Monday, September 24, 2012

Nú liggur leið til Tak e Soleman og yfir stórkostlegt fjallaskarð til Kermanshah



Eftir góða veru á Grand Hotel í Zanjan var búist til brottferðar til  Takht e Soleman sem útleggst  en fyrir innreið múslima í Íran voru íbúar landsins að meirihluta Zorostriar og var þessi staður miðpúnktur þeirra. Zoristar dýrkuðu náttúruöflin fjögur, eld, vatn, jörð og himinn. Nafnið þýðir hásæti Salomons en sá kóngur mun raunar aldrei hafa setið þar.
Á leiðinni var farið um fögur og tilkomumikil fjöll og fjallaskörð og reyndi þá verulega á hæfni Mohamads bílstjóra og brást hún ekki fremur en fyrri daginn. Á leiðinni talaði Pezhman m.a um giftingarsiði í Íran en aflagðar eru fyrir löngu skipulagðar giftingar og  menn velja nú maka sína sjálfir en auðvitað eru alls konar serimoniur í kringum það. Áður hafði Guðmundur Pétursson talað um  ritgerð sem sr. Jakob Jónsson skrifaði um Kýrus konung í íslenskum rímum og átti drjúgan þátt í því að sr. Jakobi og Þóru konu hans var boðið í hátíðahöldin í Persepolis 1971 þegar Reza 2. kóngur lét öðru sinni krýna sig og Föruh Dibu drottningu sína. Þetta var hið fróðlegasta.



 Þá var komið til Dandy, notalegs bæjar þar sem við reyndum hæfni okkar á leikvelli sem hafði einnig - eins og raunar víðar- ágætis útiheilsuræktarstöð og þar geta foreldrar æft sig meðan þeir líta eftir börnum sínum. Þennan sið mættu menn taka upp hér.





Þar sem menn höfðu látið í ljósi áhuga á að fá að labba um í litlu þorpi og anda að sér mannlífi, var næst numið staðar í örþorpinu Seihklar og þar  var okkur nokkrum boðið inn á heimili, boriðn í okkur sætindi og frúin skerpti á katlinum og við dáðumst að húsakynnum sem voru hreinleg og smekkleg þegar inn var komið og er það einkennandi fyrir þessi litlu þorp þótt ekki virðist þau tilkomumikil utan frá séð. Þetta var okkur eftirminnileg heimsókn.
Þegar var komið til Hásætis Salómons sem er vitanlega á Heimsminjaskrá UNESCO var gengið þar um. Það er reist umhverfis stöðuvatn og rústir eru þar af eldhofi. Þegar innrásarherir múslima nálguðust fundu Íranir upp nanfið Takt e Soleiman í þeirri von að múslimar sem báru mikla virðingu fyrir spámönnum Gamla  testamentisins létu vera að leggja staðinn í rúst. Það gekk eftir og rústir af Hásætinu og öðrum merkum minjum standa þar enn.



Eftir það var rúllað til Takab og þar bjuggum við um okkur á Hótel Ranjii sem er eina hótelið í bænum þeim og herbergi ekki burðug. Ég hafði þó sagt frá því svo ég hygg að menn hafi búist við því öllu snautlegra og varð úr þessu hið mesta grín. Í bænum er aðeins veitingastaður á hótelinu og þar snæddum við hinn þokkalegasta mat um kvöldið og morgunverð daginn áður en við lögðum upp til Kermanshah sem er aðalborg Kúrda í landinu og fjallafegurðin á leiðinni og umhverfis borgina hreint ólýsanleg. Við héldum á bazarainn og gistum síðan á Jamshidhóteli og borðuðum þar. Afskaplega góður matur á boðstólum og foss skreytti veitingasalinn mönnum til misjafnrar ánægju þar sem menn vildu gjarnan skrafa saman svo veitingamenn lækkuðu fossaniðinn. Þetta  var raunar einn fárra veitingastaða sem við hittum fyrir allmarga gesti - allt Írani því útlendir ferðamenn sáust hvergi.



Daginn eftir skoðuðum við Tekieh Moaven ol Molk sem var reist til að minnast píslarvættisdauða Husseins Alisonar, hrífandi bygging og þangað leita menn mjög meðan sorgarmánuðurinn Moharram stendur yfir. Einnig skoðuðum við basalhvilftir sem voru skornar út á tímum Sassaníta og ekki skal ógetið  hofs Anahitu, vatnsgyðjunnar í Zorostratrúnni og um 25 km frá Kermanshah eru Bistoun sem talið er að þær hafi verið skornar út fyrir mörgum öldum og eru á fornminjaskrá UNESCO. Klifu þeir djöfustu upp í klettana. Alls staðar voru kátir Íranir í pikknikk og voru ósparir að bjóða okkur að þiggja veitingar

Á leiðinni til Hamadan talaði Pezhman um  utanríkisstefnu Írana við góðar undirtektir. Hann vill eðlilega meina að olían sé undirrót flestra vandamála í þessum heimshluta og ekki síst stofnun Ísraelsríkis og geta flestir verið sammála um það að ég hygg.

Fréttum að því að allt væri að verða vitlaust vegna myndar um Múhammed spámann sem kostuð var af Bandaríkjamönnum og dró ekki upp fagra mynd. Seinna kom í ljós að þetta væri mjög heimóttarleg mynd og leikarar verið gabbaðir til að leika í henni.

Við komuna til Hamadan gistum við á Baba Taher og borðuðum þar kvöldmat undir beru lofti. Ljómandi mat eins og alltaf í ferðinni. Þarna gistum við tvær nætur og læt ég því þetta duga og verður 3. kafli settur inn á morgun.

No comments: