Saturday, December 30, 2006

Nú er árið senn liðið í aldanna skaut-----

Úti kveða við drunur og dynkir og engu líkara en gamlaárskvöld sé upp runnið þvílíkur er gauragangurinn.
Hér á Drafnarstíg er ekki aðeins skýlt í áttum, héðan er ekkert útsýni svo ég fer á mis við ef einhverjar herlegar rakettur skutlast upp á himininn.

En að öðru.
Ég hef verið að fara yfir og færa árið 2006 í Fatimusjóðnum. Ætlaði aðeins að setja ykkur inn í þau peningamál því margir hafa lagt hönd á þann plóg.
Senn lýkur fullorðinsfræðslunámskeiði og ég veit ekki enn hvort eða hverjar einhverjar stúlknanna halda áfram svo ég bið styrktarmenn þeirra að greiða ekki fyrr en það er ljóst.

Auk þessara 18 kvenna hefur verið greitt fyrir 61 barn, ein og hálf kennaralaun hafa verið greidd og samtals hef ég sent út um tólf hundruð þúsund krónur árið 2006 sem er mun meira en 2005 enda voru styrkþegar þá 37.

Eins og fram hefur komið eru nokkrir sem borga mánaðarlega eða skipta greiðslu og sjóðurinn hefur lagt út fyrir því.
Tekjuafgangur - mikið virðulegt orð- ársins er tæplega 124 þúsund krónur en var um 400 þús. árið 2005. Í sjóðnum nú eru því um 524 þús. krónur.

Ég þakka öllum sem hafa hjálpað til við þetta, bæði þeim sem styrkja krakkana okkar og þeim æði mörgu sem leggja peninga inn reglulega - ekki endilega háar upphæðir en eins og amma sagði: það safnast þegar saman kemur. Þess vegna höfum við líka getað hjálpað til við að greiða kennaralaun og væri óskandi við gætum greitt amk. tvenn árslaun kennara á næsta ári.

Við getum við afskaplega ánægð með þennan árangur og annað kvöld væri ráð að skála fyrir honum.

Minni ykkur á reikningsnúmerið 1151 15 551212 (kt. mín 1402403979). Ætla að stefna að því að færa reikninginn yfir á nýja kennitölu á árinu. Það er þægilegra á allan hátt.

Ef þið þekkið einhverja sem eru tilbúnir að hjálpa okkur með því að leggja eitthvað í sjóðinn er það meira en vel þegið - því er fagnað.

AÐ svo mæltu óska ég ykkur gleðilegs, friðsæls og fagurs árs og þakka kærlega fyrir samveru og kynni nú og ævinlega

Thursday, December 28, 2006

Kákasusáætlunin komin inn og vonandi kórrétt

Góðan daginn
Setti inn í gærkvöldi rétta Kákasusáætlun. Smávægilegar breytingar, m.a eru nú dagsetningar eins og þær gerast og vegna þess að Austrian Airlines felldi niður flug bætti ég við einum degi og valdi að hafa hann í Azerbaidjan.
Þetta lítur ansi skemmtilega út og ég hef svo fund með hópnum í byrjun febrúar eins og ég hef tekið fram.
Meira seinna.

Saturday, December 23, 2006

Ísflóð og trúlofun

Gott fólk

Vek athygli ykkar á seinni hluta pistilsins sem var settur inn í gær, um gjafakort ef fólk vill gefa sniðugar gjafir, afmæli, brúðkaup og hvaðeina. Endilega hafið það bak við bæði eyrun.

Þegar ég sveif niður í morgun, upptekin af þeirri hugsun að á Þorláksmessu 1956, þegar ég var 16 ára opinberuðum við Jökull trúlofun okkar - hálf öld - þá blasti við ísflóð í eldhúsinu.
Gamli ísskápurinn sem er að vísu ekki fimmtíu ára en svona allt að því, hafði gefist upp á limminu í nótt.
Nýlagaði ísinn og annað gúmmulaði flæddi um eldhúsgólf. Það flæðir víðar en í norðlenskum og sunnlenskum ám.
Rómantískar upprifjanir fóru því fyrir lítið næstu klukkutímana meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir.

En nú er þeim vel og lukkulega lokið og ráð að gera út leiðangur til að efna í skötu í kvöld og endurgera ísinn.

Að svo mæltu
óska ég öllum gleðilegrar jólahátíðar

Friday, December 22, 2006

Af jólaklippingu og hangikjöti

Íransfarar í n.k. febrúar hafa spurt hvenær standi til að hittast til að fylla út áritunarumsóknir og því er til að svara að við hittumst um 10.janúar , sendi nánar um það eftir áramót. Þá þurfa allir að koma með tvær passamyndir og konur skulu bera slæðu á þeim myndum. Vegabréf og þessi blöð verða send út jafnskjótt og síðasti Íransfarinn, sem starfar erlendis, kemur til landsins um 20.jan.

Ég ætla að skreppa til Lýbíu í viku frá 14.janúar til 22. janúar. Þetta er rannsóknarleiðangur til að skoða suma þeirra staða sem við heimsækjum haustið 2008. Um leið og ég kem þaðan skutla ég vegabréfunum til stimplunar í Noregi, væntanlega með góðri hjálp íslenska sendiráðsins í Osló eins og í fyrri skipti.

Fregnaði í gær að "einhverjir" sem ég veit ekki hverjir eru væru að fara til Írans og verð á átta daga ferð (!) þar af tveir í Dúbaí væri 300 þúsund kr. Það er sem svarar helmingi dýrara en ferðir VIMAfélaga. Skal tekið fram að við erum alls staðar á bestu hótelunum og flest innifalið nema tips til leiðsögumanna úti og bílstjóranna, svo og vegabréfsáritunin. Ég veit ekki hvað er innifalið í þessari 300 þús. króna ferð en velti létt fyrir mér hvað er hægt að gera á fjórum dögum í Íran og á ekki einu sinni að líta við í Persepolis. Skringilegt og spurning hvort þetta er fyndið. Held að þessi ferð hljóti að vera á vegum "opinberra aðila."

Býst við að hafa fund með Kákasuslandafólki í byrjun febrúar. Tveir til viðbótar geta slegist í förina þá því ég fékk aukasæti. Annars er ekki ætlunin að hafa hópinn þann stóran en mannval er hið mesta eins og raunar jafnan í ferðunum.

Minni áhugasama arabískumenn á að Mímir-símennt ætlar að hafa arabísku 2 á boðstólum. Þeir tímar hefjast 29.janúar og arabíska 1 byrjar svo 30.jan. Ég ætla að hafa tvo tíma í viku í hvoru námskeiði og þrjár kennslustundir í senn. Hafið samband við Mími um þetta.

Við Vera ömmustelpa fengum sérstaklega skemmtilegt jólakort í gær frá Margréti Kolka og Þórhalli, sem var málað eftir mynd sem hún tók í Wadi Rum. Mjög fallegt. Þakka líka fyrir önnur kort og fullt af myndum sem menn hafa sent mér og falleg orð.

Nú fer ég í jólaklippinguna í einum grænum og kaupi svo hangikjötið. Skrifa aðeins á morgun enda er það merkilegur dagur í mínu lífi. Altso. Heyrumst.

Jólagjafahugmynd - nú eða í afmælis eða brúðargjafir
Stöku sinnum hvarflar að mér að ég sé ekki nógu snögg að kveikja á snjöllum hugmyndum. Það er sem betur fer ekki mjög oft.
En í mig var hringt áðan og spurt hvort ég ætti gjafakort johannatravel. Þar voru hjón á línunni sem höfðu ekki getað látið sér detta í hug neitt íðilsnjallara en að gefa ungu pari upp í ferð með VIMA á árinu 2007. Þetta hlaut auðvitað glæsilegar undirtektir hjá mér og Vera, aðstoðartæknistjóri, situr nú við og útbýr gjafakort handa þessu unga fólki.

