Góðir fundarmenn.
Eins og hefur verið greint frá er þessi fundur til að lýsa yfir stuðningi og samstöðu með óbreyttum borgurum í Sýrlandi, saklausu fólki sem enga ábyrgð ber á þeim hörmungum sem hafa dunið yfir þetta land síðustu mánuði.
Til hans er ekki stofnað til að krefjast íhlutunar erlendra ríkja allra síst NATO og Bandaríkjamanna. En börn, konur og karlar eru myrt í Sýrlandi á hverjum degi, fólk flýr eins og fætur toguðu og enginn endir virðist á þessum ósköpum. Án þess að það sé vitað nákvæmlega má ætla að um 20 þúsund manns hafi verið drepnir og langtum fleiri slasaðir. Hundruð manns deyja á hverjum degi.
Við viljum láta í okkur heyra þó við séum fá og smá og sýna að við berum umhyggju fyrir fólkinu þar. Við gerum það kannski ekki síður vegna okkar af því við finnum til samkenndar og djúprar hryggðar ekki vegna þess við gerum því skóna að allt falli í ljúfa löð þó við komum hér saman. Við í stjórn Fatimusjóðs höfum hafið smásöfnun til að styrkja börn í Sýrlandi, bæði þau sem eru á vergangi í sínu eigin landi eða hafa flúið yfir til nágrannalanda og búa þar við erfiðan og sáran kost. Við ætlumst ekki til að fólk leggi fram stórar upphæðir en allt hjálpar.Við leitum nú að pottþéttum samtökum til þess að starfa með svo að þessir fjármunir komi að gagni og satt best að segja leyfi ég mér að treysta því að ýmsir hér vilji vera með í þessu. Þúsund kall eða hvað sem þið megið missa, allt kemur að gagni.
Þegar Basjar Assad tók við völdum af föður sínum – eftir vægast sagt vafasamar kosningar – í júlí árið 2000 óraði fáa fyrir því sem hefur verið að gerast þar. Í ræðu Assads þennan dag hét hann löndum sínum breytingum sem miðuðu að því að draga stórlega úr ritskoðun sem hafði verið við lýði í 3 áratugi. Hann hét lýðræði þótt það lýðræði væri kannski dálítið öðruvísi í laginu en það sem við á Vesturlöndum köllum lýðræði. Og hann hafði varla sleppt orðinu þegar útgáfa nýrra dagblaða hófst, málstofur tóku til starfa um allt land þar sem menn létu óspart í sér heyra og gefið var fullkomið frelsi á notkun farsíma og internets en allt slíkt hafði verið bannað. Það var fagnað þá daga í Sýrlandi.
Við hlið sér hafði hann sýrlenska eiginkonu sína, sem er uppalin í Bretlandi en af sýrlensku foreldri og var ekki betur séð en hún styddi mann sinn í þessum breytingum. Hún beitti sér af kappi fyrir því að efla réttindi kvenna og örva þær til dáða. Allt leit þetta svo ljómandi vel út.
Svo leið ekki á löngu uns valdaklíkunni sem hafði verið í kringum gamla Assad, blöskraði hvað var að gerast og sá að héldi svo fram sem horfði mundu hún missa ekki bara einn, heldur marga spóna úr sínum öskum. Svo Basjar Assad dró úr umbótum en fullvissaði þó landa sína að áfram yrði haldið en hægt nokkuð á.
Ég bjó þá í Damaskus, og mér og sýrlenskum mínum fannst þetta skynsamlegt því í ríki þar sem slíkt einræði hafði verið við lýði og handtökur daglegt brauð, eru kollsteypur beinlínis hættulegar.
En við vorum sannfærð um að áfram yrði haldið á þeirri braut sem Basjar Assad hafði sýnt einlægan vilja – það héldum við og því trúðum við – til að umbreyta þjóðfélaginu hægt og gætilega.
Assad naut stuðnings og aflaði sér virðingar, ekki síst meðal ungs fólks vegna þess að þeirri stefnu föður síns hélt hann til streitu að láta ekki undan kröfum og yfirráðastefnu Ísraela og Bandaríkjamanna. Það er ekki vænlegt til vinsælda í þessum heimshluta að vera strengjabrúða Bandaríkjamanna og því verður ekki neitað að of margir forystumenn í löndunum þarna voru það svo ekki verður um deilt.
Svo brutust út óeirðir í Túnis og síðan kom Egyptaland og við vitum hvernig þeim hefur farnast. Það brutust út óeirðir í Jemen og síðan kom Líbía.
Síðan var röðin komin að Jórdaníu og Marokkó. Sem hafa þó á að skipa forystumönnum sem voru raunsæir og klókir og ákváðu strax að taka upp samræður við þá sem voru að mótmæla. Þar með komst friður á í Jórdaníu og Marokkó enda eru þau svo sett að eiga enga olíu. Frekar en raunar Sýrland sem hefur að vísu olíulindir í austurhluta landsins þótt því fari mjög fjarri að Sýrland teljist olíuland.
Líbíu töldu menn rétt að ráðast á og það í reynd löngu áður en menn sem í það smelltu sér vissu hverjir voru í raun að berjast gegn umdeildri stjórn Gaddafis. En í Líbíu er olía.Mikið af olíu. Það gerir gæfumuninn. Það brutust út óeirðir í Bahrein – þar sem háð hefur verið gleymda stríðið – enda er þar aðalflotastöð Bandaríkjamanna á þessu svæði og því hæg heimatökin.
Menn á Vesturlöndum fóru að tala um arabíska vorið. Sem var að mínum dómi einfeldningslegt því fæstir virtust átta sig á hvað tæki við í þessum löndum þótt harðstjórar yrðu hraktir frá völdum. Það leysir ekki alltaf málin og sorgleg dæmi um það eru t.d. Egyptaland þar sem herinn neitar að afhenda völdin löglega kjörnum forseta, Líbía sem gæti liðast í sundur þótt Gaddafi sé dauður og svo mætti áfram telja. Sýrland verður ekki samstundis sælureitur þótt Basjar Assad hrekist frá völdum og enginn í sjónmáli sem menn treysta til að taka við af honum.
Og sumarið kom ekki og er ekki komið enn. Á fyrstu mánuðum þessara atburða var allt kyrrt í Sýrlandi og sýrlenskir kunningjar mínir voru ósparir að segja að ef eitthvað þess háttar léti á sér kræla mundi hinn elskaði forseti – því það var hann virkilega- bregðast við skynsamlega og taka upp samninga við þá sem óánægju létu í ljós.
En auðvitað slapp Sýrland ekki. Það var efnt til mótmæla. Þá kom talskona forsetans umsvifalaust fram og sagði að þetta væru fáeinir óeirðaseggir sem aldrei gætu verið til friðs en forsetinn mundi engu að síður sýna þeim fullan sóma og ræða við þá og leysa málin. Hún sagði að hann mundi eiga fund með þeim á næstu dögum og allt færi vel.
Um hríð – en hún var skömm- drógum við andann léttar. Í hverfinu mínu Sjaalan í Damaskus héldu menn og konur áfram að fara i grænmetisbúðina, kaupa sér kjöt í matinn og ákveðið var að opna fyrir ýmsar síður á netköffum sem voru lokaðar áður – þótt Sýrlendingar hafi fyrir löngu ferið búnir að finna út úr því hvernig þeir ættu að komast inn á þær. Börn trítluðu í skóla og fólk gekk til sinnar iðju. Þetta mundi enda vel í Sýrlandi því Basjar Assad væri skynsamur hófsemdarmaður. Því trúðum við og vorum hin vonbestu.
Og menn skulu hafa það hugfast að fyrstu mótmælin í Sýrlandi voru mjög frábrugðin þeim í Túnis og Egyptalandi þar sem andúðin var fyrst og fremst gegn sitjandi ráðamönnum Bel Ali og Hosni Múbarak. Fyrstu mótmælin í Sýrlandi voru meira í ætt við tiltölulega kurteisar kröfugöngur- menn vildu aðgerðir gegn atvinnuleysi og að létt yrði meira á ritskoðun. Þegar myndir eru skoðaðar frá þessum fyrstu dögum sjást menn veifa kröfuspjöldum með mynd af Assad þar sem stóð : Assad forseti- þú stendur með okkur.
Með þetta í huga hefur vafist fyrir mér og fleirum að skilja viðbrögð Basjars því hann stóð ekki við þau orð að eiga viðræður við hina svokölluðu óeirðaseggi heldur var þvílík grimmd sýnd að innan nokkurra mánaða logaði Sýrland stafna á milli. Hið svonefnda alþjóðasamfélag hefur skipað Assad að koma að samningaborði, að semja við óeirðaseggina sem fljótlega urðu í hans máli að hættulegum erlendum undiróðursmönnum og hryðjuverkamönnum. Hann hefur heitið vopnahlé en aldrei staðið við orð sín og grimmdin hefur aukist og skipulega hefur verið unnið að því að murrka lífið úr sem flestum og lítt skeytt um hvort þar væru á ferð ung börn eða vopnaðir uppreisnarmenn.
Þess vegna geisar borgarastyrjöld í þessu fallega landi. Þessu landi þar sem býr venjulegt fólk með þessar venjulegu hugsjónir alls venjulegs fólks sem vilja búa við frið og réttlæti.
Ég hef ekki minnstu trú á því að valdbeiting af hálfu vesturlanda muni gera annað en illt verra og er það þó orðið ansans ári illt. Ég hef ekki trú á því að Basjar Assad sé strengjabrúða valdaklíkunnar.
Ég held að hann sé truflaður og valdasjúkur maður sem svífst einskis. Mér finnst trúlegt að hann viti að hann lét ástand fara úr böndum – ástand sem hann hefði getað ráðið við ef hann hefði sýnt þá yfirvegun sem við trúðum að hann byggi yfir. Héðan af mun fátt gott gerast í þessu landi. Nema takist að semja um vopnahlé og fá Assad -frá völdum. Hann stendur í blóði upp að öxlum og aftur verður ekki snúið.
Og hvað eigum við þá til bragðs að taka? Við getum vitaskuld reiknað með leyndum afskiptum erlendra af málefnum Sýrlands en við erum ekki hér til að finna sökudólg. Við erum hér til að segja við hrjáða sýrlenska þjóð. Við finnum til með ykkur og við styðjum ykkur. Við viljum að þið vitið það þótt við vitum ekki svo gjörla hvernig við eigum að fara að því.
Aðgerðunum í Sýrlandi má líkja við hamfarir. Hugsjónir eru löngu foknar út í veður og vind hvort sem í hlut eiga uppreisnarmenn eða hermenn, ráðamenn eða útlendingar sem ugglaust hafa komið meira við sögu en við vitum. Hamfarir af mannavöldum má stöðva. Við verðum að finna leiðina til þess að stöðva morðæðið á saklausu fólki í Sýrlandi.