Friday, December 2, 2011

Ný Íranáætlun komin á síðuna undir Íranhlekk- Látin er Huldu Waddel



Mér bárust þær sorglegu en ekki óvæntu fregnir að Hulda Waddel, VIMA-félagi, ritstjórnarkona og samferðarmaður í ferðum hefði látist í gærkvöldi aðeins 56 ára að aldri.
Hún hafði átt við veikindi að stríða um alllanga hríð og síðustu mánuði var sýnilegt að hún hlaut að tapa þessu stríði þótt hetjulega hafi verið barist.

Hulda var meðal þeirra fyrstu sem gekk í Vináttu og menningarfélag Miðausturlanda og sýndi félagsskapnum áhuga og þau Örn Valsson, maður hennar, komu á flesta fundi uns veikindin ágerðust. Hún tók sæti í ritnefnd fréttabréfs okkar með sóma en sagði sig úr ritnefnd í sumar þegar hún sá fram á að hún gæti ekki lengur sinnt því. Hún og Örn studdu einnig telpuna Rösju í Jemen svo hún kæmist í skóla og báru umhyggju fyrir velferð hennar.

Hulda og Örn voru skemmtilegir ferðafélagir. Alltaf glaðsinna og jákvæð hjón sem var gaman að ferðast með. Þau höfðu ánægju af ferðalögum og m.a. tóku þau þátt í VIMA ferðum til Sýrlands, Líbanons, Eygptalands og Líbíu.

Ég á góðar minningar um Huldu og mun sakna hennar. Ég votta manninum hennar og öllum þeim sem þótti vænt um hana, samúðarkveðjur


NÝ ÍRANSÁÆTLUN KOMIN Á ÞRÁÐINN SINN. Bendi á að þetta er síðasta VIMA-ferðin sem ég stend fyrir. Það hefur komið fram áður og verður ekki breytt.



Hótelið sem við dveljum á í Kandóvan

Vona að þið gefið því gaum og látið mig vita um áhuga.

Ég veit að hann skortir ekki, er með ansi marga á lista en flestir með spurningarmerki og nú er að útrýma því.

Það er nauðsynlegt að tuttugu þátttakendur verði í ferðinni svo að af henni verði og ég þarf að láta vita fyrr en seinna. Vinsamlegast hafið samband.

Þessi ferð er að hluta til sett upp fyrir þá sem hafa farið í Íranferð og hafa látið í ljós áhuga á að skoða meira af þessu landi sem hefur heillað Íslendinga upp úr skónum. Auðvitað eru aðrir meira en velkomnir þótt þeir hafi ekki farið fyrr.

Í þessari ferð er byrjað í Tabriz í norðvestri, farið til Kandovan, Zanjan, Kermanshah og Hamadan og loks til Isfahan en mér finnst og fleirum ugglaust líka að þeim stað sé óhugsandi að sleppa.

Vonast til að heyra frá ykkur. Hið fyrsta ef þið vilduð vera svo væn.

No comments: