Myndakvöld Eþíópuhópsins fyrri var í gærkvöldi 6. júní og seinni hópurinn hefur verið boðaður á sams konar kvöld þann 14. júní. Mig vantar enn svör frá ansi mörgum úr þeim hópi og hef þó sent tvívegis bréf til þeirra.
Gærkvöldið var mjög notalegt. Við hittumst sem sagt á Hótel Smára í Kópavogi og gæddum okkur á poppkorni og djús og ég kom með slatta af írönskum sætindum. Svo löbbuðum við yfir götuna á veitingastaðinn Minilik og fengum þar gómsætt eþíópískt hlaðborð. Mæting var framúrskarandi góð og tveir tóku með sér gesti.
Svo var mallað ofan í okkur eþíópískt kaffi við hinn mesta fögnuð.
Við gáfum okkur góðan tíma í matinn eins og sæmir á eþíópískum stað og síðan var farið að skoða myndir. Máni sýndi disk og hafði auk þess brennt slatta sem var selt svo við gætum lagt í vatnsverkefni í Eþíópíu eins og um hefur verið talað. Þeir diskar seldust upp snarlega.
Einnig var Guðrún Ólafsdóttir með myndir, Magdalena, Steingrímur og Rikharð og höfðu allir mikla ánægju af.
Bið sem sagt hóp númer tvö að tilkynna sig snarlega og þar verður m.a. sýnd mynd sem Högni gerði og verður sá diskur seldur í sama augnamiði.
Þá vil ég minna væntanlega Íranfara á fundinn á laugardag kl. 14 í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu.
Bið alla að koma með tvær nýjar passamyndir, konur skulu bera slæðu.
Nokkrir hafa ekki sent skönnuð vegabréf til mín og er ástæðan í sumum tilvikum sú að einhverjir þurftu að fá sér ný vegabréf.
Ég keypti hnetur, döðlur og fleira gómsæti í skoðunarferðinni minni til Íran á dögunum þegar ég skrapp þangað til að fara yfir nýju áætlunina. Við gæðum okkur á þessu ásamt með te og kaffi og spjöllum um ferðina.
Við Gulla munum fylla út vegabréfsáritunarumsóknir svo þær verða vonandi tilbúnar en menn þurfa að skrifa undir og sömuleiðis vantar viðbótarupplýsingar hjá nokkrum þátttakendum.
Það er ansi nauðsynlegt að sem flestir komi á fundinn.
Nýja áætlunin er mjög góð og ferðin sem ég fór lukkaðist prýðisvel og tilhlökkunarefni að sjá nýjar slóðir í Íran en einnig verðum við nokkra daga í Isfahan, það er ógerningur að sleppa þeim stað.
Vonast sem sé til að Eþ-2 tilkynni sig- þ.e. þeir sem hafa ekki þegar gert það á myndakvöldið 14.júní og að Íramfarar mæti stundvíslega laugardaginn 9.júní.
Thursday, June 7, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment