Saturday, September 1, 2007

Yngsti stuðningsmaðurinn okkar er sjö ára stúlka

Góðan daginn í haustinu

Áðan fékk Uesra Mohamed AlRemee, 9 ára stuðningsmann fyrir skólaárið 2007-2008. Uesra hefur verið með frá byrjun og er að fara í 4.bekk. Hún er duglegur nemandi og hefur staðið sig mjög vel þó svo heimilisaðstæður hennar séu erfiðar eins og allra krakkanna okkar.
Þetta eru tíðindi meira en í meðallagi vegna þess að stúlkan sem ákvað að styðja Uesru er sjö ára gömul(verður 8 í haust). Hún heitir Birta Björnsdóttir.
Móðir hennar og bróðir( 15 ára) styrkja konu á fullorðinsfræðslunámskeiðinu og hún hefur heyrt talað um þetta á heimilinu.
Henni þykir merkilegt að það skuli ekki vera sjálfgefið að öll börn komist í skóla og vill vita meira um þetta. Og hún hefur ákveðið að leggja sitt lóð á vogarskálar til að hjálpa.
Þetta finnst mér til eftirbreytni og það er ekki fjarri að hugsa sér að fleiri börn fari að fordæmi Birtu ef þau fá hvatningu og aðstoð frá foreldrum sínum.

Einnig leyfi ég mér að vona að kennarar í okkar röðum vilji fá meira um Jemenverkefnið að vita og þá mætti hugsa sér heimsóknir í skóla með kynningu. Við eigum að virkja þessa krakka, ekki endilega með því að ætlast til að leggja fram peninga en þau mættu vita og vilja það áreiðanlega um hvernig aðstæður óteljandi krakkar búa við í þessu fátæka landi sem Jemen er.
Ég hef talað við skólastjórann í Lindarskóla en þar heitir félagsmiðstöðin Jemen og hann er mjög áhugasamur um að Nouria komi þangað í heimsókn þá daga sem hún staldrar við hér. Myndband Högna kæmi að góðum notum og fleiri myndir sem við eigum til slíkra kynninga. Hafið þetta bak við bæði eyrun.

Ég leyfi mér að biðja ykkur að senda þetta áfram. Við VERÐUM að kynna þetta mál almennilega í alla staði. Í bili verður það best gert með því að síðan komi fyrir flestra augu.

1 comment:

JK said...

Fyrir utan Uesru hafa bæst við þessir:
B54 Hussein Magraba- Anita Jónsdóttir og Örnólfur Hrafnsson

G81 Jehan Mohammed Abdullah- Dagbjört Erla Magnúsdóttir

G60 Aysha Abdallah Kareem- Birna Sveinsdóttir

Þá hafa 93 börn fengið bakhjarla