Saturday, November 24, 2007

Kvennablómi mun taka þátt í Jemenbyggingarmálum


Sæl öll.

Á meðan Nouria Nagi var hér fyrr í haust tókst mér að hóa saman nokkrum konum sem ég hef fulla trú á að muni taka þátt í að sinna Jemenskólabyggingarmálum af krafti. Þetta eru miklar prýðiskonur sem koma af ýmsum sviðum þjóðlífsins.
Nouria kynnti þeim starfssemi YERO og hversu brýnt væri að kaupa nýja og stærri miðstöð svo starfið geti blómstrað. Að hennar máli loknu og spjalli fram og aftur voru svo viðstaddar inntar eftir því hvort þær vildu taka þátt í að skipuleggja málið. Og allar vildu vera með. Húrra fyrir því.
Nú er ekki víst að þetta starf hefjist að ráði fyrr en eftir áramót en þar sem þrjár voru skipaðar til að kalla hópinn saman og þessar þrjár hittast undir mánaðamót hef ég mergjaða trú á því að þetta fari af stað með nýju ári.

Þessar skörungskonur eru

Ásdís Halla Bragadóttir
Elísabet Ó. Ronaldsdóttir
Eva María Jónsdóttir
Helga Sverrisdóttir
Hlín Sverrisdóttir
Katrín Pétursdóttir
Linda Vilhjálmsdóttir
Nanna B. Lúðvíksdóttir
Margrét Pála Ólafsdóttir
Rannveig Guðmundsdóttir
Steinunn Jónsdóttir
Svafa Grönfeldt
og JK

Mér finnst akkur í því að hafa fengið þessar kjarnakonur í lið með okkur.

Ég vil líka hvetja félagsmenn til að leggja í sjóðinn, fá sér gjafakort til jólagjafa og styðja okkur eftir því sem það hefur aðstöðu og vilja til.

Stefni að því að fara til Jemen í viku um 10.des. Nouria hefur augastað á nokkrum húsum sem hún telur að gæti hentað og við ætlum að skoða þau og skeggræða næstu skref í málinu enda verður þá "framkvæmdanefndin" búin að hittast.

Vonast til að geta komið heim með bréf og myndir til stuðningsforeldra en dráttur hefur orðið á því vegna þess að Nouria þurfti að lengja veru sína í London vegna augnmeins.

Muna að númer Fatimusjóðs er 1151 15 551212 og kt. 1402403979.
Sérstakur byggingarsjóður hefur verið stofnaður með framlögum sem ég hef þegar minnst á og númer hans er ekki alveg tímabært að gefa upp.


Og fleira rétt í leiðinni:
Ætla að senda imeil á Egyptalandsfara núna á eftir vegna fyrirhugaðs fundar og bið þá lengstra orða að svara mér hið skjótasta um hvort þeir geta komið. Þar er ætlunin að leggja fram áætlunina, lista yfir þátttakendur og hollráð og leiðbeiningar um undirbúning fyrir ferðina.

No comments: