Tuesday, June 22, 2010

Börn, Palestína, Uzbekistanleyfi


Góðan daginn öll

Þá hef ég fengið búnka af plöggum sem ættu að gera mér kleift að komast inn í Uzbekistan og Turkmenar vinna nú baki brotnu að því að rannsaka feril minn varðandi leyfi til að gægjast inn þar í leiðinni. Fer sem sagt aðfararnótt 5.júlí. Endilega fylgist með, skrifa eftir því sem aðstæður leyfa. Fer á helstu staði sem ég hygg að væru fýsilegir fyrir væntanlegan hóp, sýnist þó áætlunin ansi töff en það gengur vonandi allt.

Það gengur brösuglega að fá Palestínuupplýsingar en ég vona þó að þær skili sér á endanum og læt vita um það jafnskjótt, amk þá sem hafa skráð sig áhugasama.

Loks má geta þess að það er kominn kjarni í Íranferð í mars 2011 en verður ekki af henni nema að minnsta kosti 5-8 bætist við. Sláið ykkur saman í hóp ef þið hafið áhuga á Íranævintýri.

Varðandi krakkana: Síðustu daga hef ég fengið þó nokkrar nýjar myndir frá Nouriu og pósta um 20 á eftir. Var að senda henni beiðni skv. óskum ykkar um sex til viðbótar.

EN málið er flóknara því mjög margir stuðningsmenn hafa ekki látið mig vita hvort þeir treysta sér til að halda áfram. Ég sting upp á að þeir sem hafa tök á að láta eitthvað af hendi rakna greiði helming þannig að tveir/tvær/tvo séu með barn. Ég hef minnst á að æskilegt sé að greitt verði fyrir 1.sept. Auðvitað er vel þegið ef menn gera það fyrr svo ég geti sent einhvern slatta fyrir hátíðina.

Um 85 börn eru komin með staðfestan stuðning en um 35 ekki. Því væri kærkomið að fá að heyra frá ykkur. Einnig hvort menn hafa áhuga á nýjum myndum. Að vísu eru sumir litlu krakkanna farnir frá Sanaa og heim í þorpin sín og koma varla aftur fyrr en eftir rúman mánuð til að sækja sumarnámskeiðin.
Það er engin skylda að halda stuðningi áfram, en mér þætti æskilegt að fá að vita af eða á.
Takk fyrir það.

1 comment:

Anonymous said...

sæl, það væri gaman að fá mynd af mínu barni.
Takk og kveðja,
Guðrún C. E.