Tuesday, January 5, 2010

Hvað er málið í Jemen?



Góða kvöldið öll

Ég hef fengið margar fyrirspurnir frá VIMA félögum, bæði þeim sem styrkja börnin og öðrum um málefni Jemens vegna þess ástands sem þar er sagt ríkja.

Ástandið núna hefur skánað til muna þó ókyrrð sé enn nyrst í landinu þar sem Saudar hafa gert loftárásir og saklausir borgarar hafa látið lífið. Þó segja jemensk blöð og jemenskir vinir sem ég hef haft samband við að fréttir séu stórlega ýktar eins og venjulega þegar Jemen og einatt þessi heimshluti er annars vegar.

Jemenskur þingmaður lét hafa það eftir sér þegar Hilary Clinton og fleiri ráðamenn í Bandaríkjunum hafði komið fram í sjónvarpi og var æði herská og hótaði Jemenum öllu illu að yrði reyndin sú að bandarískar hersveitir eða bandarískur stuðningur yrði veittur við árásir á landið mundi það leiða til aðeins eins: allir Jemenar snerust á sveif með Al Kaida sem meirihluti fólks hefur haft skömm á.

Stjórnin í Jemen með Ali Abdullah Saleh, forseta í fararbroddi- og afar umdeildan í Jemen- hefur á síðustu árum vingast við bandarísku stjórnina til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn hefðu frekari hernaðarleg afskipti af Jemen.

Þetta leiddi til töluverðrar þíðu í samskiptum Bandaríkjanna og Jemen. Þó svo að Saleh sé umdeildur forseti standa Jemenar með honum ef Bandaríkjamenn ráðast á einn eða annan hátt til atlögu og auðvitað er þá ekki hægt að sjá fyrir hvað mundi gerast í þessu snauða og vanbúna landi.

Í Saada í norðri hafa löngum geisað deilur milli ættbálka en síðustu mánuði og trúlega sl. 2-3 ár hafa sómalskir og fleiri flóttamenn gert sér hreiður og notið stuðnings ættbálkahöfðingja svo og Sauda sem berjast gegn stjórninni í Sanaa. Einnig hafa þeir átt í höggi við saudiska herinn vegna ágreinings um landamæri ríkjanna sem eru afar óljós á þessum slóðum.

Aldrei hefur endanlega verið samið um þau allar götur frá því að Bretar og Frakkar bjuggu Saudi Arabíu til við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar í kringum 1920.

Það er ekki nýtt að sendiráði Bandaríkjamanna í Sanaa sé lokað, frá því ég kom fyrst til Jemen 1986 hefur það verið opið nánast með höppum og glöppum.

Meðal þorra manna er Bandaríkjastjórn illa þokkuð í landinu eins og víðar á svæðinu.

Það hefur komið fyrir allnokkrum sinnum að hópar hafa gert árás á sendiráðið jafnvel þótt engir væru þar og nokkrir jemenskir verðir hafa beðið bana.
Frakkar og Bretar hafa ekki lokað sínum sendiráðum áður en skv fréttum sem bárust í dag hefur bandaríska sendiráðið verið opnað aftur svo og hið breska. Það bendir trúlega til að sú yfirvofandi hætta virðist ekki metin jafn alvarleg og í fyrstu var talið hvaðan sem þær fréttir komu

Það er líka afar varasamt að kingja fréttum frá Jemen í einum bita. Ættbálkahöfðingjar hafa látið að sér kveða, ferðamönnum erlendum hefur stundum verið rænt og í nokkur skipti drepnir og allt skal það fordæm.
Í þessu fátæka samfélagi sem á sér fáa volduga vini er frjór jarðvegur fyrir öfgar og auðvitað sýnir það meira og skýrar hvað ástand í sumum Afríkulöndum sem liggja handa Rauða hafsins er slæmt, þegar fólk telur sér betur borgið með því að flýja þangað.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna og sumra Evrópuríkja gagnvart Miðausturlöndum er alþekkt og oft alræmd. Líbanskur diplómati sagði í samtali við mig að væri þessu utanríkisstefna Bandaríkjamanna færð í málverk mundi hún flokkast undir naivisma.

Ég dreg ekki úr því slæma sem hefur gerst, gerist og getur gerst í landinu. En það er að mestu staðbundið, þó það hjálpi ekki þeim saklausu sem verða fyrir barðinu á yfirgangi Sauda á þeim slóðum. En hótanir Bandaríkjamanna á dögunum voru einnig afskaplega lítt til þess fallnar að auka samlyndi manna og vekja aðeins ugg og skelfingu.

Þeir sem ég hef talað við í höfuðborginni Sanaa staðhæfa að það sé ósatt að hótanir um hryðjuverk þar hafi verið settar fram og þar og víðast hvar í landinu, nema í norðri og á Maribsvæðinu sé kyrrt. Ferðamenn hafa forðast Jemen síðan fréttir tóku að berast.

Meðan Bandaríkjamenn styðja Sauda í því að gera loftárásir á það sem þeir telja að séu búðir skæruliða mun ekkert lagast. Meðan Jemenum er ekki sýnd sú virðing að við þá sé rætt eins og sjálfstæða þjóð og er hornreka í samfélagi arabaþjóða getur vissulega alltaf brugðið til beggja vona.

Því er það eitt óskandi að menn geri sér grein fyrir því að jemenski herinn er mjög vanbúinn og ekki til stórræðanna. Því er annað óskandi að menn kynni sér mál af kostgæfni og hamingjan forði hinum nýja Nóbelshafa Barak Óbama fyrir að láta teyma sig út í árásarstríðið eitt enn.

Ég og aðrir velunnarar Jemen munum áfram fylgjast gaumgæfilega með fréttum þaðan. Við getum lítið gert annað en vonað það besta og að átök í Saada er ekki það sama og landið logi allt stafna á milli. Sem betur fer er fátt fjarri lagi

Nouria sagði mér í morgun að hræðsluáróður hefði verið rekinn af miklu offorsi. Það hafa fleiri jemenskir vinir mínir tekið undir. En biðja jafnframt menn að lesa fréttir frá Jemen með varfærni og trúa ekki öllum frásögnum sem þaðan berast.

Þótt ekki sé gert lítið úr því sem gerðist nyrst í Jemen, fjarri fer því, skulu menn vona að þetta líti betur út á næstunni og utanríkisráðherra Bandaríkjanna fari sér hægar í fávíslegum yfirlýsingum sínum.

Mér fannst rétt að skrifa þessa punkta hér. Sjálf hyggst ég fara til Jemen en ræðst af ýmsu hvort það verður alveg á næstunni.
Ætla einkum að vera í Sanaa

8 comments:

Anonymous said...

Takk fyrir gott yfirlit af stöðu mála frá jemenskum bæjardyrum séð. Gott að heyra að ástandið sé ekki eins slæmt og látið er í veðri vaka - sem mig grunaði svo sem, miðað við hvernig fréttir erlendis af málefnum Íslendinga er matreitt!

Kveðja - og farðu nú samt að öllu með gát á ferðalagi þínu - Guðrún C.

Anonymous said...

Kæra Jóhanna, takk fyrir þessar upplýsingar. Það þarf alltaf að gæta að hver segir fréttirnar og hvernig þær eru uppbyggðar.
Kærleikskveðjur,
Þorgerður Anna

Anonymous said...

Auðvitað taka þeir, sem komið hafa til Jemen og ekki orðið fyrir neinu nema vingjarnlegum viðtökum heimamanna, öllum fréttum þaðan með varúð, enda vitað að róstur hafa verið á Saada svæðinu lengi.
Ég gekk um miðbæinn í Sanaa aleinn og sá ekki aðra vestræna menn í þeim göngutúr, en heimamenn brostu, heilsuðu og buðu mann velkominn til landsins, með þeim örfáu orðum, sem þeir kunnu í ensku.
Það hvarflaði ekki einu sinni að manni, að ferðamönnum stafaði nokkur sérstök hætta af því að vera þarna, en auðvitað þarf fólk að vita hvaða svæði eru örugg og hver ekki.
Allsstaðar í heiminum þarf að gá að sér og er Reykjavík ekkert undanskilin þar.
Kveðja,
Axel Axelsson

Anonymous said...

Þakka þér Jóhanna, pistill þinn mætti gjarnan sjást í okkar dagblöðum. Það vantar svo tilfinnalega umfjöllun um þennan heimshluta frá öðru sjónarhorni en utanríkis-og þjóðhöfðingjaelítu sjálskipaðra réttsýnna þjóða. Manneskjan er smá og getur ekki mikið en hefur þó rétt að vera til. Ég vona bara að Jemenar fái að vera í friði og gaman að heyra frá þér áfram, kv.Jóna E.

Anonymous said...

Þetta eru upplýsingar sem þyrftu að komast í eitthvað blað. Ég er ekki hissa á þessum upplýsingum þínum Jóhanna. Ég var einu sinni stödd í Betlehem þar sem ein sprengja sprakk rétt hjá mér, og engan sakaði. Þetta urðu stórfréttir í vestræna heiminum.
Þessvegna er svo gott að lesa svona upplýsingar. Takk.

Anonymous said...

Sæl Jóhanna og gleðilegt ár.
Mikið var fróðlegt að fá þennan pistil frá þér, það skýrir sjónina að fá svona annað viðmið en þessa stöðluðu frasa sem heyrast í fjölmiðlum. Þó heyrði ég í BBC fyrir allmörgum vikum (sem sé 2009) frásögn einhvers „heimsfrægs“ tónlistarmanns frá annað hvort Eþíópíu eða N-Afríkulandi af heimsókn sinni í flóttamannabúðir Sómala í N-Jemen, hann hafði farið víða, m.a. til Darfur, enda sendiherra SÞ til margra ára, en sagðist hvergi hafa séð jafn skelfilegt ástand og þarna. Varð tíðrætt um börnin.
Ég óska þér góðrar ferðar – vona að þú hafir fengið sendinguna frá mér um daginn – og bið að heilsa öllum sé ég þekki.
Kveðjur,
Elísabet

Anonymous said...

Erindi mitt var að þakka þér fyrir skörulega, skýra og ýtarlega
greinargerð um gang mála í Jemen. Mér varð bilt við að heyra þessar
fréttir, gerði reyndar ráð fyrir að þar væru á ferð ýkjur, rangfærslur
og sviðsetningar af einhverju tagi (t.d. með þennan nígeríska
hryðjuverkamann með rætur í Jemen) en maður veit aldrei. Þetta er allt
svo óendanlega flókið og ræturnar gjarnan á einn eða annan hátt í
Ísrael eða verið að spila einhvers konar diplómatiskt spil og ég veit
ekki hvað og hvað. Því varð ég ákaflega fegin að fá þetta yfirlit frá
þér.
Með hjartans kveðju frá okkur Vikari. Villa

Anonymous said...

Þakka kærlega fyrir þarfa og góða grein um Jemen og gang mála þar
Sigr. Halldórsd
Hásk.Akureyri