagur áður en of langur tími líður að sjóðurinn geti á ný farið að styrkja skólabörn eins og við verðum í ríf sex ár eða frá 2005 og þar til óeirðir hófust þar í landinu og virðist ekki sjá fyrir endann á þeim þótt ástandið hafi skánað nokkuð. Þessir fjármunir fara einkum til næringarverkefnis vegna hungursneyðar sem um 40 prósent jemenskra barna búa við um þessar mundir.

Um UNICEF:
Skrifstofa UNICEF í Jemen leggur aðaláherslu á fjóra megin þætti í starfi sínu í þágu barna landsins: heilsugæslu og næringu,  menntun, barnavernd og aðgengi að vatnsveitu og hreinlæti.  Alls starfa um 100 mans á skrifstofunni en yfirgnæfandi meirihluti þeirra eru Jemenar. Auk þess starfa hundruðir sjálfboðaliða með UNICEF í Jemen. 

Yfirmaður UNICEF í Jemen er Geert Cappalaere.

Eftirfarandi er upptalning á helstu aðgerðum í starfi UNICEF í Jemen í júni- og júlímánuði 2012.


Staða barna og verkefni UNICEF í júní og júlí 2012:

Næring:
 • Niðurstöður SMART næringarúttektar í Hajjah-fylki sýna að hlutfall barna sem þjást af bráðavannæringu í fjallahéruðum fylkisins er 9,3% en á láglendi er hlutfallið 21,6% sem er mjög alvarlegt ástand.
 • Í kjölfar SMART-úttekta í fylkjunum Taiz og Haradh hafa verið gerðar ítarlegar áætlanir um viðbrögð og samstarf stofnanna og félagasamtaka á sviði næringarmála, vatns og hreinlætismála hefur verið aukið og samþætt frekar. 
 • Frá og með júní 2012 haf 1.000 heilbrigðisstarfsmenn í 16 fylkjum verið þjálfuð í viðbrögðum við bráðavannæringu barna.
 • 23 sérfræðingar stjórnvalda, frjálsra félagasamtaka og Sþ-stofnanna hlutu þjálfun í framkvæmd SMART næringarúttekta til að betur sé hægt að fylgjast með og bregðast við næringarástandinu.
 • Viðbragðsáætlanir í framkvæmd í Taiz- og Hajjah-fylkjum í samstarfi við héraðstjórnir, félagasmtök, alþjóðstofnanir og stjórnvöld.


Heilsa:
 • 98% jemenskra barna voru bólusett gegn lömunarveiki í átaki sem UNICEF stóð fyrir dagana 11. til 13. júní  í samstarfi við WHO og heilbirðgiðisráðuneyti Jemen. 
 • Námskeið fyrir heilbrigðisstarfsmenn úr öllum fylkjum landsins voru haldin til að kynna ný bóluefni og dreifa upplýsingarefni og skráningarmiðum fyrir næsta bólusetningarátak.


Menntun:
 • Staðfest hefur verið að 52 skólar hafa verið herteknir í Zinjibar og Khanfar í suðurhluta Abyan-héraðs af Asnar Al-Shari‘a og af þeim hefur verið gerð bein árás á 26 þeirra. 
 • Nýr skóli fyrir flóttabörn settur upp í Haradh.
 • Í Taiz fengu 857 skólabörn aukakennslu til að koma til móts við tafir á skólahaldi í skólum þeirra.
 • Þriggja daga þjálfun um réttindi barna og sálrænan stuðning við börn var haldin fyrir 83 kennara sem kenna í sumarskólum víða í Jemen.
 • Sumarbúðir fyrir flóttabörn voru haldnar í Haradh héraði, 4.141 börn sóttu búðirnar.
 • Undirbúningsvinna er hafin við byggingu 16 tímabundinna kennslustofa fyrir flóttabörn í Al-Mazraq flóttamannabúðunum í Haradh. Kennslustofurnar leysa tjaldskóla af hólmi. Kennslustofurnar munu nýtast 718 börnum.


Barnavernd: 
 • Sérstök úttekt á vegum SÞ leiðir í ljós að bæði Jemenski herinn og The First Armoured Division hafa notast við barnahermenn. 
 • Fræðsluherferð til að fræða fólk um hættur jarðsprengja og annara ósprunginna sprengja var haldin í samstarfi við Yemen Executive Mine Action Center og félagsmálaráðuneyti Jemen. Herferðin fór um öll 15 héröð Sa‘ada-fylkis. Fræðsluherferðin náði til 54.777 manns, þar af 27.039 barna.
 • Í samstarfi við félagsmálaráðuneyti Jemen og Intersos veitti barnaverndarmiðstöð UNICEF í Haradh 77 fylgdarlausum börnum vernd og tímabundna umönun (38 þeirra flóttamenn frá Afríkuhorninu og 39 jemensk börn). 36 jemensku barnanna voru sameinuð fjölskyldum sínum á ný og öllum 38 flóttabörnunum var fylgt aftur til heimalanda sinna á Afríkuhorninu að þeirra ósk.


Vatn og hreinlæti:
 • Í Hajja-fylki jók UNICEF stuðning sinn til að útvega flóttabörnum og fjölskyldum þeirra betri aðgang að hreinlætisaðstöðu. 31.623 manns munu njóta góðs af verkefninu. 101 fjölskyldu-klósett (sem nýtast 707 manns) voru sett upp í flóttamannabúðum í Al-Mazraq. 61 klósettstæður voru settar upp í Mustaba (sem nýtast 1.281 manns). Í Haradh hélt UNICEF áfram að dreifa vatni til 40.479 flóttamanna. Hreinlætisvörum var dreift til flóttafólks og fjölskyldna sem hýsa flóttafólk (32.263 manns). Fjórir stórir vatnsgeymar (2000 L) voru einnig settir upp í Mustaba héraði fyrir 38 fjölskyldur (266 manns) og í  Kharyan Al-Muharraq héraði fyrir 30 fjölskyldur (210 manns).
 • Í Amran og Arhab fylkjum var vatni dreift daglega til 11.152 flóttamanna í Amran og Arhab (þar af 2.986 börn) og 4.180 manns var tryggður aðgangur að viðunandi hreinlætisaðstöðu (þar af 1.881 börn). Í Amran fengu 9.500 skólabörn hreinlætisvörur til að nota í sumarskólanum. Þann 31 júlí gerði mikið regn í flóttamannabúðunum í Amran og 129 fjölskyldur neyddust til að leita skjóls í nærliggjandi skóla. Ættbálkar í Amran vilja ekki taka við fólkinu. UNICEF tryggði fjölskyldunum vatn og hreinlætisvörur ásamt því að dæla regnvatni úr búðunum.
 • Í fylkjunum Aden, Lahj og Abyan héldu UNICEF og Save the Children áfram samstarfi sínu um að tryggja 958 fjölskyldum flóttafólks vatn og hreinlætisvörur (4.201 manns, þar af 1.050 börn).  Viðhald var framkvæmt á vatnslögnum og hreinlætisaðstöðu í 29 skólum í Aden, en aðstaðan í skólunum nýtist 1.255 fjölskyldum á svæðinu (5.274 fullorðnum og 2.087 börnum).
Friday, August 17, 2012

Fórnarlömb átaka í Sýrlandi aðstoðuð með 5 milljónum frá Fatimusjóðnum á ÍslandiFórnarlömb átaka í Sýrlandi aðstoðuð með 5 milljónum frá Fatimusjóðnum á Íslandi
Fatimusjóðurinn hefur lagt fram fimm milljónir króna til aðstoðar fórnarlömbum átakanna í Sýrlandi. Rauði krossinn á Íslandi veitti styrknum viðtöku í dag og munu Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi nýta féð til að aðstoða óbreytta borgara sem orðið hafa illa úti vegna átakanna þar í landi.
„Þetta eru mest framlög frá einstaklingum hér á Íslandi sem vilja hjálpa venjulegu fólki sem er skyndilega lent í miðri styrjöld og hefur þurft að flýja heimili sín. Ég bjó í Sýrlandi í tæpa þrjá vetur og hef komið þangað ótal sinnum að auki, bæði ein á ferð og með hópa frá Íslandi.“ segir Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi og forsvarsmaður sjóðsins. „Mér er því sérlega umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa Sýrlendingum á þessum erfiðu tímum.“
Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í borgunum Aleppo, Homs og hluta Damaskus. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í fjöldahjálparstöðvum í Sýrlandi eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á  mannúðaraðstoð Rauða krossins sem víða í landinu er eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.
„Íslendingar hafa sýnt það ítrekað að mannúð fer ekki í manngreinarálit. Þjáningar fólks í Sýrlandi koma greinilega við hjörtu Íslendinga sem hafa sýnt vilja sinn í verki með því að gefa í Fatimusjóðinn.“ segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Konur og börn eru sérlega berskjölduð í stríðsátökum og við munum stýra þessari aðstoð til þess hóps.“
Á síðustu þremur vikum hafa Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi dreift sjúkragögnum til að sinna særðum í Homs og Damaskus og séð um 100.000 manns á átakasvæðum fyrir mat, hreinu drykkjarvatni og bættri hreinlætisaðstöðu. Nærri hálf milljón óbreyttra borgara sem flúið hefur átökin hefst nú við í fjöldahjálparstöðvum, skólum og öðru húsnæði. Alþjóða Rauði krossinn gerir ráð fyrir að aðstoða um 1,5 milljónir manna í Sýrlandi á árinu.
11.000 sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Sýrlandi sinna sjúkraflutningum, skyndihjálp, neyðarvörnum og neyðaraðstoð oft í lífshættulegum aðstæðum. Þá hefur Alþjóða Rauði krossinn 50 starfsmenn á sínum snærum í Sýrlandi.
Nánari upplýsingar:
Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi Fatimusjóðsins, 897 6117, jemen@simnet.is
Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða krossins, 894 9005, thorir@redcross.is
-----
Myndatexti: Guðlaug Pétursdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Fatimusjóðsins ásamt Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins og Þóri Guðmundssyni, sviðsstjóra hjálparstarfssviðs við afhendingu styrksins.

Saturday, August 11, 2012

Fatimusjóður leggur fram fimm milljónir til hjálpar í Sýrlandi gegnum Rauða krossinn og Rauða hálfmánann


Við höfum ákveðið í stjórn Fatimusjóðsins að leggja fram liðsinni við Sýrlendinga. Ekki er vanþörf á því eins og ástandið er þar í landi. Ég bjó í Sýrlandi í þrjá vetur tæpa og hef komið þangað ótal sinnum að auki, ein eða með hópa. Mér er því Sýrland og Sýrlendingar sérlega kært og umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa. Stjórn Fatimusjóðs tók því mjög vel og eftir viðræður við Þóri Guðmundsson og Jón Brynjar var ákveðið að afhenda í næstu viku þetta framlag.
Eftirfarandi fengum við svo frá Rauða krossinum um hvernig féinu verður varið og vorum mjög sáttar við það. Vona að svo sé með ykkur og kannski vilja einhverjir fleiri aðstoða. Safnaði á Facebook 778 þús. á nokkrum dögum um daginn og þakka mikið vel fyrir það.
Hvað varðar önnur framlög sem við höfum innt af hendi hef ég fengið skýrslu frá UNICEF um Jemenstarfið og mun birta það fljótlega hér á síðunni. Auk þess vænti ég að við heyrum frá Hjálparstofnun kirkjunnar um Eþíópíuverkefnið innan tíðar.
Munið að númer Fatimusjóðs er 342 13 551212 og kt. 1402403979.

Rauði krossinn á Íslandi bindur vonir við að Fatímusjóðurinn muni styðja við hjálparstarf Rauða
krossins í Sýrlandi. Framlag sjóðsins yrði afhent Alþjóðaráði Rauða krossins og nýtt við
neyðaraðstoð í Sýrlandi.

Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í Aleppo,
hluta Damaskus og Homs. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í
fjöldahjálparstöðvum eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á
mannúðaraðstoð Rauða krossins.


Hjálparbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins

Alþjóðaráð Rauða krossins gerir ráð fyrir að aðstoða um 1,5 milljónir manna í Sýrlandi á árinu en
hjálparbeiðni ráðsins fyrir árið 2012 hljóðar upp á 4,6 milljarða króna.

Áætlanir miðast meðal annars við að efla heilbrigðisþjónustu og bæta lífsskilyrði fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín. Um 100.000 manns munu njóta mánaðarlegrar mataraðstoðar og allt að 25.000 manns munu fá afhentar ýmsar nauðsynjavörur til heimilishalds.

Alþjóðaráðið vinnur að því að stríðandi aðilar virði alþjóðleg mannúðarlög og leggur áherslu á að þeir láti af hegðun sem brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög. Fangaheimsóknir eru hluti af slíku starfi. Fangelsið í Aleppo hefur verið heimsótt og unnið er að því að sendifulltrúar ráðsins fái aðgang að öðrum fangelsum í landinu.

Rauði hálfmáninn í Sýrlandi vinnur að því að efla og styrkja viðbragðs- og viðbúnaðargetu sína í
samræmi við gjörbreytt ástand í landinu. Alþjóðaráðið styður við Rauða hálfmánann svo hann geti
áfram sinnt hlutverki sínu af festu og ábyrgð.

Á síðustu þremur vikum hafa Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauði hálmáninn í Sýrlandi:

 • Sent sjúkragögn til Aleppo til að sinna allt að 1000 slösuðum ásamt því að endurnýja birgðir af sjúkragögnum í Damaskus.
 • Endurnýjað búnað í fjórum færanlegum heilsugæslustöðvum (bílum) í eigu Rauða hálfmánans sem sinna heilbrigðisþjónustu fyrir þolendur í Damaskus ásamt því að dreifa lyfjum í fjöldahjálparstöðvum í Damaskus.
 • Séð 125.000 manns fyrir mat í Damaskus og nágrenni, Aleppo, Homs, Hama, Idlib, Lattakia, Hassakeh og Raqqa.
 • Tryggt um 2000 manns í 10 fjöldahjálparstöðvum í Aleppo aðgengi að hreinu vatni ásamt því að auðvelda aðgengi að hreinu drykkjarvatni og bæta hreinlætisaðstöðu í Damaskus og Rural
 • Damascus fyrir yfir 68.000 manns sem þurftu nýlega að flýja átökin og hafast nú við í 27 skólum og íbúðahúsnæðum.
 • Unnið að því að tryggja rúmlega 300.000 manns sem dvelja í 100 fjöldahjálparstöðvum í
  Homs aðgengi að hreinu vatni.
 • Dreift 10.000 dýnum í fjöldahjálparstöðvum í Damaskus og nágrenni, Aleppo og Homs ásamt
  2000 hreinlætispökkum í Aleppo.
Tillaga að framkvæmd verkefnisins hér á landi
 • Fatímusjóðurinn mun leggja Rauða krossinum á Íslandi til fimm milljónir króna og eyrnamerkt verkefnum Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi.
 • Rauði krossinn á Íslandi og Fatímusjóðurinn munu halda sameiginlega kynningu á framtakinu í lok sumars 2012.
 • Rauði krossinn á Íslandi mun senda Fatímusjóðnum skýrslu um ráðstöfun fjármuna og framkvæmdir Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi um mitt ár 2013 auk fréttatilkynninga og annars efnis um framkvæmd og framvindu hjálparstarfsins eftir því sem það berst.


Alþjóðaráð Rauða krossins

Alþjóðaráð Rauða krossins er sjálfstæð stofnun með aðsetur í Genf í Sviss. Allt frá stofnun ráðsins árið 1863 hefur meginhlutverkið verið frumkvæði að hjálparstarfi á átakasvæðum. Alþjóðaráðið lætur þá einkum til sín taka sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum. Samkvæmt
Genfarsamningunum fjórum frá árinu 1949 er ráðinu falið að fylgjast með að samningarnir séu virtir
af þeim ríkisstjórnum sem hafa undirritað þá og eiga þátt í átökum. Það eru því einkum særðir og
sjúkir hermenn, stríðsfangar og almennir borgarar sem njóta verndar ráðsins. Alþjóðleg viðurkenning
á Alþjóðaráðinu sem hlutlausri mannúðarstofnun veitir ráðinu aðgang að átakasvæðum sem önnur
alþjóðleg samtök hafa oft ekki aðgang að. Alþjóðaráðið hefur 50 starfsmenn á sínum snærum í Sýrlandi.


Rauði hálfmáninn í Sýrlandi

Rauði hálfmáninn í Sýrlandi er eitt af 188 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans og á
höfuðstöðvar í Damaskus. Félagið starfar í 14 deildum og 82 undirdeildum um allt landið. 11.000
sjálfboðaliðar félagsins sinna sjúkraflutningum, skyndihjálp, neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Rauði
hálfmáninn sér um samhæfingu neyðarviðbragða í Sýrlandi í samræmi við landslög og er víða í
landinu eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.

Wednesday, July 25, 2012

Ávarp flutt á samstöðufundi með hrjáðum almenningi Sýrlands á Ingólfstorgi 25.júlí


Góðir fundarmenn.

Eins og hefur verið greint frá er þessi fundur  til að lýsa yfir stuðningi og samstöðu með óbreyttum borgurum í Sýrlandi, saklausu fólki sem enga ábyrgð ber á þeim hörmungum sem hafa dunið yfir þetta land síðustu mánuði.

Til hans er ekki stofnað til að krefjast íhlutunar erlendra ríkja allra síst NATO og Bandaríkjamanna. En börn, konur og karlar eru myrt í Sýrlandi á hverjum degi, fólk flýr eins og fætur toguðu og enginn endir virðist á þessum ósköpum. Án þess að það sé vitað nákvæmlega má ætla að um 20 þúsund manns hafi verið drepnir og langtum fleiri slasaðir. Hundruð manns deyja á hverjum degi.

Við viljum láta í okkur heyra þó við séum fá og smá og sýna að við berum umhyggju fyrir fólkinu þar. Við gerum það kannski ekki síður vegna okkar af því við finnum til samkenndar og djúprar hryggðar ekki vegna þess við gerum því skóna að allt falli í ljúfa löð þó við komum hér saman. Við í stjórn Fatimusjóðs höfum hafið  smásöfnun til að styrkja börn í Sýrlandi, bæði þau sem eru á vergangi í sínu eigin landi eða hafa flúið yfir til nágrannalanda og búa þar við erfiðan og sáran kost. Við ætlumst ekki til að fólk leggi fram stórar upphæðir en allt hjálpar.Við leitum nú að pottþéttum samtökum til þess að starfa með svo að þessir fjármunir komi að gagni og satt best að segja leyfi ég mér að treysta því að ýmsir hér vilji vera með í þessu. Þúsund kall eða hvað sem þið megið missa, allt kemur að gagni. 

Þegar Basjar Assad tók við völdum af föður sínum – eftir vægast sagt vafasamar kosningar – í júlí árið 2000 óraði fáa fyrir því sem hefur verið að gerast þar. Í ræðu Assads þennan dag  hét hann löndum sínum breytingum sem miðuðu að því að draga stórlega úr ritskoðun sem hafði verið við lýði í 3 áratugi. Hann hét lýðræði þótt það lýðræði væri kannski dálítið öðruvísi í laginu en það sem við á Vesturlöndum köllum lýðræði. Og hann hafði varla sleppt orðinu þegar útgáfa nýrra dagblaða hófst, málstofur tóku til starfa um allt land þar sem menn létu óspart í sér heyra og gefið var fullkomið frelsi á notkun farsíma og internets en allt slíkt hafði verið bannað. Það var fagnað þá daga í Sýrlandi.

Við hlið sér hafði hann  sýrlenska eiginkonu sína, sem er uppalin í Bretlandi en af sýrlensku foreldri og var ekki betur séð en hún styddi mann sinn í þessum breytingum. Hún beitti sér af kappi fyrir því að efla réttindi kvenna og örva þær til dáða. Allt leit þetta svo ljómandi vel út.

Svo leið ekki á löngu uns valdaklíkunni sem hafði verið í kringum gamla Assad, blöskraði hvað var að gerast og sá að héldi svo fram sem horfði mundu hún missa ekki bara einn, heldur marga spóna úr sínum öskum. Svo Basjar Assad dró úr umbótum en fullvissaði þó landa sína að áfram yrði haldið en hægt nokkuð á.
Ég bjó þá í Damaskus, og mér og sýrlenskum mínum fannst þetta skynsamlegt því í ríki þar sem slíkt einræði hafði verið við lýði og handtökur daglegt brauð, eru kollsteypur beinlínis hættulegar.

En við vorum sannfærð um að áfram yrði haldið á þeirri braut sem Basjar Assad hafði sýnt einlægan vilja – það héldum við og því trúðum við – til að umbreyta þjóðfélaginu hægt og gætilega.

Assad naut stuðnings og aflaði  sér virðingar, ekki síst meðal ungs fólks vegna þess að þeirri stefnu föður síns hélt hann til streitu að láta ekki undan kröfum og yfirráðastefnu Ísraela og Bandaríkjamanna. Það er ekki vænlegt til vinsælda í þessum heimshluta að vera strengjabrúða Bandaríkjamanna og því verður ekki neitað að of margir forystumenn í löndunum þarna voru það svo ekki verður um deilt.

Svo brutust út óeirðir í Túnis og síðan kom Egyptaland og við vitum hvernig þeim hefur farnast. Það brutust út óeirðir í Jemen og síðan kom Líbía. 
Síðan var röðin komin að Jórdaníu og Marokkó. Sem hafa þó á að skipa forystumönnum sem voru raunsæir og  klókir og ákváðu strax að taka upp samræður við þá sem voru að mótmæla. Þar með komst friður á í Jórdaníu og Marokkó enda eru þau svo sett að eiga enga olíu. Frekar en raunar Sýrland sem hefur að vísu  olíulindir í austurhluta landsins þótt því fari mjög fjarri að Sýrland teljist olíuland.
Líbíu töldu menn rétt að ráðast á og það í reynd löngu áður en menn sem í það smelltu sér vissu hverjir voru í raun að berjast gegn umdeildri stjórn Gaddafis. En í Líbíu er olía.Mikið af olíu. Það gerir gæfumuninn. Það brutust út óeirðir í Bahrein – þar sem háð hefur verið gleymda stríðið – enda er þar aðalflotastöð Bandaríkjamanna á þessu svæði og því hæg heimatökin.

Menn á Vesturlöndum fóru að tala um arabíska vorið. Sem var að mínum dómi  einfeldningslegt því fæstir virtust átta sig á hvað tæki við  í þessum löndum þótt harðstjórar yrðu hraktir frá völdum. Það leysir ekki alltaf málin og sorgleg dæmi um það eru t.d. Egyptaland þar sem herinn neitar að afhenda völdin löglega kjörnum forseta, Líbía sem gæti liðast í sundur þótt Gaddafi sé dauður og svo mætti áfram telja. Sýrland verður ekki samstundis sælureitur þótt Basjar Assad hrekist frá völdum og enginn í sjónmáli sem menn treysta til að taka við af honum.

Og sumarið kom ekki og er ekki komið enn. Á fyrstu mánuðum þessara atburða var allt kyrrt í Sýrlandi og sýrlenskir kunningjar mínir voru ósparir að segja að ef eitthvað þess háttar léti á sér kræla mundi hinn elskaði forseti – því það var hann virkilega- bregðast við skynsamlega og taka upp  samninga við þá sem óánægju létu í ljós. 
En auðvitað slapp Sýrland ekki. Það var efnt til mótmæla. Þá kom talskona forsetans umsvifalaust fram og sagði að þetta væru fáeinir óeirðaseggir sem aldrei gætu verið til friðs en forsetinn mundi engu að síður sýna þeim fullan sóma og ræða við þá og leysa málin. Hún sagði að hann mundi eiga fund með þeim á næstu dögum og allt færi vel.

Um hríð – en hún var skömm- drógum við andann léttar. Í hverfinu mínu Sjaalan í Damaskus héldu menn og konur áfram að fara i grænmetisbúðina, kaupa sér kjöt í matinn og ákveðið var að opna fyrir ýmsar síður á netköffum sem voru lokaðar áður – þótt Sýrlendingar hafi fyrir löngu ferið búnir að finna út úr því hvernig þeir ættu að komast inn á þær. Börn trítluðu í skóla og fólk gekk til sinnar iðju. Þetta mundi enda vel í Sýrlandi því Basjar Assad væri skynsamur hófsemdarmaður. Því trúðum við og vorum hin vonbestu.

Og menn skulu hafa það hugfast að fyrstu mótmælin í Sýrlandi voru mjög frábrugðin þeim í Túnis og Egyptalandi þar sem  andúðin var fyrst og fremst gegn sitjandi ráðamönnum Bel Ali og Hosni Múbarak. Fyrstu mótmælin í Sýrlandi voru meira í ætt við tiltölulega kurteisar kröfugöngur- menn vildu aðgerðir gegn atvinnuleysi og að létt yrði meira á ritskoðun. Þegar myndir eru skoðaðar frá þessum fyrstu dögum sjást menn veifa kröfuspjöldum með mynd af Assad þar sem stóð : Assad forseti- þú stendur með okkur.

Með þetta í huga hefur vafist fyrir mér og fleirum að skilja viðbrögð Basjars því hann stóð ekki við þau orð að eiga viðræður við hina svokölluðu óeirðaseggi heldur var þvílík grimmd sýnd að innan nokkurra mánaða logaði Sýrland stafna á milli. Hið svonefnda alþjóðasamfélag hefur skipað Assad að koma að samningaborði, að semja við óeirðaseggina sem fljótlega urðu í hans máli að hættulegum erlendum undiróðursmönnum og hryðjuverkamönnum. Hann hefur heitið vopnahlé en aldrei staðið við orð sín og grimmdin hefur aukist og skipulega hefur verið unnið að því að murrka lífið úr sem flestum og lítt skeytt um hvort þar væru á ferð ung börn eða vopnaðir uppreisnarmenn.

Þess vegna geisar borgarastyrjöld í þessu fallega landi. Þessu landi þar sem býr venjulegt fólk með þessar venjulegu hugsjónir alls venjulegs fólks sem vilja búa við frið og réttlæti.

Ég hef ekki minnstu trú á því að valdbeiting af hálfu vesturlanda muni gera annað en illt verra og er það þó orðið ansans ári illt. Ég hef ekki trú á því að Basjar Assad sé strengjabrúða valdaklíkunnar. 

Ég held að hann sé truflaður og valdasjúkur  maður sem svífst einskis. Mér finnst trúlegt að hann viti að hann lét ástand fara úr böndum – ástand sem hann hefði getað ráðið við ef hann hefði sýnt þá yfirvegun sem við trúðum að hann byggi yfir. Héðan af mun fátt gott gerast í þessu landi. Nema takist að semja um vopnahlé og fá Assad -frá völdum. Hann stendur í blóði upp að öxlum og aftur verður ekki snúið.

Og hvað eigum við þá til bragðs að taka? Við getum vitaskuld reiknað með leyndum afskiptum erlendra af málefnum Sýrlands en við erum ekki hér til að finna sökudólg. Við erum hér til að segja við hrjáða sýrlenska þjóð. Við finnum til með ykkur og við styðjum ykkur. Við viljum að þið vitið það þótt við vitum ekki svo gjörla hvernig við eigum að fara að því.

Aðgerðunum í Sýrlandi má líkja við hamfarir.  Hugsjónir eru löngu foknar út í veður og vind hvort sem í hlut eiga uppreisnarmenn eða hermenn, ráðamenn eða útlendingar sem ugglaust hafa komið meira við sögu en við vitum. Hamfarir af mannavöldum má stöðva. Við verðum að finna leiðina til þess að stöðva morðæðið á saklausu fólki í Sýrlandi.Friday, July 20, 2012

Afhentar 3 millj. í næringarverkefni í Jemen og við þurfum að hjálpa í Sýrlandi


Í morgun afhentu fulltrúar Fatimusjóðs  UNICEF styrk að upphæð 3 milljónir króna. Styrknum verður varið í næringar og heilsuverkefni samtakanna í Jemen en þau hafa sett sér tvö megin markmið í þessu máli, þ.e. að draga stórlega úr hlutfalli barna sem þjást af vannæringu þessa mánuðina og að auka bólusetningar til muna.
Framlag sjóðsins verður notað ásamt öðrum framlögum til að ná fyrrgreindum markmiðum. UNICEF mun veita stjórn FATIMUsjóðs skýrslur um notkun fjármunanna og þann árangur sem næst.

Þá hefur stjórnin einnig ákveðið að hefja söfnun til að aðstoða sýrlensk börn en þar versnar ástandið með degi hverjum. Þegar hafa um fimmtíu manns lagt inn á Fatimusjóð smáupphæð í þessu skyni og ef þið viljið taka þátt í því er það ákaflega þakksamlega þegið. Númer sjóðsins er 342-13-551212 og kt 140240-3979. Ekki er verið að biðja um stórar upphæðir en eins og við vitum gerir margt smátt eitt stórt svo 1-3 þúsund krónur og nógu margir sameinast getum við örugglega veitt einhverja aðstoð og málið þolir ekki bið.

mynd: Stefan Stefánsson  form. UNICEF á Íslandi ásamt með Jóhönnu Kristjónsdóttur og Ragnýju Guðjohnsen.

Mér finnst rétt að segja frá því að vegabréfin okkar vegna Íranferðarinnar eru komin heilu og höldnu og ég þarf að halda fund með félögunum, vonandi seinni hluta næstu viku. Þá verða allir að mæta því miðar verða þá tilbúnir líka. Vera Illugadóttir er einnig að taka saman fróðleik til gagns og gamans sem allir fá.

Tjekka nú hvort og hvenær við getum fengið aðstoðu í Stýrimannaskólanum til að hittast og spjalla. Læt fólk vita þegar þetta er komið á hreint.

Tuesday, July 17, 2012

FréttatilkynningReykjavík 17.07.2012.

1,7 milljón króna styrkur úr Fatimusjóðnum til
verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu
Fulltrúar Fatimusjóðsins, Jóhanna Kristjónsdóttir, Guðlaug Péturdóttir  og Ragný Guðjohnsen,  afhentu í dag Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar 1.735.000 króna stuðning við verkefni í Jijiga-héraði í Austur-Eþíópíu. 1,5 milljónir fara í að reisa vatnsþró, 85.000 krónur til að að byggja 10 kamra og 150.000 krónur fara í smálánasjóð kvenna. 

Jijiga-hérað sem er í Sómalíufylki Eþíópíu er mjög harðbýlt og þurrt svæði þar sem vatn er af skornum skammti. Það er hlutverk kvenna að sækja vatn langar leiðir. Vatnsþró í næsta nágrenni sem safnar rigningarvatni breytir miklu og tryggir vatn marga mánuði inn í rigningartímann. Fræðsla um hreinlæti og smitleiðir sjúkdóma og notkun kamra er mikilvægur þáttur í verkefninu svo og smálán til kvenna.  Konur fá fræðslu um að setja á stofn atvinnustarfsemi, rekstur og endurgreiðslu lána. Lán er veitt eftir ákveðið sparnaðartímabil og ráðgjafi veitir stuðning við atvinnustarfsemi þeirra. Fyrir framlagið í sjóðinn munu 10 konur fá lán sem síðan verða endurgreidd og veitt aftur ennþá fleiri konum til framfara.

Fatimusjóðurinn sem var stofnaður 2005,  hefur það hlutverk að styðja börn, einkum stúlkur, í Jemen til mennta en þar sem þar ríkja nú óeirðir og skólahald að mestu lagt niður ákvað stjórn sjóðsins að styðja að þessu sinni við verkefni Hjálparstarfsins í Asutur-Eþíópíu á harðbýlu svæði þar sem konur og börn og samfélagið allt njóta góðs af. Auk þeirra Jóhönnu, Guðlaugar og Ragnýjar situr Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Fatimu. 

Texti með mynd 1:  Jóhanna Kristjónsdóttir og Jónas Þ. Þórisson skrifa undir  samkomulag um stuðning úr Fatimusjóðnum að viðstöddum Guðlaugu Pétursdóttur og Ragnýju Guðjohnsen úr stjórn Fatimu.
Texti með mynd 2:  Jóhanna Kristjónsdóttir og Jónas Þ. Þórisson handsala samkomulag um stuðning úr Fatimusjóðnum að viðstöddum Guðlaugu Pétursdóttur og Ragnýju Guðjohnsen úr stjórn Fatimu. 

Nánari upplýsingar:
Hjálparstarf kirkjunnar: Bjarni Gíslason upplýsingafulltrúi 896 3898 bjarni@help.is
Fatimusjóðurinn: Jóhanna Kristjónsdóttir 897 6117 jemen@simnet.isFriday, June 22, 2012

Myndakvöld Eþíópíuhóps 2 og samningur senn gerður við Hjálparstofnun kirkjunnar


Þessi mynd er frá samverukvöldi Eþíópíuhóps 2 sem var haldið á veitingastaðnum Minilik á dögunum Þar snæddum við hinn ágætasta mat og fengum okkur svo kaffi á eftir.
Síðar var farið yfir götuna og á Hótel Smára og þar horfðum við á stórfínar myndir m.a. eftir Bergljótu, Svein og 50 mínútna videomynd eftir Högna og vakti allt mikla ánægju. Högni bjó til fullt af diskum með myndinni og seldust þeir upp. Allt rennur í vatnsverkefnið. Högni hefur nú komið til mín fleiri diskum svo að þeir sem höfðu pantað þá geta nálgast þá hjá mér. Minnir að Edda, Maja Kristleifsd og  Gulla hafi óskað eftir diskum.

Einnig var haldið upp á afmæli Bergljótar með fíneríis tertu og fagnaðarlátum og allt var þetta hið ánægjulegasta mál og skemmtu menn sér dátt.

Eftir samskipti við Jónas Þórisson hjá Hjálparstofnun kirkjunnar hefur verið ákveðið að gefa upphæðina sem dugar fyrir vatnsþró, 10 kamra og 10 smálán. Jónas segir að vatnsþrónni verði búinn staður í Jijiga héraði og stingur upp á að hún verði merkt Fatimusjóði sem er auðvitað hið besta mál. Við fulltrúar Fatimusjóðsstjórnar og Hjálparstofnunar munum gera skriflegan samning um þetta innan tíðar.

Aftur á móti hefur ekki tekist að ganga frá peningasendingum til Jemens vegna þess hve flókið það mál er og UNICEF hugmyndirnar falla ekki alls kostar að okkar hugmyndum.
Vil einnig leiðrétta að það er Fatimusjóðsstjórn sem stendur í þessu enda er VIMA ekki starfrækt lengur.
Í stjórn Fatimusjóðs eru sem fyrr Rannveig Guðmundsdóttir, Ragný Guðjohnsen, Guðlaug Pétursdóttir og JK

Þó er vert að geta þess að á báðum myndakvöldunum töluðu menn um að þeir mundu sakna fundanna og samveru og má því velta fyrir sér að áhugasamir hittist t.d. einu sinni á ári eða svo til að halda vináttu og kunningsskapnum í fullu fjöri. Við sjáum til með það.

Loks hefur svo verið gengið frá  greiðslunum fyrir teppasýninguna eftir að allir tollar, skattar(sem urðu á endanum 45 prósent) o.fl. hefur verið gert upp.

Íranfarar í septemberferð hittust á dögunum og var þar skrafað og bornar saman bækur. Við verðum 25 í hópnum og vonandi tekst að senda vegabréf út til Noregs innan tíðar þegar viðkomandi ráðuneyti í Íran hefur amenað okkur. Nauðsynleg plögg hafa verið send út og ég læt fólk vita um leið og svar kemur. Bið þá sem hafa ekki enn sent mér tryggingarstaðfestingu að gera það hið allra fyrsta.

Tuesday, June 19, 2012

Verkefni hjálparstarfsins í Eþíópíu.


Hér eru myndir af vatnsþrónum sem ég hef verið að tala um að við styrkjum. Ein vatnsþró, þ.e. gerð hennar og viðhald kostar 1,5 milljónir. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og við í Fatimusjóð gleðjumst mjög yfir því. Bíð nú eftir svari frá Bjarna Karlssyni hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og síðan verður upphæðin lögð inn á reikning hennar og ég hef óskað eftir því að við fáum að fylgjast með framvindu málsins.Þar sem Máni og Högni gerðu forkunnargóða diska úr ferðunum sem seldir voru á myndakvöldi og ýmsir hafa auk þess lagt inn peninga til þessa ætlum við hóparnir að nota þá upphæð til að styrkja tíu konur- fer vel á að gera það í dag 19.júní. Þeim eru veitt smálán 10 þúsund krónur hverri til að koma af stað litlu fyrirtæki eða einhverju því sem bætt gæti líf þeirra og fjölskyldna þeirra. Í þriðja lagi munum við styrkja gerð tíu kamra, hver þeirra kostar 8,500 kr. 
Fatimusjóðsstjórn fer svo á fund hjá UNICEF á morgun til að fræðast um hvort samtökin geta liðsinnt okkur til að koma þremur milljónum til sveltandi barna til Jemen þar sem ástandið er afskaplega slæmt eftir óeirðir í landinu s.l. ár. Ef okkur sýnist það fýsilegt munum við ganga til samstarfs við þau samtök. Ef ekki þá leitum við betur.

Sunday, June 10, 2012

Fatimustjórnsjóðsstjórn ætlar að greiða fyrir vatnsverkefni og matargjafir til Jemen

Góðan daginn öll

Við höfum haft áhyggjur af því síðan óeirðir brutust út í Jemen og skólahald lagðist að mestu af þar um sinn að við gætum lítið gert til hjálpar.

Nú hittumst við Rannveig Guðmundsdótti, Ragný Guðjohnsen, Guðlaug Pétursdóttir og ég sem eigum sæti í stjórn Fatimusjóðs í vikunni og ræddum þetta eina ferðina enn.

Þar lagði ég fram þá tillögu að meðan málum væri háttað á þennan veg skyldum við
1. greiða fyrir vatnsverkefni í Eþíópíu
2. senda fjárupphæð til hjálpar hungruðum börnum í Jemen.

Tveir hópar fóru til Eþíópíu í vor eins og margir vita og þar rann upp fyrir ýmsum hversu stórkostlega lífsgæði fólks batna ef það hefur aðgang að hreinu vatni. Sem er ekki sjálfgefið þótt erfitt sé fyrir okkur vatnssóðana að skilja það.
Hjálparstofnun kirkjunnar er með vatnsverkefni í landinu: byggð er eins konar sundlaug, safnað í það regnvatni og hreinsitöflur settar ofan í og eftir nokkurn tíma er vatnið hreint og hæft til drykkjar. Slíkt kemur miklum fjölda manns að gagni og verður beinlínis lífsbjörg fyrir fólk.
Eitt slíkt verkefni kostar 1,8 milljón.

Við samþykktum að leggja þá upphæð og verður hún afhent Hjálparstofnun innan tíðar.

Einnig hafa hóparnir tveir lagt í púkk og munu afhenda þá upphæð eftir seinna myndakvöldið nú 14.júní og skal það renna til aðstoðar við konur og börn, m.a. bólusetningar og til styrktar kvennasamtökum í Eþíópíu.

Okkur finnst hart að hverfa frá Jemen og ég held að flestir séu sama sinnis. Fréttir þaðan herma að um 40 prósent barna búi þessa mánuðina við hungur og skort og meðan svo er verður varla ætlað að þau séu send í skóla. Við ákváðum því að leggja 3 milljónir hjálpar og leitum nú að pottþéttum samtökum í Jemen sem gætu komið þessu í framkvæmd.

Einnig eru bundnar vonir við að ástandið þar skáni og við getum tekið upp á ný það sem sjóðurinn var stofnaður til að gera: að styðja börn í skóla.


Það væri fróðlegt að heyra skoðanir ykkar á þessum ráðstöfunum okkar.

Thursday, June 7, 2012

Myndakvöld fyrri Eþíópíuhóps og Íranfarar, takið eftir

Myndakvöld Eþíópuhópsins fyrri var í gærkvöldi 6. júní og seinni hópurinn hefur verið boðaður á sams konar kvöld þann 14. júní. Mig vantar enn svör frá ansi mörgum úr þeim hópi og hef þó sent tvívegis bréf til þeirra.

Gærkvöldið var mjög notalegt. Við hittumst sem sagt á Hótel Smára í Kópavogi og gæddum okkur á poppkorni og djús og ég kom með slatta af írönskum sætindum. Svo löbbuðum við yfir götuna á veitingastaðinn Minilik og fengum þar gómsætt eþíópískt hlaðborð. Mæting var framúrskarandi góð og tveir tóku með sér gesti.
Svo var mallað ofan í okkur eþíópískt kaffi við hinn mesta fögnuð.

Við gáfum okkur góðan tíma í matinn eins og sæmir á eþíópískum stað og síðan var farið að skoða myndir. Máni sýndi disk og hafði auk þess brennt slatta sem var selt svo við gætum lagt í vatnsverkefni í Eþíópíu eins og um hefur verið talað. Þeir diskar seldust upp snarlega.
Einnig var Guðrún Ólafsdóttir með myndir, Magdalena, Steingrímur og Rikharð og höfðu allir mikla ánægju af.

Bið sem sagt hóp númer tvö að tilkynna sig snarlega og þar verður m.a. sýnd mynd sem Högni gerði og verður sá diskur seldur í sama augnamiði.

Þá vil ég minna væntanlega Íranfara á fundinn á laugardag kl. 14 í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu.
Bið alla að koma með tvær nýjar passamyndir, konur skulu bera slæðu.

Nokkrir hafa ekki sent skönnuð vegabréf til mín og er ástæðan í sumum tilvikum sú að einhverjir þurftu að fá sér ný vegabréf.
Ég keypti hnetur, döðlur og fleira gómsæti í skoðunarferðinni minni til Íran á dögunum þegar ég skrapp þangað til að fara yfir nýju áætlunina. Við gæðum okkur á þessu ásamt með te og kaffi og spjöllum um ferðina.
Við Gulla munum fylla út vegabréfsáritunarumsóknir svo þær verða vonandi tilbúnar en menn þurfa að skrifa undir og sömuleiðis vantar viðbótarupplýsingar hjá nokkrum þátttakendum.

Það er ansi nauðsynlegt að sem flestir komi á fundinn.

Nýja áætlunin er mjög góð og ferðin sem ég fór lukkaðist prýðisvel og tilhlökkunarefni að sjá nýjar slóðir í Íran en einnig verðum við nokkra daga í Isfahan, það er ógerningur að sleppa þeim stað.

Vonast sem sé til að Eþ-2 tilkynni sig- þ.e. þeir sem hafa ekki þegar gert það á myndakvöldið 14.júní og að Íramfarar mæti stundvíslega laugardaginn 9.júní.

Saturday, May 12, 2012

Vantar ykkur gömul fréttabréf? Og myndakvöld- svör óskast


Nú fara fréttabréfin að verða dýrmæt og ekki víst að allir hafi gætt þeirra. Þau eru merk heimild um sögu VIMA. Get sennilega útvegað ykkur flest nema þau fyrstu. Hafið þá bara samband á imeilinu.


Hef sent Eþíópíuförum  í fyrra hópi hugmynd að dagsetningu fyrir myndakvöld og bið menn svara sem fyrst.
Ég fer til Tabriz á þriðjudagsmorgun og verð á flandri um norður og vesturhlutann í tíu daga. Eftir heimkomu mun ég kalla saman væntanlega Íranfara í september til að fara yfir áætlun ofl Gæti orðið sirka um 10.júní ef ég fæ húsnæði.
Um svipað leyti verður trúlega efnt í myndakvöld fyrir Eþíópíufara 2. Hvet menn til að banga frá sínum myndum.

Thursday, May 10, 2012

Aðalfundur VIMA 28.apr. 2012


Hér á eftir eru erindi tvö sem voru flutt á aðalfundinum okkar síðasta.  Einnig las Guðlaug Pétursdóttir upp reikninga sem sýnir að VIMA fer með halla út úr síðasta starfsári. Það stafar að mestu af því að kostnaður við fréttabréf hefur aukist þar sem nokkrar síður í miðbréfi ársins voru prentaðar í lit og póstburðargjöld hafa hækkað.
Einnig vorum við rukkuð á árinu fyrir leigu í Kornhlöðunni þrátt fyrir að menn keyptu sér kaffi og meðlæti.
Það er gleðilegt frá því að segja að eftir aðalfundinn hafa margir félagar greitt sín félagsgjöld og er þakkað fyrir það.
Ákveðið hefur verið að félagssjóður renni til Fatimusjóðs þegar gert hefur verið upp og munu það líklega vera um 300-350 þús. krónur.


Varðandi aðalfundinn: Magnús R. Einarsson hélt stutta tölu um tónlist miðausturlandasvæðis áður en aðalfundarstörf hófust.
Elísabet Ronaldsdóttir var fundarstjóri og stóð sig með prýði eins og hennar er von og vísa.


Sveinn Einarsson flutti ljóð sem hann orti í Eþíópíu og hann og Þóra Kristjánsdóttir afhentu JK ákaflega fallega gjöf, vatnslitamynd frá Wadi Rum eftir breskan málara og einnig færðu þau Ísleifi Illugasyni ferðafélaga sínum úr Eþíópíuferð tisjört að gjöf.
Gulla pé sagði fáein orð í lokin og þakkaði félögum og stjórn samstarfið.


Það var vel mætt á þennan fund eins og aðra og á sjötta tug skrifuðu í gestablöð.

Wednesday, May 9, 2012

Skýrsla Jóhönnu K á aðalfundi VIMA 28.apr. 2012

Sæl öll.

Ég býð alla velkomna á þennan síðasta aðalfund Vináttu og menningarfélags Miðausturlanda.

Þegar við hófum þessi ferðalög var aldrei ætlunin að úr þessu yrði það sem smám saman þróaðist, í mesta lagi hugsaði ég að kannski mætti fá fólk í tvær þrjár ferðir til Sýrlands og Líbanons og síðan ekki söguna meir. Því var heldur aldrei hugsað að þetta yrði e-s ferðaskrifstofa heldur ferðaklúbbur og þannig hefur VIMA alltaf starfað.

Ástæðan fyrir því að þetta byrjaði allt saman var eins og margir vita að ég hafði ferðast sem blaðamaður um Miðausturlönd og síðar verið þar búsett við arabískunám og skriftir. Mér blöskraði fáfræðin og fordómarnir og var orðin hundleið á að heyra lofsöngva um einstakan kjark minn að þora " að vera innan um þennan lýð" eins og einn fyrverandi hæstaréttardómari orðaði það svo ógleymanlega. Mig langaði að kynna þennan heimshluta og fólkið sem þar byggi en mig óraði vissulega ekki fyrir þeim undirtektur sem ferðahudmyndir mínar fengu.

Að sönnu var stundum hvíslað að mér að ég skyldi ekki hafa hátt um þetta, því viðkomandi rígfullorðin börn sumra væntanlegra ferðafélaga mundu þá banna enn rígfullorðnari foreldrum að fara í þessar hættuferðir. Þetta leið hjá smátt og smátt en eimdi lengi eftir af þessum hugsunarhætti.

En fólk áttaði siv fljótt á því að þessi lönd sem við byrjuðum á, Sýrland og Líbanon, voru ólík og löngun vaknaði að sjá fleiri og þar með var boltinn farinn að rúlla. Jemen og Jórdanía bættust við og svo kom upp áhugi á Egyptlanadsferð sem ég hef þó ekki lagt áherslu á. Aðeins þrjár ferðir í allt enda stóð ekki til að fara í samkeppni við ferðaskrifstofur sem stoku sinnum og nú reglulega, bjóða upp á Egyptalandsferðir.

Þess í stað var afráðið að kynna Óman sem er jafn gerólíkt t.d. Sýrlandi og Jemen og hugsast getur. Sjálf hefði ég kosið að við hefðum farið fleiri ferðir þangað en tvær því ferð til Óman gerir- það er trúa mín allavega- alla að ögn betri manneskjum. En ferðir þangað eru í dýrari kantinum og þátttaka fékkst ekki nema í þessar tvær. Þá komu Kákasuslöndin til greina og ein ferð var þangað og hefur því miður ekki verið endurtekin.

En þá kom fram hugmyndin um Íran- upphaflega frá Þuríði Árnadóttur. Eftir tvær rannsóknarferðir þangað 2005 hefur svo verið ein eða tvær Íransferðir ár hvert síðan. Þegar óvísindaleg könnun var gerð meðal félaga sem höfðu farið í margar ferðir reyndist Íran yfirleitt standa upp úr.
Mér fannst Íran ekki bara fráleitt heldur hlyti það einnig að vera óframkvæmanlegt. Þrátt fyrir að telja mig svona fróða og vísa um þennan heimshluta, þótti mér einhvern veginn að Íran hefði bara stoppað eftir byltinguna 1979. Eins og í sögunni um Þyrnirós. En kom svo í þjóðfélag sem var á fljúgandi ferð, undursamlegt fólk, einstakar minjar og saga. Engu líkt.

Auðvitað á maður ekki að bera lönd saman, þar ræður svo ótal margt. Hverju skyldi tekið á eigin forsendum og ekki má gleyma að líðan og hugarfar okkar sjálfra þegar í ferðina er farið ræður þar líka miklu.

Það er merkilegt - nú þegar ástandið í Arabaheiminum er erfitt, sársaukafullt og þversum að við skyldum t.d. komast til Líbíu í tvær ferðir. Og vorum þar akkúrat meðan bankahrunið gekk hér yfir. Þá þeystum við um sandöldur Sahara, teygðum okkur upp á næturstjörnur og syntum í saltvötnum eyðimerkurinnar.

Ekki skyldi Palestína gleymast. Mögnuð verð  sem vakti með okkur blendnar tilfinningar að horfa upp á framgöngu Ísraela og yfirlæti þeirra og yfirgang gagnvart Palestínumönnum, þjóðinni sem hefur búið í þessu landi í sátt og friði við fáeinar gyðingafjölskyldur fram að stofnun Ísraelsríkis 1948. Þegar Vesturlönd ákváðu að búa til ríki til að sefa eigin sektarkennd og láta undan þrýstingi þess volduga gyðingalobbíis sem þrífst harla blómlega einkum í Bandaríkjunum.

En vegna ástandsins í löndum Araba var ákveðið að færa út landamærin og tvær ferðir voru við orðan orðstír til Uzbekistan og þar með var einn heimurinn enn kominn á kortið okkar. Sá heimur víkkaði enn nú á vornóttum þegar tveir hópar, 60 manns héldu til Eþíópíu. Sú lífsreynsla mun örugglega vera að meltast í höfðum okkar.

En nú lýkur þessu senn


Nú eru ferðirnar sem sagt orðnar 39 og mál að linni. Ein ferð með nýrri áætlun til Írans í haust og því sem næst fullskipuð. Eina ferð kannski til Eþíópíu í október ef þátttaka fæst og síðan er þessu lokið. Ég veit að ég gaf yfirlýsingu í þessa veru fyrir tveimur árum en nú er mér fullkomin alvara. Hef þegar hafnað tveimur hópum sem vilja fara annars vegar til Líbanon og Jórdaníu og hins vegar til Uzbekistan.

Þessum kafla er lokið og verður ekki tekinn upp af mér á ný. Það verður ekkert ýkt um þá miklu ánægju sem ég hef haft að kynna "löndin mín" fyrir fólki og bæta svo nokkrum við eins og Uzbekistan, Kákasuslöndunum og Eþíópíu.
Við í stjórn VIMA töldum að með því að ferðunum er hætt væri starfssemi VIMA sjálfhætt. Við viljum ekki láta það dragast upp. Fundarsóknin hefur verið nánast einstök og fundirnir hafa byggst á að kynna ferðir og fjalla um málefni þeim tengdum.
Eftir allar ferðir- raunar nema seinni ferðina til Óman í denn tíð- hafa verið myndakvöld sem oftast hafa verið afskaplega vel sótt. Menn hafa endurlifað þá ferð sem nokkru áður var farin.
Ég held óhætt sé að segja að flestir séu ríkari eftir reynslu þessara ferða og þær upplifanir í sögu, mannlífi, menningu og minjum sem við höfum kynnst þar.

Fólk sem hefur farið í þessar ferðir er almennt mjög skemmtilegt fólk, forvitið, opið og fróðleiksfúst. Það er gaman að vera með slíku fólki og ég og fleiri hafa tengst vináttuböndum við marga sem hafa verið þátttakendur í því sem ég vil leyfa mér að kalla fyrir mína parta, vinnusamt ævintýri.

Ég gæti talið upp þá sem hafa verið til ama í þessum ferðum. Það er góð niðurstaða þegar haft er í huga að um þúsund manns hafa tekið þátt í þeim. En ég vil heldur dvelja við þá alla hina sem með félagsskap sínum hafa verið einstakir, hver og einn og allir.

Framúrskarandi fyrirlesarar og afleit félagsgjaldaskil

Þetta er nú ansi langur formáli en mér fannst hann þurfa að vera ítarlegur þegar við efnum hér í síðasta fundinn. Við megum vel rifja upp að ekki aðeins á síðasta starfsári VIMA heldur allar götur frá stofnun hafa fundaefni verið fjarskalega vel heppnuð. Við höfum fengið til okkar afbragðs fyrirlesara sem sjaldnast hafa tekið krónu fyrir þrátt fyrir að hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa sig. Fyrir það er þakkað kærlega enda væri VIMA fyrir löngu farið á hausinn ef þeir hefðu tekið fyrir það sem sanngjarnt og eðlilegt hefði talist.

Því félagsmenn hafa verið duglegir að ferðast og sækja fundi en þeir hafa verið afskaplega tregir að greiða félagsgjöld. Með góðum og traustum undantekningum og oftast þeim sömu. Það er til vansa en verður kannski líka að skrifast á okkur í stjórn VIMA, við höfum ekki verið nægilega ötular við að minna á félagsgjöldin. Það hefur verið gert á síðunni minni með reglulegu millibili og það hefur verið gert á hverjum einasta fundi. En ekki dugað til.
Jafnvel hafa sumir sett mig í þá ferlegu stöðu að greiða ekki félagsgjöldin fyrir ferð eins og lög mæla fyrir um og samgönguráðuneytið setti sem skilyrði til að þetta teldist klúbbur og gæti því hvenær sem er og fyrirvaralaust óskað eftir að sjá kvittanir okkar.
Ég man líka hverjir það eru sem hafa borgað skilvíslega. Því ég er svo góð í nöfnum, altso...

Starfssemi 2011-2012


Að svo mæltu er rétt að snúa sér að þessu starfsári. Aðalfundur var 7.maí og að loknum aðalfundastörfum flutti Guðlaugur Gunnarsson, fyrv. kristniboði í Eþíópíu sérlega fróðlegt og áheyrilegt erindi með góðri myndasýningu um Eþíópíu. Nokkrum dögum síðar fór ég svo í könnunarferð á þessar slóðir og að henni lokinni voru settar upp tvær Eþíópíuferðir, su fyrri í marsbyrjun og hin seinni í marslok. Þrjátíu manns í hvorri ferð. Ég efa ekki að erindi Guðlaugs átti drjúgan hlut í því hve fljótt ferðirnar fylltust.

