Sunday, August 19, 2012

Aðgerðir UNICEF í Jemen

Fatimusjóðurinn greiddi 3 milljónir nýlega í þetta verkefni sem er lýst hér að neðan. Við skulum vona að þær komi að notum. Kannski rennur upp sá dagur áður en of langur tími líður að sjóðurinn geti á ný farið að styrkja skólabörn eins og við verðum í ríf sex ár eða frá 2005 og þar til óeirðir hófust þar í landinu og virðist ekki sjá fyrir endann á þeim þótt ástandið hafi skánað nokkuð. Þessir fjármunir fara einkum til næringarverkefnis vegna hungursneyðar sem um 40 prósent jemenskra barna búa við um þessar mundir.

Um UNICEF:
Skrifstofa UNICEF í Jemen leggur aðaláherslu á fjóra megin þætti í starfi sínu í þágu barna landsins: heilsugæslu og næringu,  menntun, barnavernd og aðgengi að vatnsveitu og hreinlæti.  Alls starfa um 100 mans á skrifstofunni en yfirgnæfandi meirihluti þeirra eru Jemenar. Auk þess starfa hundruðir sjálfboðaliða með UNICEF í Jemen. 

Yfirmaður UNICEF í Jemen er Geert Cappalaere.

Eftirfarandi er upptalning á helstu aðgerðum í starfi UNICEF í Jemen í júni- og júlímánuði 2012.


Staða barna og verkefni UNICEF í júní og júlí 2012:

Næring:
  • Niðurstöður SMART næringarúttektar í Hajjah-fylki sýna að hlutfall barna sem þjást af bráðavannæringu í fjallahéruðum fylkisins er 9,3% en á láglendi er hlutfallið 21,6% sem er mjög alvarlegt ástand.
  • Í kjölfar SMART-úttekta í fylkjunum Taiz og Haradh hafa verið gerðar ítarlegar áætlanir um viðbrögð og samstarf stofnanna og félagasamtaka á sviði næringarmála, vatns og hreinlætismála hefur verið aukið og samþætt frekar. 
  • Frá og með júní 2012 haf 1.000 heilbrigðisstarfsmenn í 16 fylkjum verið þjálfuð í viðbrögðum við bráðavannæringu barna.
  • 23 sérfræðingar stjórnvalda, frjálsra félagasamtaka og Sþ-stofnanna hlutu þjálfun í framkvæmd SMART næringarúttekta til að betur sé hægt að fylgjast með og bregðast við næringarástandinu.
  • Viðbragðsáætlanir í framkvæmd í Taiz- og Hajjah-fylkjum í samstarfi við héraðstjórnir, félagasmtök, alþjóðstofnanir og stjórnvöld.


Heilsa:
  • 98% jemenskra barna voru bólusett gegn lömunarveiki í átaki sem UNICEF stóð fyrir dagana 11. til 13. júní  í samstarfi við WHO og heilbirðgiðisráðuneyti Jemen. 
  • Námskeið fyrir heilbrigðisstarfsmenn úr öllum fylkjum landsins voru haldin til að kynna ný bóluefni og dreifa upplýsingarefni og skráningarmiðum fyrir næsta bólusetningarátak.


Menntun:
  • Staðfest hefur verið að 52 skólar hafa verið herteknir í Zinjibar og Khanfar í suðurhluta Abyan-héraðs af Asnar Al-Shari‘a og af þeim hefur verið gerð bein árás á 26 þeirra. 
  • Nýr skóli fyrir flóttabörn settur upp í Haradh.
  • Í Taiz fengu 857 skólabörn aukakennslu til að koma til móts við tafir á skólahaldi í skólum þeirra.
  • Þriggja daga þjálfun um réttindi barna og sálrænan stuðning við börn var haldin fyrir 83 kennara sem kenna í sumarskólum víða í Jemen.
  • Sumarbúðir fyrir flóttabörn voru haldnar í Haradh héraði, 4.141 börn sóttu búðirnar.
  • Undirbúningsvinna er hafin við byggingu 16 tímabundinna kennslustofa fyrir flóttabörn í Al-Mazraq flóttamannabúðunum í Haradh. Kennslustofurnar leysa tjaldskóla af hólmi. Kennslustofurnar munu nýtast 718 börnum.


Barnavernd: 
  • Sérstök úttekt á vegum SÞ leiðir í ljós að bæði Jemenski herinn og The First Armoured Division hafa notast við barnahermenn. 
  • Fræðsluherferð til að fræða fólk um hættur jarðsprengja og annara ósprunginna sprengja var haldin í samstarfi við Yemen Executive Mine Action Center og félagsmálaráðuneyti Jemen. Herferðin fór um öll 15 héröð Sa‘ada-fylkis. Fræðsluherferðin náði til 54.777 manns, þar af 27.039 barna.
  • Í samstarfi við félagsmálaráðuneyti Jemen og Intersos veitti barnaverndarmiðstöð UNICEF í Haradh 77 fylgdarlausum börnum vernd og tímabundna umönun (38 þeirra flóttamenn frá Afríkuhorninu og 39 jemensk börn). 36 jemensku barnanna voru sameinuð fjölskyldum sínum á ný og öllum 38 flóttabörnunum var fylgt aftur til heimalanda sinna á Afríkuhorninu að þeirra ósk.


Vatn og hreinlæti:
  • Í Hajja-fylki jók UNICEF stuðning sinn til að útvega flóttabörnum og fjölskyldum þeirra betri aðgang að hreinlætisaðstöðu. 31.623 manns munu njóta góðs af verkefninu. 101 fjölskyldu-klósett (sem nýtast 707 manns) voru sett upp í flóttamannabúðum í Al-Mazraq. 61 klósettstæður voru settar upp í Mustaba (sem nýtast 1.281 manns). Í Haradh hélt UNICEF áfram að dreifa vatni til 40.479 flóttamanna. Hreinlætisvörum var dreift til flóttafólks og fjölskyldna sem hýsa flóttafólk (32.263 manns). Fjórir stórir vatnsgeymar (2000 L) voru einnig settir upp í Mustaba héraði fyrir 38 fjölskyldur (266 manns) og í  Kharyan Al-Muharraq héraði fyrir 30 fjölskyldur (210 manns).
  • Í Amran og Arhab fylkjum var vatni dreift daglega til 11.152 flóttamanna í Amran og Arhab (þar af 2.986 börn) og 4.180 manns var tryggður aðgangur að viðunandi hreinlætisaðstöðu (þar af 1.881 börn). Í Amran fengu 9.500 skólabörn hreinlætisvörur til að nota í sumarskólanum. Þann 31 júlí gerði mikið regn í flóttamannabúðunum í Amran og 129 fjölskyldur neyddust til að leita skjóls í nærliggjandi skóla. Ættbálkar í Amran vilja ekki taka við fólkinu. UNICEF tryggði fjölskyldunum vatn og hreinlætisvörur ásamt því að dæla regnvatni úr búðunum.
  • Í fylkjunum Aden, Lahj og Abyan héldu UNICEF og Save the Children áfram samstarfi sínu um að tryggja 958 fjölskyldum flóttafólks vatn og hreinlætisvörur (4.201 manns, þar af 1.050 börn).  Viðhald var framkvæmt á vatnslögnum og hreinlætisaðstöðu í 29 skólum í Aden, en aðstaðan í skólunum nýtist 1.255 fjölskyldum á svæðinu (5.274 fullorðnum og 2.087 börnum).




Friday, August 17, 2012

Fórnarlömb átaka í Sýrlandi aðstoðuð með 5 milljónum frá Fatimusjóðnum á Íslandi



Fórnarlömb átaka í Sýrlandi aðstoðuð með 5 milljónum frá Fatimusjóðnum á Íslandi
Fatimusjóðurinn hefur lagt fram fimm milljónir króna til aðstoðar fórnarlömbum átakanna í Sýrlandi. Rauði krossinn á Íslandi veitti styrknum viðtöku í dag og munu Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi nýta féð til að aðstoða óbreytta borgara sem orðið hafa illa úti vegna átakanna þar í landi.
„Þetta eru mest framlög frá einstaklingum hér á Íslandi sem vilja hjálpa venjulegu fólki sem er skyndilega lent í miðri styrjöld og hefur þurft að flýja heimili sín. Ég bjó í Sýrlandi í tæpa þrjá vetur og hef komið þangað ótal sinnum að auki, bæði ein á ferð og með hópa frá Íslandi.“ segir Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi og forsvarsmaður sjóðsins. „Mér er því sérlega umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa Sýrlendingum á þessum erfiðu tímum.“
Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í borgunum Aleppo, Homs og hluta Damaskus. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í fjöldahjálparstöðvum í Sýrlandi eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á  mannúðaraðstoð Rauða krossins sem víða í landinu er eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.
„Íslendingar hafa sýnt það ítrekað að mannúð fer ekki í manngreinarálit. Þjáningar fólks í Sýrlandi koma greinilega við hjörtu Íslendinga sem hafa sýnt vilja sinn í verki með því að gefa í Fatimusjóðinn.“ segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Konur og börn eru sérlega berskjölduð í stríðsátökum og við munum stýra þessari aðstoð til þess hóps.“
Á síðustu þremur vikum hafa Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi dreift sjúkragögnum til að sinna særðum í Homs og Damaskus og séð um 100.000 manns á átakasvæðum fyrir mat, hreinu drykkjarvatni og bættri hreinlætisaðstöðu. Nærri hálf milljón óbreyttra borgara sem flúið hefur átökin hefst nú við í fjöldahjálparstöðvum, skólum og öðru húsnæði. Alþjóða Rauði krossinn gerir ráð fyrir að aðstoða um 1,5 milljónir manna í Sýrlandi á árinu.
11.000 sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Sýrlandi sinna sjúkraflutningum, skyndihjálp, neyðarvörnum og neyðaraðstoð oft í lífshættulegum aðstæðum. Þá hefur Alþjóða Rauði krossinn 50 starfsmenn á sínum snærum í Sýrlandi.
Nánari upplýsingar:
Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi Fatimusjóðsins, 897 6117, jemen@simnet.is
Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða krossins, 894 9005, thorir@redcross.is
-----
Myndatexti: Guðlaug Pétursdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Fatimusjóðsins ásamt Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins og Þóri Guðmundssyni, sviðsstjóra hjálparstarfssviðs við afhendingu styrksins.

Saturday, August 11, 2012

Fatimusjóður leggur fram fimm milljónir til hjálpar í Sýrlandi gegnum Rauða krossinn og Rauða hálfmánann


Við höfum ákveðið í stjórn Fatimusjóðsins að leggja fram liðsinni við Sýrlendinga. Ekki er vanþörf á því eins og ástandið er þar í landi. Ég bjó í Sýrlandi í þrjá vetur tæpa og hef komið þangað ótal sinnum að auki, ein eða með hópa. Mér er því Sýrland og Sýrlendingar sérlega kært og umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa. Stjórn Fatimusjóðs tók því mjög vel og eftir viðræður við Þóri Guðmundsson og Jón Brynjar var ákveðið að afhenda í næstu viku þetta framlag.
Eftirfarandi fengum við svo frá Rauða krossinum um hvernig féinu verður varið og vorum mjög sáttar við það. Vona að svo sé með ykkur og kannski vilja einhverjir fleiri aðstoða. Safnaði á Facebook 778 þús. á nokkrum dögum um daginn og þakka mikið vel fyrir það.
Hvað varðar önnur framlög sem við höfum innt af hendi hef ég fengið skýrslu frá UNICEF um Jemenstarfið og mun birta það fljótlega hér á síðunni. Auk þess vænti ég að við heyrum frá Hjálparstofnun kirkjunnar um Eþíópíuverkefnið innan tíðar.
Munið að númer Fatimusjóðs er 342 13 551212 og kt. 1402403979.

Rauði krossinn á Íslandi bindur vonir við að Fatímusjóðurinn muni styðja við hjálparstarf Rauða
krossins í Sýrlandi. Framlag sjóðsins yrði afhent Alþjóðaráði Rauða krossins og nýtt við
neyðaraðstoð í Sýrlandi.

Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í Aleppo,
hluta Damaskus og Homs. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í
fjöldahjálparstöðvum eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á
mannúðaraðstoð Rauða krossins.


Hjálparbeiðni Alþjóðaráðs Rauða krossins

Alþjóðaráð Rauða krossins gerir ráð fyrir að aðstoða um 1,5 milljónir manna í Sýrlandi á árinu en
hjálparbeiðni ráðsins fyrir árið 2012 hljóðar upp á 4,6 milljarða króna.

Áætlanir miðast meðal annars við að efla heilbrigðisþjónustu og bæta lífsskilyrði fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín. Um 100.000 manns munu njóta mánaðarlegrar mataraðstoðar og allt að 25.000 manns munu fá afhentar ýmsar nauðsynjavörur til heimilishalds.

Alþjóðaráðið vinnur að því að stríðandi aðilar virði alþjóðleg mannúðarlög og leggur áherslu á að þeir láti af hegðun sem brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög. Fangaheimsóknir eru hluti af slíku starfi. Fangelsið í Aleppo hefur verið heimsótt og unnið er að því að sendifulltrúar ráðsins fái aðgang að öðrum fangelsum í landinu.

Rauði hálfmáninn í Sýrlandi vinnur að því að efla og styrkja viðbragðs- og viðbúnaðargetu sína í
samræmi við gjörbreytt ástand í landinu. Alþjóðaráðið styður við Rauða hálfmánann svo hann geti
áfram sinnt hlutverki sínu af festu og ábyrgð.

Á síðustu þremur vikum hafa Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauði hálmáninn í Sýrlandi:

  • Sent sjúkragögn til Aleppo til að sinna allt að 1000 slösuðum ásamt því að endurnýja birgðir af sjúkragögnum í Damaskus.
  • Endurnýjað búnað í fjórum færanlegum heilsugæslustöðvum (bílum) í eigu Rauða hálfmánans sem sinna heilbrigðisþjónustu fyrir þolendur í Damaskus ásamt því að dreifa lyfjum í fjöldahjálparstöðvum í Damaskus.
  • Séð 125.000 manns fyrir mat í Damaskus og nágrenni, Aleppo, Homs, Hama, Idlib, Lattakia, Hassakeh og Raqqa.
  • Tryggt um 2000 manns í 10 fjöldahjálparstöðvum í Aleppo aðgengi að hreinu vatni ásamt því að auðvelda aðgengi að hreinu drykkjarvatni og bæta hreinlætisaðstöðu í Damaskus og Rural
  • Damascus fyrir yfir 68.000 manns sem þurftu nýlega að flýja átökin og hafast nú við í 27 skólum og íbúðahúsnæðum.
  • Unnið að því að tryggja rúmlega 300.000 manns sem dvelja í 100 fjöldahjálparstöðvum í
    Homs aðgengi að hreinu vatni.
  • Dreift 10.000 dýnum í fjöldahjálparstöðvum í Damaskus og nágrenni, Aleppo og Homs ásamt
    2000 hreinlætispökkum í Aleppo.




Tillaga að framkvæmd verkefnisins hér á landi
  • Fatímusjóðurinn mun leggja Rauða krossinum á Íslandi til fimm milljónir króna og eyrnamerkt verkefnum Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi.
  • Rauði krossinn á Íslandi og Fatímusjóðurinn munu halda sameiginlega kynningu á framtakinu í lok sumars 2012.
  • Rauði krossinn á Íslandi mun senda Fatímusjóðnum skýrslu um ráðstöfun fjármuna og framkvæmdir Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi um mitt ár 2013 auk fréttatilkynninga og annars efnis um framkvæmd og framvindu hjálparstarfsins eftir því sem það berst.


Alþjóðaráð Rauða krossins

Alþjóðaráð Rauða krossins er sjálfstæð stofnun með aðsetur í Genf í Sviss. Allt frá stofnun ráðsins árið 1863 hefur meginhlutverkið verið frumkvæði að hjálparstarfi á átakasvæðum. Alþjóðaráðið lætur þá einkum til sín taka sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum. Samkvæmt
Genfarsamningunum fjórum frá árinu 1949 er ráðinu falið að fylgjast með að samningarnir séu virtir
af þeim ríkisstjórnum sem hafa undirritað þá og eiga þátt í átökum. Það eru því einkum særðir og
sjúkir hermenn, stríðsfangar og almennir borgarar sem njóta verndar ráðsins. Alþjóðleg viðurkenning
á Alþjóðaráðinu sem hlutlausri mannúðarstofnun veitir ráðinu aðgang að átakasvæðum sem önnur
alþjóðleg samtök hafa oft ekki aðgang að. Alþjóðaráðið hefur 50 starfsmenn á sínum snærum í Sýrlandi.


Rauði hálfmáninn í Sýrlandi

Rauði hálfmáninn í Sýrlandi er eitt af 188 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans og á
höfuðstöðvar í Damaskus. Félagið starfar í 14 deildum og 82 undirdeildum um allt landið. 11.000
sjálfboðaliðar félagsins sinna sjúkraflutningum, skyndihjálp, neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Rauði
hálfmáninn sér um samhæfingu neyðarviðbragða í Sýrlandi í samræmi við landslög og er víða í
landinu eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.