Thursday, February 10, 2011

Egyptaland mun springa, sagði El Baradej eftir ræðu Múbaraks


Viðbrögð við ræðu Múbaraks á Tahrirtorgi í Kairó fimmtudagsmkvöld

Það er nánast ógerningur að skrifa vangaveltur um framvindu mála í Egyptalandi eftir kvöldið: Það sem var óhugsandi varð að hörmulegum virkileika. Múbarak forseti, þessi spillti kúgunarstjóri sem Egyptar hafa mótmælt af innilegum hita en þó virðulegri hófsemd tilkynnti þjóðinni seint og um síðir að hann ætlaði ekki að skorast undan ábyrgð sinni og mundi því sitja þar til kjörtímabilið rennur út í september n.k.

Ég vissi ekki almennilega hvort maður ætti að hlæja eða gráta þegar hann storkaði þeirri ofboðslega þungu reiðiöldu sem hefur farið yfir Egyptaland. Vanvirti þó sjálfan sig mest.

Viðbrögðin hafa verið harkaleg og skyldi engan undra því eftir flestum sólarmerkjum að dæma og ýmsum heimildum sem taldar voru nokkuð áreiðanlegar hafði forsetinn loks ákveðið að horfast í augu við að þjóðin beið þess eins að hann færi frá.

Sá orðvari maður Mohamed El Baradej fyrv. forstöðumaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar og þungavigtarmaður innan stjórnandstöðunnar sagði: Nú mun Egyptaland springa.Nú verður herinn að grípa til sinna ráða.

Þetta eru þung orð en ekki sögð að ástæðulausu og þess er að vænta að allt geti farið í bál og brand- og þá bókstaflega- eftir föstudagsbænirnar á morgun.
Enn er þröng á Tahrir torgi og ekki fararsnið á fólki. Hundruð þúsunda biða þar í ofvæni og var í raun létt stemning þegar tilkynnt að að Múbarak mundi flytja ræðu: það trúði því ekki nokkur maður að hann sýndi þjóðinni það sem hann gerði í kvöld.
Samstundis brutust út óheyrilega mikil mótmæli sem standa enn.


Múbarak flytur ræðuna í kvöld, fimmtudagskvöld

Í ræðunni sagðist Múbarak ætla að fá Omar Suleiman, nýskipuðum varaforseta (og vikið verður að ögn síðar) meiri völd, engum mótmælendum yrði refsað og það hvarflaði ekki að honum að yfirgefa þjóð sína á þessari örlagastundu. Og þá vissi ég heldur ekki hvort ég átti að grýta sjónvarpið eða flissa fíflalega.

Múbarak ætlar að færa meiri völd til þjóðarinnar og sem þetta gullkorn hrundi af vörum hans æpti mannfjöldinn á torginu: Þú lýgur, þú hefur logið að okkur í 30 ár og þú lýgur enn.

Að því loknu sagði hann að nú skyldu menn taka þessu rólega og vera sælir og glaðir- eða mér fannst það vera inntakið í niðurlagsorðum hans.
Og glaða og bjartsýna andrúmsloftið í miðborg Kairó breyttist í sorg og reiði. Það er hætt við að sorgin og reiðin leiti útrásar á næstu dögum.

Þegar Múbarak hafði lokið þessari dæmalausu ræðu sinni þustu þúsundir af stað í átt til forsetahallarinnar. Þangað höfðu menn reynt að komast fyrir nokkrum dögum en verið stöðvaðir.

Forsetahöll Múbaraks er í Heliopolis og þangað er langur gangur en þegar ég skrifa þessar línur hafði ekki verið reynt að stöðva fylkinguna.
Því er óljóst á þessari stundu nú þegar nálgast miðnótt í Kairó hvað hefur gerst þegar föstudagurinn rennur upp.

Maður veit ekki hvort valdi verður beitt gegn mótmælendum en það er greinilegt að hermenn hafa enn ekki beitt sér- eða ekki fengið um það formlega skipun. Og enginn veit heldur hvort herinn mun óhlýðnast og ganga til liðs við frelsissinna. Óskandi væri það.


Simon Peres, forseti Ísraels og Omar Suleiman.Myndin tekin í nóv s.l.

Omar Suleiman sem hefur nú fengið aukin völd að sögn Mubaraks er ekki eftirlæti Egypta svo vægt sé til orða tekið. Hann hefur gengið undir nafninu " CIA dindillinn í Kairó."

Hann hefur verið yfirmaður hinnar alræmdu og illskeyttu leynilögreglu landsins í allmörg ár og tilburðir hans til að vingast við Ísrael og hvorugt er til þess fallið að efla og ýta undir vinsældir egypskra ráðamanna. Það er á allra vitorði sem vilja horfast í augu við sannleikann að hann hefur fyrirskipað pyndingar á föngum, einkum og sér í lagi þeim sem hafa verið taldir gagnrýnendur Múbaraks.

