Mynd frá jurt - þ.e tjöldum sem hirðingjar búa í bæði í Kyrgistan og Úzbekistan
Góðan daginn á öllum heimilum
Það er vert að þakka kærlega öllum þeim sem hafa sent - og fleiri munu án efa senda- svör við hugmyndakönnuninn, sjá næsta pistil fyrir neðan. Ákaflega fjölbreytileg áhugamál sem ég hef fært samviskusamlega til bókar. Gaman hversu margir töldu ekki eftir sér að senda bréf um málin og að fjöldinn allur hugsar fram í tímann þegar ferðalög eru annars vegar. Geta þar með undirbúið sig enn betur.
Enn mættu fleiri láta frá sér heyra.
Annað mál: ef fólk veit til að netfangsheimilisföng kunningja hafi breyst, svo og hefðbundin heimilisföng væri gott að vita það þar sem fréttabréfið fer gömlu leiðina. Þó einstaka biðjist undan pósti, svona rétt eins og verður að teljast eðlilegt, þá detta alltaf einhverjir út - og ekki spyrja mig hvernig það gerist- eða fólk skiptir um netfang.
Og missir þar með af fréttunum okkar. Skaði að því. Ekki spurning.
Það er ástæða til að vera sæmilega sáttur við undirtektir við gjafa og minningarkortunum. En samt. Ekki nóg. Eiga engir afmæli á sumrin? Mér finnst meirihluti félagsmanna ekki hafa sinnt þessu. Málið er fjarska einfalt.
Þið sendið mér imeil og borgið þá upphæð sem þið svo kjósið inn á FATIMUREIKNINGINN og ég sendi kortið til þess sem skal vera viðtakandi
Ef þið viljið get ég einnig póstað kortin til ykkar ef þið viljið fylla út sjálf. Þetta á við um gjafa og minningarkortin.
Elsku bestu, viljiði hafa þetta hugfast. Þetta getur orðið drjúg tekjulind ef menn eru samtaka.
Fer út í Glitni á eftir og stofna reikning vegna maraþonhlaupsins, hann verður á nafninu FATIMUSJÓÐUR- VIMA og Glitnir greiðir svo inn á hann ákveðna upphæð fyrir hvern km eða þið getið heitið á einhvern. Menn þurfa að eiga reikning í Glitni. Sjá þetta allt hérna á linknum MARAÞON Á MENNINGARNÓTT. Þetta er eingöngu fyrir maraþonið. Ath. það.
Innan tíðar fara krakkarnir í Jemen að skrá sig í skólann. Þrír hafa þegar greitt fyrir sín börn og tveir nýir styrktarmenn hafa bæst við. Mjög trúlegt er að einhverjir krakkanna okkar detti út, m.a. vegna flutnings ef heimilisfaðir hefur fengið vinnu utan Sanaa. En þá treysti ég því vissulega að fólk taki önnur börn. Þörfin er ákaflega mikil.
Og við ætlum okkur að ná fleirum. Mig langar að við styrkjum 100 börn og því bið ég ykkur að senda slóð síðunnar áfram og hafa uppi alúðlegan en einarðan áróður fyrir málefninu.
Vil svo minna á að allmargir styrktarmenn og aðrir áhugamenn um ferðir til Jemen gætu komist í ferð númer tvö næsta vor sem mundi trúlega hefjast 27-29.maí.
Ef af henni á að verða þarf fólk að láta vita sem fyrst. Þetta hentar náttúrlega einstaklega vel fyrir kennara og annað skólafólk
Tuesday, July 31, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment