Saturday, September 22, 2012

Ný Íranáætlun tókst afskaplega vel

Sæl öll
Var að koma inn úr dyrunum úr einstaklega vel lukkaðri ferð til Íransferð með 23 ánægjulega félaga.

Við byrjuðum ferðina í Tabriz í norðri og þar tóku Pezhman leiðsögumaður og Mohamad bílstjóri á móti okkur og voru glaðir að sjá okkur. Menn þurftu að hvíla sig vel en seinni hluta dags var tekið til óspilltra málanna að skoða þessa borg sem er verulega sjarmerandi. Löbbuðum um markaðinn sem er einn sá stærsti í  landinu, virtum fyrir okkur minnismerki skáldanna en Íranir sýna andans fólki sínu einstaka virðingu. Bláa moskan  vakti athygli og auk þess að virða fyrir okkur Stjórnarskrárhúsið og skemmtilegt safn fórum við í kvöldverð á El goli, mjög fallegan veitingastað í miðri borg í manngerðu vatni og þar var  aldeilis líf í tuskunum. Brúðkaup var á Parshóteli og brúðhjónin fögur  og glæsileg og hæfilega undirleit eins og við á.




Daginn eftir til Kandovan, leyndardómsfulls staðar sem minnir á Kapadoikkiu í Tyrklandi þar sem húsin og íverustaðir eu hoggnir inn í bergið. Fólk fagnaði okkur vel enda eru engir túristar í Íran þessar stundir og við urðum mjög eftirsóttar ljósmyndafyrirsætur. Svo paufuðumst við upp í veitingahúsið - 120 tröppur- og voru  ýmsir móðir en allt tókst bærilega. Undursamlegur og göldróttur staður.
                         
Næst lá leiðin til Zanjan. Nokkur keyrsla en skemmtileg leið og Kolbrá talaði um birtingarmyndir músliima í kvikmyndum  við góðar undirtektir enda stemmir hún ekki beint við þá mynd sem við sem ferðamenn sjáum hér þar sem fólk fagnar okkur ákaft og vill eiga tal við okkur. Í Zanjan skoðuðum við  mosku ævaforna sem státar af þriðja stærsta hvolfþaki moska í heimi, heimsóttum vaxmyndasafn sem sýndi þvottahús fyrri tíma og þar komu konur saman, þvoðu þvott og  möluðu án efa um nýjustu ævinttýri og sögðu kjaftasögur.

Við Pezhman töluðum til skiptis og allt var hið besta mál. Mohamad og Aziz aðstoðarmaður hans höfðu kaffi og te og flottar kökur á boðstólum og pikknikkhádegisverðir sem þeir útbjuggu voru herlegir, ostar, tómatar, túnfiskur, alls konar kássur, brauð og döðlur og allir gerðu sér gott af þessu.

Taska Kolbrár varð eftir í Frankfurt en hafði nú skilað sér og allt var í hinu besta standi. Allmargir í hópnum sem féll afar vel saman, höfðu farið í Íranferð áður, þar á meðal Guðm Pé, Edda, Gulla pé(tvívegis) Þóra Jónasdóttir, Kristín Thorlacius og Óskar Ægir og var  hrifning þeirra ekki sízt því landslagið er miklu stórfenglegra og hreint út sagt makalaus fegurðin í landslagi og alls staðar var okkur tekið eins og gestum sem lengi hefði verið beðið eftir.
Næsti kafli á morgun.



1 comment:

Anonymous said...

Hlakka til að lesa framhaldið... æsispennandi !
Óskar Ægir