Tuesday, November 18, 2008

Fatimusjóði berst ein og hálf milljón að gjöf



Góðan daginn öll

Hef fengið allmargar fyrirspurnir og kvartanir yfir því að menn komist ekki inn á síðuna. Ég veit ekki skýringar á því þar sem sumir komast þrautalaust og aðrir ekki.
Mun nú senda þetta á færri í einu og ath hvort betur gengur.

Annars geta menn bara skrifað addressuna wwww.johannaferdir.blogspot.com
inn í efsta dálkinn - þar sem skrifað er ef menn ætla að fara inn á einhverjar síður. Þá er síðan líka þar og fyrirhafnarlaust að fara inn á hana. Reynið þetta ef hitt gengur ekki.

Annars er erindið ekki smáræði. Kona nokkur sem er ellilífeyrisþegi og ætlar ekki að láta nafn síns getið hafði samband við mig í gær og sagði mér þau tíðindi að SPRON væri að greiða henni um 1,6 milljónir vegna inneignar á Peningamarkaðssjóði sem hún átti þar og hafði eiginlega afskrifað og bjóst ekki við að fá neitt.

Hún sagðist hafa ákveðið að gefa upphæðina eins og hún leggur sig inn á Fatimusjóð enda gerði hún því skóna að byggingasjóðurinn hefði rýrnað amk um sinn meðan gengið er svona kolvitlaust.
Þessari elskulegu og höfðinglegu konu eru hér með færðar mínar ljúfustu þakkir.


Þá vil ég nefna að margir hafa boðist til að koma til liðs við að greiða fyrir þau Jemenbörn sem virðast hafa gleymst hjá þeim sem ætluðu að borga seinna.Ítreka enn að þetta á ekki við um þá sem láta banka sína millifæra mánaðarlega. Það er í sóma.

Nú stendur málið því mun betur en ansi mörg börn hafa fengið nýja styrktarmenn og verður réttur listi yfir þá birtur á Jemenbörn fljótlega. Auk þeirra sem voru nefndir um daginn hafa Eva Pétursdóttir og Axel Axelsson lagt 5 þús. kr. inn um hver mánaðamót auk þess að styrkja tvær litlar systur. Og um slíkt munar og vel það.

Haft skal bak við eyrað að þeir ætla ekkert endilega að borga næsta ár enda eiga allir að vita að ALLIR skuldbinda sig bara til árs í senn. Ég þakka kærlega fyrir þessa vinsemd og umhyggju.

Ég fer til Jemen 11.des eins og ég hef minnst á. Mun áður senda Nouriu lista yfir börnin með stuðningsmenn sem bættust við í haust og/eða hafa breyst síðan og vænti þess að ég komi svo heim með bréf til viðkomandi og myndir af krökkunum þeirra.

7 comments:

Anonymous said...

Frábærar fréttir. Það er sem ég segi, alltaf leggst manni eitthvað til þegar öll sund virðast vera lokuð
Kv. Edda

Anonymous said...

Hún er öðlingur, hugsar til þeirra sem eiga nánast ekkert nema von um að fá að læra. Mikið er ég glöð yfir því að til séu einstaklingar eins hún í okkar þjóðfélagi ennþá.
Kv.
Gulla

Anonymous said...

Reyndi að senda blog vegna verðlauna Elísabetar Ronalds, en það gekk ekki. Sendi henni hér með bestu hamingjuóskir frá okkur Ásgeir, gamla bekkjabróður hennar. Einnig hamingjuóskir vegna hinnar rausnarlegu peningagjafar til Fatiumsjóðsins.

Kveðja,
Sigr. Ásgeirs

Anonymous said...

Tek heilshugar undir þetta með Eddu og Gullu. Þetta er bara frábært.
Kkv.
Þóra J. :)

Anonymous said...

Sæl Jóhanna,

Nú komst ég vandræðalaust inn á síðuna.
Til hamingju með peningagjöfina - það er hugljúft að vita að enn er til svona fólk hér á landi.

Kærst kv.
Þórunn Bragadóttir

Anonymous said...

Þegar gljúfurinn verður varla stærri á milli stjórnanda og almennings, þegar ekki er hlustað nema talað sé um miljarða, þegar laun eru skert ef ekki horfin og ekkert nema óvissa framundan, gefur ein naflaus kona andvirði mánaðarlaun forráðamanna okkar (og bankanna) til þurfandi barna í Jemen. Þetta ætti að vera á forsíðu dagblaðanna og styrkir mig í trú minni á Íslendinginn.

Anonymous said...

Gleðitíðindi og aftur gleðitíðindi þetta er svo sannarlega blaðamatur. Til hamingju Jóhanna og VIMA fólk. Jóna Einarsdóttir.