Saturday, January 7, 2012
Janúarfundur, fréttabréf og teppasýning
Seinni Uzbekistan hópurinn. Besta fólkið, ávallt á bestu stöðunum eins og Steindór orðaði það svo hnyttilega.
Það hefur orðið dráttur á því að efna í myndakvöld þessa góða hóps en við gerum nú úr því bragarbót og hittumst vonandi í vænanlegri viku til að skoða myndir, endurlifa ferðina og eiga saman góða stund. Enn hafa ekki allir látið mig vita um þátttöku en hvet menn eindregið til þess.
Sýnishorn af persneskum dýrgripum
Svo er allt útlit fyrir að af persnesku teppasýningunni( og sölu) ef menn vilja verði í febrúar eins og að hefur verið stefnt. Við erum svona hátt í það komin með húsnæði fyrir sýningu en bíð aðeins eftir nákvæmri dagsetningu þeirra náunganna og mun þá senda ykkur boð um að koma og skoða þessi listaverk.
Veit ekki annað en hinn ágæti leiðsögumaður okkar, Pezhman Azizi, ætli nú loks að sýna okkur þá gleði að koma líka og við verðum endilega að gera eitthvað fyrir hann og Hossein og Ali.
Ef menn hafa einhverjar hugmyndir eru þær vel þegnar eða ef menn vilja bjóða upp á eitthvað sem gæti gert dvöl þeirra enn skemmtilegri. Vinsamlegast hafið samband þar að lútandi.
Auðvitað efnum við svo að minnast kosti í eina sammenkomst þar sem fyrverandi Íranfarar kæmu þá vonandi sem allra flestir.
Fréttabréfið á lokastigi
Dóminik og hennar lið eru að ljúka við næsta Fréttabréf. Það verður óvenjulega efnismikið og glæsilegt, leyfi ég mér að segja.
Þar skrifa Mörður Árnason um framvindu mála í Arabalöndum síðustu mánuði, Vera Illugadóttir skrifar um teppahefð svæðisins og birtar fagrar myndir af þeim. Einnig verður birtur seinni hluti greinar hennar um nútímasögu Afganistan. Þá skrifar Sveinn Guðmarsson um bók Sigríðar Víðis um palestínsku flóttakonurnar á Akranesi sem hefur fengið góðan hljómgrunn.
Þá skrifa ýmsir félagar sem hafa farið í allmargar VIMA ferðir um hvaða ferð/atvik og þess háttar er þeim eftirminnilegast.
Ég skrifa nokkrar línur um Jemenverkefnið og birt verður ljóð eftir íraskan höfund í minni þýðingu sem heitir Litlu peðin og konungurinn. Einnig er birt nýja Íransáætlunin 7.-22 sept n.k og nú fer ég senn að athuga hvort þátttaka næst í þá ferð. Mér sýnist ferðin sú gæti orðið afar skemmtileg og við sjáum marga nýja staði en auðvitað gerum við ekki farið til Írans án þess að vitja Isfahan.
Mataruppskrift og fleira góðgæti.
Þarf endilega að biðja ykkur að senda mér ef þið hafið breytt um heimilisföng.
Fundur 22.jan í Kornhlöðunni
Þann 22. jan kl 14 verður miðsvetrarfundurinn okkar í Kornhlöðunni og þar verður ræðumaður Þorbjörn Broddason, prófessor. Hann mun tala um arabísku fréttastöðina Al
Jazeera og hlutvek hennar í atburðum síðustu missera.
Það er engum blöðum um það að fletta að tilurð þessarar stöðvar hefur haft mjög afgerandi áhrif á fréttaflutning á svæðinu og breytt mjög hvernig fréttir berast til okkar en lengi vel urðum við að gjörsovel og taka þegjandi og hljóðalaust matreiðslu vestrænna fjölmiðla á því sem þarna gerðist, hvort sem það var til góðs eða ills.
Leiddi til þess að afstaða fólks var afskaplega einsleit og heldur rýr.
Ég reikna með að Þorbjörn muni svara spurningum og sjálfsagt fara orðum um fleira í þessu sambandi og hvet menn eindregið að að fjölmenna og taka með sér gesti.
Eþíópíuferðir á góðu róli
Lítur vel út með það allt saman og bið þáttakendur í ferðunum að greiða skilvíslega félagsgjöld sín, annað hvort á fundinum 22.jan. eða beint í netbankann. Þið sjáið númerið á hlekknum Hentug reikninsnúmer og þar kemur fram inn á hvaða númer skuli greiða árgjöldin Þetta verður allt að vera í lagi eins og menn vita mætavel.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Blessuð ævinlega Jóhanna. Gott væri að félagsgjald VIMA kæmi fram í kr.
Giska á að það sé 3000 kr. á mann fyrir árið 2012. Gott að fá það staðfest mér og öðrum til góðs og greiðslu. kv Jóna E.
Já, kæra. Það er 3.000 per mann.
KvJK
Post a Comment