Saturday, December 31, 2011

Kemur sumarið?


Sýrlandsforsetahjónin Asma og Assad

Þetta ár 2011 færist ugglaust á sögunnar spjöld: Arabaþjóðir risu upp í búntum og gerðu raunhæfa tilraun til þess að losa sig við einræðisherra, ritskoðun og alls konar harðræði sem hefur viðgengist í þessum góðu löndum okkar.

Aftur á móti ber að hafa í huga að framtíðin er ákaflega óræð og þetta er orðið langt vor án þess að nema rétt bóli á sumri. Og menn skyldu varast að halda að allt falli eins og hendi sé veifað, í ljúfa löð þó einræðisherrar fái að fjúka. Allt slíkt er mikil einföldun á flóknu máli.

Að minnsta kosti treysti ég mér sannarlega ekki til að spá um hana og hvað sem allir sérfræðingar segja sem hafa tjáð sig óspart síðustu mánuði finnst mér slíkt ekki bera vott um mikla þekkingu á þessum þjóðfélögum og hugsunarhætti manna.

Upphaf málsins var í Túnis

Mér finnst óþarft að rekja þetta nema í stórum dráttum: Túnis reið á vaðið um miðjan desember í fyrra. Það kom án efa mörgum á óvart því fréttir um harðstjórn Ben Alis var að nokkru leyti falin og hafði sjaldan ratað í heimsfréttir. Það var líka athyglisvert hve tiltölulega skamman tíma þetta ástand stóð þar í landi: Ben Ali fór og kosningar voru haldnar og Túnisar virðast ætla að ráða við sitt nýja ástand þótt lýðræðishefð sé ekki fyrir hendi í þessum löndum.

Egyptar vildu Múbarak burt

Egyptar tóku til óspilltra málanna skömmu síðar og þar þrjóskaðist hinn þaulsetni og illræmdi forseti Hosni Mubarak lengur við. Fólkið sýndi þar meiri yfirvegun og stillingu en ég hefði búist við og úrslitum réði vissulega að hernum var ekki beitt gegn mótmælendum þótt ýmsir hagsmunagæðingar stjórnarinnar reyndu vitaskuld að berja á mótmælendum.
Lyktir hlutu að verða á einn veg: Múbarak hrökklaðist frá og efnt var til kosninga og réttarhöld standa yfir í landinu yfir Múbarak. Samt kraumar meira í landinu nú en menn áttu von á. Herstjórnin sem tók að nokkru leyti við virtist greinilega ekki vilja víkja og ljótir atburðir hafa orðið þar og nú situr herinn ekki lengur á strák sínum og hefur sýnt mótmælendum hina mestu grimmd. Þar sem þetta hefur hljóðnað að undanförnu er ekki ósennilegt að Bandaríkjamenn og vinir Múbaraks hafi séð að þarna borgaði sig ekki lengur að styðja fyrverandi valdhafa og því hafi þeir beitt yfirmenn hersins þrýstingi sem vonandi dugar til að mál komist þar í sæmilegt horf.

Óeirðir í Bahrein náðu ekki eyrum nema að takmörkuðu leyti

Óeirðir og mótmæli gegn stjórnvöldum í smáríkinu Bahrein þar sem Bandaríkjamenn hafa stærstu flotastöð sína, hafa að vísu komist í fréttir en einhvern veginn ekki náð eyrum almennings. Svo stjórnin hefur farið sínu fram af meiri ófyrirleitni en lýst verður. Ekkert bendir á þessari stundu til að mál færist í betra horf fyrir mótmælendur í Bahrein.

Klókir stjórnendur í Jórdaníu og Marokkó

Jórdaníumótmæli brutust út og sama má segja um Marokkó. Stjórnendur þar sýndu snöfurlega að þeim var ekki stætt á öðru- og höfðu kannski vilja til þess- en verða við kröfum og brugðu skjótt við. Þar með má segja að Jórdanir og Marokkar búi við sæmilegasta frið þó atvinnuleysi í báðum löndunum sé afar mikið. Á tímum Husseins sáluga Jórdaníukóngs var byrjað að draga úr ritskoðun í Jórdaníu og ýmsar breytingar gerðar sem miðuðu í rétta átt.

Það sama verður ekki sagt um Hassan föður Mohammeds kóngs í Marokkó en hann er augljós nútímamaður sem skilur að til að haldast á þessum eftirsóknarverða valdastóli á hann ekki annarra kosta völ en koma til móts við þegna sína.

Ólga varð í Alsír en hún virðist hafa hjaðnað með ámóta samvinnu stjórnarinnar við mótmælendur. Alsír er óútreiknanlegra land um margt en nágrannalandið Marokkó en vonandi tekst að greiða úr þeim málum.

Saleh fór loks frá í Jemen en þar er enn óstöðugleiki

Þá var röðin komin að Jemen og þótt fyrr hefði verið. Upphafið má rekja til þess að blaðakonan Tawako Kerman var fangelsuð og blaðamannasamtök Jemens mótmæltu því óspart og höfðu erindi sem erfiði. Tawaku var látin laus og hún var ekki fyrr komin úr fangelsi en mótmælendur fylktu liði og hófu baráttu gegn hinum illræmda og þausetna forseta Ali Abdullah Saleh sem hafði ríkt í áratugi, haldið þjóðinni niðri m.a með því að leyfa gattneyslu. Satt að segja bjóst ég ekki við því að Jemenar mundu hafa það úthald til mótmæla sem raunin varð á.

Viðhlægjendur Saleh forseta svo og herinn beitti sér af hörku gegn mótmælendum en Jemenar sýndu að þeir eru til alls vísir og héldu mótmælum áfram. Þau verða að teljast að mestu friðsamleg af þeirra hálfu en herinn sýndi að hann stóð lengi vel og gerir kannski enn með Saleh.
Loks kom að því að Saleh varð fyrir árás og varð að leita sér langrar læknisaðstoðar í Sádi Arabíu. Þá varð kyrrara um hríð enda vonuðu Jemenar að hann léti ógert að koma heim og Isliah flokkurinn í Jemen sem er alvöru stjórnarandstöuflokkur undirbjó valdaskipti.

Enn Saleh kom heim og lengi vel neitaði hann að víkja. Fyrir atbeina Flóabandalagsins sem í eiga sæti forsvarmenn Sádi Arabíu, Katar, Bahrein, Óman og Kúveit tókst að ná samkomulagi um að hann færi frá völdum.
Svo tregur var hann þó til þess að það er erfitt að ætla hvað verður framhaldið í þessu fátækasta landi í Arabaheiminum.
Það var mikið gleðiefni fyrir alla að Tawako var ein þriggja kvenna sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu vína. Það vakti stolt og gleði bæði í Jemen og víða annars staðar. Áhangendur og aðdáendur Saleh hafa væntanlega ekki glaðst.

Enn er ókyrrð í Jemen þótt ekki sé alltaf ljóst hverjir eru að stríða en þar sem Jemen hafði þrátt fyrir allt verið komið nokkuð áleiðis í því að aflétta ritskoðun, leyfði internetaðgang einna fyrst þessara landa ofl má leyfa sér að vona að kannski rætist úr. Skólahald hefur að mestu leyti legið niðri en nú berast þær fréttir að það kunni að komast í lag á nýju ári. Ekki vanþörg á því fyrir þetta land þar sem um helmingur manna er ólæs og óskrifandi.

