Wednesday, September 12, 2007

Líbíuferð lokið í bili

Góða nóttina og daginn

Klukkan er nú að ganga tvö aðfararnótt afmælis Veru aðstoðartæknistjóra og ég er komin á Drafnarstíg eftir góða, spennandi og harla heita og aðeins erfiða Líbíuferð enda fór ég um ansi hreint víðan völl á skömmum tíma. Gekk allt vel, jeppi bilaði út í miðri eyðunörk, myndavél hvarf á dularfullan hátt svo sannanir vantar um að ég hafi verið á svæðinu, en þar fyrir utan man ég ekki eftir neinu sem fór úrskeiðis. Nema síður væri.
Síðasti dagurinn í Tripoli var einkar ljúfur - mikið er ég hrifin af Tripoli - og ekki ég tali nú nú öllum myndunum af Gaddafi sem hélt hátíðlegt 38 ára stjórnunarafmæli sitt 1.sept og því er fagnað árlega og allar skreytingar látnar standa óhreyfðar því fyrsti dagur föstumánaðarins, ramadan var í dag og gott að hafa þá allt puntið og vel það.

S.l. nótt var ég á ágætis hóteli sem heitir Sinbað, afar vel í sveit sett , rétt við hafið og herbergin notaleg og elskulegt starfsfólk. Mér var sagt glaðlega í gær þegar ég kom úr kvöldverði á líbönskum stað sem heitir í höfuðið á Feirús söngkonu að ég mundi fá glæsilegar veitingar í morgunmat og áður en ég færi til flugvallar. Það var smámisbrestur á því og ég æsti mig oggusmá og þá var allt borið í mig og meira en þurfti.

Ferðin til London með Libian Arab Airlines var til sóma og miklu hugnanlegri en útleiðin. Hneigist til að halda að við ættum að nota þetta flugfélag í ferðum okkar þó svo allt vanti vínið en það er hvort eð er bannað vín í Líbíu og að mínu viti mjög til bóta. Enginn timbraður né óeðlilega ruglaður.
Er með fullt af kveðjum til væntanlegs Líbíuhóps frá þarlendum sem þykir eftirsóknarvert að fólk frá Íslandi muni sækja það heim á næsta ári

Nú sýnist mér sem Egyptalandsferð sé full, sömuleiðis Íran um páska og vona að allir hafi greitt samviskusamlega. Er ekki pottþétt að ég hafi fengið öll ljósrit af Ómanhópsvegabréfum? Sný mér að athugun á því á morgun þegar mesta sólarþreyta er hjá garði gengin.

Munið að fréttabréf kemur innan tíðar. Læt svo vita um dagsetningar á veru Núríu hér.
Sofiði undurblítt

2 comments:

Anonymous said...

Velkomin heim! :)

kv. ER

Anonymous said...

Takk ljósið
Kv JK