Tuesday, February 8, 2011

Palestína?? Er alvara í því. Fáeinar hugleiðingar um gang mála


Markaður í Hebron

Töluverður vilji var á því að efna til annarrar Palestínuferðar á árinu. Ég veit ekki hvort alvara býr að baki en set inn áætlunina sem farið var að mestu eftir í hinni sérdeilis vel lukkuðu og athyglisverðu ferð okkar í nóvember sl.

En ég þarf á hinn bóginn að fá svör frá fólki hið allra fyrsta, ella blæs ég hana af fyrr en síðar.

Set sömu dagsetningar og í ferðinni síðustu en þær gætu breyst og hugsanlegt að ferðin hefjist nokkrum dögum fyrr.

Hér eru í meginatriðum drög/áætlun Palestínuferðarinnar. Á ekki von á verulegum breytingum.

Verð er ekki fullfrágengið en ætla má - sagt án ábyrgðar að það yrði um 300 þús.

11.nóv. Flogið með Icelandair til Frankfurt og þaðan til Amman í Jórdaníu með Royal Jordanian. Fulltrúi jórdönsku ferðaskrifstofunnar tekur á móti hópnum, síðan er gengið frá vegabréfsáritunum og inn í Amman. Gist þar um nóttina

12.nóv. Morgunverður.
Farið frá Amman til landamæranna og farið yfir brúna sem skilur að löndin Ísrael og Jórdaníu. Farið yfir á landamærum sem heita Husseinsbrú, Jórdaníumegin og Allenby Ísraelsmegin.
Síðan keyrt til Betlehem en þar gistum við allar næturnar í Palestínu.

13. nóv.
Morgunverður
Við verðum allan daginn í Betlehem og skoðum okkur um í Beit Sahour og Beit Jala. Möguleiki er að við hittum einhverja ráðamenn borgarinnar. En það verður varla ljóst fyrr en síðar.

14.nóv.
Morgunverður
Þennan dag heimsækjum við Hebron og fyrir utan að skoða okkur þar um, er okkur boðið í glerverksmiðju og förum í Ibrahimsmoskuna.

15.nóv.
Morgunverður
Fyrri hluta dagsins verjum við í Austur Jerúsalem en eftir hádegi förum við til Ramallah. Þar hefur einnig verið rætt um að við getum hitt ráðamenn

16.nóv.
Morgunverður
Sækjum heim merkisstaði í Jerúsalem. Þennan dag vitjum við einnig Nablus, skoðum m.a. flóttamannabúðir þar, við sjáum einnig Jakobsbrunninn og fleira.

17.nóv.
Morgunverður
Til Jerikó, skoðum einnig Hisham Palace, ath hvort við komumst í grennd við Kumran þar sem Dauðahafshandritin eru ofl.

18.nóv.
Morgunverður
Förum snemma til Allenbybrúar og til Jórdaníu.
Keyrt til Amman og á sama hótel og við vorum á í upphafi ferðar. Gist þar

19.nóv. Brottför frá Alia flugvelli og um London. Alllöng bið í London og síðan heim til Íslands.

Innifalið er:
Gisting á 3ja stjörnu hóteli í Betlehem og 4ra stjörnu hóteli í Amman. Hálft fæði(kvöldverðir)
Öll keyrsla
Enskumælandi leiðsögumaður verður með okkur allan tímann
Aðgangseyrir á alla staði sem vitjað er í ferðinni
Tips á hótelum
Vegabréfsáritun til Jórdaníu

Ekki innifalið

Brottfararskattur þegar farið er frá Ísrael 45 dollarar
Hádegisverðir
Drykkjarföng og annað sem er ekki nefnt í þessari upptalningu.
Tips til bílstjóra og staðarleiðsögumanns

Að venju skulu menn sjálfir annast um sín tryggingamál og verður það ekki nógsamlega ítrekað
Reynt verður að fá fund með Födwu Bargouti í Ramallah

Möguleiki er á því að menn fari síðasta daginn til Petra þegar komið er yfir til Jórdaníu ef þeir vilja. Það er greitt aukalega.


Ég vil benda á að ferðaþjónusta er kannski ekki beint það sem Palestínumenn hafa lífsviðurværi sitt af. Mér sýnist þó í dagskránni að við sjáum helstu staði.
Hef haft samband við Stefaníu Khalifeh, ræðismann okkar í Jórdaníu. Hún hvetur til að við biðjum Ísraela – við komu og brottför- að stimpla á sérstakt eyðublað. Stundum gera þeir það og stundum ekki.
Aftur á móti virðast stimplar frá arabalöndum, Íran og víðar ekki skipta máli en þeir fara í taugarnar á Ísraelunum og stundum eru menn stoppaðir og yfirheyrðir. Það tefur en er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af.

Reikna má með leit í farangri þegar komið er yfir til Allenby og rækilegum spurningum. Nauðsynlegt að halda stillingu sinni og láta Ísraelana ekki koma sér úr jafnvægi.

Stefanía segir einnig að yfirleitt sé auðvelt fyrir útlendinga að komast leiðar sinnar en bendir okkur öllum á að stundum sé þörf á þolinmæði. Reyna að láta palestínska leiðsögumanninn og mig sjá þá um málin.

Það er fengur að því að við getum farið þessa ferð og vonandi gefur ferðin mjög athyglisverða mynd af því lífi sem Palestínumenn búa við, auk þess sem við sjáum stórmerkilega staði.

Veður á þessum árstíma er yfirleitt gott en nauðsynlegt að hafa með sér yfirhöfn, jakka og regnhlíf.

Nauðsynlegt er að greiða á réttum tíma ef þátttaka fæst því ég þarf að senda ferðaskrifstofugreiðslur með mjög góðum fyrirvara og sömuleiðis til Royal Jordanian.

ÍTREKA: Nauðsynlegt er að láta vita um þátttöku um hæl og hafa samband í hvelli.

Enn situr Múbbi
Þegar þetta er skrifað situr Múbarak Egyptalandsforseti enn sem fastast og neitar að hreyfa sig. Hann hefur komið með þá gráthlægilegu yfirlýsingu að það gæti orðið þvílíkt kaos í landinu ef hann færi. Öllu meira kaos en hefur verið síðustu daga er nú vart hægt að hugsa sér.

Það er greinilega ætlun Múbaraks og kumpána hans að þreyta andófsmenn til hlýðni en vonandi að þeir haldi út. Viðræður nýskipaðs varaforseta og fyrv. yfirmanns leyniþjónustunnar við stjórnarandstöðu, El Baradej og Amr Mousa svo og múslimabræður hefur engum árangri skilað.


Annars staðar tiltölulega rólegt

Mótmælagöngur hafa verið víðar en ekki kröftugar síðustu daga. Ráðamenn í Jemen, Alsír hafa gefið yfirlýsingar um alls konar umbætur í stjórnkerfi
til að slá á óánægju sem víða kraumar undir.
Í gullpeningalandinu Kúveit hefur emirinn meira að segja tilkynnt að íbúar fái greidda sérstaka og allvæna upphæð en að vísu fylgdi með að útlendingar og helsta vinnuafl landsins og tveir þriðju hlutar íbúanna fengju ekki greiðslur.

Í Jórdaníu virðist Abdúllah kóngi hafa tekist að sefa óánægjuraddir og skipta um ríkisstjórn. Athyglisvert er að Sýrland er hljótt og er það rakið til þess að Assad forseti hefur sl ár hægt og klókindalega breytt ýmsu þar í landi til batnaðar.

Að svo stöddu er heldur ekkert sem bendir til að trúaröfgamenn komist neins staðar til áhrifa. Menn spyrja mig mikið að þessu en stundum leyfi ég mér að efast um hvað fólk meini með trúaröfgamenn og sé spurt nánar hvað menn meini kemur eitthvert bull um hvort eigi kannski að setja konur í búrkur og banna brennivín. Tek þó fram að VIMAfélagar spyrja ekki í þessum dúr.

Ferðir á næstunni
Tuttugu og sex manna hópur fer til Írans 27.febr.-13. mars og um páskana er fyrri ferð til Uzbekistan (27 manns) og síðan ætla ég í maí til Eþíópíu í könnungarleiðangur eins og ég hef sagt frá.
Í september fer annar hópur til Uzbekistan(27 manns) og síðan fer ég með hóp fyrir Bændaferðir í október til Íran ef þátttaka næst.

Svo er sem sagt hugsanleg Palestínuferðin í byrjun nóvember ef menn hafa áhuga en ég þarf að ganga frá henni sem allra fyrst til að fá skikkanlegt verð.

Nokkrir Uzbekistanfarar í seinni ferð hafa ekki sent mér skönnuð vegabréf og staðfestingu frá vinnuveitanda og bið þá að gera það sem allra fyrst.

Vil svo í tilefni dagsins óska okkar ágæta ferðafélaga Guðmundi Péturssyni til hamingju með afmælisdaginn.
Bless í bili.

1 comment:

Anonymous said...

Ferðafélaginn þakkar leiðtoga sínum í ævintýraferðum hamingjuóskir og leiðsögn.