Góðan daginn
Loks smeygði sálin sér inn í nótt svo ég vaknaði endurnýjuð í morgun. Mikið góð tilfinning það.
Nokkuð hefur borið á því að vafist hefur fyrir mönnum reikningsnúmerið til að greiða inn á ferðir.
Það skal því endurtekið vel og vandlega
1151 15 551346 og kt 441004 2220.
Ætti því ekki að fara milli mála.
Var beðin um að senda tvö minningarkort í morgun og þau eru flogin í póst. Vinsamlegast hafið þetta hugfast.
Sömuleiðis gjafakortin ef þið viljið gefa einhverjum sem vantar ekkert nema styðja gott verk. Sé um þetta snarlega og sendi til ykkar eða fyrir ykkur. Einnig eru jólakortin fáanleg. Styttist í þá hátíð eins og gjarnan gerist á þessum árstíma.
Egyptalandsferðin er orðin full. Get ekki bætt þar við nema einhver detti út og sama máli gildir um Íransferðina. Þakka báðum hópum hvað þeir hafa verið reglusamir að borga þótt einhverjir hafi gleymt því- kippa því í lag vinsamlegast.
Þarf endilega að biðja Egyptalandsfara að senda mér kennitölu og vegabréfsnúmer hið fyrsta. Ekki draga það.
Fyrri Jemenferðin er full eins og ég sagði en vegna forfalla má bæta við í seinni ferðina. Athugið það fyrr en seinna.
Þá hef ég fengið fyrirspurnir um hvenær fólkið sem styður Jemenkrakkana okkar fái nánari upplýsingar um þau. Því er til að svara að þar sem Nouria er enn til lækninga í London getur orðið bið á því þar til síðari hluta þessa mánaðar. En þetta kemur og bið ykkur aðeins að sýna biðlund.
Peningar ykkar hafa verið sendir, þau hafa fengið skólabúninga, vörur og aðra aðstoð sem þessir peningar dekka.
Einnig ætla ég í dag að senda út greiðslu fyrir þrennum kennaralaunum svo allt sé þetta nú komið á réttan stað.
Ég hef líka fengið spurningar um hvernig húsamál standi: Hópur hefur verið settur í laggirnar sem mun skipuleggja það.
Hann hittist næst milli 20.-25 nóv. og hefst þá handa. Vil taka fram að við höfum þegar fengið loforð um 3,5 milljónir frá gefanda sem ætlar ekki að láta nafns síns getið. Það er undursamlega þakkarvert.
Og þó mönnum finnist kannski ekki muna mikið um kortin hvert og eitt þá safnast þegar saman kemur svo ég hygg að loforð plús það sem komið er sé nú hátt í 5 milljónir.
Svo tókst mér að detta niður stigann hérna á Drafnarstíg í fyrrakvöld þegar ég var að rogast með blautan þvott upp. Þeir sem þekkja stigann vita að það er ekkert gamanmál og bakið á mér er nú að verða litfagurt í betra lagi. En það grær áður en ég gifti mig. Ef guð lofar.
ps. Hef veitt því eftirtekt að nokkrir - og oftast þeim sömu- eyða póstinum án þess að lesa hann. Reikna með þeir hafi ekki áhuga á að fylgjast með eða fari inn á síðuna þegar þeim hentar sjálfum. Hef því tekið nokkra af póstlista. Óski menn eftir að koma inn aftur láti þeir vita og séu þeir velkomnir.
Thursday, November 8, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment