Sunday, October 7, 2007

Fjölmenni á fundi með Nouriu í dag, sunnudag




Myndir Vera S. Illugadóttir

Fundurinn með Nouriu í Kornhlöðunni í dag var í einu orði sagt frábær. Ég held það hafi verið samdóma álit gesta. Á níunda tug manna mætti og ég held að það sé met þótt allir fundir okkar séu vel sóttir. Gaman að sjá þarna mörg ný andlit.

Nouria og Maryam systir hennar komu með ýmsa muni sem krakkarnir hafa gert eða konurnar í fullorðinsfræðslunni og við dreifðum þessu á borðin. Þetta var ekki til sölu. Aftur á móti seldum við kort eftir krakkana við góðar undirtektir og vilji einhverjir panta sér meira bara hafa samband. Einnig var dreift ferðaáætlunum og bæklingi um YERO en athugið þó að hann er ekki alveg nýr, starfið hefur þanist út síðan.

Ég setti fundinn og skipaði Mörð Árnason fundarstjóra. Á meðan menn voru að koma sér fyrir og kaupa sér kaffi og tertur stjórnaði Vera Illugadóttir tæknimálunum og við sýndum diskinn sem Högni Eyjólfsson gerði.

Mörður sagði í fáum og velvöldum orðum frá sinni upplifun af Jemen en þau Linda voru í hópnum sem fór vorið 2006. Rakti þau áhrif sem hann og þau hefðu orðið fyrir og sagði lítillega frá YERO og gaf Nouriu orðið.

Nouria lýsti svo starfsseminni, aðdraganda að stofnun miðstöðvarinnar og fjallaði um krakkana og hvað þetta starf skipti miklu máli.Hún rifjaði upp að það hefði verið telpan Fatten Bo Belah sem kveikti hugmyndina. Fatten er styrkt af Guðrún Höllu. Nouria þakkaði öllum sem hafa lagt hönd á plóg hér virktavel fyrir hjálpina og fór yfir helstu púnkta í því sem hvað markverðast er í starfinu.
Ragnheiður Gyða þýddi orð Nouriu á íslensku af stakri fagmennsku.

Svo var sýnd mynd sem hún kom með og þar mátti sjá fjölbreytta iðju krakkanna við leik, nám og fleira. Hún fékk góðar undirtektir og margir voru greinilega snortnir

Að því búnu var gert hlé til að menn gætu keypt kort og borgað félagsgjöld og að því loknu svaraði Nouria spurningum margra fundargesta og nokkrum var einnig beint til mín.
Það er of langt mál að fara út í smáatriði en ég held að flestir eða allir hafi gert sér grein fyrir því að þarna er unnið mikið og þarft verk og við látum ekki deigan síga. Hvarflar ekki að neinum leyfi ég mér að segja.

Mörður sleit fundi rétt fyrir fjögur og ég vona að allir hafi farið dúsir til síns heima.

Í gær var ferð að Gullfossi, Geysi og á Þingvelli og þær systur voru himinlifandi yfir fegurðinni og skeyttu engu þótt nokkur svali væri í veðri, það var regnbogi yfir Gullfossi og Nouria sagðist ekki hafa orðið fyrir jafn sterkum áhrifum og því að koma að fossinum svo lengi sem hún myndi.

Kvöldverður í boði Jóns Helga og Jónu í Hveragerði og þar var ekta íslenskur matur á boðstólum sem menn gerðu sér gott af.

Í kvöld bauð Herdís þeim systrum og nokkrum konum í lax og var það gómsætt í meira lagi. Áður þágu þær te/kaffi hjá Eddu Ragnarsd.

Á morgun erum við Nouria á fundi fyrir hádegið og meira um það síðar. Eftir hádegi verða svo viðtöl í sjónvarpi og útvarpi og trúlega við Mogga.

Á þriðjudag er heimsókn í skóla Hjallastefnunnar og um kvöldið býður Elísabet Ronaldsdóttir heim.

Á miðvikudag fara Gulla Pé og Guðrún Halla með þær um bæinn, á söfn og sitthvað fleira og um kvöldið ætlar María Kristleifsd að bjóða þeim heim.

Á fimmtudag er heimsókn í Hlíðaskóla fyrir forgöngu Sjafnar Óskarsdóttur og etv. fleiri fundir og kvöldmatur hjá Helgu Kristjánsdóttur.

Þær eru mjög sælar og það er ég líka og vona að vel takist til næstu daga og þá fyrstu.

Þegar við vorum að undirbúa dagskrána skrifaði ég bæði utanríkisráðherra og menntamálaráðherra og spurði hvort þær hefðu tök á að hitta Nouriu. Hvorug þeirra hefur svarað. Það gerir út af fyrir sig ekki stórt, Nouria kom hingað fyrst og fremst til að hitta VIMAfélaga og stuðningsmenn, fara í skóla og þess háttar.
En hins vegar er ég viss um að þessar ágætu ráðherrakonur hitta oft fólk sem minni ástæða er til að ræða við. Það er þá bara þeirra skaði.

Nouria segir að fyrir utan hefðbundna aðstoð gefi krakkarnir nú út blað og skrifi um ýms málefni og svo er þetta ljósritað og þau eru mjög stolt af verkinu. Í sumar voru kosningar, valin leiðtogi strákanna og stelpnanna. Var háð harðvítug kosningabarátta, "kosningaspjöld" upp um alla veggi þar sem frambjóðendur gáfu hin ýmsu loforð rétt eins og færustu stjórnmálamenn.
Strákurinn sem vann er ekki styrktur af okkar hópi en hann er sérlega duglegur í íþróttum, stúlkan sem var kosin heitir Amal Al Kadasi og stuðningsmaður hennar er Vaka Haraldsdóttir. Amal er hinn mesti skörungur og stendur sig með prýði sem leiðtogi að sögn Nouriu.

Þakka fyrir hvað margir hafa komið til mín myndum. Hef ekki haft tíma til að fara yfir það hversu margar hafa borist eða ekki borist. En þær systur verða hér til föstudagskvölds svo það er fínn tími til stefnu enn.

Munið svo að styrktarmenn munu fá plögg um sín börn upp úr miðjum nóvember eða þar um bil.
Þakka fyrir góðan dag.

2 comments:

Anonymous said...

Lukkan alltumkring, Elisabet

Anonymous said...

Takk fyrir frábæran fund, að hlusa á konur eins og ykkur Nouriu er besta andlega hreinsun sem ég hef fengið lengi
Takk aftur
Kolbrún