Flugbann og loftárásir á Líbíu en allt framhald þar óljóst

Gaddafi, leiðtogi Líbíu, talaði digurbarkalega framan af og lýsti því margsinnis yfir að viðlíka atburðir og ættu sér stað í grannlöndunum gætu aldrei gerst í sínu landi því líbíska þjóðin væri hamingjusöm og nyti frelsis og velsældar. En hafði varla sleppt orðinu þegar óeirðir brutust þar út og kom þá berlega í ljós að Gaddafi hafði misreiknað sig hrapallega.
Uppreisnarmenn voru atkvæðamestir í Benghazi, helstu borg austurhlutans og náðu þar fljótlega öllum völdum.
Her Gaddafis sem í voru þó einkum erlendir málaliðar frá löndum sunnan Sahara, sýndu mikla hörku og lömdu á uppreisnarmönnum sem þokuðu sér í vesturátt. Baráttan stóð lengi og var engu þyrmt af hálfu beggja. Sannast að segja hefur mér aldrei verið almennilega ljóst hverjir uppreisnarmenn voru, þar virtist lengi vel enginn áberandi leiðtogi.
NATO fannst rétt að rétta Líbíu hjálparhönd til að koma einræðisherranum frá völdum, setti flugbann á landið og hóf síðan miklar loftárásir og féllu þúsundir í þeim og vitanlega létust óbreyttir borgarar ekki síður þar en í öðrum frelsunarherferðum sem Bandaríkjamenn hafa staðið fyrir. Loftárásirnar á Líbíu mæltust misjafnlega fyrir enda ekki auðvelt að draga aðra ályktun en þar réði töluverðu að Líbía er langtum olíuauðugra land en þau sem fyrr hafði dregið til tíðinda í.

Gaddafi hafði lengi upp stór orð um að hann mundi hvergi fara og bardagar um nokkrar borgir stóðu í óratíma. Loks var svo komið að Gaddafi hrökklaðist frá, lagði á flótta en var tekinn af lífi hvar hann faldi sig. Það mun trúlega ekki upplýsast hverjir þar áttu hlut að máli. Og það mun án efa taka drjúgan tíma áður en sárin í þessu stóra eyðimerkurlandi gróa og þjóðin áttar sig á því hvað hún áætlar til lengri framtíðar litið.

Lengi ríkti þögnin ein í Sýrlandi

Meðan þessu fór fram í Túnis, Egyptalandi, Bahrein og Jemen og átök voru ekki orðin jafn alvarleg í Líbíu og síðar varð, virtist allt ætla að vera með kyrrum kjorum í Sýrlandi sem löngum hefur haft sérstöðu í Arabaheiminum vegna mjög afdráttarlausrar andstöðu þeirra við ítök Bandaríkjamanna í heimshlutanum.
Basjar Assad forseti hafði tekið við aldamótaárið og þá lofað umbótum sem hann virtist vera að hrinda í framkvæmd hægt og rólega og af verulegri yfirvegun. Þó svo hann sýndi pólitískum andstæðingum sínum ekki mikla náð óraði fæsta fyrir þeirri framvindu sem þar hefur orðið og stendur enn.

Svo virðist sem Sýrlendingum hafi þótt eftirsóknarvert að taka á einhvern hátt þátt í öllu þessu, hópur þusti út á götur og veifaði fánum og myndum af Assad. Í mínum huga var þetta meira eins og þeir væru dálítið að skemmta sér. Og víst voru þeir í þessum hópum sem hrópuðu slagorð gegn Assad.

Assad lét þá talskonu sína koma fram og kunngera að hann mundi verða snöfurlega við beiðnum um breytingar í frelsisátt og margir vörpuðu öndinni léttar. Einhverjir voru þó ekki trúaðir á orð forsetans og þegar alvöru kröfugöngur voru farnar til að heimta að hann stæði við orð sín og það fyrr en síðar, var hernum sigað miskunnarlaust á fólk.
Þar með varð neistinn að báli í Sýrlandi. Í öllum helstu borgum og bæjum hafa verið óeirðir, mótmælagöngur og hernum hefur verið beitt af taumlausri grimmd gegn óbreyttum borgurum. Fólk hefur fallið þúsundum saman, hermenn hafa hlaupist undan merkjum og gengið til liðs við mótmælendur og á tímabili voru hinir ýmsu armar hersins farnir að berjast hvor við annan.

Hvað eftir annað gaf Assad yfirlýsingar um að nú færi allt að lagast, nokkir útlendir útsendarar hefðu staðið fyrir þessu og hann mundi aldrei siga hernum á óbreytta borgara. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar herinn gerði geðveikislegri árásir en nokkru sinni.
Arababandalagið hóf seint og um síðir að beita sér í málinu og sendi eftirlitsmenn til Sýrlands að fylgjast með hvort Assad stæði við orð sín. En Sýrlendingar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessa eftirlitsmenn bandalagsins þar sem þeir hafa verið í fylgd sýrlenskra háttsettra herforingja og aðeins farið þar um sem þeim hefur verið leyft. Og ekki haft bein í nefinu til að krefja Assad um raunverulega stöðu og þaðan af síður setja sig inn í málin.

Assad hefur einn þjóðhöfðingja í þessum löndum þar sem logað hefur, lagt algert fjölmiðlabann á. Erlendir blaðamenn hafa ekki fengið að koma til landsins, innlendir blaðamenn fá engar fréttir að segja og fylgst er vandlega með því að menn taki ekki myndir.
Nú er álitið að mörg þúsund óbreyttir borgarar hafi verið drepnir í landinu og enn fleiri settir í fangelsi. Ljótar sögur eru sagðar, staðfestar eða óstaðfestar, af pyndingum og öðrum óhæfuverkum. Þúsundir hafa flúið yfir til Tyrklands og Líbanons og einhverjir reynt að komast yfir til Jórdaníu. Og sagan segir að nú síðustu daga hafi menn reynt að komast inn í Írak og fer þá skörin að færast upp í bekkinn.
En hvernig sem þetta endar í Sýrlandi er þó eitt á hreinu: Basjar Assad hefur glatað því trausti sem hann naut og fari hann ekki frá fyrr en síðar gæti brotist út alvöru borgarastyrjöld í landinu

Tuesday, December 27, 2011

Á döfinni á nýju ári


Petra. Myndina tók Vera Illugadóttir

Vona að jóladagar séu sem flestum gleðilegir. Takk fyrir jólakort og sérstaklega þakkir fyrir myndir úr ferðum sem sendar voru til min

Það hefur orðið töf á að efna til myndakvölds fyrir seinni Uzbekistanhópinn en verður vonandi gert fljótlega eftir áramót. Læt fólk vita um það.

Bið Eþíópíufara að greiða skilvíslega um mánaðamót. Fyrri hópur borgar síðustu greiðslu og þeir sem eru í eins manns herbergi borgi þá sitt aukagjald. Skv. bönkum í dag er það 44 þúsund. Eyþór hefur þegar lokið greiðslu á því og ferðinni enda alveg sérstakur hvað það varðar. Takk Eyþór. Muna reikninginn 342 13 551346 og kt 441004-2220. Seinni hópur á eftir tvær greiðslur og vænti þess að ég þurfi ekki að ýta á menn þar heldur. Sá hópur borgar eins manns herbergi með síðustu greiðslunni. Þetta eiga náttúrlega allir að vita.

Á dagskrá ársins er einnig ný áætlun til Íran7.-22.sept. Hún er komin inn á síðuna og hlekkinn sinn og upp úr miðjum janúar mun ég óska eftir að menn láti vita því ég blæs hana af áður en ég fer til Eþíópíu ef ekki næst 20 manna hópur. Eins og þið sjáið er þar byrjað í Tabriz og farið á nýjar slóðir í norðri en við sleppum vitanlega ekki Isfahan. Á þeim lista eru nú 19 manns en helmingur með spurningamerki og þarf að fá það á hreint sem fyrst eins og fyrr segir.
Bið félaga að láta það ganga því ég hef hreinsað töluvert til í póstlistanum og sumir breyta um netföng og furða sig síðan á því að fá ekki póst. Vinsamlegast kippa því í lag.

Íranferðin í sept er eins og ég hef margsinnis sagt síðasta VIMA ferð sem ég mun standa fyrir. Þessu verður ekki breytt
Tek hins vegar hefðbundna Íranferð í maí fyrir Bændaferðir og etv Eþíópíu í okt ef þátttaka næst í þær.

Enn er ekki ljóst hver verða örlög persnesku teppasýningarinnar sem fyrirhuguð var í febr. þar sem þeir vinir okkar hafa enn ekki fengið áritun til Íslands. Danska sendiráðið í Teheran sem sér um áritanir til Íslands er ekki liðlegri hvað það varðar en önnur dönsk sendiráð. Utanríkisráðuneytið íslenska er nú komið í málið og vona að það skýrist fljótlega.

Fréttabréfið er í vinnslu og kemur út um eða upp úr miðjum janúar og miðsvetrarfundurinn okkar verður í Kornhlöðunni 22.jan. Það verður mjög fýsilegur fundur.

Vona svo að allt sé í góðu gengi hjá ykkur og bið Eþíópíufara enn og aftur að láta ekki bregðast með greiðslur. Hef þegar greitt upp flugmiða í seinni ferð því ég fékk yfirdrátt hjá bankanum þar sem Ethiopian Airlines hækkar fargjöld um áramót.

Skrifa hugleiðingu um þetta viðburðaríka ár í stjórnmálum Miðausturlanda á gamlaársdag.

Friday, December 2, 2011

Ný Íranáætlun komin á síðuna undir Íranhlekk- Látin er Huldu Waddel



Mér bárust þær sorglegu en ekki óvæntu fregnir að Hulda Waddel, VIMA-félagi, ritstjórnarkona og samferðarmaður í ferðum hefði látist í gærkvöldi aðeins 56 ára að aldri.
Hún hafði átt við veikindi að stríða um alllanga hríð og síðustu mánuði var sýnilegt að hún hlaut að tapa þessu stríði þótt hetjulega hafi verið barist.

Hulda var meðal þeirra fyrstu sem gekk í Vináttu og menningarfélag Miðausturlanda og sýndi félagsskapnum áhuga og þau Örn Valsson, maður hennar, komu á flesta fundi uns veikindin ágerðust. Hún tók sæti í ritnefnd fréttabréfs okkar með sóma en sagði sig úr ritnefnd í sumar þegar hún sá fram á að hún gæti ekki lengur sinnt því. Hún og Örn studdu einnig telpuna Rösju í Jemen svo hún kæmist í skóla og báru umhyggju fyrir velferð hennar.

Hulda og Örn voru skemmtilegir ferðafélagir. Alltaf glaðsinna og jákvæð hjón sem var gaman að ferðast með. Þau höfðu ánægju af ferðalögum og m.a. tóku þau þátt í VIMA ferðum til Sýrlands, Líbanons, Eygptalands og Líbíu.

Ég á góðar minningar um Huldu og mun sakna hennar. Ég votta manninum hennar og öllum þeim sem þótti vænt um hana, samúðarkveðjur


NÝ ÍRANSÁÆTLUN KOMIN Á ÞRÁÐINN SINN. Bendi á að þetta er síðasta VIMA-ferðin sem ég stend fyrir. Það hefur komið fram áður og verður ekki breytt.



Hótelið sem við dveljum á í Kandóvan

Vona að þið gefið því gaum og látið mig vita um áhuga.

Ég veit að hann skortir ekki, er með ansi marga á lista en flestir með spurningarmerki og nú er að útrýma því.

Það er nauðsynlegt að tuttugu þátttakendur verði í ferðinni svo að af henni verði og ég þarf að láta vita fyrr en seinna. Vinsamlegast hafið samband.

Þessi ferð er að hluta til sett upp fyrir þá sem hafa farið í Íranferð og hafa látið í ljós áhuga á að skoða meira af þessu landi sem hefur heillað Íslendinga upp úr skónum. Auðvitað eru aðrir meira en velkomnir þótt þeir hafi ekki farið fyrr.

Í þessari ferð er byrjað í Tabriz í norðvestri, farið til Kandovan, Zanjan, Kermanshah og Hamadan og loks til Isfahan en mér finnst og fleirum ugglaust líka að þeim stað sé óhugsandi að sleppa.

Vonast til að heyra frá ykkur. Hið fyrsta ef þið vilduð vera svo væn.