Monday, February 28, 2011

Ord fra Iranhopi

Godan og blessadan daginn

Vildi bara lata ykkur vita ad vid erum komin hingad heilu og holdnu. Flugid tafdist nokkud til Iran tvi vid lentum I Baku og vorum ekki maett a flugvoll her fyrr en um eda upp ur sjoe. Allur farangur skiladi ser med hradi, Pezhmann var maettur og uti bidu bilstjorarnir Mohammed og Hadi og sidan fylgdum vid morgunumferdinni inn i borg. Blida og fegurd. M. a keyrdum vid framhja hinu gridarstora grafhysi um Khomeini truarleidtoga, en einhverjar tafir hafa ordid a ad ljuka tvi verki og en thad verdur hid veglegasta thegar thar ad kemur
Vid komuna a Laleh drifum vid Pezhmann alla i morgunverd og svo voru menn sendir til herbergja til ad leggja sig. Thorhildur og Magdalena tofdust i bolid tvi thaer lentu a kjaftatorn vid ahugasamar iranskar stulkur herna i lobbiinu.
Nu er kl um half eitt ad ironskum tima og eftir klukkutima aetlum vid i smaskodunarferd tho vid hofum nu fengid nokkra hugmynd um borgina a leid fra flugvelli. Vid munum vitja bustadar Khomeinis og koma vid i gamalli kaffistofu thar sem unga folkid, intelligensian og vid sofnumst saman.
En fyrst er thad hadegisverdurinn.
Thad er notalegt vedur og solskin, gaeti imyndad mer svona 15-17 stiga hiti.
A morgun til Kashan en thar gistum vid lika bara eina nott tvi akvedid var ad fara ekki i innanlandsflug, thad er ekki alveg nogu stabilt enda erfitt ad halda vid gripunum med vidskiptabann a ser.
Vildi bara skila kvedju fra ollum og segja ykkur ad allt litur vel ut og menn eru kannski doltid lunir i dag eftir gaerdaginn en verda finir thegar lidur a daginn.
Kvedjur til fyrri Iranfara fra Pezhmann og Mohammed.

Friday, February 18, 2011

Mótmæli í Jemen færast í aukana- Libíuleiðtogi í vondum málum- og á gulleynni Bahrein berast menn á banaspjótum


Mótmæli í Jemen færast í aukana

Einhvern veginn virtust mótmælaaðgerðirnar í Jemen ætla að renna út í sandinn eftir fyrstu dagana. Nú hefur mannfjöldi farið út á götur þar svo þúsundum skiptir og hefur komið til alvarlegra átaka milli hópanna.

Því valdamenn eiga alltaf sína dyggu stuðningsmenn og það gildir líka um Ali Abdullah Saleh forseta. Samtímis því að efnt hefur verið til fjöldamótmæla gegn honum þyrpast fylgismenn hans út á göturnar og lýsa yfir stuðningi.

Þessum hópum hefur lent saman, nú síðast í borginni Taiz í miðhluta Jemens svo og í suðurhlutanum í hafnarborginni Aden. Skothríð hefur heyrst en ekki hafa verið færðar sönnur á að hermenn hafi skotið; í Jemen er byssueign- einkum og sér í lagi Kalishnikov riflar- sennilega með því mesta sem gerist á eftir Bandaríkjunum.

Ættbálkahöfðingjar sem eru áhrifamiklir þar hafa opnað riflabúr sín upp á gátt og í stað þess að veifa fánum og mótmælaspjöldum, eða í mesta lagi hinum frægu jambia hnífum sem karlmenn bera við belti sér, sjást nú riflar á lofti. Og færist meiri hiti í þetta gæti auðvitað allt farið á alvarlegasta veg.

Kvennasamtök Jemens sem ég hef áður minnst á að væru stuðningsmenn forsetans virðast nú eitthvað hafa endurskoðað afstöðu sína en meirihluti þeirra hallar sér enn að forsetanum.

En meðalaldur íbúa Jemens er langyngstur allra þessara landa og unga fólkið í Jemen krefst mannsæmandi lífs og mun því vonandi láta að sér kveða.

Eins og fram hefur komið voru mótmælin í fyrstu nánast einvörðungu bundin við höfuðborgina Sanaa en hafa sem sagt breiðst út. Það er sérstaklega athyglisvert og hlýtur að verða forsetanum óvinsæla áhyggjuefni ef Adenbúar rísa upp.

Aden var höfuðborg Suður Jemens meðan landið var skipt. Við sameininguna töldu menn í Aden að þeir hefðu borið skarðan hlut frá borði þegar völdum var skipt og var ástæða þess að borgarastyrjöld braust út í Jemen fyrir 17 árum eða svo.


Bahrein, smáeyja undan ströndum Sádi Arabíu

Í Bahrein hefur verið mikil ólga og þar hefur dregið til tíðinda síðustu viku. Í fyrstu var ekki alveg ljóst hvað kom þeim af stað. Það hefur lengi verið grunnt á því góða milli sjita og sunnita á eynni. Sunnítar eru við völd en sjítar eru fleiri og telja sig ekki hafa fengið þau áhrif á stjórn landsins eins og þeim bæri. Sunnitar eða amk. valdahópurinn sem rakar að sér auði hefur sjitum margs konar niðurlæginu

Í fyrstu mótmælunum í Bahrein nú virtist það ekki vera trúarlegur ágreiningur sem hratt þeim af stað því menn gengu fylktu liði um götur og hrópuðu: ég er ekki sjia, ég er ekki sunni, ég er Bahreini.

Lögregla og her brást við af mikilli hörku og lamdi menn til óbóta og fréttir hafa borist um að einhverjir hafi verið skotnir. Mér er í rauninni fyrirmunað að skilja þá miklu heift sem einkennir viðbrögð lögreglu við mótmælunum í Bahrein vegna þeirra tiltölulega góðu aðstæðna sem fólk býr við.

Stjórnandi Bahreins Hamad bin Issa Al Khalifah hefur verið við völd síðustu ellefu ár en ætt hans hefur stjórnað síðan á 18. öld. Að vísu fékk landið ekki formlega sjálfstæði fyrr en 1971 og hafði áður verið breskt sjálfsstjórnarsvæði.

Þegar núverandi leiðtogi tók við völdum gerði hann ýmsar ráðstafanir sem mæltust vel fyrir hjá þorra manna.
Kona hans Sabika hefur látið að sér kveða og beitt sér fyrir umbótum og verið óspör að hvetja konur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi og með góðum árangri.

Læsi er á góðu róli í Bahrein og margir hafa síðar leitað sér framhaldsmenntunar erlendis eða í nágrannaríkjunum.

Blaðamenn hafa getað starfað þar nokkurn veginn án þess að hömlur hafi verið settar á störfum þeirra. Íbúar eru um 807 þúsund og þar af eru á þriðja hundrað þúsund útlendingar.Bahrein hefur verið vinsæll ferðamannastaður og einkum hafa Sádar og Kúveitar lagt þangað leið sína um helgar eða á hátíðum múslima.

Ég var í Bahrein um tíma fyrir allmörgum árum og veitti því t.d. athygli að á fimmtudögum komu Sádar í þúsundatali keyrandi yfir brúna sem er frá Sádi Arabíu, og hreiðruðu um sig á lúxushótelunum og skemmtu sér með gríðarlegum tilþrifum.

Bahrein var það land á Arabíuskaganum þar sem fyrst fannst olía og olía og olíuvörur hafa allar götur síðan verið það sem meirihluti íbúa og útlendinga hefur lífsviðurværi sitt af. Meðaltekjur eru með því hæsta sem gerist á svæðinu en allir vita að misskipting auðs er þar eins og annars staðar.

Eftir að hafa skoðað vandlega fréttir af mótmælunum í Bahrein má sjá að mönnum gremst spilling og yfirgangur valdastéttarinnar sem eru sökuð um alls kyns óhæfu. Á hinn bóginn dreg ég stórlega í efa að þar liggi rætur málsins


Við Gaddafi á þjóðminjasafninu í Tripoli

Þegar uppreisnin í Egyptalandi hófst var Gaddafi Líbíuleiðtogi ekki seinn á sér, frekar en fyrri daginn, að gefa yfirlýsingar. Hann sagði að þessir atburðir gætu aldrei gerst í landi sínu, þar væru allir glaðir og sáttir.

En nokkrum vikum síðar dró til tíðinda í Benghazi næst stærstu borg landsins og þar hefur logað allt í mótmælum síðustu daga, menn hafa særst og einhverjir fallið þó erfitt sé að fá öruggar fréttir sem stendur.

Það var einmitt í Benghazi sem uppreisn Moammars Gaddafis hófst sumarið 1969 þegar þáverandi konungi Idriss var steypt af stóli. Sú bylting fór fram án blóðsúthellinga.

Moammar Gaddafi er fæddur í litlum bæ í suðurhluta Líbíu. Hann var aðeins 27 ára þegar hann stóð fyrir byltingunni 1969. Honum var fagnað mjög þegar hann hrakti Idriss kóng frá völdum en fljótlega kom í ljós að Gaddafi þótti harla furðulegur náungi.

Hann hefur aldrei skipað sig forseta Líbíu og er jafnan kallaður leiðtogi. Hann valdi frá upphafi eingöngu konur í lífvörð sinn og gerði margt til að bæta stöðu kvenna. Hann vingaðist við Assad gamla, þáverandi forseta Sýrlands en ekki stóð sá vinskapur lengi.

Hann lýsti því yfir að hann vildi bæta læsi í landinu og leitt var í lög að þeir foreldrar yrðu sektaðir sem trössuðu að senda börn sín í skóla.

Hann hóf að skrifa barnabækur- sem að sönnu hafa ekki náð útbreiðslu nema í Líbíu og þá einkum og sér í lagi sem gjafir til barna frá honum sjálfum. Eitthvað hefur þó verið gefið út í öðrum Norður Afríkulöndum af þessum bókum hans.
Hann gaf einnig út Grænu bókina þar sem hann útlistaði stefnumál sín og hugsjónir og voru skiptar skoðanir um hana og mörgum þótti hún satt að segja einfeldningsleg og afkáraleg.

Allt var þetta samt gott og blessað. Olía var í landinu og útlitið hreint ekki slæmt í upphafi. En Gaddafi er sérlundaður furðufugl og samskipti hans við aðra forystumenn Arabalanda reyndust æði brösótt og reyndar lenti hann upp á kant við þá flesta fyrr en varði.

Það aflaði Gaddafi trausts og vinsælda á fyrstu valdaárunum að honum virtist alvara í því að bæta hag alþýðu manna. Hann tjáði sig óspart um bága stöðu Palestínumanna og var fljótlega grunaður um að leyfa "hryðjuverkamönnum" Palestínumanna að koma upp þjálfunarbúðum í landinu.

Kostuleg framkoma hans hefur oft verið í fréttum. Þegar Gaddafi hefur farið í heimsóknir utan Líbíu vill hann ekki sjá að gista á fráteknum glæsisvítum heldur hefur með sér stærðarinnar tjald sem hann slær upp í hótelgörðunum og býr um sig þar.

Framan af höfðu Líbíumenn lúmskt gaman af uppátektarsemi Gaddafis en ekki voru liðin mörg ár uns mönnum tók að blöskra vaxandi einræðistilburðir hans, ofsóknarkennd sem smám saman hefur keyrt úr hófi fram. Hann lætur handtaka og fangelsa alla þá sem hann grunar um að vera sér ósammála og vantar flest upp á að viðkomandi fái sanngjarna málsmeðferð. Persónudýrkun er víða stunduð í þessum heimshluta eins og VIMA menn vita og var Gaddafi þar síst undantekning.

Þegar PANAM vélin var skotin niður yfir Lockerbie í Skotlandi beindist grunur mjög fljótlega að Líbíumönnum. Gaddafi þvertók fyrir alla samvinnu um rannsókn þess hörmulega máls og varð til þess að honum var útskúfað á Vesturlöndum, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fréttir um að hann styrkti hryðjuverkamenn hvar sem þeir væru við iðju sína varð síðan til þess að Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti fyrirskipaði loftárás á Líbíu í apríl 1986.

Þá fórst nokkur fjöldi manna, meðal annars kjördóttir Gaddafis og var augljóst að 0honum var mjög brugðið við þann atburð.

Það var þó ekki fyrr en 2003 sem hann ákvað að láta undan og féllst á að framselja þá sem grunaðir voru. Upp úr því tóku Bandaríkjamenn- eða réttara sagt Bandaríkjastjórn- hann í sátt og var nú Gaddafi snarlega strikaður út af hinum alræmda lista Bandaríkjamanna yfir hin svokölluðu öxulveldi hins illa.

En Gaddafi hefur kúgað landa sína og hann hefur ekki verið til viðræðu um umbætur því honum hefur sjálfsagt fundist sjálfum að það væri allt í hinum mesta sóma í landinu.

Hann hefur verið sakaður um spillingu og hann hefur gert eins og fleiri leiðtogar þessa heimshluta talið að sjálfsagt og best að sonur sinn tæki við af sér. Því eru Líbíumenn andsnúnir, bæði í prinsippinu og auk þess hefur þessi sonur Gaddafis á sér hið versta orð.

Því getur varla komið á óvart að þessi mótmæli hafi brotist út og það kemur kannski heldur ekki á óvart hvað Gaddafi virðist ætla að sýna mikla einurð í að brjóta þau á bak aftur- hvort sem það nú tekst eða ekki.


En hvað verður og hvað veldur?

Einhver hefur komist svo að orði að það sé kannski minnsta mál að gera byltingu en öllu meira að finna menn sem geta haldið þannig á málum að að til framfara horfi fyrir þær þjóðir sem rísa upp. Við sjáum átakanlegt dæmi um það í Írak - þótt þeir hafi ekki risið upp heldur réðust Bandaríkjamenn þar til inngöngu. Þar misreiknuðu þeir sig og héldu að þeim yrði tekið fagnandi og síðan mundi allt fyllast af vestrænu lýðræði.

Það hefur ekki reynst þannig og það er spurning hvernig framvindan verður í þeim löndum arabaheimsins þar sem nú ólgar og kraumar.

Hlutur Bandaríkjamanna?
Það er óhjákvæmilegt að velta honum fyrir sér. Egyptaland Múbaraks var ásamt Sádi Arabíu það land sem Bandaríkjamenn studdu hvað dyggilegast. Ali Abdullah Saleh sem lengi var einn af óvinum Bandaríkjamanna kúventi fyrir nokkrum árum og vingaðist við þá. Jórdanía er - hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki- vinur Bandaríkjamanna. Í Bahrein er aðalflotastöð Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum.
Þetta er varla tilviljun.
Og óneitanlega verður Gaddafi að teljast mjög góður kunningi Bandaríkjastjórnar þótt hann sé kannski ekki í innsta vinahringnum.

Það hefur hingað til verið aröbum - og þá er ég ekki að tala um valda og yfirstétt þessara landa heldur óbreyttan almúgann- óskaplegt gremjuefni hvað Bandaríkjastjórn hefur endalaust blandað sér í þau mál án þess að skynsemi og þekking sé höfð með í för. Með stuðningi við Ísrael, með innrás tvívegis í Írak. Með stuðningi við spilltar ríkisstjórn í Egyptalandi og í Líbíu.

Ég ætla að leyfa mér að halda fram að ástæður þessarar miklu ólgu takmarkist ekki aðeins við það að menn mótmæli harðstjórn og kúgun heldur einnig því að þessir ráðamenn sem óánægjan beinist gegn hafa á einn eða annan hátt gengið erinda "alheimslöggunnar" eins og Bandaríkjamenn eru gjarnan kallaðir í þessum heimshluta. Af þeim sökum er ekki skrítið þótt Sádar séu byrjaðir að nötra líka.

Monday, February 14, 2011

Úr ríki þagnarinnar


Asma og Basjar, forsetahjón Sýrlands

Margir hafa undanfarna daga og vikur undrast að lítið heyrist frá eða um Sýrland þegar fréttaskýrendur tala fjálglega um dóminóáhrif þess sem hefur gerst í Túnis og síðan Egyptalandi.
Sýrland hefur ekki komið við sögu að neinu ráði og fer þó ekki milli mála að þar er einræðisstjórn og eftirlit og ýmis konar höft og bönn sem flokkast ekki beint undir lýðræði.

En ástæðurnar eru ýmsar: Að sönnu hafa ýmsir andstæðingar stjórnarinnar hvatt fólk til að fara út á götur og mótmæla en það hefur ekki borið neinn árangur, að minnsta kosti ekki svo heitið geti.

Talsmaður Mannréttindavaktarinnar í Líbanon segir að þar valdi ótti við stjórnvöld og leynilögreglu sem vissulega lætur öðru hverju til sín tala. En talsmenn mannréttindavaktar með aðsetur í Líbanon skyldu - með fullri virðingu- vera teknir með nokkrum fyrirvara þegar Sýrland er annars vegar.

En það sem ræður kannski úrslitum er að hvað sem öðru líður og þótt stjórnarfarið í Sýrlandi sé ekki litið velvildaraugum er ýmislegt sem kemur til.

Forsetinn Basjar Assad er ungur maður og á óflekkaða fortíð. Hann var látinn taka við þegar faðir hans, hörkunaglinn Hafez al Assad, lést aldamótaárið og hafði varla komið nálægt stjórnmálum fyrr en faðir hans kvaddi hann heim í forsetaþjálfun eftir að elsi sonur gamla Assads, Basil lést í dularfullu bílslysi.
Basjar var þá í sérnámi í augnlækningum í Bretlandi og fátt annað benti til en hann mundi síðan fást við þá grein. En hlýddi kalli föður síns og hélt heimleiðis.

Sumum gramdist að þarna væri eins konar að myndast ríki sem kallaði sig lýðveldi en sonur var kvaddur til að taka við. Þær raddir hafa hljóðnað - en ekki þagnað alveg.

Basjar Assad hafði ótvíræðan vilja til umbóta í landinu þegar hann tók við árið 2000. Hann´aflétti ritskoðun, leyfði einkaskóla og einkabanka og linaði um alls kyns höft sem höfðu verið talin sjálfsögð og bara partur af daglegu lífi. Gömlu kallarnir sem hann erfði eftir föður sinn og höfðu hreiðrað um sig í valdastólum gerðu honum lífið þó erfitt svo að hann varð að hægja á umbótum.

Samt hefur hann haldið þeim áfram, en hægt og rólega. Það er líka skynsamlegt að dmínum dómi því umbætur í Sýrlandi verða að ganga hæfilega hægt. Annars gæti orðið kollsteypa og hún yrði bara til bölvunar.

Önnur ástæða fyrir því hvað Sýrland er "friðsælt" er sambúð kristinna og múslima. Um 10 prósent íbúa eru kristnir og þeir hafa full réttindi og verður ekki vart við að nokkur minnsti ágreiningur sé þar í millum. Kirkja og moska standa hlið við hlið og kristnir og múslimar virða helgidaga hins. ´Þegar ég bjó í Sýrlandi fannst mér eftirtektarvert hvað sambúð kristinna og múslima er áreynslulaus og sjálfsögð.

Basjar giftist ´skömmu eftir að hann tók við forsetaembætti. Kona hans Asma er af sýrlenskum ættum en uppalin í Bretlandi og Belgíu. Hún er tölvunarfræðingur að mennt enda var eins og við manninn mælt: farsímar og internet voru leyfð um leið og Asma hafði komið sér fyrir. Að vísu hafa ýmsar síður verið bannaðar en Sýrlendingar kunna lagið á að fara í kringum það. Og nú nýlega var hinu opinbera banni á Facebook og Twitter aflétt.

Asma er nútímakona, fríð sýnum og viðfelldin. Hún hefur sýnt trúnni virðingu en ber sjaldan klút um hárið. Hún hefur beitt sér í góðgerðarmálum, efnt til málþinga um stöðu kvenna og virðist njóta almennrar virðingar. Ekki er að efa að þau hjón búi vel og notalega en af eyðslu og bruðli fer ekki sögum.

Ungir Sýrlendingar virðast stoltir af forseta sínum. Hann er sá sem margir líta til sem leiðtoga araba í þessum heimshluta og þótt ekki séu allir á einu máli um hann eru menn sammála um að hann hafi komið á óvart í embættinu og hversu skörulega hann gegnir því. Hann er góður ræðumaður og rökfastur.

Það sem Basjar Assad er virtur fyrir er þó fyrst og síðast þetta: Hann er eini leiðtogi arabaríkjanna sem hvikar ekki í andstöðu við Bandaríkjastjórn og er sjálfur sér samkvæmur í andstöðu sinni. Hann dregur heldur ekki dul á fyrirlitningu sína á undirlægjuhætti ýmissa höfðingja í löndunum í kring gagnvart Bandaríkjastjórn.

Í landinu búa á aðra milljón Írakar nú, flestir fátækir flóttamenn, aðrir komu fyrir innrásina og áttu gnægð fjár. Sýrlendingar hafa reynt að taka á málefnum ´þeirra af hæglæti og skynsemi en það segir sig sjálft að það er ekkert smáræði að fá yfir sig þvílíkan fjölda Íraka á fáeinum árum.

Þegar allt er tekið með í reikninginn virðist Basjar Assad hafa þau tromp á hendi sem til þarf. Fólkið er að meirihluta sátt við hann og trúir því að hann vinni í þágu þess. Hann er andstæðingur Bandaríkjastjórnar og Ísraels. Enginn hefur sakað hann um spillingu.
Það er vitað engu að ýmislegt mætti betur fara í þessu landi. En margt er á réttri leið og það sem skiptir öllu: almenningur trúir á vilja forsetans til góðra verka.

Samt er ´vissulegu barnaskapur að búast við því að ekki gæti dregið til tíðinda. En sem stendur eru líkurnar minni en meiri.

Sunday, February 13, 2011

Mótmæli brotin á bak aftur í Jemen og Alsír - en líklega er hafin framvinda sem verður ekki stöðvuð


Tawwkool Kerman með börnum sínum

Um helgina rétt í sömu mund og fréttir bárust um heiminn að Múbarak Egyptalandsforseti hefði neyðst til að segja af sér, brutust einnig út mótmæli víðar, þ.e. í Jemen. Þar hafa mótmælagöngur verið öðru hverju síðustu vikurnar en verða varla taldar öflugar, því lögregla hefur stöðvað þær, að því er virðist án verulegrar fyrirhafnar.
Samt er augljóst að forseti Jemens Ali Abdullah Saleh verður að hugsa sitt ráð og hefur þegar gert alls konar tilslakanir sem sagt hefur verið frá í pistlum hér. Hann hefur heitið að draga úr kostnaði háskólanema, stofna sjóði stil að styrkja verk sem gætu fært fólki atvinnu og fleira og fleira.

Í mínum huga virðist Jemena skorta kraftinn, áræðið og umfram allt úthaldið sem Egyptar sýndu en þó skyldu menn fara gætilega í að vanmeta þá. Námsmenn við háskólann í Sanaa og blaðamannasamtökin svo og konur í stórum hópum hafa þyrpst út á göturnar og mótmælt og jemenska blaðakonan Tawakul Kerman sem í rauninni hratt þessu öllu af stað segir fullum fetum að Jemenar muni ekki gefast upp fyrr en Saleh víkur af forsetastóli.

Hin opinberu kvennasamtök Jemena eru hins vegar meira og minna hlynnt forsetanum og hann hefur um sig stóran hóp manna sem vilja síst að hann fari frá vegna þess að þar með væru þeirra eigin hagsmunir í húfi.

En við verðum óneitanlega og því miður að taka gattneyslu Jemena með í reikninginn. Gattið gerir þá sljóa og sinnulausa og heldur þeim niðri og svo virðist að minnsta kosti í bili að þeir kjósi fremur að mótmæla smástund en fari svo og setjist að gattinu og spjalli um mótmæli í makindum og hugsi sér að gera eitthvað seinna- kannski.

Samt ætla ég að leyfa mér að vona að Jemenar gefist ekki upp.Konur í Alsír

Sagt var frá því í gær, laugardag, að lögreglan í Algeirsborg hefði dreift tugþúsendum mótmælenda sem komu saman til að láta í ljós óánægju með stjórnarfarið.

Alsír er langtum flóknara samfélag en Jemen. Þar hefur í rauninni aldrei ríkt friður í raun og veru nema kannski rétt fyrstu árin eftir að Alsíringar unnu nýlenduherrana Frakka í blóðugu frelsisstíði 1962 og Frakkar viðurkenndu sjálfstæði landsins.

Þar með var komið á sósialisku lýðveldi í Alsír en flokkadrættir og greinir með ótal hópum og mjög sundurleitum hafa sett mark sitt á þetta samfélag allar götur síðan. Islamistar- bæði herskáir og hófsamir- svo og stjórnarflokkurinn hafa verið að stríða innbyrðis til mikils tjóns fyrir land og þjóð og þetta vissulega sett svip sinn á allt.

Í kringum 1990 var stjórnin í Alsír þó- að minnsta kosti á yfirborðinu- komin á þá skoðun að málið yrði að leysa og efnt skyldi til frjálsra kosninga í landinu. Þá kom í ljós að flokkur islamista FIS hafði farið með sigur af hólmi.
Og þar með voru kosningarnar ógiltar og herforingjastjórn tók völdin og hefur setið síðan.

Þegar Alsír varð frjálst frá Frökkum voru miklar vonir bundnar við bjartari framtíð. Olía var í landinu og menn sáu í hillingum að nú mætti bæta kjör alþýðu manna, efla menntun, bæta stöðu kvenna o.sfrv. osfrv.

Sumt af þessu hefur gengið eftir en flest ekki. Olían reyndist ekki eins mikil og menn höfðu reiknað menn, spilling í stjórnkerfi og efstu lögum samfélagsins hefur aukist og núverandi forseti Bouteflika hefur ekki haft dug og vilja til að koma á umbótum í landinu sem sárlega er þörf á.

Við bætist einnig deilur við nágrannann Marokkó en Alsíringar hafa löngum stutt Polisariohreyfinguna í Vestur Sahara sem lítur á sig sem sjálfstætt ríki en Marokkar hafa engu að síður ráðið.

Konur í Alsír hafa af miklu kappi aflað sér mennta og hafa algera sérstöðu arabískra kvenna hvað það snertir að þær sækjast ekki í jafn ríkum mæli og kynsystur þeirra í öðrum frændríkjum eftir að gifta sig og eiga börn í einum hvelli. Auk þess hafa þær sótt í og þykir sjálfsagt að búa einar- en slíks eru ekki mörg dæmi annars staðar.

Sem stendur er Alsír gáta.
Enginn getur reiknað út hvað gerist í þessu gríðarstóra landi með sínar 35 milljónir íbúa og sundurleitt mannlíf.
En Alsíringar sýndu það í löngu frelsisstríði við Frakka að í þeim býr atorka og kjarkur sem þeir gætu kannski farið að virkja aftur- þótt vona megi að baráttan verði ekki jafn ´blóðug og hroðaleg og stríðið við Frakkana.

Altjent er Boutflika skelkaður og hefur sýnt það með alls konar yfirlýsingum sem eru mjög í sama anda og gefnar hafa verið í þeim löndum þar sem til tíðinda hefur dregið þessar seinustu vikur.

Thursday, February 10, 2011

Egyptaland mun springa, sagði El Baradej eftir ræðu Múbaraks


Viðbrögð við ræðu Múbaraks á Tahrirtorgi í Kairó fimmtudagsmkvöld

Það er nánast ógerningur að skrifa vangaveltur um framvindu mála í Egyptalandi eftir kvöldið: Það sem var óhugsandi varð að hörmulegum virkileika. Múbarak forseti, þessi spillti kúgunarstjóri sem Egyptar hafa mótmælt af innilegum hita en þó virðulegri hófsemd tilkynnti þjóðinni seint og um síðir að hann ætlaði ekki að skorast undan ábyrgð sinni og mundi því sitja þar til kjörtímabilið rennur út í september n.k.

Ég vissi ekki almennilega hvort maður ætti að hlæja eða gráta þegar hann storkaði þeirri ofboðslega þungu reiðiöldu sem hefur farið yfir Egyptaland. Vanvirti þó sjálfan sig mest.

Viðbrögðin hafa verið harkaleg og skyldi engan undra því eftir flestum sólarmerkjum að dæma og ýmsum heimildum sem taldar voru nokkuð áreiðanlegar hafði forsetinn loks ákveðið að horfast í augu við að þjóðin beið þess eins að hann færi frá.

Sá orðvari maður Mohamed El Baradej fyrv. forstöðumaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar og þungavigtarmaður innan stjórnandstöðunnar sagði: Nú mun Egyptaland springa.Nú verður herinn að grípa til sinna ráða.

Þetta eru þung orð en ekki sögð að ástæðulausu og þess er að vænta að allt geti farið í bál og brand- og þá bókstaflega- eftir föstudagsbænirnar á morgun.
Enn er þröng á Tahrir torgi og ekki fararsnið á fólki. Hundruð þúsunda biða þar í ofvæni og var í raun létt stemning þegar tilkynnt að að Múbarak mundi flytja ræðu: það trúði því ekki nokkur maður að hann sýndi þjóðinni það sem hann gerði í kvöld.
Samstundis brutust út óheyrilega mikil mótmæli sem standa enn.


Múbarak flytur ræðuna í kvöld, fimmtudagskvöld

Í ræðunni sagðist Múbarak ætla að fá Omar Suleiman, nýskipuðum varaforseta (og vikið verður að ögn síðar) meiri völd, engum mótmælendum yrði refsað og það hvarflaði ekki að honum að yfirgefa þjóð sína á þessari örlagastundu. Og þá vissi ég heldur ekki hvort ég átti að grýta sjónvarpið eða flissa fíflalega.

Múbarak ætlar að færa meiri völd til þjóðarinnar og sem þetta gullkorn hrundi af vörum hans æpti mannfjöldinn á torginu: Þú lýgur, þú hefur logið að okkur í 30 ár og þú lýgur enn.

Að því loknu sagði hann að nú skyldu menn taka þessu rólega og vera sælir og glaðir- eða mér fannst það vera inntakið í niðurlagsorðum hans.
Og glaða og bjartsýna andrúmsloftið í miðborg Kairó breyttist í sorg og reiði. Það er hætt við að sorgin og reiðin leiti útrásar á næstu dögum.

Þegar Múbarak hafði lokið þessari dæmalausu ræðu sinni þustu þúsundir af stað í átt til forsetahallarinnar. Þangað höfðu menn reynt að komast fyrir nokkrum dögum en verið stöðvaðir.

Forsetahöll Múbaraks er í Heliopolis og þangað er langur gangur en þegar ég skrifa þessar línur hafði ekki verið reynt að stöðva fylkinguna.
Því er óljóst á þessari stundu nú þegar nálgast miðnótt í Kairó hvað hefur gerst þegar föstudagurinn rennur upp.

Maður veit ekki hvort valdi verður beitt gegn mótmælendum en það er greinilegt að hermenn hafa enn ekki beitt sér- eða ekki fengið um það formlega skipun. Og enginn veit heldur hvort herinn mun óhlýðnast og ganga til liðs við frelsissinna. Óskandi væri það.


Simon Peres, forseti Ísraels og Omar Suleiman.Myndin tekin í nóv s.l.

Omar Suleiman sem hefur nú fengið aukin völd að sögn Mubaraks er ekki eftirlæti Egypta svo vægt sé til orða tekið. Hann hefur gengið undir nafninu " CIA dindillinn í Kairó."

Hann hefur verið yfirmaður hinnar alræmdu og illskeyttu leynilögreglu landsins í allmörg ár og tilburðir hans til að vingast við Ísrael og hvorugt er til þess fallið að efla og ýta undir vinsældir egypskra ráðamanna. Það er á allra vitorði sem vilja horfast í augu við sannleikann að hann hefur fyrirskipað pyndingar á föngum, einkum og sér í lagi þeim sem hafa verið taldir gagnrýnendur Múbaraks.

Suleiman er fæddur 2.júlí 1936 í Quena í suðurhluta landsins. ´Meira og minna öll hans fortíð er í hernum því hann fór í herskóla eftir skyldunám og síðar hélt hann til framhaldsnáms í hermennsku í gömlu Sovetríkjunum.

Hann þykir grimmur maður og slóttugur og sýnir andstæðingum ekki vægð. Því er tæpt að trúa því að hann muni ekki láta hina djörfu mótmælendur finna til tevatnsins.

Vissi Obama ekki af ákvörðun Múbaraks?
Áður en Múbarak hélt ræðuna hafði Obama Bandaríkjaforseti haldið ræðu og varð hún varla túlkuð á annan veg en hann teldi að Múbarak hefði loks ákveðið að láta undan gífurlegum þrýstingi þjóðarinnar og víkja.

Allavega las ég það úr orðum hans í kvöld enda löngu orðið lýðum ljóst að málið var í raun tiltölulega einfalt þegar allt kom til alls:
Egypska þjóðin vildi ekki lúta áfram kúgunarstjórn Múbaraks
og Obama gerði sér grein fyrir því. En við vitum hvað Múbarak sagði í kvöld og það er með ólíkindum að hann gangi í berhögg við óbeina eða jafnvel beina hvatningu Obama.

Það skyldi haft í huga að Bandaríkjamenn veita Egyptum meiri fjárhagsaðstoð en nokkru öðru ríki- auðvitað að Ísrael undanskildu- og þar með var Múbarak auðvitað að tefla þessari fjárveitingu í tvísýnu. Því væri Bandaríkjastjórn stætt á því að veita stjórn Egyptalands þessa gríðarlegu aðstoð eftir atburðina síðustu daga og þó einkum í kvöld?

En hver kom þá fram á sjónarsviðið eins og hendi væri veifað? Nema "ljúflingurinn" Abdullah, konungur Sádi Arabíu sem að Múbarak frátöldum er líklega sá leiðtogi í Miðausturlöndum sem kúgar þjóð sína af fullkomnu miskunnarleysi.

Hann sagðist reiðubúinn að leggja fram fé til hjálpar Múbarak ef Bandaríkjamenn létu hann róa. Eins og þar stendur: Segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert.
Hinn vinur Múbaraks í þessum miklu ofsóknum " sem stýrt er af erlendum öflum" eins og hann orðaði það svo hnyttilega er vitaskuld Benjamin Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels.

Best að hafa þetta ekki lengra að sinni. Það er ógerningur að spá og eiginlega út í hött en hef hér dregið saman örfáa þætti sem fólk getur hlaupið á.
Annars er mjög vandlega fylgst með þessum atburðum hjá þorra manna. Nema kannski hjá RÚV sem sýndi matreiðsluþátt í mestu makindum meðan Múbarak flutti ræðu sína.

Tuesday, February 8, 2011

Palestína?? Er alvara í því. Fáeinar hugleiðingar um gang mála


Markaður í Hebron

Töluverður vilji var á því að efna til annarrar Palestínuferðar á árinu. Ég veit ekki hvort alvara býr að baki en set inn áætlunina sem farið var að mestu eftir í hinni sérdeilis vel lukkuðu og athyglisverðu ferð okkar í nóvember sl.

En ég þarf á hinn bóginn að fá svör frá fólki hið allra fyrsta, ella blæs ég hana af fyrr en síðar.

Set sömu dagsetningar og í ferðinni síðustu en þær gætu breyst og hugsanlegt að ferðin hefjist nokkrum dögum fyrr.

Hér eru í meginatriðum drög/áætlun Palestínuferðarinnar. Á ekki von á verulegum breytingum.

Verð er ekki fullfrágengið en ætla má - sagt án ábyrgðar að það yrði um 300 þús.

11.nóv. Flogið með Icelandair til Frankfurt og þaðan til Amman í Jórdaníu með Royal Jordanian. Fulltrúi jórdönsku ferðaskrifstofunnar tekur á móti hópnum, síðan er gengið frá vegabréfsáritunum og inn í Amman. Gist þar um nóttina

12.nóv. Morgunverður.
Farið frá Amman til landamæranna og farið yfir brúna sem skilur að löndin Ísrael og Jórdaníu. Farið yfir á landamærum sem heita Husseinsbrú, Jórdaníumegin og Allenby Ísraelsmegin.
Síðan keyrt til Betlehem en þar gistum við allar næturnar í Palestínu.

13. nóv.
Morgunverður
Við verðum allan daginn í Betlehem og skoðum okkur um í Beit Sahour og Beit Jala. Möguleiki er að við hittum einhverja ráðamenn borgarinnar. En það verður varla ljóst fyrr en síðar.

14.nóv.
Morgunverður
Þennan dag heimsækjum við Hebron og fyrir utan að skoða okkur þar um, er okkur boðið í glerverksmiðju og förum í Ibrahimsmoskuna.

15.nóv.
Morgunverður
Fyrri hluta dagsins verjum við í Austur Jerúsalem en eftir hádegi förum við til Ramallah. Þar hefur einnig verið rætt um að við getum hitt ráðamenn

16.nóv.
Morgunverður
Sækjum heim merkisstaði í Jerúsalem. Þennan dag vitjum við einnig Nablus, skoðum m.a. flóttamannabúðir þar, við sjáum einnig Jakobsbrunninn og fleira.

17.nóv.
Morgunverður
Til Jerikó, skoðum einnig Hisham Palace, ath hvort við komumst í grennd við Kumran þar sem Dauðahafshandritin eru ofl.

18.nóv.
Morgunverður
Förum snemma til Allenbybrúar og til Jórdaníu.
Keyrt til Amman og á sama hótel og við vorum á í upphafi ferðar. Gist þar

19.nóv. Brottför frá Alia flugvelli og um London. Alllöng bið í London og síðan heim til Íslands.

Innifalið er:
Gisting á 3ja stjörnu hóteli í Betlehem og 4ra stjörnu hóteli í Amman. Hálft fæði(kvöldverðir)
Öll keyrsla
Enskumælandi leiðsögumaður verður með okkur allan tímann
Aðgangseyrir á alla staði sem vitjað er í ferðinni
Tips á hótelum
Vegabréfsáritun til Jórdaníu

Ekki innifalið

Brottfararskattur þegar farið er frá Ísrael 45 dollarar
Hádegisverðir
Drykkjarföng og annað sem er ekki nefnt í þessari upptalningu.
Tips til bílstjóra og staðarleiðsögumanns

Að venju skulu menn sjálfir annast um sín tryggingamál og verður það ekki nógsamlega ítrekað
Reynt verður að fá fund með Födwu Bargouti í Ramallah

Möguleiki er á því að menn fari síðasta daginn til Petra þegar komið er yfir til Jórdaníu ef þeir vilja. Það er greitt aukalega.


Ég vil benda á að ferðaþjónusta er kannski ekki beint það sem Palestínumenn hafa lífsviðurværi sitt af. Mér sýnist þó í dagskránni að við sjáum helstu staði.
Hef haft samband við Stefaníu Khalifeh, ræðismann okkar í Jórdaníu. Hún hvetur til að við biðjum Ísraela – við komu og brottför- að stimpla á sérstakt eyðublað. Stundum gera þeir það og stundum ekki.
Aftur á móti virðast stimplar frá arabalöndum, Íran og víðar ekki skipta máli en þeir fara í taugarnar á Ísraelunum og stundum eru menn stoppaðir og yfirheyrðir. Það tefur en er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af.

Reikna má með leit í farangri þegar komið er yfir til Allenby og rækilegum spurningum. Nauðsynlegt að halda stillingu sinni og láta Ísraelana ekki koma sér úr jafnvægi.

Stefanía segir einnig að yfirleitt sé auðvelt fyrir útlendinga að komast leiðar sinnar en bendir okkur öllum á að stundum sé þörf á þolinmæði. Reyna að láta palestínska leiðsögumanninn og mig sjá þá um málin.

Það er fengur að því að við getum farið þessa ferð og vonandi gefur ferðin mjög athyglisverða mynd af því lífi sem Palestínumenn búa við, auk þess sem við sjáum stórmerkilega staði.

Veður á þessum árstíma er yfirleitt gott en nauðsynlegt að hafa með sér yfirhöfn, jakka og regnhlíf.

Nauðsynlegt er að greiða á réttum tíma ef þátttaka fæst því ég þarf að senda ferðaskrifstofugreiðslur með mjög góðum fyrirvara og sömuleiðis til Royal Jordanian.

ÍTREKA: Nauðsynlegt er að láta vita um þátttöku um hæl og hafa samband í hvelli.

Enn situr Múbbi
Þegar þetta er skrifað situr Múbarak Egyptalandsforseti enn sem fastast og neitar að hreyfa sig. Hann hefur komið með þá gráthlægilegu yfirlýsingu að það gæti orðið þvílíkt kaos í landinu ef hann færi. Öllu meira kaos en hefur verið síðustu daga er nú vart hægt að hugsa sér.

Það er greinilega ætlun Múbaraks og kumpána hans að þreyta andófsmenn til hlýðni en vonandi að þeir haldi út. Viðræður nýskipaðs varaforseta og fyrv. yfirmanns leyniþjónustunnar við stjórnarandstöðu, El Baradej og Amr Mousa svo og múslimabræður hefur engum árangri skilað.


Annars staðar tiltölulega rólegt

Mótmælagöngur hafa verið víðar en ekki kröftugar síðustu daga. Ráðamenn í Jemen, Alsír hafa gefið yfirlýsingar um alls konar umbætur í stjórnkerfi
til að slá á óánægju sem víða kraumar undir.
Í gullpeningalandinu Kúveit hefur emirinn meira að segja tilkynnt að íbúar fái greidda sérstaka og allvæna upphæð en að vísu fylgdi með að útlendingar og helsta vinnuafl landsins og tveir þriðju hlutar íbúanna fengju ekki greiðslur.

Í Jórdaníu virðist Abdúllah kóngi hafa tekist að sefa óánægjuraddir og skipta um ríkisstjórn. Athyglisvert er að Sýrland er hljótt og er það rakið til þess að Assad forseti hefur sl ár hægt og klókindalega breytt ýmsu þar í landi til batnaðar.

Að svo stöddu er heldur ekkert sem bendir til að trúaröfgamenn komist neins staðar til áhrifa. Menn spyrja mig mikið að þessu en stundum leyfi ég mér að efast um hvað fólk meini með trúaröfgamenn og sé spurt nánar hvað menn meini kemur eitthvert bull um hvort eigi kannski að setja konur í búrkur og banna brennivín. Tek þó fram að VIMAfélagar spyrja ekki í þessum dúr.

Ferðir á næstunni
Tuttugu og sex manna hópur fer til Írans 27.febr.-13. mars og um páskana er fyrri ferð til Uzbekistan (27 manns) og síðan ætla ég í maí til Eþíópíu í könnungarleiðangur eins og ég hef sagt frá.
Í september fer annar hópur til Uzbekistan(27 manns) og síðan fer ég með hóp fyrir Bændaferðir í október til Íran ef þátttaka næst.

Svo er sem sagt hugsanleg Palestínuferðin í byrjun nóvember ef menn hafa áhuga en ég þarf að ganga frá henni sem allra fyrst til að fá skikkanlegt verð.

Nokkrir Uzbekistanfarar í seinni ferð hafa ekki sent mér skönnuð vegabréf og staðfestingu frá vinnuveitanda og bið þá að gera það sem allra fyrst.

Vil svo í tilefni dagsins óska okkar ágæta ferðafélaga Guðmundi Péturssyni til hamingju með afmælisdaginn.
Bless í bili.

Wednesday, February 2, 2011

Forseti Jemens orðinn hræddur- gerir ótal breytingar til hins betra


Konur fara fyrir mótmælagöngu í Sanaa. Hópur ungra drengja hrópaði slagorð til stuðnings forsetanum. Þeir sögðust hafa fengið peninga til að hylla hann. Þegar þeim fannst þeir hafa unnið fyrir upphæðinni fóru þeir heim.

Það sama er að gerast í Kairó. Þar sagði egypskur stjórnmálaskýrandi að fólki hefði verið borgað (50 egypsk pund) fyrir að ráðast gegn mótmælendum á Tahrirtorgi


Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens

Þeir gerast hratt atburðir í Arablöndum þessa dagana. Nú hefur Ali Abdullah Saleh forseti Jemens sagt á jemenska þinginu- nánar tiltekið í morgun- að hann ætli að grípa til margvíslegra ráðstafana til að bæta líðan fólks:

1. Hann heitir því að laun verði hækkuð og verðlag á nauðsynjum lækkað frá og með deginum í dag

2. Hann hefur gefið fyrirmæli um sjóðsstofnun sem hafi það að markmiði að ýta undir atvinnumöguleika bæði framhalds- og háskólanemenda.

3. Gjöld háskólanema á seinni önn verði tafarlaust lækkuð og lög sett þar um.

4.Hann hefur heitið alls konar stjórnskipulegum umbótum en fyrst og fremst að hann muni hafa samráð við stjórnarandstöðuna til að hlýða á/fara eftir tillögum þeirra til að auka atvinnu.

5. Hann hefur heitið að leggja á hilluna allar fyrri hugmyndir um að sonur hans taki við forsetaembættinu eins og hann hafði ætlað sér að koma í gegn

Stjórnarandstöðumenn og andstæðingar forsetans hafa verið með mótmælagöngur í Jemen flesta daga síðan í sl viku. Í bígerð var að efna til " Dags reiðinnar" á morgun um gervallt landið til að mótmæla og krefjast þess að forsetinn leggi niður völd sem hann hefur haft í áratugi.

Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort þessi loforð forsetans- sem menn munu fylgjast vel með því hvort hann stendur við- verða eða hvort þessi orð muni duga til að lægja öldurnar. Sumir stjórnarandstöðuleiðtogar segja þetta sé of seint og hann verði að fara.
Án efa skýrist það á næstu dögum og vikum. Kosningar eru fyrirhugaðar í Jemen 27.apríl og forsetinn sagði einnig að hann lofaði að tryggja að þær færu fram á heiðarlegan hátt og erlendir eftirlitsmenn mundu fylgjast með að engin brögð væru í tafli.

Ég hef talið ástæðu til að skrifa þessa pistla nú upp á síðkastið því mér finnst að okkar fólk hafi áhuga á að fylgjast með þeim tímamótaatburðum sem eru að gerast í heimshlutanum okkar.

Tuesday, February 1, 2011

Á minn herra öngvan vin? milljónir manna í miðborg Kairó


Hermaður hampar stúlkubarni uppi á skriðdreka. Skriðdrekar og hermenn um allar trissur en herinn heldur enn að sér höndum. Ljósm. Ramy Raoof

Eins og hefur komið fram í fréttum í dag er milljón manns á aðaltorginu, Tahrir, í Kairó þessa stundina. Her og lögregla setti upp tálma og leitaði á þeim sem lögðu leið sína þangað. Menn virðast þó hafa komist með ýmsa gripi þangað, svo sem brúðu af Múbarak, líkkistu og fleiri táknræna muni. Á dagskránni er að ganga síðan að heimili Múbaraks í Heliopolis og krefjast afsagnar hans.
Þetta er æðilangur vegur og fái hópurinn að ganga þangað munu sjálfsagt margir bætast við á leiðinni.
Ætla má að þessi ganga og mótmæli í dag séu prófsteinn á það hvort hernum verður fyrir alvöru sigað á mótmælendur og ættu menn endilega að fylgjast með fréttum seinna í dag um þetta.

Að vísu herma fréttir- en að vísu er erfitt að greina milli sögusagna og frétta þessa stundina að Múbarak sé hvergi nærri, hann hafi skutlað sér yfir til Sjarm el Sjek í bústaðinn væna sem hann á þar. Synir hans tveir og eiginkonan Susan fóru úr landi fyrir fáeinum dögum.

Margir furða sig á þvermóðsku Múbaraks en hún þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart þeim sem hafa fylgst með ferli hins riðandi forseta. Völdin eru sæt og völdin spilla og það hefur vissulega orðið raunin með Múbarak. (Auk þess er hann í stjörnumerki sem þekkt er fyrir að láta ekki svo glatt undan þrýstingi)

Mohammed el Baradej- verður næsta framtíð hans?
Raddirnar sem hvetja til að Múbarak fari og fylkingar nái samkomulagi um að Mohamed El Baradej taki við til bráðabirgða eru sterkari nú en fyrir nokkrum dögum. Það hefur orðið honum til styrktar að múslimabræður hafa gefið út tilkynningu að þeir sætti sig við hann og séu allir af vilja gerðir að vinna með honum.

Baradej er fæddur í Kairó 17.júní 1942. Hann nam lög við Kairóháskóla og eftir framhaldsnám í fræðunum í Bandaríkjunum hóf hann störf í egypsku utanríkisþjónustunni. Hann var í fastanefnd Egypta hjá Sameinuðu þjóðunum og í Genf. Hann var í nokkur ár sérlegu ráðgjafi utanríkisráðherra Egyptalands og var valinn í samninganefndina sem dró upp friðarsamning við Ísraela og er kenndur við Camp David.

Hann aflaði sér mikils álits eftir að hann var skipaður yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar þó svo Bandaríkjastjórnir hafi ýmsar haft horn í síðu hans þar sem niðurstöður þeirra Hans Blix þegar þeir könnuðu mál Íraka vegna hugsanlegra gereyðingavopna þar sem gætu réttlætt innrásina í Írak 2003, komu ekki heim og saman við það sem Bandaríkjastjórn taldi sér hagstætt og ákvað að lokum að leiða niðurstöðurnar hjá sér.

Baradej er kvæntur og á tvö uppkominn börn.

Á minn herra öngvan vin?
Múbarak er ekki vinmargur maður þessa dagana en einn leiðtogi hefur þó komið fram á sjónvarsviðið og lýst eindregnum stuðningi við hann. Hvatt einnig aðra til að fylgja sínu fordæmi enda sé það stórhættulegt ef Múbarak þurfi að fara frá.
Og hver skyldi sá veruleikafirrti hagsmunanáungi vera: Auðvitað Benjamin Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels.
Ég segi veruleikafirrti vegna þess að stuðningur forsætisráðherra Ísraels verður umfram margt annað vatn á myllu andstæðinga Egyptalandsforsetans. Og mun ekki vekja neina kæti í öðrum Arabaríkjum. Þetta sýnir auðvitað líka hve Ísraelar eru skjálfandi á beinunum eins og vikið var að í tölu minni á VIMA fundinum sl. sunnudag.

Raunar komust þær sögur á kreik þótt þær flygju ekki víða að Ísraelar væru að undirbúa að veita Múbarak pólitískt hæli.
Og ég leit nú satt að segja á dagsetninguna þegar ég las þetta.

Jemen er kyrrt en viðræður forseta og stjórnarandstöðu í gangi
Allt er með kyrrum kjörum í Jemen eins og er og bíða menn átekta. Ali Abdullah Saleh forseti hefur byrjað miklar viðræður við aðal stjórnaranstöðuflokkinn Islah og þegar ég talaði við kunningja í Jemen fyrr í dag sögðu menn að þeim virtist eitthvað miða og forsetinn vildi mikið til þess vinna að ná samkomulagi sem þýddi væntanlega umtalsverðar tilslakanir af hans hendi.

Vegabréfaeftirlit til Jemen hefur verið hert til mikilla muna og reynt að fylgjast með því að grunaðir öfgamenn komist ekki inn í landið. Það láta þeir sem ætla sér að kynda undir þar sjálfsagt ekki stoppa sig og tiltölulega auðvelt er að lauma sér inn frá Sádi Arabíu enda ekkert eftirlit þar á löngum köflum og landamærin löng.


http://dagskra.ruv.is/ras1/4560662/2011/01/31/Ef menn fara inn á þennan link hjá RUV er þátturinn Hringsól frá því í gær, mánudag. Einhverjir kynnu að hafa áhuga.