Haustfundur var 1.október og talaði Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður og ræddi um kynni sín af tilverurétti Palestínumanna eins og hún kallaði erindi sitt.

Þriðji fundur starfsársins var 22.janúar og ræddi þá Þorbjörn Broddason, félagsfræðiprófessor um sögu fréttastöðvarinnar Al Jazeera í tölu sem hann kallaði arabíska eylandið. Þetta var afbragðs góður fundur enda Þorbjörn áheyrilegur og skýr og vék ekki aðeins að starfi Al Jazeera og áhrifum hennar í atburðum liðinna missera heldur einnig um hvaða þýðingu hún hefði haft á fjölmiðlun í heiminum.

Þrjú fréttabréf komu út og jafnan í tengslum við fundina til að spara okkur auglýsingakostnað. Þar hefur efni
verið fjölbreytt og það á við um hið síðasta eins og öll hin. Nú hafa 18 fréttabréf frá því útgáfa þess hófst 2006.

VIMA hefur orðið að treysta á félagsgjöldin til að greiða fyrir allan kostnað við fréttabréf, útburðarkosntað og því hefur hvert félagsgjald sem hefur verið greitt eða ekki greitt skipt máli. Harma ber að fólk hefur einnig verið tregt að senda breytt heimilisföng.

Í ritnefnd fréttabréfsins frá uppphafi hafa verið Birna Karlsdóttir, Guðrún Halla Guðmundsdóttir, Oddrún Vala Jónsdóttir, Sigurbjkörg Ásgeirsdóttir, Dóminik Pledel Jónsson, Vera Illugadóttir, Hulda Waddel(sem lést fyrir nokkru)  og Inga Hersteinsdóttir. Allar hafa þær unnið hið besta starf sem þakkað er fyrir af alhug.

Guðlaug Pétursdóttir, gjaldkeri VIMA hefur gjarnan lagt gjörva hönd á plóg þegar fréttabréfið hefur komið út svo og Edda Ragnarsdóttir, varaformaður og stundum hafa fleiri lagt fram lið. Það þarf að gera fleira en skrifa það og leiátera, það þarf að merkja það, halda utan um póstlista og sjá um að koma því í dreifingu.

Í fréttabréfum ársins hafa verið margar ágætar greinar af öllum toga, s.s. um Jemenkrakkana okkar, um sunníta og sjíta, um Zaraþústra, greinar um Uzbekistan og Eþíópíu, ljóðaþýðingar, bækur, kvikmyndir, hljóðfæri, sögu Afganistan, Arabíuvorið og svo mætti lengi telja.

Fatimusjóður í biðstöðu og teppapiltar


Þá skal þess getið að Fatímusjóður og starf hans hefur verið í biðstöðu af nokkuð augljósum ástæðum. Ég vona að það mál skýrist í sumar og við getum tekið upp þráðinn fyrr en síðar að styrkja fátæk börn í skóla eins og gert var í tæp sex ár. Frá því verður jafnótt sagt á síðunni minni.

Þess skal minnst að stjórn VIMA með aðstoð fleiri greiddi götu  teppapilta okkar í Baharestanverslun í Íran svo þeir komu með glæsilega teppasýningu hingað í febrúar. Frá þessu segir í fréttabréfinu. Þetta útheimti mikla vinnu en var að hinn mesti menningar og gleðiauki.

Stjórn VIMA hefur haldið fundi sína á heimilum stjórnarmanna eftir því sem þurfa hefur þótt. Auðvitað hefur aldrei verið rukkað fyrir neinar veitingar né almennt neina snúninga og risnukosnaður nákvæmlega enginn. Ég vil leyfa mér að halda fram að rekstur þessa félags hafi verið með þeim ódýrari sem þekkist.. Það á einnig við um fundi stjórnarFatimusjóðs
Mér þykir rétt að geta þessa við þau tímamót sem hér verða og ég vil þakka stjórnarkonum afskaplega gott samstarf. Þær hafa verið með mér í þessu bauki öllu saman og ekki talið eftir sér viðvik og amstur. Samstarfið hefur verið mjög gott en ég ætla að öðrum ólöstuðum að nefna Gullu pé sem einnig hefur veitt mér alls konar aðstoð við undirbúning ferða og fyrirlestra og ekki talið eftir sér að koma eftir vinnudag, brunandi vestur í bæ til að leysa úr alls konar vanda sem mér hefur tekist að setja mig í, einkum hvað tæknimál varðar.

Þetta hafa verið góð ár. Ein ferð er eftir og í henni ríkir vonandi sama gleðin og hefur einkennt langflestar ferðirnar 39.
Takk fyrir að mæta á fundi og sýna áhuga. Takk bara fyrir að taka þátt í þessu ævintýri.Friday, May 4, 2012


Ferðir síðan í apríl 2002

Sýrland/Líbanon eða Jórdanía   10 ferðir            304
Íran                                            8                     203
Jemen/Jórdanía                           7                    145
Egyptaland                                  3                     89
Eþíópía                                       2                     60
Uzbekistan                                  2                     55

Óman                                         2                     50
Líbía                                           2                     47
Marokko                                    1                     28
Kákasuslöndin
(Azerbadjan, Georgia og
Armenia)                                     1                     24
Palestína, Jórdanía og
Ísrael                                          1                     24
                                  Samtals   39         1029

Wednesday, May 2, 2012

Erindi Ragnheiðar Gyðu á aðalfundi VIMA.Ágætu VÍMA-félagar!

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég stend ekki í pontu í krafti valda minna og embættis í stjórn VÍMA, heldur sem venjulegur félagsmaður og ferðalangur.

Þessi hér litla þjóð hér má vera stolt af sínum Hávamálum í Konungsbók, þau eru lögð hinum Háva í munn, sjálfum hundheiðnum Óðni. Hann kennir mönnum hvernig þeir eigi að bregðast við ýmsum ytri aðstæðum, hvernig þeir eigi að haga sér gagnvart vinum og óvinum, hegða sér heima og að heiman. Hann brýnir fyrir þeim hófsemi, þeir eigi að vera varir um sig, gæta tungu sinnar og vera ekki of auðtrúa. Sígild speki og siðaboðskapur. Og hvort sem Hávamál eru forngermanskrar ættar úr þjóðflutningunum miklu fyrr á öldum og/eða ort hér af kristnum manni á 13. öld gerir skáldið sér góða grein fyrir innréttingu mannanna:

    Sá einn veit
    er víða ratar
    og hefir fjöld um farið
    hverju geði
    stýrir gumna hver,
    sá er vitandi er vits.

Fróðir menn segja ekkert tungumál heims öðru betra eða merkilegra. Mér er þó mjög til efs að nokkur tunga á jörðu  búi yfir jafn ágætum orðum og íslenskan í orðum um heimsku. Heimskt er heimaalið barn. Sá maður sem elst upp heima og fer aldrei út fyrir túngarðinn, hann  skortir þekkingu og víðsýni, hann er heimskur. Hann þarf hins vegar alls ekki að vera vitlaus, vitlausan mann skortir vit.

Það er með öllu grínlaust að vera manneskja á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er fædd upp úr miðri öld öfganna; meðal annars mörkuð af hungursneyðum í Afríku, kjarnorkuvá, köldu stríði, þíðu, hruni austurblokkarinnar frá vestri séð, leit að nýjum óvini handa þessum sömu Vesturlöndum, fundi þess verðuga fjanda í illyrmis múslimum  Miðausturlanda og þótt víðar væri leitað. Árásum ofurtækniherja Vesturlanda á óvinina í beinum útsendingum heima  í stofu og baráttu þessara óvina okkar innbyrðis og hver við annan fyrir betri tilveru hverjum hjá sér eða frændþjóðum til aðstoðar.

Upplýsingar um atburði þessa og þróun hafa borist hingað vestur með æ meiri hraða og tækni á þessari rétt rúmu hálfu öld og nú er svo komið að þær eru að yfirþyrmandi en ekki að sama skapi áreiðanlegar. Maður hefur lært að gjalda varhug við því sem sagt er og sýnt, sent út frá ofurfréttastofum á heimsvísu, í eigu auðjöfra með attitjúd, jafnvel með hagsmuni sína og áhrif fremur að leiðarljósi en bestu mögulegu upplýsingar og er þá emírinn í Quatar, eigandi al-Jazeera, ekki undanskilinn.

Við Íslendingar gátum þó státað af því um hríð að hér starfaði blaðamaður sem ekki lét sér nægja að sitja  á ritstjórn og þýða fréttaskeyti frá Reuter, AFP og hvað þær nú heita allar, heldur ferðaðist um þennan órólega heimshluta í miðaustri, tók menn tali og sendi hingað heim  fréttir og skýringar á því sem fyrir augu bar. Lét ekki þar við sitja undir lok síðustu aldar heldur skellti á eftir sér í Skáholti við Drafnarstíg í Reykjavík og arkaði alla leið til Kaíró á Egyptalandi að nema arabíska tungu og fræði.

Ári síðar hélt hún náminu áfram í Damaskus á Sýrlandi, en hélt svo  til Óman og Jemen að ljúka því. Og sendi ýmis tíðindi hingað heim skriflega eða á öldum ljósvakans á meðan á náminu stóð. Kom svo heim og gaf reynslu sína og upplifun út á bókum og var viðræðugóð í blöðum, tímaritum og á öldum ljósvakans.

Með nýrri öld jókst óáran í Miðausturlöndum ár frá ári og afskipti og aðkoma Vesturlanda að þeim, með eigin hagsmuni að leiðarljósi. Fréttir og upplýsingar streymdu úr fjölmiðlum og tölvum hér vestra, flest á sömu bókina lært. Af hraðsuðunni mátti vandræðalaust draga þá ályktun að allir múslimar væru óalandi og óferjandi blóðþyrstir ofsatrúarmenn, arabarar væru upp til hópa múslimar og því þannig innréttaðir. Íranir þar með taldir þótt þeir séu ekki arabar heldur Persar, þeir eru jú flestir múslimar.

Allt væru þetta ómenni og kvennakúgarar að auki, svo mjög reyndar að allar konur í öllum Miðausturlöndum væru huldar augum manna frá toppi til táar, mættu ekkert, kynnu ekkert og gætu ekkert. Arabískumælandi rithöfundurinn og blaðamaðurinn á Drafnarstíg hugsaði sitt og vildi gera það sem í hennar valdi stóð til að auka skilning og þekkingu Íslendinga á íbúum, sögu og menningu í þessum heimshluta. Hún, vinir hennar og kunningjar tóku sig saman og skipulögðu ferð í samráði við ágæta kunningja í ferðabransanum í Sýrlandi og Líbanon og þannig hófust Austurlandaævintýri okkar; fyrst til Líbanons og Sýrlands í apríl 2002. Sjálf fór ég á sömu slóðir fyrir RÚV haustið 2003 og þá var ekki aftur snúið. Ég ánetjaðist Miðausturlöndum.

 Ferðirnar spurðust vel út, fólk sneri heim hrifið og undrandi yfir upplifuninni, minjum fortíðar og skrautlegu mannlífinu sem það kynntist í ferðunum, - og ekki hvað síst af fólkinu sem þarna býr, gestrisni þess og hlýju. Að mörgum hvarflaði að gera þyrfti eitthvað í fræðslu- og upplýsingamálum heima á Íslandi. Í apríllok árið 2004 stofnuðu 104 ferðalangar því VIMA – vináttu og menningarfélag Íslands og Miðausturlanda í húsakynnum Reykjavíkurakademíunnar í JL-húsinu við Hringbraut. Formaður var að sjálfsögðu kjörinn upphafsmaður þessa alls; Jóhanna.

Lög félagsins voru samþykkt á stofnfundinum og þar segir meðal annars;  
Markmið félagsins er að auka kynningar á menningu, listum og mannlífi í Miðausturlöndum.
Markmiðinu skal ná m.a. með því að efna til funda, fyrirlestra, mynda- og fræðslukynninga og annars sem kynnir þjóðirnar og löndin. (Auðvitað gekk blaðamaðurinn fyrrverandi vasklega fram í að koma Fréttabréfi VÍMA á laggirnar og gefa út reglulega).
Félagið er opið öllum áhugamönnum og velunnurum Miðausturlanda.
Einnig hugðust félagsmenn ferðast um Miðausturlönd og hafa staðið við öll sín heit, lög og reglugerðir.


Tveimur árum síðar voru vel á þriðja hundrað manns skráðir í félagið og fjölgaði þeim jafnt og þétt. Nú, átta árum síðar hafa um 1028 félagar auk mín, farið með félaginu í um 40 ferðir um þennan heimshluta og togað skyldur sínar til Eþíópíu í suðri og Úsbekistan, Asjerbædsjan, Georgíu og Armeníu í norðri.

Fræðimenn á ýmsum sviðum hafa fjallað um hvaðeina úr þessum heimshluta á fundum okkar, fólk ættað þaðan hefur frætt okkur lönd sín, þjóðir, menningu og sögu, við höfum boðið hingað valinkunnum leiðsögumönnum til dvalar og skoðunar og ekki má gleyma teppasölunum fræknu frá Isfahan í Íran. Enn síður skólakrökkunum okkar í Jemen og viðleitni okkar til að bæta námsaðstöðu þeirra og lífsskilyrði – allt fyrir tilstuðlan okkar ágæta formanns en fleiri hafa einnig lagt vaskar hendur á plóg. Eru þá ótalin hátíðarhöld, matarveislur og myndakvöld af ýmsu tilefni.
Nú er komið að leiðarlokum. Á þessum tæpa áratug hef ég, og um 1000 samlandar mínar, eignast nýja vini og kunningja og ferðast með mörgum þeirra um slóðir sem okkur dreymdi bara um áður. Við höfum áttað okkur á að þjóðir svonefndra Miðausturlanda eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Að sumsstaðar eru karlar, konur og börn kúguð í keng, konur þó sýnu meira víða. Og stundum allt þetta í einu og sama landinu. Annarsstaðar eru líf og tilvera frjálslegri einsog við vitum væntanlega flest öll núorðið, VÍMA-félagar.  

Saman höfum við tárast yfir örlögum þriðju og fjórðu kynslóðar palestínskra flóttamanna, dreifðum og tvístruðum um þennan heimshluta, oft í óþökk heimamanna. Eymd þeirra og óbærilegum aðstæðum, réttleysi þeirra og vonleysi um að komast nokkurntíma HEIM. Sum okkar hafa líka vitjað  þeirra sem enn eru heima, ef heima skyldi kalla;  í herkví og hernámi.

Við höfum staðið agndofa frammi fyrir minjum hverrar menningar ofan á annarri um tíuþúsund ára skeið sumsstaðar, misst okkur í prútti, teþambi og vatnspípureykingum í ótal zúkkum og á tehúsum og öskrað á miságenga sölustráka á ferðamannastöðum. Við höfum dvalið í löndum þar sem leiðtogar líta á fólk og aðrar auðlindir landa sinna sem sína einkaeign til eigin ráðstöfunar ekki síður en í löndum þar sem leiðtogar hafa notað auðlindir landa sinna þjóðinni til aukinnar velsældar á líkama á sál. Og allt þar á milli. Ekki má heldur gleyma athugasemdum margra frumbyggja Norður-Afríku, Berba til dæmis, sem telja aðkomumennina af Arabíuskaga frá 7. öld og síðan ekkert annað en ólukkans þjösnara með herraþjóðarkomplexa.

Við höfum heyrt bænaköll og armenskar kirkjuklukkur hljóma saman frá Miðjarðarhafsströnd og Kaspíahafi - langt austur í Persíu og suður eftir Afríku. Við höfum áttað okkur á að stórveldisdraumar sumra þjóðanna hafa markað sögu íbúa Miðausturlanda rétt eins og stórveldin í vestri marka okkar og að núverandi ástand þar má meðal annars rekja til vestrænna sigurvegara fyrri heimsstyrjaldar og hagsmuna þeirra þarna eystra. Við þekkjum mun á síjum og súnníum í grundvallaratriðum og VÍMA-konur eru flestar löngu hættar að láta slæðuburð angra sig, - hafi þær einhverntíma gert það.

En, og kannski umfram, allt höfum við hitt fólkið að máli; hjalað, malað og skrafað við venjulegt fólk í borgum og bæjum margra landa í miðaustri. Sum okkar hafa meira segja þegið heimboð hjá borgarbúum, bændum, búaliði og palestínskum flóttamönnum í Sídon í Líbanon. Við höfum fundið á eigin skinni að múslimar eru allavega, rétt einsog við. Sumir taka trú sína ákaflega alvarlega, aðrir minna og enn aðrir sinna henni ekki hót. Þó höfum við áttað okkur á að nokkur munur er á hugtakinu trú hér og í löndum Íslams og þá ekki síður samspili trúar og samfélags. Nema náttlega ef við hér vestra tökum skrefið til fulls og setjum markaðinn og Mammon í stað drottins guðs almáttugs, þá rofar kannski soldið til í kollinum á okkur. En fæst okkar ná að skilja íslömsk þjóðfélög til fulls.

Mörg okkar hafa þannig þurft að horfast í augu við fordóma sína og sumum hefur jafnvel tekist að vinna á þeim. Í leiðinni höfum við mörg áttað okkur á að umburðarlyndi okkar gagnvart hefðum og venjum annarra má ekki draga úr okkur vígtennurnar þegar við rekumst bókstaflega á mannréttindabrot, órétti og valdbeitingu. Óttinn er að mestu úr okkur og hverfandi líkur á að við bregðumst við því ókunna og óþekkta með sama hætti og Múhameð Atta eða Anders Behring Breivik.

Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.

Við látum ekki vestrænar ofurfréttastofur segja okkur hvað sem er, athugasemdalaust, um ástand mála í Miðausturlöndum, - eða annars staðar í heiminum ef því er að skipta. Og því held ég að við VIMA-félagar megum bara vel við una að loknu starfi okkar og leik í tæpan áratug, svona miðað við áður upplesin helstu markmið félags okkar.  Við skulum þakka hvert öðru, fjarstöddum félögum og burtkölluðum, en síðast og alls ekki síst Jóhönnu Kristjónsdóttur fyrir hvað okkur hefur þó miðað í mannviti og þroska - með dynjandi lófataki.