Auðvitað er þetta brilljant eins og Vala Matt mundu komast að orði.

Og hafið þetta hugfast þegar þið leitið að gjöfum á árinu vegna hátíðlegra tilefna þó svo að kannski séu flestir búnir í jólagjafastússinu nú. Og þó. Kannski eru einhverjir á síðustu stundu og þá er bara að bjalla á mig.

Monday, December 18, 2006

Piparkökur og ferðalög

Þá er vinkona mín, piparkökumeistarinn Elín Skeggjadóttir, búin að færa mér jólaskammtinn við mikla kæti. Jólaljósaseríur hafa hoppað upp í gluggana mína og þar með er jólaundirbúningi á þessu heimili lokið að mestu. Ætla þó ekki að bregða út af venjunni og setja gardínurnar í bað í kvöld svo hér ilmi allt af hreinlæti.

Fréttabréfsnefndin safnar nú saman efni í fréttabréfið okkar sem kemur í janúar og gengur það samkvæmt áætlun.

Nouria hefur sent mér plögg um nýju börnin fjögur sem njóta stuðnings Hjallastefnunnar 2006-2007 og ég sendi þau til Margrétar Pálu á morgun. Sömuleiðis verður þá fjárupphæðin fyrir þau svo og sem svarar 50 þúsund til handmenntakennara millifærður til YERO.

Að svo búnu til áréttingar:
Ferðaklúbbur VIMA

Áformuð ferðalög 2007

Allar upplýsingar um verð og ferðalýsingar


á jemen@simnet.is
heimasíða: www.johannaferdir.blogspot.com
sími 5514017
farsími 897 6117


1. Íran 25.febr.- 10.mars

2. Jemen/Jórdanía 25.mars-11.apr.

3. Kákasuslöndin Armenía, Azerbadjan og Georgía 1.-21.maí

4. Sýrland/Líbanon 26. ágúst-9.sept.

5. Egyptaland 11 daga ferð um miðjan október

6. Óman 26.okt.-10.nóv.

Við síðari ferðirnar tvær, þ.e. Egyptaland og Óman eru þó spurningarmerki. Ætlunin var að hafa þessar ferðir á dagskránni fyrr en þar sem þátttaka fékkst ekki blés ég þær af.

Eftir að það var ákveðið fóru menn á hinn bóginn að gefa sig fram og fýsti að fara á þessar slóðir. Það gengur hins vegar ekki, ég þarf langan fyrirvara á þessu, einkum hvað snertir Óman. Af þessum tveimur mun ég leggja meiri áherslu á Óman.

Ég hef þá á skrá hjá mér sem hafa látið í ljós áhuga á þeim og mun hafa samband við þá eftir áramótin um hvort hann er enn fyrir hendi. Þegar menn hafa svona langan fyrirvara á ættu menn líka að eiga hægara um vik að skipuleggja sig.

Það skal tekið fram að Kákasuslandaferð í haust verður ekki.

Árið 2008
Ég hef sagt áður að það árið verða ekki margar ferðir.

En þessar eru þó

Íran um páska 2008
Jemen/Jórdanía í maí – styrktarmenn Jemenkrakkanna hafa forgang
Libýa í október

Ég vænti þess að menn virði það og skilji að þeir verða að skrá sig með góðum fyrirvara – og taka þá fram hvort það er í alvöru. Of oft hefur verið brenna við að fólk lætur ekki einu sinni vita þegar það hættir við og þá er allt í fári. Slík framkoma er heldur ekki til fyrirmyndar og bakar mér aukin heldur alls konar peningaleg vandræði.

Friday, December 15, 2006

Ísbjörninn á Hótel Viktoriu

Ný bók eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Elísabet, dóttir mín, fékk úr prentun í gær litla bók sína, sem heitir Ísbjörninn á Hótel Viktoríu. Hér með kem ég á framfæri þessum upplýsingum og hvet auðvitað alla vel þenkjandi og bókmenntasinnaða félaga til að festa kaup á henni. Hún kostar 2 þúsund kr. og Elísabet setur hana ekki í búðir heldur selur sjálf og ef ég þekki hana rétt, af mikilli elju næstu daga. Bókin hefur að geyma nokkur minningabrot EKJ um föður sinn.
Netfang EKJ er ellastina@hotmail.com


Fékk fyrirspurn í gær um hvort Perlur og steinar- árin með Jökli, væri fáanleg hjá mér. Reikna með að það sé í framhaldi af mjög góðri grein Illuga um föður sinn. Því er til að svara : Já, ég hef nokkur eintök og get sent ykkur ef þið leggið 2.400 kr. inn á 1151 15 551130.

Að öðru: Ekki voru miklar undirtektir við hvatningu um að leggja inn á Fatimusjóðinn svo við gætum tekið að okkur fleiri jemensk börn en það gæti stafað af amstri við smákökubakstur, gjafakaup og hreingerningar. Ætla amk að vona það hafi ráðið en ekki áhugaleysi.
Það eru eftir fimm diskar með mynd Ólafs S. Ferðin til Jemen. Hvet ykkur til að stinga henni í jólapakkann.

Skrifa duggulítinn pistil um ferðirnar um helgina. Bless í bili

Wednesday, December 13, 2006

Fjögur jemensk börn bætast í hóp þeirra sem við styrkjum

Ég fékk í dag nöfn þeirra fjögurra barna sem við styrkjum eftir að Hjallastefnan og Margrét Pála Ólafsdóttir, frumkvöðull hennar, gaf hundrað þúsund krónur í Fatímusjóðinn.

Börnin eru
1. Zaynab Yahya Al Hayme, 11 ára stúlka sem á 3 systkini. Hún er í 5.bekk.
2. A’amna Kasim Resq Al Jofee, 9 ára stúlka sem á 7 systur og 2 bræður.
Faðir hennar er hjartveikur og má ekki stunda vinnu
3. Amani Abdulkarim Alunsee er 14 ára stúlka sem á 5 systkini. Hún er í 6. bekk
4. Yuser Ali Alamree er 12 ára drengur og er í 6. bekk. Hann á tíu systkini.
Foreldrarnir létust í bílslysi og hann býr hjá eldri bróður sem annast um hann.

Eins og sjá má búa þessi börn við bágar aðstæður og mikið gleðiefni að við getum styrkt þau. Foreldrar Zaynab og Amani eru bláfátæk og njóta stuðnings ættingja til að framfleyta fjölskyldunni en veikindi eru einnig á báðum heimilum.

Nú nýtur 61 barn stuðnings VIMA félaga og 18 stúlkur sem eru í fullorðinsfræðslu. Í gær var sagt frá skýrslu UNICEF í fréttum þar sem tekið var fram að nauðsynlegt væri að bæta aðstöðu kvenna til að börn gætu notið boðlegs lífs. Mér finnst við sýna lit einmitt með stuðningi við þessar fullorðnu stúlkur sem keppast við að læra bæði bóklegar og verklegar greinar til að geta lagt fram sinn skerf til að aðstoða fjölskyldu sína.

Það skýrist upp úr áramótum hverjar halda áfram og Nouria hefur mikinn áhuga á að stækka hópinn. Okkur er hollt að huga að því nú í nægtaóhófi jóla að við getum lagt fram okkar skerf, bæði til yngri barnanna og til að efla fullorðinsfræðslu og ég vona að einhverjir taki við sér og gefi í Fatímusjóðinn.

Auk þess að styrkja alls 79 til náms í Jemen, greiðir sjóðurinn einnig laun handmennta- og tónlistarkennara í miðstöð YERO í Sanaa.

Reikningsnúmerið er sem fyrr 1151 15 551212( kt. mín 1402403979). Munið að láta ykkar kennitölu koma fram.
Hér á eftir er svo listi yfir alla þá sem eru styrktarforeldrar jemensku krakkanna. Tekið skal fram að allmargir styrkja tvö börn og nokkrir þrjú.

1. Dóra Þórhalldsdóttir/Magnús Einarsson
2. Margrét Guðmundsdóttir/Brynjólfur Kjartansson
3. Guðlaug Pétursdóttir
4. Þóra Jónasdóttir
5. Valgerður Kristjónsdóttir
6. Sigríður G. Einarsdóttir
7. Jóna Einarsdóttir/Jón Helgi Hálfdanarson
8. Erla V. Adolfsdóttir
9. Guðrún V. Bóasdóttir
10. Herdís Kristjánsdóttir
11. Ingunn Mai Friðleifsdóttir
12. Zontaklúbburinn Sunna
13. Högni Eyjólfsson
14. Guðmundur Pétursson
15. Bjarnheiður Guðmundsdóttir/Sigfinnur Þorleifsson
16. Catherine Eyjólfsson
17. Birna Sveinsdóttir
18. Svala Jónsdóttir
19. Sigrún Tryggvadóttir
20. Valdís G. Guðmundsd/Halldóra Pétursdóttir
21. Vaka Haraldsdóttir
22. Eva Pétursdóttir/Axel Axelsson
23. Valborg Sigurðardóttir
24. Þórhildur Ólafsdóttir
25. Sólveig Óladóttir/Kristinn Kárason
26. Helga Kristjánsdóttir
27. Guðrún S. Guðjónsdóttir
28. Guðríður H. Ólafsdóttir
29. Ragnheiður Jónsdóttir
30. Dominique Pledel Jónsson
31. Eymar Jónsson
32. Dögg Jónsdóttir
33. Sigríður Halldórsdóttir
34. Jóhanna Kristjónsdóttir
35. Guðrún Ólafsdóttir
36. Inga Hersteinsdóttir
37. Birna Karlsdóttir
38. María Kristleifsdóttir
39. Ólöf Arngrímsdóttir
40. Edda Ragnarsdóttir
41. Stella Stefánsdóttir
42. Guðrún M. Guðmundsdóttir
43. Guðrún Erla Skúladóttir
44. Ólöf S. Magnúsdóttir
45. Eva Júlíusdóttir
46. Margrét S. Pálsdóttir
47. Ragnhildur Árnadóttir
48. Ingveldur Jóhannesdóttir
49. Hulda Waddel/Örn Valsson
50. Guðrún Halla Guðmundsdóttir
51. Erla Magnúsdóttir
52. Ragnhildur Guðmundsdóttir
53. Guðrún Sverrisdóttir
54. Elín Ösp Gísladóttir
55. Magnea Jóhannsdóttir/Sölvi Sveinsson
56. Elísabet Jökulsdóttir
57. Inga Jónsdóttir/Þorgils Baldursson
58. Ragnhildur Guðmundsdóttir
59. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir
60. Ragnh,Gyða, Guðrún Valgerður og Oddrún Vala
61. Fríða Björnsdóttir
62. Hjallastefnan/Margrét Pála Ólafsdóttir

Sunday, December 10, 2006

Spurningar og svör varðandi ferðirnar

Ég hef fengið fyrirspurnir um ferðir til Egyptalands og Óman árið 2007 en eins og ég hef tekið fram hefur Egyptaland verið blásið af vegna þess að ekki fékk næg þátttaka.

Leyfi mér að halda í þá von að þátttaka náist í Ómanferð í nóvember en mun engar dagsetningar setja inn á hana fyrr en hinar ferðirnar Íran í feb-mars og Kákasus í maí eru klappaðar og klárar.

Vil taka fram að eins og mál standa núna er Jemen/Jórdaníuferð um páskana fullskipuð en get skrifað fólk á biðlista ef ske kynni að einhver gengi úr skaftinu.

Ástæðan fyrir því að þetta hefur ekki verið lagfært er að enn hefur ekki allt efni verið flutt á nýju síðuna og það hefur verið óttalegt vesin í gangi með þann server sem á að sjá um bloggsíður Google séu í lagi. Þessu verður trúlega kippt í lag fyrr en síðar. Ef guð lofar, altso.

Friday, December 8, 2006

Stundum og stundum ekki

Hæ krakkar
þess verður ekki langt að bíða að jólaskapið komi skokkandi: eftir að hafa spilað þá klassisku plötu Krakkar mínir komið þið sæl með Ómari og jólalög með Mahailiu Jackson(tónlistarsmekkur minn er svo sérdeilis athyglisverður) finn ég léttan jólafiðring, ansi þægilegan. En ekki bakstur og hringerningarþörf. Það kemur kannski síðar.

Sendí í dag ljósrit af vegabréfssíðum Íransfara þar sem ég þurfti að gera sérstaka bragarbót til að fá áritun þar sem ekki tókst að fá tvo í hópnum síðasta til að fylgja honum. Eftir mikið streð tókst að fá sekt lækkaða en aukinnar skriffinnsku krafist og því tóku allir vel og huggulega.

Minni á að enn hafa EKKI allir greitt desember greiðslu og ekki einu sinni sýnt þau hufflegheit að gefa skýringu. Mikið finnst þér það skrítið þar sem sjálfsagt er að taka tillit til aðstæðna ef eitthvað kemur upp á.

Nouria lætur svo vita fljótlega hversu margar saumavélar við borgum fyrir stúlkurnar á fullorðinsfræðslunámskeiðinu og ég fæ fjögur ný börn til viðbótar og set nöfn og aldur inn á síðuna fljótlega. Þau njóta stuðnings Hjallastefnunnar eins og fram hefur komið.
Ath að senda krökkunum myndir af ykkur.
Addresa er
YERO
Hadda street
P.box 4785
Sanaa, Rep of Yemen

Ef menn vilja borga í sjóðinn án þess að taka að sér barn er það vel þegið eins og þið vitið þar sem við borgum kennaralaun til handmennta og tónlistarkennara.
Ath að reikningsnúmer er 1151 15 551212.

Wednesday, December 6, 2006

Hvað hugsa menn í erlendum fréttum á íslenskum fjölmiðlum eða hugsa þeir yfirleitt

Þessari síðu er ekki ætlað að fjalla um pólitík í Miðausturlöndum enda er það flókin tík.

En einatt hvarflar að mér hvort fréttamenn á íslenskum fjölmiðlum og skrifa um erlend málefni viti hreint ekki í hausinn á sér og tvísögnin og margsögnin og vitleysan er stundum svo mikil að það gengur fram af mér.

Í Morgunblaðinu í dag er til dæmis sagt frá því að hópur Michels Ayuns sem er forsvarsmaður örgahóps kristinna í Líbanon styðji mótmæli gegn stjórn Fuads Siniora forsætisráðherra og sé því sammála þeim varhugaverðu mönnum sem mér skilst að Hizbollah sé.

Þeir vilji koma Siniora frá vegna þess að þeir (og um fram allt Ayun sem var raunar í útlegð árum saman og kristnir menn í Líbanon voru ekki of lukkulegir þegar hann sneri heim úr útlegð því hann hafði ansi hreint grugguga samvisku) gruni Siniora um að vera hliðhollan Vesturlöndum og þá væntanlega Bandaríkjunum meðtöldum. Í næstu setningu er svo tekið fram að Líbanir þessir gruni stjórn Sýrlandinga um morðið á Pierre Gemayel, ráðherra sem er Maroniti og var skotinn nýlega.

Og því má spyrja: Hvernig kemur þetta heim og saman? Eru sýrlenska stjórnin ekki örugglega svakalega mikill óvinurr Vesturveldanna og þá ekki síst Breta og Bandaríkjamenna.
Er stjórnin í Damaskus ekki óalandi og óferjandi að mati Vesturlanda af því hún tregðast við að hlýða Vesturveldunum (í flestum tilvikum samasem Bandaríkjamönnum)?
Hvernig kemur þetta heim og saman. Ég fæ ekki almennilega séð það.

Og svo njóta Hizbollar (sem eru sjítar) stuðnings Sýrlendinga sem eru sunnítar að miklum meirihluta.......ætli fréttamenn reyni aldrei að lesa sér til hvað þá setja atburði og annað í samhengi svo það sé einhver glóra í því sem þeir matreiða ofan í okkur?

Sem betur fer vona ég að VIMA félagar og aðrir þeir sem hafa ferðast til þessara landa hugsi sig amk tvisvar um áður en þeir gleypa svona blaður og hreinustu vitleysu án þess að þessu sé dýft ofan í pottinn hvað þá meira.

Friday, December 1, 2006

Góðan daginn og glaðlega aðventu

Lítur út fyrir að þetta sé í þann veginn að smella: Annað heimilisfang
johannaferdir.blogspot.com

Elísabet Ronaldsdóttir mun á næstu dögum færa gamla efnið hingað og ef til vill bæti ég við ýmsu gúmmulaði. Ætti þó að taka nokkra daga uns síðan er komin í rétt horf.
En nú dregur úr vanlíðan hjá okkur öllum ef síðan kemst aftur í stand.

Bendi ykkur á nú í nýhöfnum desember að nokkrir diskar eru enn til af Ferðin til Jemen eftir Ólaf S. og tilvalið að fá sér disk í jólagjöf. Hafið samband. Diskurinn kostar 2.500 kr.

Eins og ég sagði frá gaf Hjallastefnan ehf þar sem Margrét Pála Ólafsd er frumkvöðull hundrað þúsund krónur í Fatimusjóðinn og það er fagnaðarefni og þakkavert í alla staði. Hef látið Nouriu Nagi vita um þetta og hún kættist mjög.
Við höfum ákveðið að nota þessa peninga til að styrkja fjögur börn til viðbótar, 3 stelpur og einn strák og það sem þá er eftir fer til að borga kennara í miðstöðinni.

Bið ykkur stuðningsfólkið að drífa í að senda krökkunum ykkar myndir af ykkur og kannski öðrum í fjölskyldunni ef þið hafið ekki þegar gert það. Þeim finnst mjög gaman að fá þessar myndir.

Það er gleðiefni hvað þetta blómstrar hjá okkur þó svo að við höfum ekki haldið þessu neitt að marki á lofti utan VIMA en líka ágætt að fara rólega í sakirnar og sjá hvernig þetta gengur og skilar sér hjá krökkunum.
Munið að hafa samband við Nouriu ef þið viljið frétta af ykkar krökkum, netfangið hennar er
nornagi@yahoo.com

Fólk greiðir sem óðast desembergreiðslu og takk fyrir það. Vona að allir hafi skilað sér fyrir þriðjudaginn því þá þarf ég að senda út greiðslur. Stundum finnst mér eins og menn átti sig ekki alls kostar á því að þetta þarf að vinna með löngum fyrirvara og varasjóðir eru ekki fyrir hendi.
Þá er frá því að segja að enn eru þrjú laus sæti í Íransferðina og hvet ég menn til að taka við sér og það fyrr en síðar því við erum á síðasta snúningi.

Mikil ánægja var með ferðirnar tvær á árinu og ástæða þess að fólk hættir allt í einu við er mér ekki skiljanleg. Fólk sem hefur skrifað sig sem ákveðið sig hirðir ekki um að láta vita fyrr en allt er komið í vitleysu. Mér finnst erfitt að hafa húmor fyrir þessu.

Kákasuslandaferðin er komin inn, endurbætt og eins og hún verður. Íran mun birtast kórrétt næstu daga.