Góðan daginn öll
Bið forláts á því að ég hef ekki sett drög að áætlun inn á Uzbekistan og Kyrgistan enn sem komið er því mig vantar nokkrar gistiupplýsingar. Þar langar mig að hópurinn gisti eina eða tvær nætur meðan verið er í Kyrgistan sérstökum tjöldum eða smáhúsum, heldur óhrjálegum utan að sjá en skilst þau séu hin fegurstu þegar inn er komið. Þau eru kölluð yurt og dæmigerð fyrir -stanlöndin.
Þau eru yfirleitt til sveita og þaðan er svo farið í bátsferð, hestaferðir eða gönguferðir og fylgst með heimafólki baka brauð og fást við handverk. Þetta liggur sem sagt ekki fyrir og þess vegna hef ég ekki sett áætlunina inn en mér sýnist hún í fljótu bragði spennandi.
Nouria skrifaði mér um iðju krakkanna í YERO en þar er líf og fjör þessa sumardaga. Nú taka 40 krakkar þátt í skyndihjálparnámskeiði, ungur jemenskur listnemandi í Frakklandi er með námskeið fyrir 20 börn og um 30 hafa sótt í tölvunámskeið í miðstöðinni eftir að þangað bárust fjórar notaðar tölvur að gjöf.
Hún segir að gríðarleg ásókn sé í að innrita sig fyrir næsta vetur en formleg skráning hefst í ágúst. Biðlistinn hefur heldur betur lengst.
Ég hef fengið fyrirspurnir um hvenær styrktarmenn eigi að greiða fyrir næsta ár og læt fólk vita og geri því skóna að það verði milli 10.-15.ágúst. Það má telja næsta víst að einhverjir krakkar detti út af ýmsum ástæðum en þá eru margir um hvert pláss sem losnar. Læt ykkur vita allt um þetta jafnskjótt og ljóst er hvaða krakkar okkar halda áfram. Vonandi verða það flestir.
Eftirtektarvert er að allmargar fyrirspurnir hafa borist um Sýrlandsferðir eftir að ég greindi frá því að nú yrðu þær ekki fleiri að sinni. Svona er þetta nú og verði veruleg eftirspurn er alltaf hægt að athuga málið.
Reikna með að fréttabréf komi út sirka um miðjan september. Þar verða m.a. efnis hugmyndir að ferðum fyrir árið 2009 því ég sé ekki betur en ferðir næsta árs séu alveg að fyllast.
Mjög trúlegt að Kákasuslöndin verði á dagskrá 2009 en ég hef ákveðið að stytta þá ferð um 4-5 daga. Nánar um það síðar.
Vek athygli á að Egyptaland og Jemen hafa enn laus sæti og skora á ykkur að drífa í málunum.
Munið félagsgjöldin.
Munið minningar- og gjafakortin.
Munið að senda síðuna áfram til skemmtilegra ættingja og vina.
Ekki meira í bili.
Saturday, July 21, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment