Saturday, January 30, 2010

Framúrskarandi fundur með Jóni Ólafssyni- þrátt fyrir Frakkaleikinn

Ekki verður á VIMA félaga logið, góð mæting á fundinn okkar "óttinn við austrið" með Jóni Ólafssyni núna áðan. Um fimmtíu manns komu til samkundunnar.
JK setti fundinn og Edda Ragnarsd var ritari og Mörður Árnason fundarstjóri.

Hann gaf síðan Jóni Ólafssyni orðið og fjallaði hann um þetta efni frá margbreytilegu sjónarhorni, sýndi myndir og var afskaplega góður rómur gerður að hans máli. Vona að ég geti fengið erindi Jóns og sett það í heild inn á síðuna þar sem hann vakti máls á margs konar þáttum sem ég er ekki viss um að allir velti fyrir sér eða tengi þessum flóknu efnum og ástæðum sem eru af öllum toga. Sögulegr og menningarlegir þættir sem ég ætla ekki að gera skil hér heldur vona að Jón leyfi okkur ljúfmannlegast að fá erindið.

Síðan urðu umræður og spurningar og stemning með allra besta móti. Að þessu loknu og meðan á því stóð gátu menn gætt sér á súkkulaðiköku eða rjómapönnukökum, borgað félagsgjöld og skrafað og teygðist úr fundinum meira en oft áður. Allir ánægðir held ég megi segja og við fórum heim þekkingu ríkari eftir góða stund.

Nokkrir komu að máli við mig vegna áhuga á Íranferð og þó nokkrir sem ekki komast/fá pláss í Líbanon/Sýrlandsferðinni í mars/apríl hafa talað við Bændaferðir. Sú ferð er í öllum meginatriðum eins og þessi ferð í mars.

Takk fyrir ánægjulega stund.

Monday, January 25, 2010

Óttinn við austrið- spennandi fundarefni á laugardag


Jón Ólafsson

Sæl öll
Vona að allir hafi fengið fréttabréf og gjöra svo vel og láta vita ef það hefur EKKI borist. Nokkur heimilisföng reyndust röng og verður fólk ekki nógsamlega beðið um að láta vita um breytingar þótt oft sé hægt að fletta upp í þjóðskrá.

Ég vil hvetja menn til að fjölmenna á fundinn okkar í Kornhlöðunni á laugardag 30.jan kl 14. Þar talar Jón Ólafsson, heimspekingur um forvitnilegt efni og nefnir það Óttinn við austrið.
Hann veltir fyrir sér af hverju fólk hefur almennt verið tregara til ferðalaga á slóðir araba og að ekki sé nú talað um Írani. Auðvitað á þetta ekki við um VIMA félaga sem margir hafa farið 3-6 eða fleiri ferðir á þessar slóðir. En flestir kannast án efa við þau viðbrögð "hvernig þorirðu að ...osfrv"
Það verður án efa fýsilegt að hlusta á Jón Ólafsson, heimspeking og prófessor velta þessu fyrir sér á fundinum og ég er viss um að hann svarar einnig spurningum.
Athugið að nýir félagar og gestir eru velkomnir.

Thursday, January 14, 2010

Miðar- myndafundur-fréttabréf- sjálfboðaliðsgöngumenn óskast


Á sögustund í Damaskus

Frá Beirút

Vil láta ykkur vita að ég pósta á morgun miða Líb/Sýrlandsfara til ykkar, þe. miðana frá London-Beirut og Dam-London.
Kristín Thorlacius og Kristín Bjarnadóttir fá einnig sína miða til London og Catherine sinn miða. Þetta ætti að koma til ykkar á mánudag og vinsamlega láta vita ef þetta skilar sér ekki um þær mundir.

FRÉTTABRÉFIÐ
Allt er á fullu að undirbúa næsta fréttabréf, þar er fjölbreytt efni, Höskuldur Jónsson skrifar Íransgrein Eymar P. Jónsson um mánaðarferð í pílagrímaflutingum til Mekka, Birna K. segir frá því þegar hún hitti stelpuna sína í Jemen sl. vor. Uppskrift eftir Elham írönsku, Vera skrifar um Berba of margt fleira girnilegt er í blaðinu.

ÓSKAÐ EFIIR BRÉFBERUM
Þá er ég hér með eitt blíðlegt erindi: Póstburðargjöld hafa löngum verið nokkuð stór útgjaldaliður VIMA og nú hafa þau hækkað stórlega.
Eru ekki einhverjir góðir göngumenn í hinum ýmsu hverfum sem gætu hugsað sér að taka svona 20-30 fréttabréf þegar það er tilbúið og koma þeim til skila.
Það væri afskaplega vel þegið Væri þakklát ef menn gæfu sig fram á jemen@simnet.is

MYNDAKVÖLDIÐ Egyptófara
Vil minna Egyptalandsfara á myndakvöldið n.k. mánudag kl 18. Allir eiga að vita um það og vona að mæting verði góð og við eigum notalega stund að rifja upp ferðina okkar í nóvember.

AF hverju eru margir smeykir? Spennandi fundarefni

Þá verður almennur fundur 30.jan í Kornhlöðunni(sjá fréttabréf). Þar höfum við fengum góðan ræðumann, Jón Ólafsson, heimspekingur og prófessor á Bifröst veltir fyrir sér hvernig stendur á að margir eru smeykir að fara til Miðausturlanda þótt þeir þeysi um öll heimsins höf og lönd. Allir velkomnir, Nýir félagar eða ófélagsfundnir. Nánar um það síðar.

Hef verið rytjuleg og legið í pest þessa viku, annars hefði ég komið miðum til ykkar. En nógur tími og þetta berst sem sagt upp úr helginni.

Sunday, January 10, 2010

Kætin blívur


Muhallabia búðingur,sýrlenskt góðmeti

Sæl öll
Við hittumst núna áðan, Líbanons og Sýrlandsfarar sem höldum utan 21.mars. Mæting var til fyrirmyndar og nú get ég loks sent út rétta herbergjalista en eftir þeim er beðið.
Við renndum yfir áætlunina, spjölluðum og drukkum kaffi og borðuðum sýrlensk sætindi.
Líst ljómandi á þennan hóp, margir nýir en góð blanda. Konur í meirihluta en skeleggir karlar þarna með. Allir hlakka mikið til heyrðist mér.

Ítreka að ég pósta miðann London-Beirut-London fljótlega.

Þá gleymdi ég að minnast á sundflíkur. Grípið þær með. Það eru sundlaugar á einhverjum hótelanna.

Þetta er harla fjölmennur hópur, 34 samtals og þar af( fyrir utan mig) tveir að fara í sína aðra Sýrlandsferð.
Hvet menn til að borga á réttum tíma. Seinni greiðsludagur er 1.febr. og þá skal greitt líka fyrir eins manns herbergin.

Bið Hildi Bjarnadóttur að senda mér imeil Kristínar og minna hana á að koma til mín ljósriti. Minntist á það við hana en það var erill og ég veit ekki hvort hún tók eftir því.
Innan tíðar mun ég setja lista yfir þátttakendur á hlekkinn sinn.

Það hafa orðið tafir á sendingum til YERO, einkum vegna þessara dæmalaust pirrandi gjaldeyrishafta en það mun nú loks komið í gegn. Þar með hefur verið sent fyrir 90 börn plús Hanak háskólastúlku.
Um miðjan febrúar verður svo sent fyrir þau síðustu.

Ítreka enn og aftur að fleiri ferðir eru ekki í bígerð nema því aðeins að hópur taki sig saman og biðji um einhverja sérstaka ferð. Mér þykir trúlegt að fólk hafi áhuga á Jemen og Íran og kostaboð kom frá Kákasuskarlinum mínum varðandi Georgíu.
En þetta er sem sagt að ykkar frumkvæði. Ath það allir

Tuesday, January 5, 2010

Hvað er málið í Jemen?



Góða kvöldið öll

Ég hef fengið margar fyrirspurnir frá VIMA félögum, bæði þeim sem styrkja börnin og öðrum um málefni Jemens vegna þess ástands sem þar er sagt ríkja.

Ástandið núna hefur skánað til muna þó ókyrrð sé enn nyrst í landinu þar sem Saudar hafa gert loftárásir og saklausir borgarar hafa látið lífið. Þó segja jemensk blöð og jemenskir vinir sem ég hef haft samband við að fréttir séu stórlega ýktar eins og venjulega þegar Jemen og einatt þessi heimshluti er annars vegar.

Jemenskur þingmaður lét hafa það eftir sér þegar Hilary Clinton og fleiri ráðamenn í Bandaríkjunum hafði komið fram í sjónvarpi og var æði herská og hótaði Jemenum öllu illu að yrði reyndin sú að bandarískar hersveitir eða bandarískur stuðningur yrði veittur við árásir á landið mundi það leiða til aðeins eins: allir Jemenar snerust á sveif með Al Kaida sem meirihluti fólks hefur haft skömm á.

Stjórnin í Jemen með Ali Abdullah Saleh, forseta í fararbroddi- og afar umdeildan í Jemen- hefur á síðustu árum vingast við bandarísku stjórnina til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn hefðu frekari hernaðarleg afskipti af Jemen.

Þetta leiddi til töluverðrar þíðu í samskiptum Bandaríkjanna og Jemen. Þó svo að Saleh sé umdeildur forseti standa Jemenar með honum ef Bandaríkjamenn ráðast á einn eða annan hátt til atlögu og auðvitað er þá ekki hægt að sjá fyrir hvað mundi gerast í þessu snauða og vanbúna landi.

Í Saada í norðri hafa löngum geisað deilur milli ættbálka en síðustu mánuði og trúlega sl. 2-3 ár hafa sómalskir og fleiri flóttamenn gert sér hreiður og notið stuðnings ættbálkahöfðingja svo og Sauda sem berjast gegn stjórninni í Sanaa. Einnig hafa þeir átt í höggi við saudiska herinn vegna ágreinings um landamæri ríkjanna sem eru afar óljós á þessum slóðum.

Aldrei hefur endanlega verið samið um þau allar götur frá því að Bretar og Frakkar bjuggu Saudi Arabíu til við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar í kringum 1920.

Það er ekki nýtt að sendiráði Bandaríkjamanna í Sanaa sé lokað, frá því ég kom fyrst til Jemen 1986 hefur það verið opið nánast með höppum og glöppum.

Meðal þorra manna er Bandaríkjastjórn illa þokkuð í landinu eins og víðar á svæðinu.

Það hefur komið fyrir allnokkrum sinnum að hópar hafa gert árás á sendiráðið jafnvel þótt engir væru þar og nokkrir jemenskir verðir hafa beðið bana.
Frakkar og Bretar hafa ekki lokað sínum sendiráðum áður en skv fréttum sem bárust í dag hefur bandaríska sendiráðið verið opnað aftur svo og hið breska. Það bendir trúlega til að sú yfirvofandi hætta virðist ekki metin jafn alvarleg og í fyrstu var talið hvaðan sem þær fréttir komu

Það er líka afar varasamt að kingja fréttum frá Jemen í einum bita. Ættbálkahöfðingjar hafa látið að sér kveða, ferðamönnum erlendum hefur stundum verið rænt og í nokkur skipti drepnir og allt skal það fordæm.
Í þessu fátæka samfélagi sem á sér fáa volduga vini er frjór jarðvegur fyrir öfgar og auðvitað sýnir það meira og skýrar hvað ástand í sumum Afríkulöndum sem liggja handa Rauða hafsins er slæmt, þegar fólk telur sér betur borgið með því að flýja þangað.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna og sumra Evrópuríkja gagnvart Miðausturlöndum er alþekkt og oft alræmd. Líbanskur diplómati sagði í samtali við mig að væri þessu utanríkisstefna Bandaríkjamanna færð í málverk mundi hún flokkast undir naivisma.

Ég dreg ekki úr því slæma sem hefur gerst, gerist og getur gerst í landinu. En það er að mestu staðbundið, þó það hjálpi ekki þeim saklausu sem verða fyrir barðinu á yfirgangi Sauda á þeim slóðum. En hótanir Bandaríkjamanna á dögunum voru einnig afskaplega lítt til þess fallnar að auka samlyndi manna og vekja aðeins ugg og skelfingu.

Þeir sem ég hef talað við í höfuðborginni Sanaa staðhæfa að það sé ósatt að hótanir um hryðjuverk þar hafi verið settar fram og þar og víðast hvar í landinu, nema í norðri og á Maribsvæðinu sé kyrrt. Ferðamenn hafa forðast Jemen síðan fréttir tóku að berast.

Meðan Bandaríkjamenn styðja Sauda í því að gera loftárásir á það sem þeir telja að séu búðir skæruliða mun ekkert lagast. Meðan Jemenum er ekki sýnd sú virðing að við þá sé rætt eins og sjálfstæða þjóð og er hornreka í samfélagi arabaþjóða getur vissulega alltaf brugðið til beggja vona.

Því er það eitt óskandi að menn geri sér grein fyrir því að jemenski herinn er mjög vanbúinn og ekki til stórræðanna. Því er annað óskandi að menn kynni sér mál af kostgæfni og hamingjan forði hinum nýja Nóbelshafa Barak Óbama fyrir að láta teyma sig út í árásarstríðið eitt enn.

Ég og aðrir velunnarar Jemen munum áfram fylgjast gaumgæfilega með fréttum þaðan. Við getum lítið gert annað en vonað það besta og að átök í Saada er ekki það sama og landið logi allt stafna á milli. Sem betur fer er fátt fjarri lagi

Nouria sagði mér í morgun að hræðsluáróður hefði verið rekinn af miklu offorsi. Það hafa fleiri jemenskir vinir mínir tekið undir. En biðja jafnframt menn að lesa fréttir frá Jemen með varfærni og trúa ekki öllum frásögnum sem þaðan berast.

Þótt ekki sé gert lítið úr því sem gerðist nyrst í Jemen, fjarri fer því, skulu menn vona að þetta líti betur út á næstunni og utanríkisráðherra Bandaríkjanna fari sér hægar í fávíslegum yfirlýsingum sínum.

Mér fannst rétt að skrifa þessa punkta hér. Sjálf hyggst ég fara til Jemen en ræðst af ýmsu hvort það verður alveg á næstunni.
Ætla einkum að vera í Sanaa