Tuesday, October 16, 2007

Vonast til að setja Líbíu inn á morgun-Ómanfarar tygja sig senn til ferðar -




Hef verið að hinkra eftir endanlegri dagskrá Líbíuferðar á næsta ári og nú segir stjórinn mér að það sé verið að leggja síðustu hönd á hana og vonandi get ég sett hana inn fyrir helgina.
Líbíuferðin er troðin en kannski ekki alveg að marka; man ekki betur en það hafi gerst fyrr og svo detta menn út hver um annan þveran þegar nær dregur og af ýmsum ástæðum. Flestir láta vita, sumir gleyma því.
Skýrast dæmi um það er Kákasuslandaferðin síðusta sem var svo setin að ég hélt að nauðsynlegt yrði að setja inn aðra ferð en endaði í flottum 24ra manna hóp. Enda er það mjög heppileg stærð að ekki sé nú talað um þegar farið er í fyrsta sinn.
Ber að nefna í leiðinni að Kákasuslandaferð er aftur á dagskrá 2009 og mættu menn viðra áhuga sinn, skuldbindingarlaust.

Svo fer Ómanhópurinn senn að ferðbúast. Höldum utan n.k. mánudagsmorgun og frá öllu gengið þar eftir því sem ég best veit. Bið þá að lesa vel leiðbeiningar.
Hvet þá eins og aðra hópa til að skilja slóð síðunnar eftir hjá ættingjum og vinum því ég sendi pistla heim þegar því er við komið. Menn geta því fylgst með okkur og skrifað kveðjur inn á ábendingadálkinn. Það er vinsælt og vel þegið.
Á hinn bóginn sendi ég EKKI tilkynningar um þessa pistla svo menn verða að athuga síðuna að eigin frumkvæði.

Flestir í seinni Jemen/Jórdaníuferð hafa greitt staðfestingargjöld sín. Takk fyrir það. Aftur á móti vantar enn upp á greiðslur frá hópnum í fyrri ferð. Skil það ekki alls kostar. Ef menn eru í vafa - þó allir hafi fengið greiðsluáætlun á sínum tíma- geta þeir haft samband og spurst fyrir ef þeir hafa týnt planinu.

Seinna í dag ætlum við VIMAstjórnarkonur að hittast, fara yfir heimsókn Nouriu á dögunum, undirbúa næsta félagsfund í lok janúar og næsta fréttabréf og renna yfir hópinn sem hefur verið settur á laggirnar til að vinna að húsamálum YERO o.fl.

Minni ykkur enn og aftur á kortin, bæði krakkakortin og gjafa og minningarkort. Þau skila drjúgu í sjóðinn og til dæmis tók fjölskylda ein sig saman um daginn, fékk gjafakort til að gefa vini sínum og lagði inn á Fatimusjóð sem svarar 400 dollara. Þó upphæðir séu oftast lægri safnast þegar saman kemur. Hafa það hugfast, elskuríkast.

No comments: