Friday, June 22, 2012

Myndakvöld Eþíópíuhóps 2 og samningur senn gerður við Hjálparstofnun kirkjunnar


Þessi mynd er frá samverukvöldi Eþíópíuhóps 2 sem var haldið á veitingastaðnum Minilik á dögunum Þar snæddum við hinn ágætasta mat og fengum okkur svo kaffi á eftir.
Síðar var farið yfir götuna og á Hótel Smára og þar horfðum við á stórfínar myndir m.a. eftir Bergljótu, Svein og 50 mínútna videomynd eftir Högna og vakti allt mikla ánægju. Högni bjó til fullt af diskum með myndinni og seldust þeir upp. Allt rennur í vatnsverkefnið. Högni hefur nú komið til mín fleiri diskum svo að þeir sem höfðu pantað þá geta nálgast þá hjá mér. Minnir að Edda, Maja Kristleifsd og  Gulla hafi óskað eftir diskum.

Einnig var haldið upp á afmæli Bergljótar með fíneríis tertu og fagnaðarlátum og allt var þetta hið ánægjulegasta mál og skemmtu menn sér dátt.

Eftir samskipti við Jónas Þórisson hjá Hjálparstofnun kirkjunnar hefur verið ákveðið að gefa upphæðina sem dugar fyrir vatnsþró, 10 kamra og 10 smálán. Jónas segir að vatnsþrónni verði búinn staður í Jijiga héraði og stingur upp á að hún verði merkt Fatimusjóði sem er auðvitað hið besta mál. Við fulltrúar Fatimusjóðsstjórnar og Hjálparstofnunar munum gera skriflegan samning um þetta innan tíðar.

Aftur á móti hefur ekki tekist að ganga frá peningasendingum til Jemens vegna þess hve flókið það mál er og UNICEF hugmyndirnar falla ekki alls kostar að okkar hugmyndum.
Vil einnig leiðrétta að það er Fatimusjóðsstjórn sem stendur í þessu enda er VIMA ekki starfrækt lengur.
Í stjórn Fatimusjóðs eru sem fyrr Rannveig Guðmundsdóttir, Ragný Guðjohnsen, Guðlaug Pétursdóttir og JK

Þó er vert að geta þess að á báðum myndakvöldunum töluðu menn um að þeir mundu sakna fundanna og samveru og má því velta fyrir sér að áhugasamir hittist t.d. einu sinni á ári eða svo til að halda vináttu og kunningsskapnum í fullu fjöri. Við sjáum til með það.

Loks hefur svo verið gengið frá  greiðslunum fyrir teppasýninguna eftir að allir tollar, skattar(sem urðu á endanum 45 prósent) o.fl. hefur verið gert upp.

Íranfarar í septemberferð hittust á dögunum og var þar skrafað og bornar saman bækur. Við verðum 25 í hópnum og vonandi tekst að senda vegabréf út til Noregs innan tíðar þegar viðkomandi ráðuneyti í Íran hefur amenað okkur. Nauðsynleg plögg hafa verið send út og ég læt fólk vita um leið og svar kemur. Bið þá sem hafa ekki enn sent mér tryggingarstaðfestingu að gera það hið allra fyrsta.

5 comments:

Anonymous said...

Ég vil endilega kaupa diskinn hans Högna. Èg bað Maju að panta fyrir mig eða kaupa allt sem yrði á boðstólum á myndakvöldinu. Ég var alveg miður mín yfir að missa af þessu. Mér líst vel á að hafa samband innan hópsins og líst vel á hugmyndir um að byggja brunn, eftir að hafa séð konur og börn rogast langar leiðir með gulu vatnsbrúsana. Bestu kveðjur! Ólöf Arngrímsd.

Anonymous said...

Góðar fréttir með Eþíópíuverkefnin og vonandi finnst lausn í Jemen því ekki veitir af ef einhver traustur aðili fæst til að miðla matargjöfum.
Allt gott þegið í fundarmálum.
Kærar kveðjur Jóna og Jón Helgi.

Anonymous said...

Sæl Jóhanna
Ég er mjög ánægð með vatnsverkefnið í Eþíópíu og hvernig þið ráðstafið peningunum.

Bestu kveðjur
Jóna Eggertsdóttir

Anonymous said...

Sæl Jóhanna
Ég er mjög ánægð með vatnsverkefnið í Eþíópíu og hvernig þið ráðstafið peningunum.

Bestu kveðjur
Jóna Eggertsdóttir

Anonymous said...

Sæl Jóhanna og allar góðar umsjónarkonur Fatímusjóðs!

Mér finnst það mjög ánægjulegt að hægt sé að nota peninga sjóðsins til þeirra verkefna sem nú eru mest aðkallandi.
Með kveðju
Ragnheiður Jónsdóttir