Friday, May 14, 2010

Myndakvöld Líbanons/Sýrlandsfara----Fatimusjóður- Palestína


Frá Samarkand

Sæl öll

Í kvöld hittumst við félagarnir úr Líbanons og Sýrlandsferðinni í Kornhlöðunni, borðuðum saman og horfðum á myndasýningu sem Vera Illugadóttir stjórnaði af stakri kúnst.
Geta má þess svona til fróðleiks fyrir hina ýmsu ferðafélaga Veru að hún hyggur á nám í Svíþjóð næsta haust og ætlar að nema arabísku og Miðausturlandafræði og það finnst mér einstaklega vel til fundið og þykist þess fullviss að ferðir hennar með VIMA hafi orðið hvatning til þessa.

Á myndakvöldinu var m.a. frumsýnd skemmtileg vídeomynd sem Högni hafði gert um ferðina. Margir vildu síðan festa sér disk og var eftirspurn mikil. Og eins og Högna er von og vísa rann þetta svo rakleitt í Fatimusjóð og er þakkað virktavel fyrir það.

Nokkra félaga vantaði á myndakvöldið en þeir sendu kærar kveðjur og allir hugsuðu fallega til þeirra.
Þetta var hin notalegasta stund í alla staði.

Afmælisbókin er uppseld
Er nú að senda frá mér allra síðustu eintökin af Afmælisbókinni og er afskaplega hress yfir því. Inn á sjóðinn hafa komið fjórar milljónir eins og að var stefnt.

Stjórn Fatimusjóðs baukar nú við húsamálin og um eða í kringum mánaðamót verður stefnan tekin þangað til að reyna að ljúka málum.
Í þeirri sömu ferð vonast ég til að komast yfir til Palestínu til að kanna hvort grundvöllur er fyrir ferð þangað. Þátttaka er komin í þá ferð.
Læt ykkur fylgjast vandlega með.

Aðrar ferðir?
eru vitanlega Líbanon/Sýrland fyrir Bændaferðir í byrjun október og hún er löngu uppseld, skilst mér.
En
nú hafa ýmsir verið að tala um Íranferð og aðrir hafa enn hug á -stan löndum, svo sem Uzbekistan og t.d. Turkmenistan því ekki er vit í að hugsa um Kyrgistan vegna innanlandsástands þar. Í þriðja lagi hafa borist fyrirspurnir um Kákasus.
Ég hef skrifað þetta samviskusamlega niður og augljóst er að engin þessara ferða yrði fyrr en á næsta ári En eins og ég hef bent á fyrr og síðar verða menn að láta mig vita því ég les ekki hugsanir nema stöku sinnum og helst smala með sér nokkrum. Lágmark í hverja ferð er 20 manns og ég mun ekki gera neitt í þessu fyrr en sá fjöldi er kominn. Það þýðir ekkert að spyrja mig um verð því ég athuga ekkert slíkt nema þátttaka sé fyrir hendi. En auðvitað læt ég heldur engan borga neitt fyrr en allt er klappað og klárt.
Gjöra svo vel að hafa það bak við eyrun.

Þakka svo ferðafélögum ánægjulegt kvöld og öllum kaupendum afmælisbókarinnar fyrir þeirra liðsinni.

No comments: