Thursday, January 10, 2008

Fundarefni, sauma-og fullorðinsfræðslunámskeið og vöntun á orðum



Fundarefnið 3.febrúar verður þetta

Af Kirgisum og Úsbekum

Þórir Guðmundsson varafréttastjóri Stöðvar tvö segir frá Úsbekistan og Kirgistan; stiklar á löndum, þjóðum og sögu en hann var búsettur þar eystra um tveggja ára skeið.

Mér finnst hinn mesti fengur að því að við höfum fengið Þóri til að segja frá þessum löndum sem fáir hafa vitjað og þaðan af síður búið þar. Það er væntanlega hinn hagstæðasti undirbúningur fyrir okkur þar sem VIMA félagar hugsa sér að fara á þessar slóðir á næsta ári.

En mig langar líka að nefna annað mál: Fullorðinsfræðslu- og saumanámskeiðið er hafið hjá YERO. Eins og ég minntist á tel ég rétt að við styðjum verkefnið en ekki einstaklinga. Amk 25 konur hafa nú skráð sig. Þessar konur eru allar áhugsamar og Nouriu líst vel á hópinn. Töluverð endurnýjun hefur orðið í honum frá því sl. ár en þó eru nokkrar frá sl. ári. Sama gjald eins og síðast þ.e 200 dollarar fyrir hverja. Bendi á að frammistaða stúlknanna hefur mælst svo vel fyrir að ýms smáfyrirtæki í Jemen eru farin að panta smáhluti frá stúlkunum, svo sem svuntur, skrautpoka fyrir gjafir og þess háttar. Þá borgar Nouria þeim vikulega smávegis í laun ef þær eru duglegar að mæta - og hef hana raunar grunaða um að borga þeim þó þær missi úr einn og einn tíma.
Aðstæður þessara kvenna eru allar þannig að þær sýna stakan dugnað að koma. Langflestar eiga hóp barna, margar atvinnulausa eiginmenn, veika foreldra. En þær koma samt og keppast við.
Ég bið ykkur sem viljið styrkja verkefnið að leggja þessa upphæð inn á Fatimusjóðinn 1151 15 551212. Það er virkileg nauðsyn á þessu og eflir konurnar.

Frá því má líka segja að amk. ein stúlkan okkar hefur þurft sérstaka meðferð vegna sjúkleika og lyfjameðferð sem Nouria kom henni loks í er dýr. Stúlkan hafði ekki mætt í skólann og Nouria fór að grennslast fyrir um hana og kom þá í ljós að hún var veik og var tafarlaust sett í rannsókn. Hún er líklega ekki með MS en einhvern skjálftasjúkdóm sem kemur í köstum, en lyf virðast geta haldið niðri að mestu.
Þurfum við ekki að leggja þar lið líka? Það þykir mér einsýnt.
Við skulum hjálpa til. Leggið inn á reikninginn svo ég geti látið Nouriu vita að við styðjum námskeiðið og getum hjálpað stúlkunni líka.

Að svo búnu: Ég er ekki beinlínis í öngum mínum. En ég er gáttuð. Tvær í Egyptalandsferð hafa enn ekki lokið greiðslu. Það er EKKI gott. Hef hottað á þær og ekkert gengur.

Íranfarar hittast á laugardag til að fylla út umsóknir. Kl. 2 í gamla Stýró við Öldugötu. Muna vegabréf og tvær nýjar myndir. Konur beri slæðu.
Þar hafa ekki allir greitt janúargreiðslu. Því verður altso að kippa í lag.

Það getur ekki verið erfitt að skilja.

Varðandi Jemen/Jórdaníuferð í apríl: Menn halda að ég sé með of langan fyrirvara á öllu. En það reyndist erfitt að fá sæti á lægsta verði því heilmikið var bókað á brottfarardegi. Svo ef ég get ekki greitt inná erum við í erfiðum málum.
Þetta eru allt ábendingar settar fram í vinsemd en af fullri alvöru.

Fleiri barnamyndir berast frá Nouriu. Kem þeim til ykkar á næstu dögum.

Sæl að sinni

No comments: