Saturday, December 23, 2006

Ísflóð og trúlofun

Gott fólk

Vek athygli ykkar á seinni hluta pistilsins sem var settur inn í gær, um gjafakort ef fólk vill gefa sniðugar gjafir, afmæli, brúðkaup og hvaðeina. Endilega hafið það bak við bæði eyrun.

Þegar ég sveif niður í morgun, upptekin af þeirri hugsun að á Þorláksmessu 1956, þegar ég var 16 ára opinberuðum við Jökull trúlofun okkar - hálf öld - þá blasti við ísflóð í eldhúsinu.
Gamli ísskápurinn sem er að vísu ekki fimmtíu ára en svona allt að því, hafði gefist upp á limminu í nótt.
Nýlagaði ísinn og annað gúmmulaði flæddi um eldhúsgólf. Það flæðir víðar en í norðlenskum og sunnlenskum ám.
Rómantískar upprifjanir fóru því fyrir lítið næstu klukkutímana meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir.

En nú er þeim vel og lukkulega lokið og ráð að gera út leiðangur til að efna í skötu í kvöld og endurgera ísinn.

Að svo mæltu
óska ég öllum gleðilegrar jólahátíðar

1 comment:

kristian guttesen said...

er þetta bara táknrænt, þú hefur brætt ísinn í hjarta skáldsins en verður að taka við flóðinu, og yrkja úr því,

ha ha ha, já svona er þetta þegar maður trúlofast.

svo tekur allt hálfa öld eða heila.