Friday, March 15, 2013

Ferðadrotting VIMA

Góðan og blessaðan dag.
Hef fengið allmargar fyrirspurnir frá fyrrum VIMA félögum sem hafa áhuga á að þessari bloggsíðu verði haldið úti, kannski í breyttri mynd, og sömuleiðis hafa allmargir sagt mér að þeir sakni funda og því að hitta gamla ferðafélaga og væri því hreint ekki vitlaust að íhuga endurfundi svona einu sinni til tvisvar á ári Þið ættuð að vera svo væn að segja mér skoðun á því.

Að öðru leyti eru þær fréttir frá Sýrlandi að þar heldur ófriðurinn áfram með hörmulegum afleiðingum fyrir milljónir manns sem líða óbærilegar þjáningar dag hvern. Fatimusjóðurinn  gaf 5 milljónir til Rauða krossins eyrnamerkt Sýrlandi, þar af var tæp milljón sem ég safnaði á Facebooksíðu minni. Nú í haust bættum við 2 milljónum við til UNICEF, einnig til hjálpar Sýrlendingum. Þar af hafði safnast um hálf milljón á Facebook svo ég er mjög þakklát fyrir þann stuðning allan og bið ykkur lengstra orða að gleyma ekki Fatimusjóðnum, hann hefur sitt sama nr og fyrr 342 13 551212 og kt 1402403979. Eins og fram hefur komið hér á síðunni hefur hann einnig gefið til Jemen og svo til vatnsverkefnis í Eþíópíu.

Við Gulla Pé höfum dundað við að gera mjög ítarlegt en harla fróðlegt yfirlit um hversu margir þátttakendur hafa farið í hvaða ferð og hvenær. Þetta er svona useless information sem er gaman að glugga í. Niðurstaðan er að við getum hér með valið Ferðadrottningu VIMA sem er Sara Sigurðardóttir sem fór í alls 11 ferðir. Næst kemur Guðrún Sesselja Guðjónsdóttir með 10 ferðir og í þriðja sæti er Gulla  með 9 ferðir. Síðan koma Edda Ragnarsdóttir, Högni Eyjólfsson og Jóna Einarsdóttir með 8 ferðir og svona koll af kolli.

Þá vil ég benda á að slatti er til af flestum fréttabréfum sem verða eftirsóknarverðari með hverju árinu. Ef ykkur vantar inn í þá hafið bara samband á jemen@simnet.is og ég sendi það til ykkar gegn því að póstburðargjald sé greitt(inn á Fatimusjóð).