Sunday, February 19, 2012
Allir á teppasýningu - Íranfarar svari tilkynningum
Myndir tók Hrafn Jökulsson
Teppasýningin stendur nú sem hæst og hefur mælst ákaflega vel fyrir enda má þar sjá margan dýrgripinn. Mjög góð aðsókn hefur verið enda ekki á hverjum degi sem slík teppi eru til sýnis hér. Sýngingin er opin frá kl. 13-19 og síðasti opnunardagur er 23.febrúar.
Þá tekur við alls kyns skriffinnska og frágangur og þeir halda svo heimleiðis 28.febr. árla morguns.
Meðal gesta hefur verið Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem sést hér með leiðsögumanninum okkar, Pezhman Azizi þar sem þeir virða fyrir sér litlu handmáluðu boxin úr úlfaldabeini en þeir félagar komu með slatta af slíkum skrautmunum, svo og minatúrmyndir sem Íranir eru frægir fyrir. Þess er sjálfsagt og gott að geta að við áttum hauka í horni þar sem utanríkisráðuneytismenn voru í alls konar praktiskum málum og til að greiða fyrir áritun handa þeim félögum.
Og ekki lét hinn nýkrýndi Edduklippari og tæknistjóri síðunnar,( ásamt Veru Illugadóttur,) Elísabet Ronaldsdóttir sig vanta og gat ekki slitið sig frá silkiteppi sem henni leist einkar vel á.
Þeir félagar, Ali, Ahmed og Pezhman hafa sýnt gestum hina dæmigerðu írönsku vinsemd og gestrisni, útskýrt fyrir þeim teppin af kostgæfni enda eru það býsna flókin vísindi eins og þeir vita sem hafa komið til Íran.Te og sætindi eru einnig á boðstólum. Einn úr hópnum og eigandi teppabúðarinnar Hossein Bordbar er ekki kominn en gæti verið að hann næði nokkrum síðustu dögunum hér. Annríki hefur verið það mikið að ekki hefur veitt af þeim öllum við afgreiðslu og þá hafa hlaupið undir bagga Gulla Pé, Edda Ragnarsdóttir, Herdís Kristjánsdóttir og Þóra Jónasdóttir.
Þeir hafa að sjálfsögðu verið bundnir yfir sýningunni en þó hafa ýmsir VIMA félagar sýnt þeim velvild og gestrisni, Inga Hersteinsdóttir bauð þeim í kvöldverð, fyrir forgöngu Þorkels Erlingssonar og Margrétar Sæmundsdóttur(úr síðastu Íranferð) var þeim boðið heim til þeirra ásamt öllum hópnum og JK í mat og áttum við þar ánægjulegt kvöld.
Þá fór Dóminik með þá í bíltúr úr Reykjavík og einnig til Þingvalla,Þór Magnússon fyrv. þjóðminjavörður sýndi þeim Þjóðminjasafnið, Gulla Pé fór með þá upp í Hellisheiðarvirkjun í morgun og hún býður þeim einnig í kvöldverð annað kvöld. Um næstu helgi komast þeir vonandi með Rikharð og Sesselju upp í Borgarfjörð og hitta þar m.a vini sína að Hóli í Lundareykjadal, skoða Deildartunguhver, Barnafossa og fara í Reykholt.
Fleiri buðu fram krafta sína og ekki víst að hægt verði að þiggja það allt vegna tímaskorts og af því þeim er vitaskuld í mun að reyna að selja sem mest því þeir lögðu í mikinn kostnað og fyrirhöfn að koma hingað.
Sameiginlegur kveðjukvöldverður fyrir þá og alla sem hafa farið með JK til Íran verður svo 24.febr. og hafa allir, það best ég veit, fengið tilkynningu um það. Þær Ólöf Magnúsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Dóminik Pledel Jónsson og Sara Sigurðardóttir hafa séð um það.
Ég bið fólk lengstra orða að tilkynna sig þar sem þarf að láta vita hvað eigi að gera ráð fyrir mörgum. Auðvitað reikna ég með að sem flestir komi og láti alla vega þær stöllur vita og það fyrir mánudagskvöld.
Það væri gaman að sýna þeim þann velvilja og áhuga að koma þarna til fundar við þá og eiga stund saman og einnig fyrir Íranfara að hittast úr hinum ýmsu ferðum.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment