Wednesday, October 3, 2007

FUNDURINN Á SUNNUDAG KL.14.- Og þar fyrir utan hvar er minnisbókin?



Sæl öll
Við erum langt komnar, Vimastjórnarkonur, að púsla saman dagskrá þeirra systra Maryam og Nouriu en þær koma á föstudag.
Farið verður að Gullfossi og Geysi á laugardag í boði Jóns Helga og Jónu og kvöldverður hjá þeim í Hveragerði.
Nouria fer bæði í Hlíðaskóla fyrir tilstuðlan Sjafnar Óskarsdóttur og í skóla Hjallastefnu í boði Margrétar Pálu Ólafsdóttur.

Svo verður seinna í vikunni skoðunarferð um Reykjavík, söfn og perlur ofl og Gulla pé hefur tekið það á sína arma. Kvöldverðarmál (muna ekkert stórbrotið- þær kæra sig ekkert um það) eru að mestu til lykta leidd. Þakka margs konar aðstoð við þetta,
Einnig verður einhver kynning í fjölmiðlum eftir því sem við verður komið.

Fundurinn er á sunnudag- muna það, einhver smáruglingur í gangi. Á sunnudag 7.okt. kl. 14 í Kornhlöðunni.
Koma stundvíslega.Þar ætlar Nouria að tala og Ragnheiður Gyða snýr máli hennar á íslensku jafnóðum svo allir geti fylgst vel og dyggilega með. Svo er auðvitað um að gera að spyrja Nouriu spjörunum úr.
Vera Illugadóttir aðstoðar við tæknihliðina en hvorttveggja er að Högni Eyjólfsson gerði disk um Fatimumálið og Nouria er með eitthvert myndefni. Hún er einnig með muni sem krakkarnir hafa gert, veit ekki hvort það er aðeins til sýnis eða sölu líka.
Viljiði muna myndir af nýjum styrktarmönnum. Hef fengið nokkrar og vonast eftir mörgum í viðbót.

Einnig veit ég að nokkrir fleiri vilja taka að sér að styrkja krakka og geta hvort heldur er haft samband við mig núna eða talað við okkur á fundinum.

Ennfremur verða seldir gjafakortapakkar með 5 stk í hverjum á 10 þúsund kr. Það verður mögulegt að kaupa stök sömuleiðis á 2 þús. kr. stk.

Áætlanir um ferðir 2008 liggja frammi og hugmyndir að ferðum 2009. Beðið um að menn tilkynni sig í ferðir þar sem pláss er.

Þar sem nýlega voru gefin út kort með myndum krakkanna okkar og við höfum fengið send slatta af þeim höfum við pakkað þeim í 4 stk. pakka og 8 stk. og eru þau seld á þúsund og tvö þúsund krónur. Allt rennur það einnig í Fatimusjóð. Þetta eru litsterk og kát kort sem mér finnst tilvalin jólakort. Alltaf að hugsa fram í tímann, jólin renna upp áður en við er litið.
Það skal tekið fram að við verðum með posa svo fólk getur borgað m,eð VISA eða Master.
Þá sakar ekki að minna á félagsgjöldin.

Myndin frá BAB AL JEMEN er sett hér inn til að minna fólk á að Jemen/Jórdaníufarar í fyrri ferð hafa einhverjir gleymt að kíkja í minnisbókina sína. Það er gjalddagi á 2. greiðslu og staðfestingargreiðslu skal einnig lokið. Vindið ykkur í það.

Af fullri einurð. Það er nokkuð snúið að fá gott miðaverð til Jemen og Royal Jordanian óskar eftir nafnalista fyrr en síðar. Að vísu er þeir sveigjanlegir og segja að megi breyta en ansi margir hafa ekki birst á heimabankanum mínum.
Munið að ferðareikningur er 1151 15 551346 og kt 441001-2220. Þessu þarf að kippa í lag.
Egyptalandsfarar hafa verið nokkuð snöggir en nokkrir einnig gleymt sér. Sama er með Íransfólk. Þetta verður að vera í lagi. Það skilja menn vonandi.Þá er þetta gott að sinni. Takk fyrir.
Sjáumst svo á sunnudag og munið að gestir og ófélagsbundnir eru velkomnir.

No comments: