Friday, June 11, 2010

Rannsóknarferð til Uzbekistan/Turkmenistan


Tolkucha markaðurinn/Turkmenistan

Þá hef ég ákveðið dagsetningu á rannsóknarferð til Uzbekistan. Sé til hvort mér tekst að kíkja einnig til Turkmenistan í 2 daga eða svo. Ég ætla að fara þann 5.júlí n.k. enda er nú ljóst að þátttaka er í ferðina. Vonandi tekst mér að senda einhverja pistla úr ferðinni og hvet fólk til að kíkja inn á síðuna öðru hverju. Nokkurn veginn ákveðið að farið verði um páska 2011 og fljótlega eftir að ég kem heim 15.júlí eða svo ætti verð að liggja fyrir og fullmótuð áætlun.
Vegna misskilnings voru tveir að afboða sig. Því eru tvö pláss laus og þarf að fylla þau snarlega. Gjöra svo vel og athuga að ferðaskrifstofan miðar við ákveðinn fjölda og detti einhverjir út breytist verð - sem ég veit náttúrlega ekki enn hvað verður

Okkur hefur tekist, Icelandairstúlkunni sem sér um okkar mál og mér, að finna bærilegan kost hvað flugmiða snertir svo þetta lítur allt ljómandi vel út.
Ég sé betur eftir ferðina hvort möguleiki er á að bæta í hópinn en varla meira en tveimur eða þremur.

Undirtektir vegna Jemenbarna
hafa verið prýðilegar og takk fyrir það. Hef haft samband við þá sem styrkja börn sem eru að ljúka menntaskólanum. Venjan er hjá hjálparfélögum að styrkja börn þar til þau hafa lokið skyldunámi en mér fannst freistandi að bæta menntaskóla við fyrst stuðningur fékkst.
Næsta vor bætast ellefu við - ljúka stúdentsprófi svo þetta er allt í hinum fegurstu málum.

Palestínuferðin og Íran
Í ágúst kemst ég trúlega í Palestínurannsóknarferð og býst við að ferðin sjálf verði varla fyrr en í lok október. Það er ágætur tími hvað snertir veðurfar og ramadan og hátíðahöld verða þá vel og lukkulega afstaðin.
Alltaf annað veifið láta áhugamenn um Íran frá sér heyra. Ég skrifa þá niður og ferðaskrifstofan okkar er alls hugar glöð við tilhugsunina. Ekki er þó komin næg þátttaka að svo stöddu. Þið hafið það bara bak við eyrað.

Námskeið í utanríkisráðuneyti
Gaman að segja ykkur frá því að utanríkisráðuneyti hefur haft samband og óskar eftir að ég verði þeim innanhandar að undirbúa fólk sem fer á vegum ráðuneytisins til starfa/hjálparstarfa í Miðausturlöndum. Mér finnst þetta hið besta mál hjá ráðuneytinu og fyrsta námskeiðið verður í næstu viku fyrir tvo sem eru á leið út, svo og einhverja af starfsmönnum ráðuneytisins sem vinna í alþjóðadeild. Ljómandi ánægð með framtak ráðuneytisins.

Bless í bili

No comments: