Við höfum ákveðið í stjórn Fatimusjóðsins að leggja fram liðsinni við Sýrlendinga. Ekki er vanþörf á því eins og ástandið er þar í landi. Ég bjó í Sýrlandi í þrjá vetur tæpa og hef komið þangað ótal sinnum að auki, ein eða með hópa. Mér er því Sýrland og Sýrlendingar sérlega kært og umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa. Stjórn Fatimusjóðs tók því mjög vel og eftir viðræður við Þóri Guðmundsson og Jón Brynjar var ákveðið að afhenda í næstu viku þetta framlag.
Eftirfarandi fengum við svo frá Rauða krossinum um hvernig féinu verður varið og vorum mjög sáttar við það. Vona að svo sé með ykkur og kannski vilja einhverjir fleiri aðstoða. Safnaði á Facebook 778 þús. á nokkrum dögum um daginn og þakka mikið vel fyrir það.
Hvað varðar önnur framlög sem við höfum innt af hendi hef ég fengið skýrslu frá UNICEF um Jemenstarfið og mun birta það fljótlega hér á síðunni. Auk þess vænti ég að við heyrum frá Hjálparstofnun kirkjunnar um Eþíópíuverkefnið innan tíðar.
Munið að númer Fatimusjóðs er 342 13 551212 og kt. 1402403979.
Rauði krossinn á Íslandi bindur vonir við að Fatímusjóðurinn muni styðja við hjálparstarf Rauða
krossins í Sýrlandi. Framlag sjóðsins yrði afhent Alþjóðaráði Rauða krossins og nýtt við
neyðaraðstoð í Sýrlandi.
Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í Aleppo,
hluta Damaskus og Homs. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í
fjöldahjálparstöðvum eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á
mannúðaraðstoð Rauða krossins.
Hjálparbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins
Alþjóðaráð Rauða krossins gerir ráð fyrir að aðstoða um 1,5 milljónir manna í Sýrlandi á árinu en
hjálparbeiðni ráðsins fyrir árið 2012 hljóðar upp á 4,6 milljarða króna.
Áætlanir miðast meðal annars við að efla heilbrigðisþjónustu og bæta lífsskilyrði fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín. Um 100.000 manns munu njóta mánaðarlegrar mataraðstoðar og allt að 25.000 manns munu fá afhentar ýmsar nauðsynjavörur til heimilishalds.
Alþjóðaráðið vinnur að því að stríðandi aðilar virði alþjóðleg mannúðarlög og leggur áherslu á að þeir láti af hegðun sem brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög. Fangaheimsóknir eru hluti af slíku starfi. Fangelsið í Aleppo hefur verið heimsótt og unnið er að því að sendifulltrúar ráðsins fái aðgang að öðrum fangelsum í landinu.
Rauði hálfmáninn í Sýrlandi vinnur að því að efla og styrkja viðbragðs- og viðbúnaðargetu sína í
samræmi við gjörbreytt ástand í landinu. Alþjóðaráðið styður við Rauða hálfmánann svo hann geti
áfram sinnt hlutverki sínu af festu og ábyrgð.
Á síðustu þremur vikum hafa Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauði hálmáninn í Sýrlandi:
- Sent sjúkragögn til Aleppo til að sinna allt að 1000 slösuðum ásamt því að endurnýja birgðir af sjúkragögnum í Damaskus.
- Endurnýjað búnað í fjórum færanlegum heilsugæslustöðvum (bílum) í eigu Rauða hálfmánans sem sinna heilbrigðisþjónustu fyrir þolendur í Damaskus ásamt því að dreifa lyfjum í fjöldahjálparstöðvum í Damaskus.
- Séð 125.000 manns fyrir mat í Damaskus og nágrenni, Aleppo, Homs, Hama, Idlib, Lattakia, Hassakeh og Raqqa.
- Tryggt um 2000 manns í 10 fjöldahjálparstöðvum í Aleppo aðgengi að hreinu vatni ásamt því að auðvelda aðgengi að hreinu drykkjarvatni og bæta hreinlætisaðstöðu í Damaskus og Rural
- Damascus fyrir yfir 68.000 manns sem þurftu nýlega að flýja átökin og hafast nú við í 27 skólum og íbúðahúsnæðum.
- Unnið að því að tryggja rúmlega 300.000 manns sem dvelja í 100 fjöldahjálparstöðvum í
Homs aðgengi að hreinu vatni. - Dreift 10.000 dýnum í fjöldahjálparstöðvum í Damaskus og nágrenni, Aleppo og Homs ásamt
2000 hreinlætispökkum í Aleppo.
Tillaga að framkvæmd verkefnisins hér á landi
- Fatímusjóðurinn mun leggja Rauða krossinum á Íslandi til fimm milljónir króna og eyrnamerkt verkefnum Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi.
- Rauði krossinn á Íslandi og Fatímusjóðurinn munu halda sameiginlega kynningu á framtakinu í lok sumars 2012.
- Rauði krossinn á Íslandi mun senda Fatímusjóðnum skýrslu um ráðstöfun fjármuna og framkvæmdir Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi um mitt ár 2013 auk fréttatilkynninga og annars efnis um framkvæmd og framvindu hjálparstarfsins eftir því sem það berst.
Alþjóðaráð Rauða krossins
Alþjóðaráð Rauða krossins er sjálfstæð stofnun með aðsetur í Genf í Sviss. Allt frá stofnun ráðsins árið 1863 hefur meginhlutverkið verið frumkvæði að hjálparstarfi á átakasvæðum. Alþjóðaráðið lætur þá einkum til sín taka sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum. Samkvæmt
Genfarsamningunum fjórum frá árinu 1949 er ráðinu falið að fylgjast með að samningarnir séu virtir
af þeim ríkisstjórnum sem hafa undirritað þá og eiga þátt í átökum. Það eru því einkum særðir og
sjúkir hermenn, stríðsfangar og almennir borgarar sem njóta verndar ráðsins. Alþjóðleg viðurkenning
á Alþjóðaráðinu sem hlutlausri mannúðarstofnun veitir ráðinu aðgang að átakasvæðum sem önnur
alþjóðleg samtök hafa oft ekki aðgang að. Alþjóðaráðið hefur 50 starfsmenn á sínum snærum í Sýrlandi.
Rauði hálfmáninn í Sýrlandi
Rauði hálfmáninn í Sýrlandi er eitt af 188 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans og á
höfuðstöðvar í Damaskus. Félagið starfar í 14 deildum og 82 undirdeildum um allt landið. 11.000
sjálfboðaliðar félagsins sinna sjúkraflutningum, skyndihjálp, neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Rauði
hálfmáninn sér um samhæfingu neyðarviðbragða í Sýrlandi í samræmi við landslög og er víða í
landinu eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.
No comments:
Post a Comment