Suleiman er fæddur 2.júlí 1936 í Quena í suðurhluta landsins. ´Meira og minna öll hans fortíð er í hernum því hann fór í herskóla eftir skyldunám og síðar hélt hann til framhaldsnáms í hermennsku í gömlu Sovetríkjunum.

Hann þykir grimmur maður og slóttugur og sýnir andstæðingum ekki vægð. Því er tæpt að trúa því að hann muni ekki láta hina djörfu mótmælendur finna til tevatnsins.

Vissi Obama ekki af ákvörðun Múbaraks?
Áður en Múbarak hélt ræðuna hafði Obama Bandaríkjaforseti haldið ræðu og varð hún varla túlkuð á annan veg en hann teldi að Múbarak hefði loks ákveðið að láta undan gífurlegum þrýstingi þjóðarinnar og víkja.

Allavega las ég það úr orðum hans í kvöld enda löngu orðið lýðum ljóst að málið var í raun tiltölulega einfalt þegar allt kom til alls:
Egypska þjóðin vildi ekki lúta áfram kúgunarstjórn Múbaraks
og Obama gerði sér grein fyrir því. En við vitum hvað Múbarak sagði í kvöld og það er með ólíkindum að hann gangi í berhögg við óbeina eða jafnvel beina hvatningu Obama.

Það skyldi haft í huga að Bandaríkjamenn veita Egyptum meiri fjárhagsaðstoð en nokkru öðru ríki- auðvitað að Ísrael undanskildu- og þar með var Múbarak auðvitað að tefla þessari fjárveitingu í tvísýnu. Því væri Bandaríkjastjórn stætt á því að veita stjórn Egyptalands þessa gríðarlegu aðstoð eftir atburðina síðustu daga og þó einkum í kvöld?

En hver kom þá fram á sjónarsviðið eins og hendi væri veifað? Nema "ljúflingurinn" Abdullah, konungur Sádi Arabíu sem að Múbarak frátöldum er líklega sá leiðtogi í Miðausturlöndum sem kúgar þjóð sína af fullkomnu miskunnarleysi.

Hann sagðist reiðubúinn að leggja fram fé til hjálpar Múbarak ef Bandaríkjamenn létu hann róa. Eins og þar stendur: Segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert.
Hinn vinur Múbaraks í þessum miklu ofsóknum " sem stýrt er af erlendum öflum" eins og hann orðaði það svo hnyttilega er vitaskuld Benjamin Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels.

Best að hafa þetta ekki lengra að sinni. Það er ógerningur að spá og eiginlega út í hött en hef hér dregið saman örfáa þætti sem fólk getur hlaupið á.
Annars er mjög vandlega fylgst með þessum atburðum hjá þorra manna. Nema kannski hjá RÚV sem sýndi matreiðsluþátt í mestu makindum meðan Múbarak flutti ræðu sína.

5 comments:

Anonymous said...

Takk fyrir þetta Jóhanna. Við fylgjumst með framhaldinu, en gott að fá svolitla innsýn frá þér sem þekki til í þessum löndum.
Ég velti einmitt fyrir mér því sama, hvernig var hægt að vera með matreiðsluþátt þegar við sátum öll og biðum eftir að vita hvað kallinn hefði sagt.
Bestu kveðjur, Bryndís í Háuborg

Anonymous said...

Takk kærlega fyrir góðan og fróðlegan pistil Jóhanna. Ég fylgdist með ræðu Mubaraks í gærkvöldi og þótt erfitt hefði verið að hlusta á túlkinn í beinni náði ég að mestu innihaldi ræðunnar. Hann talaði mikið en sagði lítið og endurtók sig í sífellu. Það var strax ljóst hvað hann hyggðist fyrir í uppahfi ræðunnar, svo það hlýtur að hafa verið kvalræði fyrir þjóðina að hlusta á þessa langloku.
Ég vona líka að herinn snúist á sveif með þjóðinni, þeir eru jú þjóðin líka.
Bíð svo bara eftir næsta pistli frá þér :-))
Kv. S.Guðmars

Anonymous said...

Tek undir takk fyrir góða pistla. Nú er Mubarak farinn en hver verður næstur ? Mótmæli eru byrjuð í Alsír, getur þú sagt okkur eitthvað um Bouteflika ? Svo er það Jemen ætli þeir mótmæli fyri hádegi og fara í gattið eftir hádegi.
kv. Gulla Pé.

Anonymous said...

Otherwise you may feel frustration to play these games.
When you decide to buy the Flight simulator Game,
then first you have to be sure that exactly what are you want.
In terms of sheer enjoyment, the Rollercoaster Tycoon series leads the pack.
If you are running your simulator for commercial purpose
and there are people playing with their own golf clubs, ask them to wipe their
clubs with a wet clean piece cloth. 3) Physical parameters: The simulators
are almost real, but actually they are on the ground,
I mean around the sea level.

Anonymous said...

One part compost to two or three parts potting soil would be a
sufficient combination. Native plants or at least plants adapted to similar conditions as your region will have a better chance of growing and thriving.
Grab a few bags of organic potting soil and lean them up against
the sunny side of your garage or a brick wall of your home.



My blog post: stateroom