Wednesday, January 30, 2008

Aðgerðarhópurinn brettir upp ermar - munið fund á SUNNUDAG, endurtek SUNNUDAG- og svo er að líða að borgunardegi


Krakkar í Jemen- sumir eiga skó og geta meira að segja gengið í skóla og aðrir ekki
Mynd GP

Góðan daginn

Við í aðgerðarhópnum sem stefnum að liðsinni við nýja og stærri miðstöð í Sanaa höfum nú tekið til óspilltra málanna- vonandi með hjálp ykkar sem allra flestra.

Við þurfum að safna um 20 milljónum eins og menn vita, þar af eru nú komnar í byggingarsjóðinn 3 milljónir og er það m.a. afrakstur af gjafa og minningarkortum svo og frjálsra framlaga. Þar á meðal er stórgjöf Margrétar Pálu sem áður var sagt frá

Við einbeitum okkur að þessu næstu mánuði og ekki er ætlunin að taka fleiri börn til styrktar- enda rúmar pláss ekki öllu fleiri í bili. Börnin eru nú 111 og við höfum greitt fyrir fullorðinsfræðslunámskeiðið og ein kennaralaun til viðbótar þeim tveimur sem þegar voru kláruð.
Ég minni allra ljúflegast á 1151 51 551212 og kt 1402403979. Engar stórar upphæðir enda gerir margt smátt eitt stórt.

Í kvöld ætlum við Gulla Pé til Keflavíkur en Símennt þar hefur beðið um kynningu á ferðum og lauma auðvitað að upplýsingum um Jemenverkefnið
Tveimur dögum eftir að við komum frá Egyptalandi tala ég hjá einum skóla Hjallastefnunnar.
Á leiðinni til mín mun einnig vera upphæð frá nemendum og foreldrum í skólunum í Borgarfirði sem ég hitti á dögunum og það fer rakleitt í byggingarsjóðinn, hvort sem það er 200 krónur eða 2000.

ÞÁ VIL ÉG BENDA Á NÝJAN LINK Á SÍÐUNNI: UM FATIMUSJÓÐINN. Á hann geta menn einnig vísað ef þeir frétta af einhverjum sem vilja leggja okkur lið.

Í þriðja lagi: Munið fundinn um Kyrgistan og Uzbekistan í Kornhlöðunni á sunnudag 3.febr kl. 14, STUNDVÍSLEGA. Vonast til að sjá þar sem allra flesta. Verður fróðlegt að hlusta á Þóri Guðmundsson segja frá.

Má ég svo benda á að fréttabréfið nýjasta ætti að vera komið til ykkar eða í þann veginn að lenda. Lesið það upp til agna.

Bendi á að borgunardagur nálgast. ÍRAN og JEMENFARAR vinsamlegast, ekki gleyma að greiða á réttum tíma. Íranfarar eru að greiða síðustu greiðslu og þeir sem ætla að fá eins manns herbergi geri það upp núna líka. Ánægjulegt að sjá að nokkrir hafa þegar klárað. Látið mig ekki þurfa að tuða um þetta margsinnis kæru félagar.

Ekki hafa allir Egyptalandsfarar staðfest að þeir hafi fengið miða sína. Þætti vænt um að þeir létu vita. Tveir miðar eru ekki farnir, get vonandi komið þeim til viðkomandi fyrir eða strax eftir helgi. Engar áhyggjur af því.

Fáir hafa beðist undan reglulegum pósti en tek það allt til greina, að sjálfsögðu.
Ég bið ykkur að láta þetta ganga og endilega vekja athygli á nýja linknum okkar um Fatimusjóðinn.
Margblessuð í bili.

No comments: