Saturday, December 30, 2006

Nú er árið senn liðið í aldanna skaut-----

Úti kveða við drunur og dynkir og engu líkara en gamlaárskvöld sé upp runnið þvílíkur er gauragangurinn.
Hér á Drafnarstíg er ekki aðeins skýlt í áttum, héðan er ekkert útsýni svo ég fer á mis við ef einhverjar herlegar rakettur skutlast upp á himininn.

En að öðru.
Ég hef verið að fara yfir og færa árið 2006 í Fatimusjóðnum. Ætlaði aðeins að setja ykkur inn í þau peningamál því margir hafa lagt hönd á þann plóg.
Senn lýkur fullorðinsfræðslunámskeiði og ég veit ekki enn hvort eða hverjar einhverjar stúlknanna halda áfram svo ég bið styrktarmenn þeirra að greiða ekki fyrr en það er ljóst.

Auk þessara 18 kvenna hefur verið greitt fyrir 61 barn, ein og hálf kennaralaun hafa verið greidd og samtals hef ég sent út um tólf hundruð þúsund krónur árið 2006 sem er mun meira en 2005 enda voru styrkþegar þá 37.

Eins og fram hefur komið eru nokkrir sem borga mánaðarlega eða skipta greiðslu og sjóðurinn hefur lagt út fyrir því.
Tekjuafgangur - mikið virðulegt orð- ársins er tæplega 124 þúsund krónur en var um 400 þús. árið 2005. Í sjóðnum nú eru því um 524 þús. krónur.

Ég þakka öllum sem hafa hjálpað til við þetta, bæði þeim sem styrkja krakkana okkar og þeim æði mörgu sem leggja peninga inn reglulega - ekki endilega háar upphæðir en eins og amma sagði: það safnast þegar saman kemur. Þess vegna höfum við líka getað hjálpað til við að greiða kennaralaun og væri óskandi við gætum greitt amk. tvenn árslaun kennara á næsta ári.

Við getum við afskaplega ánægð með þennan árangur og annað kvöld væri ráð að skála fyrir honum.

Minni ykkur á reikningsnúmerið 1151 15 551212 (kt. mín 1402403979). Ætla að stefna að því að færa reikninginn yfir á nýja kennitölu á árinu. Það er þægilegra á allan hátt.

Ef þið þekkið einhverja sem eru tilbúnir að hjálpa okkur með því að leggja eitthvað í sjóðinn er það meira en vel þegið - því er fagnað.

AÐ svo mæltu óska ég ykkur gleðilegs, friðsæls og fagurs árs og þakka kærlega fyrir samveru og kynni nú og ævinlega

8 comments:

Anonymous said...

Kæra Jóhanna
bestu þakkir fyrir jólakveðjuna. Ferðin til Íran var mögnuð upplifun og ég
les orðið fátt annað en frásagnir og sögur frá þessum heimshluta. Af nógu
er að taka. Var núna síðast að ljúka við gömlu klassíkina "The road to
Oxiana".
Við Hermann árnum þér og þínum allra heilla á nýju ári.
Sigga

Anonymous said...

Takk kærlega, Sigríður mín væn, fyrir kveðjuna.

Gleymdi að nefna að auk þessa sendum við tvo kassa af lýsistöflum til krakkanna. Sendingakostnaður plús kostnaðurinn v/peninganna er inni í upphæðinni.
jk

Anonymous said...

Þetta eru góð tíðindi og til hamingju með þennan frábæra árangur sjóðsins. Það er gott að vita að ferðalangar láta gott af sér leiða löngu eftir að ferðin er farin, gerir hana eflaust enn sérstakari og eftirminnilegri. Bestu óskir um gleðilegt og friðsamlegt nýtt ár og takk fyrir það sem er að líða, Gurrý, Amman í Jórdaníu

Anonymous said...

kæra Jóhanna
við óskum þér gleðilegs nýs árs og þökkum skemmtileg ferðaár og
vonandi verða þau mörg í viðbót. Fatimuframtakið er meira en til fyrirmyndar
og átt þú mikla þökk þar fyrir.
okkar bestu kveðjur og vonandi sjáumst við sem fyrst á nýju ári.
kv.
Hulda og Örn (Gulli).

Anonymous said...

Kæra Jóhanna,
Gleðilegt ár sömuleiðis og miklar þakkir fyrir frábær kynni og ferðir. Fatima litla hefur sennilega ekki haft grunn um hvað var að fara af stað - en þetta er stórkostlegt að sjá hverju verefnið hefur skilað. Til hamingju með það, og hjartans óskir fyrir jafn gæfuríkt ár 2007.
Dominique

Anonymous said...

Gleðilegt ár Jóhanna og takk fyrir ferðaárið sem er að líða –

og tækifærin sem þú hefur fært okkur með frumkvöðlastarfsmi þinni.

Kær kveðja, Inga

Anonymous said...

Sæl Jóhanna
og kærar þakkir fyrir ánægjulegar samverustundir ársins sem er að líða - takk fyrir alla þína eljusemi að miðla upplýsingum frá austurlöndum nær og þar með vonandi náð að víkka sjóndeildarhring fleiri en annars hefði orðið og heimurinn þarf á því að halda! Takk líka kærlega fyrir jólakort sem og kveðjur á heimasíðunni. Okkur er ljúft og skyllt að hugsa til þín og þakka þér.
Varðandi Fatímusjóðinn, þá viljum við endilega halda áfram stuðningi við fullorðinsfræðslu - ef okkar stuðningaðili, Moonya Ali mun ekki halda áfram þá værum við til í að styðja aðra og eða taka þátt í kennaralaunum.
Óskum þér og þínum farsældar á nýju ári og hlökkum til að ferðast með þér til Jemen og Jórdaníu.
Kærar kveðjur,
Inga og Þorgils

Anonymous said...

Fúlast er fyrir þig að fá ekki sjónarspilið, bara fretið, prumpið og hvellina.

Takk fyrir ánægjulegar útilegur
og skemmtilega viðkynningu,

Eygló ugla