Wednesday, January 30, 2008

Aðgerðarhópurinn brettir upp ermar - munið fund á SUNNUDAG, endurtek SUNNUDAG- og svo er að líða að borgunardegi


Krakkar í Jemen- sumir eiga skó og geta meira að segja gengið í skóla og aðrir ekki
Mynd GP

Góðan daginn

Við í aðgerðarhópnum sem stefnum að liðsinni við nýja og stærri miðstöð í Sanaa höfum nú tekið til óspilltra málanna- vonandi með hjálp ykkar sem allra flestra.

Við þurfum að safna um 20 milljónum eins og menn vita, þar af eru nú komnar í byggingarsjóðinn 3 milljónir og er það m.a. afrakstur af gjafa og minningarkortum svo og frjálsra framlaga. Þar á meðal er stórgjöf Margrétar Pálu sem áður var sagt frá

Við einbeitum okkur að þessu næstu mánuði og ekki er ætlunin að taka fleiri börn til styrktar- enda rúmar pláss ekki öllu fleiri í bili. Börnin eru nú 111 og við höfum greitt fyrir fullorðinsfræðslunámskeiðið og ein kennaralaun til viðbótar þeim tveimur sem þegar voru kláruð.
Ég minni allra ljúflegast á 1151 51 551212 og kt 1402403979. Engar stórar upphæðir enda gerir margt smátt eitt stórt.

Í kvöld ætlum við Gulla Pé til Keflavíkur en Símennt þar hefur beðið um kynningu á ferðum og lauma auðvitað að upplýsingum um Jemenverkefnið
Tveimur dögum eftir að við komum frá Egyptalandi tala ég hjá einum skóla Hjallastefnunnar.
Á leiðinni til mín mun einnig vera upphæð frá nemendum og foreldrum í skólunum í Borgarfirði sem ég hitti á dögunum og það fer rakleitt í byggingarsjóðinn, hvort sem það er 200 krónur eða 2000.

ÞÁ VIL ÉG BENDA Á NÝJAN LINK Á SÍÐUNNI: UM FATIMUSJÓÐINN. Á hann geta menn einnig vísað ef þeir frétta af einhverjum sem vilja leggja okkur lið.

Í þriðja lagi: Munið fundinn um Kyrgistan og Uzbekistan í Kornhlöðunni á sunnudag 3.febr kl. 14, STUNDVÍSLEGA. Vonast til að sjá þar sem allra flesta. Verður fróðlegt að hlusta á Þóri Guðmundsson segja frá.

Má ég svo benda á að fréttabréfið nýjasta ætti að vera komið til ykkar eða í þann veginn að lenda. Lesið það upp til agna.

Bendi á að borgunardagur nálgast. ÍRAN og JEMENFARAR vinsamlegast, ekki gleyma að greiða á réttum tíma. Íranfarar eru að greiða síðustu greiðslu og þeir sem ætla að fá eins manns herbergi geri það upp núna líka. Ánægjulegt að sjá að nokkrir hafa þegar klárað. Látið mig ekki þurfa að tuða um þetta margsinnis kæru félagar.

Ekki hafa allir Egyptalandsfarar staðfest að þeir hafi fengið miða sína. Þætti vænt um að þeir létu vita. Tveir miðar eru ekki farnir, get vonandi komið þeim til viðkomandi fyrir eða strax eftir helgi. Engar áhyggjur af því.

Fáir hafa beðist undan reglulegum pósti en tek það allt til greina, að sjálfsögðu.
Ég bið ykkur að láta þetta ganga og endilega vekja athygli á nýja linknum okkar um Fatimusjóðinn.
Margblessuð í bili.

Sunday, January 27, 2008

Ekki fórum við norður frekar en Mugison suður

Við Gulla komumst ekki á Ísafjörð í dag vegna veðurs.
Það var afleitt en vonandi gefst tími til þess seinna í vetur.
Þar er verulegur áhugi á ferðum og Jemenstuðningi held ég og sendi Matthildi Helgadóttur á morgun alls konar plögg sem hún ætlar að úthluta til áhugasamra.

Nokkrir Eygptalandsfarar sóttu miða sína, flestir ekki og þá pósta ég í fyrramálið. Þætti vænt um að fá staðfestingu þegar þeir hafa borist til ykkar.

Íransmál eru í eðlilegum farvegi og hef haft samband við liðsmenn okkar í Osló. Vart er þó trúlegt að vegabréf skili sér áður en ég fer til Egyptó. Ef það tekst ekki mun Gulla pé taka málið í sínar hendur og láta ykkur vita. Hún fær öll imeil Íransfara ef þannig háttar málum.

Hef ekki sent Majuhóp áætlunina enn vegna þess að einhverjar breytingar þarf að gera á ferðinni. Þær koma þó ekki verði við. Geri það sem allra fyrst.

Minni svo enn og aftur á ALMENNAN fund og allir velkomnir í Kornhlöðuna kl. 14 sunnudaginn 3.febr. kl. 14, stundvíslega. Þar talar Þórir Guðmundsson um Kyrgistan og Uzbekistan.

Vegna fyrirspurna: Hef ekki samband við þá sem hafa skráð sig í Líbíu fyrr en eftir Egyptalandsferð. Þá höldum við fund um málið og ég mun óska eftir að menn staðfesti væntanlega þátttöku.

Friday, January 25, 2008

Þegar maður vinnur í happdrætti---------Það er skemmtilegt að geta sagt frá því að ein félagskona VIMA lét 15 þúsund kr. happdrættisvinning sem hún fékk renna rakleitt til að styrkja konurnar okkar á sauma- og fullorðinsfræðslunámskeiðinu. Þakkarvert í besta lagi.

Svo líður að því að við hittumst þrjár í "aðgerðanefndinni" kvennanna sem eru að útvega sér hugmyndir til að safna fyrir stærri miðstöð fyrir krakkana okkar í Sanaa. Mun hitta Margréti Pálu og Helgu Sverrisdóttur á þriðjudagsmorguninn og nánar um það seinna.

Egyptalandsmiðar - mínus einn - eru komnir í hús, hef póstað miðana norður, og í Borgarnes og Akranes. Hef látið vita af því. Annaðhvort sækir hitt fólkið þá til mín eða ég set þá í póst á mánudag.

Við Gulla hugsum gott til Ísafjarðarferðar um helgina og vonum að Ísfirðingar fjölmenni á fundinn á Hótel Ísafirði kl. 4 á sunnudag. Mikið væri það gaman.

Ég leyfi mér að minna á afmælis og minningarkortin okkar. Jafnskjótt og við höfum náð því að safna upphæðinni fyrir saumanámskeiðið - og þar vantar bara herslumun- tökum við til við ein kennaralaun og síðan tekur byggingarsjóðurinn við. Það þyrfti að mynda eins konar tengslanet um hann svo þetta gangi fljótar fyrir sig. Þannig hefur aðgerðarhópurinn hugsað það en allir geta lagt hönd á plóg og allar tillögur og hugmyndir eru vel þegnar.

Thursday, January 24, 2008

KL FJÖGUR- athuga það - á Hótel Ísafirði- mikil viðbrögð við síðasta pistli


Góðan daginn og þakka kærlegast fyrir viðbrögð við síðasta pistli.

Gat ekki á mér setið að birta þessa mynd sem tæknistjórinn minn og snillingsklipparinn Elísabet Ronaldsdóttir benti mér á. Þetta er frá tískusýningu helsta frömuðar Japana á dögunum. Sagt að þetta hafi vakið mikinn fögnuð í tískuhúsum Frakklands og Ítalíu.
Ég sé ekki betur en hann sé að setja konur í búrka. Það er athyglisvert ef þessi klæðnaður sem svo margir fordæma fer nú að sigurför um tískuheiminn.
Met var slegið í heimsóknum inn á síðuna þann dag. Mér þótti vænt um það sem var skrifað inn í ábendingardálkinn og það styrkir mig í því að við erum á réttu róli.

Vil benda Egyptalandsförum á að ég hef samband við þá seinna í dag til að ákveða hvar og hvenær við hittumst til að afhenda miða. Þeim sem búa utan Reykjavíkur sendi ég miða.

Svo skal ítrekað að fundurinn á Ísafirði á sunnudag er kl. 16- kl. fjögur- og þar liggja einnig frammi áætlanir um ferðir sem menn geta tekið með sér. Það verður gaman að skreppa norður og einnig að hitta menntaskólanemendur þar á mánudag.

Það er ljúft að segja frá því að nú er fenginn stuðningur við átján af 25 konum á fullorðinsfræðslunámskeiðinu. Sendi upphæð fyrir tíu um daginn eins og ég sagði mönnum og mun senda fyrir næstu tíu fljótlega eftir helgina.
Það munar líka um framlag Lofts Sigurjónssonar sem gefur tíu þúsund á mánuði hina næstu átta mánuði. Auk þess komu aðrir til hjálpar. Þakka það allt saman.

Mun senda Majuhópnum áætlun í dag eða á morgun. Þar fylgir með greiðsluáætlun. Gjöra svo vel og lesa það allt vel og vandlega.

Svo líður að mánaðamótum, þó mér finnist að vísu janúar hafa fleiri daga en aðrir mánuðir. En þá skulu Íran og Jemenfarar vinsamlegast greiða skilvíslega. Tveir Íranfara hafa raunar lokið greiðslu og takk fyrir það.

Rúrí nefndi Kashmir í því sem hún skrifaði. Það væri sniðugt.

Monday, January 21, 2008

Þeyst um Borgarfjörðinn í dag og Ísafjörður um helgina

Sæl öll og afsakið ég hef ekki skrifað síðustu daga: en handboltamótið sem ég fylgist með af æ meiri depurð í Noregi setur dálítið strik í reikninn. Og mikil ósköp hafa gengið á síðan ég skrifaði síðast: Bobby blessaður Fischer dáinn og þegar grafinn, enn einn meirihlutí í borgarstjórn Reykjavíkur og Davíð kominn á sjötugsaldurinn. Og hlutabréfin halda áfram að falla. Það er mikil gæfa að eiga ekkert svoleiðis til að mæðast út af.

Ég skemmti mér vel í dag,þeysti í býtið í barnaskólann á Hvanneyri og síðan í grunnskólann á Kleppjárnsreykjum og talaði um Jemenverkefnið okkar fyrir fjórar bekkjardeildar á aldrinum 6-16 ára. Sýndi ágætis disk sem Gulla á náttúrlega mestan heiður af. Það var gaman og ég fékk forvitnilegar spurningar.

Síðan er Ísafjörður á dagskrá hjá okkur Gullu pé um helgina þ.e.fundur á Hótel Ísafirði kl. 4,30 á sunnudag og svo fyrirlestur í menntaskólanum þar morguninn eftir. Virkilegt fjör.
Svo er ég doltið að vandræðast með sauma og fullorðinsfræðslunámskeið okkar í Sanaa. Vantar stuðning við helming kvennanna. Hafið það svona blíðlega bak við bæði eyrum.
Upphæðin er hin sama og fyrr sem svarar 200 dollurum.

Og veit ekki betur en Dóminik, Halla og Birna séu að ljúka fréttabréfi sem verður vonandi sett í póst til ykkar í vikunni. Menn láti vita ef heimilisföng hafa breyst og nokkrir hafa raunar gert það.

Egyptalandsmiðar verða tilbúnir fljótlega og annað hvort hittumst við til skrafs sem væri æskilegast eða ég kem miðum til ykkar. Trúlega fyrir helgina. Læt ykkur vita.

Ég ef verið á báðum áttum hvort ég ætti að setja eftirfarandi inn á síðuna:

Erum við Vimafélagar ekki brautryðjendur í ferðavali okkar og hefur ekki verið virkileg gleði mað þær?? Ég segi nú svona
En af hverju tekur þá athyglisverðasta fólk sig til að kópierar sumar ferðirnar. Að vísu með hipsumhaps árangri en breytir ekki öllu.
Endar þetta með að við þurfum að hætta ferðunum sem sannarlega hefur ekki þurft að kvarta undan aðsókn í?
Við erum auðvitað ekki ferðaskrifstofa og við eigum engan einkarétt- en samt er þetta íhugunarefni enda eiga ekki í hlut alvöru ferðakrifstofur.
Eða verð ég að breyta okkur í eitthvað sem ég VIL hreint ekki gera og hef heldur ekki efni til? Þetta er ekki skrifað í verulegum harmatón en óneitanlega velti ég vöngum.

Mér þætti mjög vænt um ef menn skrifuðu örvunarbréf inn á ábendingardálkinn? Plís.
Ég er dálítið hugsi yfir þessu og geri kannski nánar grein fyrir því á VIMA fundinum okkar 3.febr. í Kornhlöðunni. Munið að mæta á hann stundvíslega kl 14.

Thursday, January 17, 2008

Rétt áætlun fyrri Jemen/Jórdaníuferðar er komin á linkinn


Frá piparkökuhúsunum í Sanaa. Mynd Einar Þorsteinsson

Bara til að láta ykkur vita að rétt áætlun fyrir Jemen/Jórdaníuferðina í apríl síðla er komin inn á linkinn. Lítið á hana.
Seinni ferðin verður svipuð en líklega 1-2 dögum lengri og hækkar úr 290 þús í 300 þús nema því aðeins að í hana bætist snarlega.

Í fyrri ferðina virðist ekki vera hægt að bæta við enda sú seinni ekkert síðri. Aðeins heitara en ekki svo. Ég á bágt með að trúa að við náum ekki nokkrum í viðbót. Allir vita - sem farið hafa í hana - að menn koma ekki samir heim. Vitanlega í jákvæðum skilningi.

Einn þátttakandi fyrri ferðar þarf að láta mig vita sem fyrst hvort hún verður með því miðar hafa verið pantaðir og ég þarf að greiða hótel einkum í Jórdaníu fljótlega og áður en ég fer til Egyptalands.

Wednesday, January 16, 2008

Fundurinn á Ísafirði 27.janúar - og klikkaðar hugmyndir

Allir séu sælir í dag
Ég hef beðið Jemen/Jórdaníufara í apríl að senda mér upplýsingar um hvort þeir vilja eins manns herbergi. Svör hafa skilað sér nokkuð vel. Þarf að biðja fólk í seinni ferðinni, svo og í Majuhópnum að gera slíkt hið sama.
Jórdanía er að verða svo eftirsótt heim að sækja, m.a. eftir að PETRA var valin eitt af sjö undrum veraldar. Gjöra svo vel og láta í ykkur heyra.

Fyrir aðstoð Matthildar Helgadóttur á Ísafirði stefnum við Gulla Pé á að halda norður þangað og halda kynningarfund um Jemenverkefni og ferðir 27.jan. n.k. Ég hlakka til að hitta fólk þar og kanna hvort þar er ekki góður áhugi. Mér heyrist það á Matthildi sem er mikil skörungskona í félagslífinu.
Einnig hefur komið fram áhugi hjá menntaskólanemum að ég tali þar 28.jan. Það er öldungis ágætt mál.
Þann 30.jan verðum við svo með fund í Keflavík hjá símennt þar. Einnig þar stendur kona fyrir málinu, Anna L. Ólafsdóttir(Magnússonar ljósmyndara sem ég vann með til margra ára á Mogganum, sællar minningar)
En áður en af þessu verður ætla ég að skreppa í Borgarfjörðinn - fyrir atbeina Kolbrár, dóttur minnar og kennara á Hvanneyri, og áhuga skólastjórans þar og tala við krakka í skólanum á Hvanneyri og á Kleppjárnsreykjum.
Í öllum tilvikunum eru konur sem drífa í málunum.

Egyptalandsfarar hafa lokið greiðslu, þetta var fyrir smámisskilning sem alltaf getur komið fyrir og hefur nú kippst í lag. Gott er það.

Í þriðja lagi er fátt skemmtilegra- sérstaklega þegar íslenskt veður hefur allt í einu látið á sér kræla - að leika sér að hugmyndum og þá ekki síður dálítið rugluðum.
Eins og menn vita tók undirbúningur fyrstu Íranferðar hátt í tvö ár með tveimur rannsóknarferðum mínum þangað og síðan góðum árangri, nú erum við að fara í fjórðu ferðina þangað í mars. Ef guð lofar. Og tvívegis heimsótti ég svo Líbíu og allt útlit fyrir tvær ferðir þangað í haust. Þetta er VIMA félögum til sóma.
Og Kyrgistan og Úzbekistan fá góðar undirtektir og væntanlega fjölmenni á fundinum 3.febr. þar sem Þórir Guðmundsson mun tala um þessi lönd og sjálf stefni ég á för þangað í vor, eftir seinni Jemen/Jórdaníuferð.

Því er fullkomlega tímabært að fá nýjar og duggulítið bjartsýnar hugmyndir fyrir 2010 sem er raunar merkilegt afmælisár.
Þar er Eritrea.
Og Afganistan !- þá er ég raunar að tala um vesturhluta Afganistan. Ekki í sömu ferð. En Eritrea! Allavega. Hefur einhver skoðun á þessu annar en ég?
Það væri fróðlegt að heyra frá ykkur.

Sunday, January 13, 2008

Ánægjuleg stund með væntanlegum Íranförum - allmargir stuðningsmenn eiga von á myndum


Mynd frá sauma og fullorðinsfræðslunámskeiðinu í Sanaa. Ég vcna að menn haldi áfram að styðja það og í augnablikinu er kominn stuðningur við sem svarar átta konur. En ég veit ekki betur en þær séu 25 sem hafa skráð sig. Mun því leggja þær upphæðir sem menn borga - aðrar en með krökkunum okkar inn í þá púlju. Vona það sé allt í lagi. Þar með erum við með stuðning fyrir tíu. Svo ég vona að gjafa-og/eða minningarkort verði meira notuð en upp á síðkastið.


Þetta erum við Pezhman Azizi, íranski gædinn okkar í Íranferð

Væntanlegir Íransfarar hittust í gær að fylla út eyðublöð og ganga frá plöggum. Í fyrramálið fer ég með þetta allt í skönnun og sendi til Írans og síðan verður það sent til sendiráðs Íran í Osló.
Estrid og Kari í íslenska sendiráðinu þar hafa lofað að verða mér innanhandar með að ýta á og sækja vegabréfin og þeim verður svo komið í réttar hendur eins fljótt og mögulegt er.
Fundurinn var fínn, ómanskt góðgæti og líbanskar smákökur runnu ljúflega niður með kaffi og te. Ég kom með nokkrar íranskar flíkur til að konur sæju hver sídd á að vera.
Ekki vitlaus hugmynd hjá Maju Kristleifsd að líklega ætti ég að kaupa slatta af dressum í ýmsum litum og stærðum og selja það síðan þátttakendum í næstu ferðum.
Á okurverði náttúrlega.
Þetta var hressilegur og skemmtilegur fundur, fannst mér, og allir áhugasamir og hlakka til.

Það kom fyrirspurn um seinni Jemenferðina og það skal tekið fram að nokkrar breytingar geri ég á báðum ferðum.´Þær breytingar eru ekki komnar inn á síðuna en set þær innan tíðar. Þar sem fyrri ferðin er á annatíma hafa hótelin beðið um meiri greiðslur en venjulega. Svo ég vona allir þátttakendur í báðum ferðum borgi vel og reglulega.

Vænti þess að allmargir stuðningsmenn nýju krakkanna okkar fái sín plögg í póstinum á morgun. Sendi þá nokkur til viðbótar og síðan jafnóðum eftir því sem Nouria kemur þeim til mín.
Svo ég bið þá sem ekki fá myndir allra næstu daga að æðrast hvergi. Þetta skilar sér allt.

Friday, January 11, 2008

Það verður ekki á VIMAfólk logið

Sæl veriði

Eftir síðasta pistil hafa margir lagt inn á Fatimusjóð 1151 15 551212 og kt. 1402403979 til stuðnings við saumanámskeiðsstúlkurnar. En meira þarf þó til og ég treysti á þá sem studdu verkefnið í fyrra að koma enn til liðs.

Þá er Nouria búin að senda mér nöfn ellefu telpna sem stuðningsmenn hér biðu eftir og flestir hafa staðfest að þeir taki að sér að hjálpa þeim og hef sett það inn á heildarlistann undir linknum Stelpurnar okkar í Jemen - þó við séum nú með slatta af strákum líka. Þegar þeir hafa staðfest erum við með 112 börn.

Þeir eru
Axel S. Guðnason
Linda og Kristján Guðmundsson (2 börn)
Þorgerður Þorvaldsd/Kristján Edvardsson (2 börn)
Anna Karen Júlíusen
Helena og Bjarki(fengu barnið sem sagt í búðargjöf og eru alsæl með þá gjöf)
Þórhildur Hrafnsdóttir/Ingibjörg Þórisdóttir
Helga Sverrisdóttir
Bíð svo eftir svari frá tveimur. Hef sent þeim upplýsingar um börnin.

Pósta plögg til væns slatta í dag og fæ svo meira frá Nouriu um helgina. Talaði við hana í gær. Hún stóð á haus í stússi en var hress og bað að heilsa öllum sínum góðvinum.

Hafði duggulitlar áhyggjur af því að menn væru ekki tilbúnir að styrkja saumanámskeiðskonurnar sem heild fremur en einstaklinga.
Ég sagðist telja þær áhyggjur óþarfar- vonandi.
En málið er bara að sumar þessara kvenna þurfa að hætta af ýmsum ástæðum, veikindum á heimilum, barneignum og alls kyns ástæðum. En þá kippir Nouria öðrum inn í staðinn sem bíða óþreyjufullar.

Það er einnig frá því að segja að önnur Egyptalandskonan hefur greitt og hin hlýtur að ljúka greiðslu snarlega.

Íranfarar á morgun. Hlakka til að sjá ykkur. Vinsamlegast stundvíslega kl 2 í gamla Stýró við Öldugötu(eða við enda Stýrimannastígs svona eftir því hvernig á það er litið). Muna vegabréf og myndir. Kaffi, te og Líbanonskökur.

Hef fengið töluvert af hringingum eftir skemmtilegan matreiðsluþátt frá Líbanon sem var í sjónvarpi á dögunum. Stefni eindregið að því að taka Líbanon inn (með Sýrlandi) aftur eftir ár. Það virðist áhugi á því og mættu fleiri láta í sér heyra varðandi það

Matthildur á Ísafirði er í óða önn að skipuleggja okkur Gullu með fund þar. Verður væntanlega helgina 26 og 27 jan og trúlega erindi í Menntaskólanum líka. Það er til sóma. Meira um það fljótlega.

Nú dríf ég mig með bréf í póstinn, ættu að koma á mánudag og svo meira næstu daga. Insjallah.

Sé að fleiri hafa lagt inn, m.a. þó nokkrir sem studdu konu á fullorðinsfræðslunámskeiði í fyrra. Einn merkti við greiðsluna, Lyfjaðstoð. Vegna veikinda einnar stúlkunnar okkar. Gott mál og kærar þakkir og vona þó að fleiri bætist við svo ég geti sent Nouriu heildargreiðslu fyrir fullorðins-og saumanámskeiðið í næstu viku.

Thursday, January 10, 2008

Fundarefni, sauma-og fullorðinsfræðslunámskeið og vöntun á orðumFundarefnið 3.febrúar verður þetta

Af Kirgisum og Úsbekum

Þórir Guðmundsson varafréttastjóri Stöðvar tvö segir frá Úsbekistan og Kirgistan; stiklar á löndum, þjóðum og sögu en hann var búsettur þar eystra um tveggja ára skeið.

Mér finnst hinn mesti fengur að því að við höfum fengið Þóri til að segja frá þessum löndum sem fáir hafa vitjað og þaðan af síður búið þar. Það er væntanlega hinn hagstæðasti undirbúningur fyrir okkur þar sem VIMA félagar hugsa sér að fara á þessar slóðir á næsta ári.

En mig langar líka að nefna annað mál: Fullorðinsfræðslu- og saumanámskeiðið er hafið hjá YERO. Eins og ég minntist á tel ég rétt að við styðjum verkefnið en ekki einstaklinga. Amk 25 konur hafa nú skráð sig. Þessar konur eru allar áhugsamar og Nouriu líst vel á hópinn. Töluverð endurnýjun hefur orðið í honum frá því sl. ár en þó eru nokkrar frá sl. ári. Sama gjald eins og síðast þ.e 200 dollarar fyrir hverja. Bendi á að frammistaða stúlknanna hefur mælst svo vel fyrir að ýms smáfyrirtæki í Jemen eru farin að panta smáhluti frá stúlkunum, svo sem svuntur, skrautpoka fyrir gjafir og þess háttar. Þá borgar Nouria þeim vikulega smávegis í laun ef þær eru duglegar að mæta - og hef hana raunar grunaða um að borga þeim þó þær missi úr einn og einn tíma.
Aðstæður þessara kvenna eru allar þannig að þær sýna stakan dugnað að koma. Langflestar eiga hóp barna, margar atvinnulausa eiginmenn, veika foreldra. En þær koma samt og keppast við.
Ég bið ykkur sem viljið styrkja verkefnið að leggja þessa upphæð inn á Fatimusjóðinn 1151 15 551212. Það er virkileg nauðsyn á þessu og eflir konurnar.

Frá því má líka segja að amk. ein stúlkan okkar hefur þurft sérstaka meðferð vegna sjúkleika og lyfjameðferð sem Nouria kom henni loks í er dýr. Stúlkan hafði ekki mætt í skólann og Nouria fór að grennslast fyrir um hana og kom þá í ljós að hún var veik og var tafarlaust sett í rannsókn. Hún er líklega ekki með MS en einhvern skjálftasjúkdóm sem kemur í köstum, en lyf virðast geta haldið niðri að mestu.
Þurfum við ekki að leggja þar lið líka? Það þykir mér einsýnt.
Við skulum hjálpa til. Leggið inn á reikninginn svo ég geti látið Nouriu vita að við styðjum námskeiðið og getum hjálpað stúlkunni líka.

Að svo búnu: Ég er ekki beinlínis í öngum mínum. En ég er gáttuð. Tvær í Egyptalandsferð hafa enn ekki lokið greiðslu. Það er EKKI gott. Hef hottað á þær og ekkert gengur.

Íranfarar hittast á laugardag til að fylla út umsóknir. Kl. 2 í gamla Stýró við Öldugötu. Muna vegabréf og tvær nýjar myndir. Konur beri slæðu.
Þar hafa ekki allir greitt janúargreiðslu. Því verður altso að kippa í lag.

Það getur ekki verið erfitt að skilja.

Varðandi Jemen/Jórdaníuferð í apríl: Menn halda að ég sé með of langan fyrirvara á öllu. En það reyndist erfitt að fá sæti á lægsta verði því heilmikið var bókað á brottfarardegi. Svo ef ég get ekki greitt inná erum við í erfiðum málum.
Þetta eru allt ábendingar settar fram í vinsemd en af fullri alvöru.

Fleiri barnamyndir berast frá Nouriu. Kem þeim til ykkar á næstu dögum.

Sæl að sinni

Tuesday, January 8, 2008

Börnin birtast nú hvert af öðru


Þrjár af fjórum Al Matari systrunum. Á myndina vantar Takeyju sem Dóminik styrkir. Hinar eru Hanak(fyrir miðju) styrkt af Litlu fjölskyldunni, Hayat(Inga Hersteinsdóttir) og Hanan (Jóna og Jón Helgi)
Mynd JK
Góðan daginn öll
Nú streyma út úr tölvunni myndir af nýju börnunum og bréf frá Nouriu og ég sendi þau jafnótt til ykkar.
Trúlega þó ekki í dag. Bíð eftir að fleiri komi.
Þar sem tólf börn til viðbótar hafa fengið styrktarmenn eru viðkomandi beðnir að borga nú fyrir þau þar sem ég fæ nöfnin innan tíðar. Reikningurinn er 1151 15 551212 og kt. 1402403979.

Linda og Kristján hafa borgað fyrir sín tvö, sömuleiðis hefur verið greitt fyrir Helenu og Bjarka(þau fengu það í brúðargjöf. Fleiri mættu taka sér það til fyrirmyndar)
Einnig er Axel Guðnason búinn að borga. Sendi öðrum upplýsingar sem gáfu sig fram í sérbréfi.
Þá sýnist mér við styrkja 112 börn og er það glæsilegt og kærustu þakkir.

Kvennahópurinn sem mun halda utan um byggingarmálin hittist í hádeginu og var það frábær fundur og góð stemning. Mér sýnist bjartsýni og raunsæi og einstakur velvilji ríkja í þeim hópi.
Tvær nýjar konur bættust við og verða augljóslega betri en engar. Nokkrar gátu ekki komið en sendi þeim upplýsingar um fundinn seinna í dag.

Svo þetta er allt á réttri og góðri leið.
Ef einhverjir vilja taka þátt í starfi aðgerðarhópsins gefi viðkomandi sig fram.

Monday, January 7, 2008

Gjörið svo vel og taka frá tvær klst 3.febrúar


Myndin er frá Akkakus í Líbíu. Hafiði nú séð aðra eins liti. Og þetta er svona í alvörunni og meira til.
Menn eru enn að skrifa sig í Líbíu og það er fínt og gott. Ég hef sagt það áður og má endurtaka það hér að vel mætti hugsa sér tvær ferðir þangað í okt-nóv. ef allir verða með, eða flestir, sem hafa skráð sig. Verður gengið eftir því í febrúar þegar ég kem frá Egyptó að heyra ofan í fólk hvað þátttökuna snertir.

Og talandi um Egyptó; vitiði nú hvað, það eru örfáir sem eru EKKI búnir að borga síðustu greiðslu og því bið ég menn að kippa í lag eins og skot. Er búin að senda út þangað allar greiðslur og kemur sér óþægilega fyrir mig, varasjóðalausa, ef menn standa ekki í skilum.

En umfram allt vil ég biðja ykkur að taka frá svona tvo tíma sunnudag 3.febr. Þá verður fyrsti fundurinn okkar 2008 í Kornhlöðunni og efnið er girnilegt til fróðleiks og skemmtunar. Meira um það fljótlega.
Nokkru áður sendum við út fréttabréfið fyrsta 2008 og leiki einhver vafi á að við höfum rétt heimilisföng, gjörsovel og senda mér þau kórréttu.

Þá er skemmtilegt frá því að segja að ég var að tala við Matthildi Helgadóttur á Ísafirði vegna kynningarfundar um Jemenverkefnið og ferðalögin fyrir vestan seinni partinn í janúar. Matthildur fer nú á fullt og athugar málið og væri virkilega gaman ef þar reyndist unnt að tendra áhuga- sem Matthildur er raunar þegar byrjuð á.
Ekki síst vantar liðsinni við fullorðinsfræðslunámskeiðið sem er nú verið að skrá konur á.

Eins og fram hefur komið hittast Íranfarar n.k. laugardag og síðan sendi ég með hraðpósti vegabréf, umsóknir ofl út til Osló svo allt sé tilbúið þegar heim er snúið frá Egyptalandi.

Verið svo væn að líta á hvern póst sem keðjubréf, þ.e. sendið slóðina áfram.

Thursday, January 3, 2008

Nú á enginn afmæli lengurAð minnsta kosti hef ég ekki fengið fyrirspurn um eitt einasta gjafakort í háa herrans tíð. Athugið þetta, okkur munar um allt hver svo sem upphæðin er. Þakka ýmsum sem hafa lagt inn á Fatimusjóðinn nýlega. Það er drengilegt.

En sem sagt: Gleðilegt og gott ár og takk fyrir liðna tíð.
Er að stússa í vegabréfsmálum Íranfara. Ítreka að þeir hittast 12.janúar og ég hef sent þeim leiðbeiningar þar að lútandi.
Bið þá að tilkynna sig til mín. Muna passamyndir og vegabréfin. Það er skriffinnska í sambandi við Íran sem stingur í stúf við það hversu auðvelt er svo að ferðast um það herlega land. En hva. Við kippum okkur ekki upp við það.
Þeir sem geta ekki komið á fundinn verða ENDILEGA að láta mig vita.

Þá er myndakvöld Ómanfara 10.janúar og hef ekki fengið svar frá öllum. Vonast til að sem ALLRA flestir úr þeim dægilega hópi streymi á vettvang.

En fyrst er fundur Kvennahópsins góða þann 8.jan. n.k. um Jemenmál og hlakka til þess og vonandi fullt af góðum og raunsæjum hugmyndum. Eða óraunsæjum.


Nouria er í óða önn að útbúa plögg fyrir nýju styrktarmennina og ég sendi það til ykkar jafnskjótt og þau berast. Einnig nöfn þeirra tíu barna í viðbót sem eru komin með stuðningsmenn en ég hef ekki fengið nöfn krakkanna enn.

Svo fer fullorðins og saumanámskeiðið að hefjast í lok mánaðarins. Þegar ég var í Sanaa í desember sl. hitti ég þessar konur. Þær hafa flestar staðið sig vel. Nouria greiðir þeim smálaun vikulega og það hefur hleypt þeim mörgum kappi í kinn. Auk þess eru ýms fyrirtæki farin að panta smáhluti hjá þeim og allt er það til sóma og prýði.
Nokkrar munu halda áfram, þam Khan Bo Bellah og Ragnhildur Guðm. hefur þegar greitt fyrir hana. Aðrar verða ekki með af ýmsum ástæðum og sumar detta út en aðrar koma í staðinn, jafnvel á miðju námskeiði.

Þess vegna kom okkur Nouriu ásamt um að í stað einstaklingsstuðnings hjálpi fólk til með sama hætti og áður, þ.e. 200 dollara framlagi og það renni til þess að amk. 24-26 konur fái styrk til að sækja námskeiðið. Ég vona að þeir sem hafa lagt þessu lið styðji málið áfram þó svo þetta verði lagt í púkk en ekki einstaklingsstuðningur vegna þess hve sumar eru óstabílar. Ekki af áhugaleysi heldur vegna bágra aðstæðna, heilsuleysis og báginda.
Það er sem sé tillaga mín hér og nú að þessi nýi háttur verði á hafður.

En svo eru það afmælin. Mér finnst þið ættuð að senda gjafakort. Og/eða minningarkort. Bara hringja og ég skelli korti í póst og þið borgið inn á 551212.

Svo hittist stjórn VIMA á laugardag. Dóminik ritstjóri Fréttabréfsins okkar kemur líka og Fréttabréfið ætti að koma út um miðjan mánuð eða svo.
Bless í bili og látið nú heyra frá ykkur