Monday, September 24, 2007

Minni á að mánaðamót nálgast=greiðslur - hálsfesti Helenu og annað huggulegt



Nú nálgast mánaðamót óðfluga og það merkir að ferðalangar taka til óspilltra málanna að greiða inn á ferðir.
Egyptalandsfarar, Íranfarar og Jemen/Jórdaníufólk. Þarf einnig að vita hverjir stefna að fyrri Jemenferð og hverjir seinni. Nokkrir hafa látið vita og ýmsir greitt en þarf að heyra frá þeim sem eru óákveðnir um hvora ferð þeir hyggjast fara í.

Ómanfólk fær sérstakt bréf á eftir um miðaafhendingarfund. Þeir eiga nú eftir að borga síðustu greiðslu og gistinguna í London. Nema einn sem hefur gert upp.
Við verðum með smáfund á laugardaginn, Ómanfólkið og meira um það á eftir og til þeirra.

Þá hefur Þjóðleikhúsið beðið mig að vekja athygli á sýningunni Hálsfesti Helenu, en þær sýningar hefjast nú á ný næstu daga. Þar segir frá vestrænni konu, sem kemur til Líbanons eftir borgarastyrjöldina að leita að hálsfesti sem hún telur sig hafa týnt - eða týndi hún henni ekki. Þetta er góð sýning að mínu viti og leikur Eddu Arnljótsdóttur, Guðrúnar S. Gísladóttur og Arnars Jónssonar er eftirminnilegur.

Leyfi mér sömuleiðis að vekja athygli á arabískunámskeiðunum sem ég verð með hjá Mími símennt og byrja nokkru eftir heimkomu frá Óman í nóvember. Mér skilst að áhugi sé töluverður en má trúlega bæta við í arabísku tvö.

Loks þetta: að vandlega íhuguðu máli sé ég ekki að það verði vinnandi vegur að finna tíma til að Nouria fari til Akureyrar að þessu sinni. Vonast til að koma henni í viðtöl og kynningar og ekki getum við gengið alveg frá henni. Hún verður að fá andrúm inn á milli. Því miður. Þar sem ég hef heyrt frá fleiri Akureyringum um málið og virðist ekki skorta áhugann.
Ég athugaði líka hvort hún gæti lengt veruna um tvo daga en það er erfiðleikum bundið því ramadan er að ljúka um þær mundir og hún þarf að drífa sig heim til þess að taka á móti krökkunum eftir frí. Svo það verður ekki af því.
En ég hvet menn þá þess heldur til að skrá sig í ferðirnar til Jemen. Samt finnst mér virkilega leiðinlegt að þessu verður ekki við komið.

Munið svo að greiða skilvíslega félagsgjöldin og munið gjafakortin og fundinn 7.okt.Það væri kannski ráð að skrifa þetta allt saman niður.
Verið svo væn að senda síðuna áfram

No comments: