Saturday, May 3, 2014

Hjálpum Sýrlendingum

Ég vil benda á áhrifamikla grein og myndir Páls Stefánssonar í Fréttablaðinu í dag. Hann var nýlega í Líbanon þar sem flestir sýrlenskir flóttamenn búa við bágar og ómanneskjulegar aðstæður. Páll ræddi við marga flóttamannanna og kvaðst hafa orðið snortinn af því hve þeir sýna mikið hugrekki og halda reisn sinni. Hann bendir á að flóttamennirnir geri sér mæta vel grein fyrir að þeir muni ekki geta snúið heim í bráð, jafnvel þó stríðinu lyki- og sem stendur er ekkert útlit fyrir það eins og við vitum.

Land þeirra er í rúst, innviðir hrundir og fjölskyldur hafa splundrast út um víðan völl. Það má ætla að það tæki áratug eða meira að reisa landið við ef ekki meira. Um 200 þúsund manns (svona ámóta og 2/3 hlutar Íslendinga) hafa látist í þessum manngerðu hamförum. Milljónir eru á flótta innan eigin lands og milljónir hafa flúið til Líbanon, Jórdaníu og Tyrklands. Flóttamannavandi Sýrlendinga er sá mesti sem við er glímt nú um stundir.

Allmargar þjóðir hafa boðið fram aðstoð sína og ber fyrst að nefna Svía sem hafa tekið á móti 26 þúsund flóttamönnum. Ef það væri yfirfært á okkur skv. hinni margumræddu höfðatölu ættum við að taka á móti 900 manns. Ég veit ekki til að við höfum hleypt nema örfáum hingað. Væntanlega má telja þá á fingrum annarrar handar.

Þetta er okkur til mikils vansa. Við höfum sýnt flóttamönnum og hælisleitendum sem hafa komið hingað óvild og rekið þá úr landi án þess að depla auga. Almenningur hefur mótmælt en á okkur er ekki hlustað.

En nú er nóg komið. Við getum ekki setið aðgerðarlaus og vitað að tugþúsundir, hundruð þúsunda, milljónir barna, kvenna og karla búa við það öryggisleysi og skelfilega aðbúnað sem fylgir því að vera flóttamaður. Íslendingar barma sér óspart og hafa þó aldrei kynnst neinum viðlíka hörmungum.

Við skulum nú sýna manndóm í verki. Við skulum taka á móti Sýrlendingum sem eiga um sárar að binda en við getum ímyndað okkur. Við skulum gera það. Skora á þessi stjórnvöld að reka af sér slyðruorðið.

Við skulum hjálpa þeim. Vinsamlegast skrifið nöfn ykkar á kommentakerfið. Gerið það núna.

4 comments:

Anonymous said...

Elísabet Ronaldsdóttir!

Anonymous said...

Hafdís Aradóttir

Anonymous said...

Þóra Jónasdóttir

Anonymous said...

Hi there! This is kind of off topic but I need some help from an established blog.
Is it very hard to set up your own blog? I'm not very techincal but I can figure things
out pretty quick. I'm thinking about creating my own but I'm not sure where to begin. Do you have any tips or suggestions?
Cheers

Feel free to visit my webpage personal injury attorney tampa fl